Stjörnuspor

Stjörnuspor

Stjörnuspor Reykjanesbæjar.

Hugmynd frá árinu 2003 sem Hilmar Bragi Bárðarson, blaðamaður Víkurfrétta, fékk að láni frá Los Angeles.

Hún var löguð að aðstæðum í Reykjanesbæ í samvinnu við Steinþór Jónsson þáverandi formann undirbúningsnefndar Ljósanætur. Hugmyndin var sú að allir sem skarað hafa fram úr og markað spor í bænum með einum eða öðrum hætti komi til greina og útfærslan á sporunum geti orðið mismunandi eftir tilefnum. Megin hugmyndin er þó sú að málmskildir tileinkaðir viðkomandi aðilum eru settir í gangstéttina víða við aðalgötu bæjarins, Hafnargötuna.

2003 Stjörnuspor

Hljómar (Hafnargata 28 - Hljómval)

Tekin var ákvörðun í Ljósanæturnefnd að Hljómar yrðu á fyrsta Stjörnuspori Reykjanesbæjar þar sem fjörutíu ár voru liðin frá því hljómsveitin kom fyrst fram í Keflavík, heimabæ sínum. Á plattanum eru fjörutíu stjörnur til að minna á tilefnið og eiginhandaráritanir hljómsveitarmanna. Óhætt er að segja að Hljómar hafi komið bítlabænum á kortið og verið góð auglýsing fyrir bæinn allar götur síðan.

2004 Stjörnuspor

Gullaldarliðið ( Hafnargata 29 – Verslunin K-sport)

Tileinkað gullaldarliði Keflavíkur í knattspyrnu frá árunum 1964 til 1973. Gullaldarárin í knattspyrnu í Keflavík hófust með fyrsta Íslandsmeistaratitli liðsins árið 1964 en á þessu tíu ára tímabili var liðið í fremstu röð og vann Íslandsmeistaratitilinn í meistaraflokki fjórum sinnum. Gullaldarliðið kom bænum fyrst á kortið í knattspyrnu og má með sanni segja að Keflavík hafi lifað á þeirri frægð síðan sem knattspyrnubær. Liðið spilaði á þessum árum m.a. við mörg frægustu lið Evrópu s.s. Real Madrid, Everton, Tottenham og fleiri.

2005 Stjörnuspor

Ellý og Vilhjálmur Vilhjálmsbörn ( Hafnargata 19 - Ráin)

Tileinkað dægurlagasystkinunum frá Merkinesi í Höfnum, Ellý og Vilhjálmi Vilhjálmsbörnum. Stjörnusporið er staðsett framan við veitingahúsið Rána í Keflavík. Ættingjar og velunnarar systkinanna tóku formlega við sporinu. Við sama tækifæri var tilkynnt að hópur tónlistarfólks, ættingja og velunnara hefði stofnað til félagsskapar sem hefði það að markmiði að heiðra minningu systkinanna frá Merkinesi með því að reisa þeim veglegan minnisvarða við fæðingarstað þeirra í Höfnum á Reykjanesi. Kom fram við athöfnina að stjörnusporið væri því aðeins lítið spor að einhverju stærra.

2005 Gestaspor

Clint Eastwood (Hafnargata 33 – Nýja bíó)

Tileinkað leikaranum og leikstjóranum heimskunna, Clint Eastwood. Tilefnið var kvikmyndataka stórmyndarinnar Flags of our Fathers sem fram fór í landi Reykjanesbæjar þetta sama sumar.

2006 Stjörnuspor

Guðrún Bjarnadóttir (Hafnargata 49 – Úra- og skartgripaverslun Georg V. Hannah)

Tileinkað íslensku alheimsfegurðardrottningunni og fyrirsætunni Guðrúnu Bjarnadóttur (f.1942) sem ólst upp í Njarðvík. Hún var kjörin Ungfrú Ísland árið 1962, varð í fimmta sæti í keppninni Miss United Nations og var svo kjörin Miss International árið 1963. Hún starfaði síðan sem fyrirsæta í fimmtán ár og var ein af þekktari ljósmyndafyrirsætum Evrópu. Guðrún hætti fyrirsætustörfum þegar hún giftist auðmanninum Bastiano Bergese. Hún á einn son.

2007 Stjörnuspor

Gunnar Eyjólfsson (Hafnargötu 22)

Tileinkað Gunnari Eyjólfssyni, einum af sonum Keflavíkur, stórleikara og fyrrum skátahöfðingja. Formleg afhjúpun sporsins fór fram á æskuslóðum Gunnars á horni Hafnargötu og Klapparstígs. Það þótti upplagt tilefni að heiðra Gunnar Eyjólfsson með þessum hætti á 100 ára afmæli skátastarfs í heiminum og 70 ára afmæli Skátafélagsins Heiðabúa. Þar var Gunnar mjög virkur félagi á sínum yngri árum.

2008 Söguspor

Sparisjóðurinn í Keflavík (Við Tjarnargötu 12)

Tileinkað Sparisjóðnum í Keflavík fyrir að vera bakhjarl Suðurnesjamanna í 100 ár og virkur þátttakandi í menningu, mannlífi og atvinnulífi Suðurnesja. Það voru þeir Geirmundur Kristinsson sparisjóðsstjóri og Steinþór Jónsson, formaður Ljósanæturnefndar, sem afhjúpuðu Sögusporið.

2009 Söguspor

Keflavíkurstöðin (Duusgata 6 - Duushús)

Tileinkað vinnuframlagi Íslendinga á Keflavíkurflugvelli. Um þúsund Íslendingar unnu hjá Varnarliðinu og annar eins fjöldi hjá Íslenskum aðalverktökum. Staðurinn var valinn í ljósi þess að á sama tíma var sýning Byggðasafns Reykjanesbæjar, Völlurinn – nágranni innan girðingar, opin en hún fjallaði einmitt um áhrif Vallarins sem vinnustaðar og nágranna á byggðarlögin í kring.

 

Ábyrgðaraðili: Umhverfissvið Reykjanesbæjar