Reykjanesbær
Reykjanesbær

Reykjanesbær hefur farið í  fjölmargar aðgerðir til að sporna við þeim efnahagslegu áföllum sem nú ganga yfir. Viðbrögðin miðast við að fjölga störfum eins og hægt er, með það að markmiði að draga úr atvinnuleysi og ekki síður að vernda önnur störf í atvinnulífi svæðisins. Hér fyrir neðan má sjá nokkrar af þeim aðgerðum sem eru nú þegar í framkvæmd.

 

Sumarstörf fyrir ungmenni fædd 2003

Þar sem 18 ára og eldri eiga sér skjól í úrræði stjórnvalda og árgangar 2004-2006 hafa möguleika á að sækja um í vinnuskóla Reykjanesbæjar stendur 2003 árgangurinn einn eftir. Bæjarráð samþykkti því að bjóða ungmennum fæddum árið 2003 til starfa í vinnuskóla Reykjanesbæjar í sumar og ráðstafa allt að 75 milljónum króna til að standa undir kostnaðarauka vinnuskólans vegna þessa.

300 sumarstörf fyrir námsmenn

Hluti af aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar vegna stöðunnar í atvinnumálum er að verja um 2,2 milljörðum króna í að standa straum af átaksverkefni með sveitarfélögunum í landinu og opinberum stofnunum. Markmiðið er að fjölga tímabundnum störfum fyrir námsmenn í sumar. Reykjanesbær fékk vilyrði fyrir 307 stöðugildum í gegnum átakið og samþykkti bæjarráð að greiða þær 78 milljónir sem upp á vantar til að ráða þann fjölda námsmanna.

Um er að ræða tveggja mánaða ráðningartímabil og þurfa námsmenn að vera 18 ára á árinu og á milli anna, þ.e. eru að koma úr námi og eru aftur skráðir í nám í haust.

Atvinnuátak í samstarfi við Vinnumálastofnun

Bæjarstjórn hefur samþykkt að ráðstafa allt að 50 milljónum í sérstakt átak í gegnum úrræði Vinnumálastofnunar. Ráðningarstyrk sem ætti að geta skapað allt að 80 tímabundin störf fyrir þá sem hafa verið lengur í atvinnuleit.

Lækkun leikskóla og frístundagjalds

Vegna aðstæðna sem upp komu í kjölfar Covid-19 ákvað bæjarráð á fundi sínum fimmtudaginn 19. mars eftirfarandi um gjaldtöku í leik- og grunnskólum á tímabilinu sem takmörkun á skólahaldi gildir:

Leikskólar
• Ekkert gjald fyrir barn sem foreldrar hafa heima á tímabilinu.
• Ekkert gjald fyrir barn í leikskóla sem er lokað á tímabilinu.
• 50% gjald fyrir barn sem er annan hvern dag í leikskóla á tímabilinu.
• 100% gjald fyrir barn sem er alla daga í leikskóla vegna forgangs.

Grunnskólar
Vegna skertrar þjónustu í Frístundaheimilum var innheimt eftir þeim tímafjölda sem nýttur var hjá hverju barni á tímabilinu.

Framlag til þjónusturekinna leikskóla

Bæjarsjóður bætir fjórum þjónustureknum leikskólum upp mismuninn á fullu framlagi foreldra og því sem greitt er eftir notkun.

Framlag til dagforeldra

Reykjanesbær greiðir til dagforeldra 50.000 kr. fyrir hvert barn í vistun. Komi til þess að dagforeldrar þurfi að loka á þjónustu sinni vegna sóttkvíar eða veikinda haldast greiðslur Reykjanesbæjar áfram þrátt fyrir þjónustuskerðingu við foreldra.

Ókeypis skólamatur

Vegna takmarkana sem urðu á starfsemi grunnskóla var þjónusta Skólamatar aðlöguð og einfölduð til að koma til móts við sóttvarnaraðgerðir og skert skólahald, og var maturinn í boði Reykjanesbæjar á tímabilinu.

 Ákveðið var:

  • að allir nemendur í grunnskólum fái einfalda máltíð á þeim dögum sem þeir eru í skólanum frá og með 23. mars og á meðan á takmörkun á skólahaldi stendur
  • engir reikningar verða sendir út fyrir apríl eða á meðan á takmörkuninni stendur
  • þeir reikningar sem foreldrar hafa greitt vegna áskrifta í mars verða endurreiknaðir frá og með 16. mars. Nánari útfærsla verður kynnt um leið og hún liggur fyrir

Frestun fasteignagjalda

Bæjarráð Reykjanesbæjar samþykkti á fundi fimmtudaginn 14. maí að útvíkka aðgerðir um frestun fasteignagjalda og fullnýta þá heimild sem sveitarfélögum var gefin í bráðabirgðaákvæði við lög um tekjustofna sveitarfélaga sem samþykkt var á alþingi 30. mars sl.

Fyrstu aðgerðir sem samþykktar voru í bæjarráði Reykjanesbæjar 26. mars sl. fólu í sér að lögaðilar gætu óskað eftir frestun fasteignagjalda á atvinnuhúsnæði í C-flokki vegna gjalddagana 1. apríl og 1. maí um tvo mánuði.

Bráðabirgðaákvæðið felur í sér að sveitarfélögum er heimilt að fresta allt að þremur gjalddögum fasteignagjalda á atvinnuhúsnæði í C-flokki frá 1. apríl til 1. desember með eindaga í síðasta lagi 15. janúar 2021. Verði gjaldandi sem frestað hefur greiðslum til 15. janúar 2021 fyrir miklu tekjufalli á árinu 2020 getur hann óskað eftir auknum fresti og dreifingu greiðslna sem heimilað er þá að fresta gjalddögunum til 15. dags mánaðanna júní, júlí og ágúst 2021.

Gjaldendur sem nú þegar hafa óskað eftir fresti og óska eftir að bæta við einum gjalddaga og/eða lengja eindaga eru vinsamlega beðnir um að senda inn beiðnir á netfangið frestunfasteignagjalda@reykjanesbaer.is

Reykjanesbær beinir þeim tilmælum til þeirra lögaðila sem ekki hafa nýtt sér frestun fasteignagjalda en telja að úrræðið geti komið að gagni í því efnahagsumhverfi sem lögaðilar búa við að sækja um frestun.

Greiðslur á heimsendingu matar felldar niður

Á meðan að matsalurinn á Nesvöllum er lokaður vegna samkomutakmarkana er heimsending matar gjaldfrjáls.

 

Breyting á fjárfestingaráætlun og ráðist í auknar framkvæmdir

Á fundi bæjarráðs Reykjanesbæjar þann 8. apríl, voru samþykktar breytingar á fjárfestingaráætlun bæjarfélagsins fyrir árið 2020. Breytingarnar felast í því að mannaflafrek verkefni eru sett í forgang og dregið úr öðrum sem ekki hafa jafn mikil jákvæð áhrif á atvinnumarkað. Jafnframt hefur bæjarstjóra verið falið að gera viðauka við fjárhagsáætlun ársins til þess að auka framkvæmdir um 460 miljónir króna, þannig að heildar áætlunin verði 1.160 milljónir króna.   Þar fyrir utan stendur Reykjanesbær í framkvæmdum við Stapaskóla upp á 2 milljarða króna, hönnun nýs hjúkrunarheimilis fyrir 70 miljónir, Samanlagt mun Reykjanesbær því framkvæma fyrir rúma 3,2 milljarða á árinu.

Ókeypis í söfn

Bæjarráð Reykjanesbæjar hefur tekið þá ákvörðun að boðið verði upp á ókeypis aðgang í Rokksafn Íslands og Duus Safnahús, menningar og listamiðstöð Reykjanesbæjar frá 1. júní til 31. ágúst. Er þessi ákvörðun tekin sem liður í að bjóða Íslendinga velkomna til Reykjanesbæjar á ferðum sínum um landið í sumar. Reykjanesbær er frábær áfangastaður og tilvalinn til bæði dagsferða og lengri ferða.

 

Markaðsaðgerðir - ferðumst innanlands

Tekin hefur verið sú ákvörðun að ráðast í markvissar markaðsaðgerðir til að hvetja Íslenska ferðamenn  að heimsækja Reykjanesbæ í sumar.