#MeToo

Átak gegn kynbundnu ofbeldi og kynferðislegri áreitni á vinnustöðum
Átak gegn kynbundnu ofbeldi og kynferðislegri áreitni á vinnustöðum

Bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ hafa sent frá sér yfirlýsingu þess efnis að kynbundin og kynferðisleg áreitni eða ofbeldi af nokkru tagi sé ekki liðin á vinnustöðum sveitarfélagsins. Í framhaldi af því sendi mannauðsstjóri Reykjanesbæjar til starfsfólks þessar leiðbeinandi upplýsingar sem eru bæði fyrir starfsmenn og stjórnendur. Mikilvægt er að öllu starfsfólki sé ljós hver afstaða bæjaryfirvalda er.

Menningin og andrúmsloftið

Það er ekki einfalt mál að nálgast þetta viðfangsefni með skýrum og afdráttarlausum hætti án þess að gera samskiptin á vinnustaðnum að umræðuefni. Við þurfum að skapa þá menningu og það andrúmsloft að það sé óhætt og í raun æskilegt að tjá sig. Við eigum að geta talað með kurteisi og virðingu við alla okkar samstarfsfélaga. Þetta þýðir að það þarf að bæði að vera auðvelt og aðgengilegt að koma til skila hvaða hegðun eða samskipti okkur þykja óþægileg, ógnandi eða á annan hátt ekki viðeigandi.

Hvað getur starfsmaður gert ef hann verður fyrir kynbundinni eða kynferðislegri áreitni eða ofbeldi?

Það getur vel verið að gerandi sé ómeðvitaður um að sú hegðun sem hann/hún sýnir sé í óþökk eða þyki óþægileg þeim sem hún er sýnd. Það afsakar ekki hegðunina eða gerir hana léttvæga, það þýðir hinsvegar að fyrsta skrefið er að gera viðkomandi grein fyrir því hvaða áhrif hegðun hans hefur.
Starfsmanni sem þykir hegðun, framkoma eða nálgun samstarfsmanns óþægileg, óviðeigandi eða á einhvern hátt ógnandi þarf að líða þannig að hann geti strax látið viðkomandi vita að hann vilji þetta ekki. Við viljum að allir hafi kjark og hugrekki til þess að draga sín mörk og segja upphátt hver þau eru. Þetta er ekki einfalt en er líklega lykillinn að því að áreitni verði upprætt. Segjum: stopp, segjum: nei, segjum: mér þykir þetta óþægilegt, segjum: hættu. Það er alltaf fyrsta skrefið til að koma í veg fyrir að hegðunin haldi áfram. Það er ekki þar með sagt að allir treysti sér til þess. Það er líka allt í lagi, við erum ekki að varpa ábyrgð yfir á þá sem verða fyrir áreitni. Við viljum samt sem áður leggja áherslu á að umhverfið sé þannig að stuðningur sé fyrir hendi og að það sé í lagi að draga mörk. Enginn starfsmaður á að upplifa sig einan og úrræðalausan. Ef maður treystir sér ekki til að segja neitt þá er næsta skref að leita til næsta yfirmanns, trúnaðarmanns, mannauðsstjóra eða annars samstarfsmanns sem maður treystir. Það má hafa samband með tölvupósti, í síma eða með því að koma á staðinn. Hér gildir hið margfræga; ekki gera ekki neitt.

Viðbrögð stjórnenda

Fyrir það fyrsta er það skylda stjórnenda að skapa vinnuskilyrði sem draga úr möguleikum á kynferðislegri eða kynbundinni áreitni. Þeim ber einnig skylda til að taka á málum þegar þau koma upp og leita aðstoðar t.d. hjá mannauðsstjóra, sviðsstjóra og/eða trúnaðarmanni.
Allar kvartanir vegna kynferðislegrar áreitni á að kanna til hlítar og styðja þarf við starfsfólk sem hefur gefið sig fram og kvartað.
Hér skiptir máli að bregðast við eins fljótt og hægt er í samstarfi við sviðsstjóra eða mannauðsstjóra. Meta þarf hvort sá sem kvartar hefur þörf fyrir bráðan stuðning sem getur verið heppilegt að sé veittur af þriðja aðila ef þurfa þykir.
Við meðferð kvartana sem berast vegna kynferðislegrar áreitni þarf alltaf að gæta fyllsta trúnaðar til að vernda hagsmuni allra aðila. Það gildir einnig um öll gögn sem tengjast málinu.

 1. Hlusta þarf á málavexti og taka alvarlega það sem fram kemur
 2. Gott er að spyrja út í tímasetningar, fá fram gögn ef einhver eru s.s. tölvupósta, sms-skilaboð eða annað svo að auðveldara sé að rekja málsatvik
 3. Mikilvægt er svo að ræða við aðila málsins og kanna allar hliðar þess
 4. Kynna þarf gerandanum afleiðingar gerða hans og upplýsa um að skýlaus krafa sé um að hann láti af hegðun sinni samstundis
 5. Ef ástæða er til getur gerandi einnig leitað aðstoðar við vanda sínum frá þriðja aðila
 6. Ef ástæða þykir til vegna eðli máls, að gera ráðstafanir s.s. að færa til starfsmenn sem í hlut eiga, er gerandinn sá sem færður er en ekki þolandinn

Almennt um ferlið

 • Kvartanir geta verið annað hvort munnlegar eða skriflegar
 • Þegar gert er viðvart um kynferðislega áreitni er það hlutverk stjórnandans að byrja á að gera sitt til að binda enda á hana
 • Áður en ákvörðun um viðbrögð er tekin er báðum aðilum gefinn kostur á að skýra mál sitt fyrir óháðum aðila
 • Sé atvikið það alvarlegt að um saknæmt brot sé að ræða skv. hegningarlögum er það kært til lögreglu, þó aðeins með fullu samþykki þolanda
 • Þolandi á engan skaða að bera af þeim ráðstöfunum sem gripið er til
 • Alvarleg og endurtekin áreitni varðar áminningu eða brottrekstur úr starfi
 • Brjóti stjórnandi trúnað eða sinni ekki skyldu sinni í málinu getur það einnig varðað áminningu
 • Ef stjórnandi er kærður fyrir meint einelti, kynbundna og eða kynferðislega áreitni skal sá hinn sami, samkvæmt lögum nr. 10/2008 gr. 22 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, vera vanhæfur til að taka ákvarðanir um starfskilyrði kæranda á meðan meðferð málsins stendur yfir og skal næsti stjórnandi taka slíkar ákvarðanir

Rangar ásakanir

Komi upp tilvik þar sem starfsmaður er ranglega sakaður um kynferðislega áreitni er þeim sem ásökunina setti fram veitt áminning og getur slíkt einnig leitt til brottreksturs.

Að lokum

Það er sameiginleg ábyrgð okkar allra að taka skýra afstöðu og standa með henni. Við skulum trúa því að það sé sjálfsagt mál að uppræta þetta úr samfélaginu öllu. Einu sinni þótti sjálfsagt að refsa börnum líkamlega, setja einstaklinga með fötlun á einhverskonar hæli, að svartir og hvítir ættu ekki að nota sama strætó eða hvaðeina annað sem ykkur dettur í hug þegar þið hugsið um stórvægilegar breytingar í menningu og hugsun. Þetta er þannig dæmi. Það sem er að gerast núna er að hugsun og viðhorf samfélagsins er að taka stakkaskiptum. Við munum ekki samþykkja kynbundna eða kynferðislega áreitni eða ofbeldi. Punktur.

Starfsfólk er hvatt til ræða þetta opinskátt. Það er jákvætt að fá um þetta lifandi umræðu. Hægt er að leita aðstoðar eða fá fræðslu hjá mannauðsstjóra.