425. fundur

25.10.2023 13:00

425. fundur velferðarráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 25. október 2023 kl. 13:00

Viðstaddir: Sigurrós Antonsdóttir formaður, Andri Fannar Freysson, Birna Ósk Óskarsdóttir, Eyjólfur Gíslason og Rannveig Erla Guðlaugsdóttir.

Að auki sátu fundinn Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.

1. Málefni heimilislausra – smáhýsi (2023070008)

Margrét Lilja Margeirsdóttir verkefnastjóri skipulagsmála, Hreinn Ágúst Kristinsson deildarstjóri eignaumsýslu og Bjarney Rós Guðmundsdóttir teymisstjóri ráðgjafa-og virkniteymis mættu á fundinn og fóru yfir stöðu mála varðandi húsnæði fyrir heimilislaust fólk í Reykjanesbæ.

Einn liður í félagsþjónustu sveitarfélaga sem Alþingi hefur mælt fyrir um í lögum er að sveitarfélög skuli koma að húsnæðismálum íbúa þeirra við tilteknar aðstæður. Í ályktun umboðsmanns Alþingis frá 2018, sem rituð var vegna húsnæðisvanda utangarðsfólks í Reykjavík, kemur skýrt fram að öll sveitarfélög þurfi að huga að úrræðum varðandi húsnæðisvanda íbúa sinna með geð- og fíknivanda eða annan fjölþættan vanda. Samkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 14. gr. stjórnarskrárlaga nr. 97/1995, skal öllum sem þess þurfa, tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika. Húsnæðisvandi er ekki tilgreindur í þessum lögum en skilja má að ef einstaklingur er í neyð vegna húsnæðisleysis þá ber sveitarfélagi að vinna úr þeim málum einstaklings hverju sinni. Velferðarráði ber skylda til að tryggja framboð af leiguhúsnæði handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum félagslegra aðstæðna.

Fylgigögn:

Álit umboðsmanns Alþingis vegna húsnæðisvanda utangarðsfólks í Reykjavík

2. Velferðarmiðstöð Suðurnesja (2023060104)

Hilma H. Sigurðardóttir verkefnastjóri fjölmenningar mætti á fundinn og sagði frá svæðisbundnu samráði gegn ofbeldi og öðrum afbrotum á Suðurnesjum, en Lögreglustjórinn á Suðurnesjum og Ríkislögreglustjóri óskuðu í júní sl. eftir samstarfi við Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum og sveitarfélögin Grindavík, Reykjanesbæ, Suðurnesjabæ og Voga um áframhaldandi þróun á samráðinu. Sveitarfélögin á Suðurnesjum hafa öll staðfest þátttöku sína í verkefninu og er stefnt að því að undirrita samstarfsyfirlýsingu í nóvember.

Ein megináhersla samstarfsins verður að setja á stofn Velferðarmiðstöð fyrir þolendur ofbeldis á Suðurnesjum, byggða á Family Justice Center módelinu. Þrjár þjónustumiðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis eru starfandi á Íslandi og mun Velferðarmiðstöð verða sú fjórða. Þjónustumiðstöðvarnar byggja allar á sömu grunnhugsun um lágan þröskuld þegar kemur að þjónustu, hlýlegt viðmót, fagmennsku og samvinnu en taka líka mið af sérstöðu síns svæðis. Á Suðurnesjum felast tækifærin ekki síst í gróinni samvinnu þegar kemur að ofbeldi í nánum samböndum og því að fjarlægðir eru litlar og samgöngur góðar. Áskoranir og sérstaða felast meðal annars í því að stærsti alþjóðaflugvöllur landsins er staðsettur í umdæminu, í auknum fjölda flóttamanna sem til landsins koma og fjölbreytileika samfélagsins á Suðurnesjum.

Það er afar ánægjulegt að sveitarfélögin á Suðurnesjum ásamt Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum hafi samþykkt áframhaldandi þróun á svæðisbundnu samráði gegn ofbeldi og öðrum afbrotum og að gengið yrði frá samstarfsyfirlýsingu þess efnis.

Markmið svæðisbundna samráðsins er að bæta enn frekar þjónustu við samfélagið á Suðurnesjum með því að auka sýnileika og aðgengi að þjónustu vegna ofbeldis á svæðinu, þróa og styrkja enn frekar svæðisbundið samstarf gegn ofbeldi, efla viðbragðsaðila í að takast á við áföll og ofbeldi og koma á fót svæðisbundnum samráðsvettvangi vegna ofbeldis og annarra afbrota.

Velferðarráð ítrekar að það er afar brýnt að Reykjanesbær leggi fjármagn í þetta mikilvæga og þarfa verkefni.

3. Álagsmælingar á velferðarþjónustu (2023020295)

Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs fór yfir álagsmælingu sem gerð var meðal starfsmanna sviðsins í ágúst 2023.

4. Fundargerð Samtakahópsins 12. október 2023 (2023010161)

Fundargerðin lögð fram.

Fylgigögn:

Fundargerð Samtakahópsins 12. október 2023

5. Fundargerð öldungaráðs 16. október 2023 (2023030622)

Fundargerðin lögð fram.

Fylgigögn:

Fundargerð 16. fundar öldungaráðs Reykjanesbæjar 16. október 2023

6. Fjárhagsáætlun 2024 (2023080020)

Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs fór yfir stöðuna varðandi fjárhagsáætlun sviðsins fyrir árið 2024.

7. Mælaborð og tölulegar upplýsingar (2023030016)

Tölulegar upplýsingar vegna fjárhagsaðstoðar og sérstaks húsnæðisstuðnings í september 2023 lagðar fram.

Framfærsla

Í september fengu 302 einstaklingar greidda fjárhagsaðstoð frá Reykjanesbæ, alls voru greiddar kr. 39.765.558 eða að meðaltali kr. 131.674.

Sveitarfélagið fær endurgreiðslu frá ríkinu að upphæð kr. 23.493.656 samkvæmt 15. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Í sama mánuði 2022 fengu 256 einstaklingar greidda fjárhagsaðstoð, alls voru greiddar kr. 34.655.080 eða að meðaltali kr. 135.371.

Fjöldi barna var 96 á 43 heimilum.

Sérstakur húsnæðisstuðningur

Í september fengu alls 302 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélagsins, samtals kr. 6.116.800. Í sama mánuði 2022 fengu 309 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning, samtals kr. 5.399.766.

Áfrýjunarnefnd

Í september var haldinn 1 fundur í áfrýjunarnefnd og 12 erindi lögð fyrir nefndina, 8 erindi samþykkt og 4 synjað.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15:55. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 7. nóvember 2023.