Góðar niðurstöður úr þjónustukönnun

Mikili meirihluti íbúa í Reykjanesbæ, eða 78%, eru ánægðir með að búa í sveitarfélaginu. Þá eru íbúar mjög ánægðir með aðstöðu til íþróttaiðkunar og þjónustu leik- og grunnskóla í sveitarfélaginu – sem er hærra en landsmeðaltalið. Þetta kemur meðal annars fram í könnun Gallup um viðhorf íbúa gagnvart þjónustu sveitarfélaganna.

Í könnuninni var spurt um ýmsa þætti er snúa að þjónustu sveitarfélaganna, þar á meðal sorphirðu, menningarmál, skipulagsmál, þjónustu við eldri borgara og fólk með fötlun, en hún var framkvæmd á meðal íbúa í tuttugu stærstu sveitarfélögum landsins, 18 ára og eldri.

Samkvæmt könnuninni er meirihluti íbúa í Reykjanesbæ almennt ánægður með þjónustuna sem sveitarfélagið býður upp á og skorar það meðal annars hæst á landsvísu þegar kemur að aðstöðu til íþróttaiðkunar, þar sem 80% íbúa eru ánægðir með þjónustuna.

Þá telja íbúar að bæjaryfirvöld hafi bætt sig þegar kemur að því að draga úr loftmengun og ánægja með umhverfisvænar samgöngur í sveitarfélaginu hefur aukist frá því að könnunin var gerð síðast. Íbúar telja hins vegar að gæðum umhverfisins við heimili þeirra hafi farið aðeins niður frá fyrri mælingum.

Ríflega 70% íbúa eru ánægðir með þjónustu grunnskóla sveitarfélagsins og um 67% íbúa eru ánægðir með þjónustu leikskóla en nokkuð færri eru ánægðir með þjónustu við barnafjölskyldur. Um 60% íbúa eru ánægðir með hvernig sveitarfélagið sinnir menningarmálum og er það á pari við það sem gerist í hinum sveitarfélögunum.

Ljóst er að Reykjanesbær má vel við una á mörgum sviðum en annars staðar sýnir könnunin fram á tækifæri til úrbóta. Kannanir sem þessar eru mikilvægar til að fá heildarsýn á viðhorf og upplifun bæjarbúa og til að endurskoða þá þætti sem megi bæta í starfsemi sveitarfélagsins. Bæjarráð þakkar svarendum fyrir þátttöku í könnuninni og mun nú rýna í niðurstöðurnar og huga að leiðum til að gera Reykjanesbæ að enn betri stað til að búa á.

Skoða niðurstöður könnunar

Umhverfismál - niðurstöður