Leikskólabörn í Reykjanesbæ eru dugleg að lesa og handfjatla bækur. Reglulegar ferðir í Bókasafn Re…
Leikskólabörn í Reykjanesbæ eru dugleg að lesa og handfjatla bækur. Reglulegar ferðir í Bókasafn Reykjanesbæjar eru hluti af lestraupplifun þeirra. Þessi mynd er úr einni slíkri heimsókn.

Allir leikskólar í Reykjanesbæ vinna nú samkvæmt kennsluaðferðinni Orðaspjall. Það var leikskólinn Tjarnarsel sem fyrstur hóf að vinna markvisst með Orðaspjall. Í vetur hafa tveir starfsmenn þaðan haldið framhaldsnámskeið í Orðaspjalli. Það var hugsað fyrir þá sem vilja dýpka þekkingu sína á kennsluaðferðinni enn frekar.

Í leikskólum Reykjanesbæjar hefur kennsluaðferðin Orðaspjall verið notuð til að auka og efla orðaforða barna. Aðferðin gengur út á að efla orðaforða og hlustunarskilning barna með bóklestri en þessir þættir eru mikilvægar undirstöður fyrir frekara nám í lestri. Leikskólabörn læra í gegnum leik og því er lögð mikil áhersla á orðaleiki og leikræna tjáningu í Orðaspjallinu. Kennarinn velur bók til að lesa með börnunum og orð úr henni til að kenna, ræða um og leika með. Hann staldrar við orðið þegar að því kemur í sögunni og útskýrir merkingu þess. Að lestri loknum er rætt frekar um orðið og börnin hvött til að segja orðið, klappa atkvæði í orðinu, og leika með orðið á fjölbreyttan hátt.

Leikskólinn Tjarnarsel var fyrsti leikskólinn til að taka Orðaspjall upp og vinna markvisst með. Aðferðin var þróuð í leikskólanum í samvinnu við Rannsóknarstofu um þroska, mál og læsi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Síðan hafa aðrir leikskólar í Reykjanesbæ tekið þess kennsluaðferð upp og vinna nú allir með hana. Námskeið hafa verið haldinn árlega síðan árið 2013 og er það því orðin stór hópur starfsmann sem býr yfir þekkingu á kennsluaðferðinni og getur nýtt hana í starfi. Í vetur var síðan boðið upp á framhalds námskeið í Orðaspjalli fyrir þá sem vildu dýpka þekkingu sína en frekar. Kennarar á námskeiðunum eru Árdís Hrönn leikskólastjóri í Tjarnarseli og Inga Sif leikskólakennari í Tjarnarseli.