444. fundur velferðarráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Grænásbraut 910 þann 5. júní 2025 kl. 13:00
Viðstaddir: Sigurrós Antonsdóttir formaður, Birna Ósk Óskarsdóttir, Andri Fannar Freysson, Ásta Kristín Guðmundsdóttir og Gígja Sigríður Guðjónsdóttir.
Að auki sátu fundinn Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs, Hilma Hólmfríður Sigurðardóttir, teymisstjóri virkni- og ráðgjafarteymis, Katrín Alda Ingadóttir fulltrúi ungmennaráðs og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.
Eyjólfur Gíslason boðaði forföll og sat Gígja Sigríður Guðjónsdóttir fundinn í hans stað.
1. Farsældarráð Suðurnesja (2025060040)
Hjördís Eva Þórðardóttir verkefnastjóri farsældarráðs mætti á fundinn og kynnti undirbúningsstarf fyrir stofnun farsældarráðs Suðurnesja.
Til að leggja áherslu á og styðja við innleiðingu farsældarlaga og tryggja skilvirkt samstarf þjónustuaðila er hér lögð fram til kynningar tillaga að skipuriti Farsældarráðs Suðurnesja. Farsældarráð Suðurnesja er samráðsvettvangur sveitarfélaga og þjónustuaðila sem starfa í þágu barna á svæðinu. Ráðið styður við stefnumótun og samhæfingu þjónustu í samræmi við farsældarlög og leggur fram tillögur að sameiginlegum áherslum. Tillagan byggir á fjórum einingum sem mynda heildrænt skipulag utan um stefnumótun, framkvæmd, faglegt mat og dagleg verkefni. Ráðið setur fram fjögurra ára aðgerðaáætlun sem lögð er fyrir sveitarstjórnir og viðeigandi stjórnvöld til samþykktar. Samkvæmt farsældarlögum skal ráðið skipað fulltrúum stofnana sem skilgreindar eru sem þjónustuveitendur í lögunum, auk annarra aðila sem teljast mikilvægir þátttakendur í svæðisbundnu samráði. Ráðið fundar að lágmarki tvisvar á ári.
Lögð fram drög að samstarfsyfirlýsingu Reykjanesbæjar, Suðurnesjabæjar, Sveitarfélagsins Voga, Grindavíkurbæjar, framkvæmdanefndar um málefni Grindavíkur, Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, Fjölbrautaskóla Suðurnesja, Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, Lögreglustjórans á Suðurnesjum og Svæðisstöðvar íþróttahéraða á Suðurnesjum um Farsældarráð Suðurnesja, svæðisbundinn samstarfsvettvang í samræmi við 5. gr. laga nr. 86/2021 um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.
Velferðarráð samþykkir drög að samstarfsyfirlýsingu fyrir sitt leyti og vísar þeim til afgreiðslu bæjarráðs.
2. Velferðarnet Suðurnesja - lokaskýrsla (2021030184)
Eydís Rós Ármannsdóttir verkefnastjóri Velferðarnets Suðurnesja mætti á fundinn og kynnti lokaskýrslu Velferðarnets Suðurnesja.
Velferðarnet Suðurnesja er samstarfsverkefni sveitarfélaganna á Suðurnesjum og fjögurra ríkisstofnana sem eru í beinni þjónustu við íbúa á Suðurnesjum, þ.e. Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, Lögreglustjórans á Suðurnesjum, Sýslumannsins á Suðurnesjum og Vinnumálastofnunar. Velferðarneti Suðurnesja sem verkefni telst formlega lokið með útgáfu þessarar lokaskýrslu í júní 2025. Markmið aðgerðanna í Velferðarnetinu var að efla þjónustu við íbúa og samræma þjónustu með velferð og lífsgæði íbúa í fyrirrúmi. Með verkefninu var lagður grunnur að áframhaldandi víðtæku samstarfi í velferðarþjónustu á Suðurnesjum sem gefið hefur möguleika á dýpra og ríkara þverfaglegu samstarfi þvert á sveitarfélög og stofnanir. Verkefni Velferðarnetsins hafa markað tímamót í samvinnu samstarfsaðilanna og skapað tækifæri til enn frekari framþróunar í velferðarþjónustu á Suðurnesjum með tengingu við önnur verkefni í vinnslu til framtíðar. Flaggskipið er Velkomin til Suðurnesja sem er samræmd móttökuáætlun fyrir nýja íbúa sveitarfélaganna á Suðurnesjum. Vefsíðu verkefnisins, sudurnes.is er ætlað að vera lendingarsíða af opinberum síðum svæðisins þar sem unnið er með níu þemu: Fyrstu skrefin, húsnæði, atvinna, börn og fjölskyldur, samgöngur, afþreying og menning, velferð og heilsa, menntun fullorðinna og endurvinnsla og úrgangur. Vefsíðan veitir nýjum íbúum tækifæri til að afla sér upplýsinga um hin ýmsu málefni sem brenna á þeim þegar þeir flytja til Suðurnesja.
Velferðarráð fagnar skýrslu Velferðarnets Suðurnesja. Margt hefur áunnist á þessum fimm árum, þá ekki síst í sjálfbærni í þjónustu við íbúa á sviði félags-, mennta- og heilbrigðismála hjá opinberum stofnunum á Suðurnesjum. Mjög verðugt og flott verkefni sem hefur verið leitt með það markmið að styrkja þverfaglegt samstarf þjónustuaðila í nærsamfélagi íbúa og tengslanet á milli framlínu fólks á velferðarsviði þvert á stofnanir á Suðurnesjum sem telja um 2.500 manns. Mikilvægt er að vefsíða verkefnisins Velkomin til Suðurnesja verði vel kynnt og unnið verði áfram að markaðssetningu þess.
Fylgigögn:
Lokaskýrsla Velferðarnets Suðurnesja
3. Þjónusta við umsækjendur um alþjóðlega vernd – áhrif uppsagnar samnings (2024100122)
Vinnumálastofnun hefur sagt upp samningi við Reykjanesbæ um þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd og tekur uppsögnin gildi 1. ágúst 2025. Fyrir liggur að Vinnumálastofnun tekur við þeim fjölda sem er í þjónustu Reykjanesbæjar í síðasta lagi 31. júlí 2025.
Hilma Hólmfríður Sigurðardóttir, teymisstjóri virkni- og ráðgjafarteymis, fór yfir samantekt á áhrifum uppsagnar samningsins.
Velferðarráð vill koma því á framfæri að Reykjanesbær hefur verið leiðandi á landsvísu þegar kemur að málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd frá árinu 2004. Unnið hefur verið gríðarlega mikilvægt starf og vill ráðið þakka öllum þeim sem hafa staðið í framlínunni við þetta þarfa verkefni. En að sama skapi hefur uppsögn á samningi um þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd mikil áhrif á skrifstofu velferðarsviðs sem ekki var gert ráð fyrir í fjárhagsáætlun 2025 og gera má ráð fyrir því að halli á samningnum verði allt að 15-20 m.kr. í ár.
4. Reglur um ferðaþjónustu fyrir fötluð börn á leikskólum - ósk um endurskoðun (2022010182)
Ólafur Garðar Rósinkarsson, verkefnastjóri í málefnum fatlaðs fólks, mætti á fundinn og fór yfir álit bæjarlögmanns varðandi erindi frá íbúa um endurskoðun á reglum Reykjanesbæjar um akstursþjónustu fatlaðs fólk. Orðalag reglnanna gefur tilefni til að ætla að reglurnar nái ekki til barna yngri en sex ára. Lagt er til að reglurnar verði endurskoðaðar í þeim tilgangi að þær nái til allra fatlaðra einstaklinga í sveitarfélaginu sem uppfylla skilyrði um akstursþjónustu. Breytingarnar verði kostnaðarmetnar og lagðar fram við gerð fjárhagsáætlunar 2026.
Velferðarráð felur sviðsstjóra velferðarsviðs og verkefnastjóra í málefnum fatlaðs fólks að endurskoða reglur Reykjanesbæjar um akstursþjónustu fatlaðs fólks með tilliti til álits bæjarlögmanns og leggja fyrir velferðarráð ásamt kostnaðarmati í haust.
5. Gjaldskrá vegna ferðaþjónustu utan Reykjanesbæjar (2025050075)
Ólafur Garðar Rósinkarsson, verkefnastjóri í málefnum fatlaðs fólks, mætti á fundinn og fór yfir upplýsingar varðandi gjaldtöku vegna akstursþjónustu fatlaðs fólks utan sveitarfélags.
Velferðarráð felur sviðsstjóra velferðarsviðs og verkefnastjóra í málefnum fatlaðs fólks að leggja fram tillögu að gjaldskrá vegna ferðaþjónustu utan Reykjanesbæjar á næsta fundi velferðarráðs.
6. Tómstundastefna Reykjanesbæjar 2025-2028 - beiðni um umsögn (2023050566)
Bæjarráð óskar eftir umsögn um drög að tómstundastefnu Reykjanesbæjar 2025-2028.
Velferðarráð felur formanni ráðsins að senda inn umsögn í samræmi við umræður á fundinum.
7. Fjárhagsaðstoð og sérstakur húsnæðisstuðningur - tölulegar upplýsingar (2025020181)
Tölulegar upplýsingar vegna fjárhagsaðstoðar og sérstaks húsnæðisstuðnings í maí 2025 lagðar fram.
Fjárhagsaðstoð
Í maí 2025 fengu 117 einstaklingar greidda fjárhagsaðstoð til framfærslu frá Reykjanesbæ.
Alls voru greiddar 17.998.885 kr. í fjárhagsaðstoð til framfærslu eða að meðaltali um 153.837 kr. á hvern einstakling. Fjöldi barna á framfæri foreldra/forráðamanna á fjárhagsaðstoð voru 29.
Í sama mánuði 2024 fengu 234 einstaklingar greidda fjárhagsaðstoð til framfærslu frá Reykjanesbæ. Alls voru greiddar 43.500.297 kr. í fjárhagsaðstoð til framfærslu eða að meðaltali kr. 185.899 á hvern einstakling. Fjöldi barna á framfæri foreldra/forráðamanna á fjárhagsaðstoð voru 82.
Sérstakur húsnæðisstuðningur
Í maí 2025 fengu 283 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélagsins. Samtals voru greiddar 6.865.987 kr.
Í sama mánuði 2024 fengu 299 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélagsins, samtals 6.261.733 kr.
Áfrýjunarnefnd
Í maí 2025 var haldinn 1 fundur í áfrýjunarnefnd og 5 erindi lögð fyrir nefndina. 2 erindi voru samþykkt og 3 erindum frestað.
8. Mælaborð velferðarsviðs janúar-apríl 2025 (2025020180)
Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs fór yfir mælaborð fyrir janúar-apríl 2025.
9. Breyting á skipan fulltrúa í öldungaráði Reykjanesbæjar (2025060064)
Breytingar á skipan fulltrúa Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja í öldungaráði Reykjanesbæjar:
Rósa Víkingsdóttir kemur inn sem aðalfulltrúi í stað Írisar Drafnar Björnsdóttur og Hafdís Lilja Guðlaugsdóttir kemur inn sem varafulltrúi í stað Höllu Þorsteinsdóttur.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15:54. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 16. júní 2025.