119. fundur

14.09.2017 00:00

119. fundur Menningarráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 14. september 2017 kl. 14:00.

Viðstaddir: Baldur Guðmundsson, Dagný Alda Steinsdóttir, Davíð Örn Óskarsson, Guðbjörg Ingimundardóttir, Sigrún Inga Ævarsdóttir, Ásbjörn Jónsson sviðsstjóri stjórnsýslusviðs, Valgerður Guðmundsdóttir menningarfulltrúi, Guðlaug María Lewis ritaði fundargerð. Sigrún Ásta Jónsdóttir forstöðumaður Byggðasafns var gestur fundarins

1. Ljósanótt (2017050107)
Menningarfulltrúi kynnti framkvæmd Ljósanætur sem gekk vel í ár og fjöldi gesta lagði leið sína til bæjarins til að njóta allra þeirra metnaðarfullu viðburða sem hér voru í boði. Hátíðin heldur áfram að þróast í þá átt sem kalla mætti þátttökuhátíð og birtist helst í því að sífellt fleiri bæjarbúar setja upp sína eigin viðburði og bjóða öðrum að gleðjast með sér. Ráðið þakkar öllum sem að undirbúningi og framkvæmd hátíðarinnar komu og vill vekja athygli á að Ljósanótt er einstök í flóru bæjarhátíða með sína menningarlegu áherslu og um leið eitt af jákvæðustu verkefnum Reykjanesbæjar í augum bæjarbúa og annarra og á að fá að njóta þess.

2. Fjárhagsáætlun 2018 (2017090145)
Sviðsstjóri fór yfir áætlaðan fjárhagsramma menningar- og safnamála fyrir árið 2018 og ljóst að nauðsynlegt verður að halda vel á spöðunum. Víkingaheimar verða áfram í rekstri annarra en bæjarins en ráðið leggur áherslu á að aðrar menningarstofnanir og helstu verkefni fái nægilegt fjármagn svo að ekki þurfi að draga saman seglin. Ráðið leggur til að ókeypis aðgangur verði inn Duus Safnahús einn dag í viku og aðgangseyrir fari niður í 1.000 kr. og aukið fé verði sett í markaðsmál.

3. Mælaborð (2017020113)
Sviðsstjóri lagði fram mælaborð janúar til júlí 2017 til kynningar fyrir ráðið.

4. Verndarsvæði í byggð (2016090211)
Safnstjóri Byggðasafnsins kynnti stöðuna á verkefninu Verndarsvæði í byggð sem Reykjanesbær fékk styrk til að vinna á þessu ári. Styrkurinn kom frá Minjastofnun Íslands og er til að móta tillögur um verndarsvæði í byggð. Skipaður var verkefnahópur en í honum sitja, Ásbjörn Jónsson, Valgerður Guðmundsdóttir og Sigrún Ásta Jónsdóttir frá stjórnsýslusviði, Guðlaugur Sigurjónsson og Gunnar Ottósson frá Umhverfissviði. Ákveðið var að taka fyrir umhverfi Duus Safnahúsa með sérstakri áherslu á Keflavíkurtúnið, hugmyndin er að þróa þar tillögu að minjagarði til að minnast þess að þar er elsta byggð Keflavíkurjarðarinnar. Sagnfræðileg úttekt frá Eiríki Hermannssyni er komin og verið er að undirbúa jarðsjármælingu á svæðinu og í kjölfarið er vonast til að farið verði í fornleifarannsóknir sem Bjarni F. Einarsson fornleifafræðingur mun sjá um. Þessar rannsóknir munu varpa skýrara ljósi á sögu svæðisins og gera það að kleift að skipuleggja garðinn með tilliti til fornleifanna og sögunnar. Áhersla verður lögð á að skapað verði aðlaðandi útivistarsvæði fyrir almenning með bekkjum, stígum og upplýsingaskiltum. Einnig verður lögð áhersla á að almenningur komi að mótun þessara hugmynda og verður verkefnið sérstaklega kynnt í nóvember í Duus Safnahúsum í tengslum við sýningu Byggðasafnsins í Gryfjunni en þar verður þetta verkefnið sérstaklega kynnt og mögulega dregin inn fleiri gömul hús og minjar í bæjarlandinu.
Afurð þessa verkefnis verður tillaga verkefnishópsins um að þetta ákveðna svæði verði lýst „Verndarsvæði í byggð“ og mun sú tillaga síðan þurfa að fara í ferli hjá bænum og Minjastofnun. Verkefnahópurinn vonast til að reynsla þessa verkefnis verði upphafið að heildstæðari verkferlum er varða minjavörsluna í Reykjanesbæ. Ráðið lýsir ánægju sinni með þetta verkefni og óskar eftir að fá að taka frekari þátt í ákvarðanatöku er varða minjavörslu í Reykjanesbæ.

2. Önnur mál (2017010176)
a) Útsvar 2017-2018
Reykjanesbær tekur þátt í Útsvari, spurningaþættinum á RUV í vetur og ráðið fer yfir tilnefningar og upplýsir um þátttakendur næstu daga.

b) Jóladagskrá 2017
Ráðið leggur til að jóladagskrá hjá menningarstofnunum í Reykjanesbæ verði á svipuðum nótum og í fyrra þar sem m.a. var boðið upp á nýja viðburði s.s. jólamarkað, jólaföndur og jólaball. Ráðið leggur einnig til að auglýst verði meðal bæjarbúa eftir virkri þátttöku þeirra í gerð jólaviðburða í svipuðum dúr og oft hefur komið upp á Ljósanótt. Maður er manns gaman og hvað getum við gert til að skemmta okkur sjálfum?


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15:22. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 20. september 2017.