Menntastefna Reykjanesbæjar 2021-2030

Menntastefnu Reykjanesbæjar, Með opnum hug og gleði í hjarta, er ætlað að veita leiðsögn og innblástur öllum þeim sem koma að starfi með börnum og ungmennum í sveitarfélaginu. Áttaviti sem vísar veginn og leiðbeinir um það hvernig nám, leikur, listir og íþróttir fléttast saman og stuðlar að því að börn og ungmenni öðlist góða alhliða menntun, þeim líði vel og séu virkir þátttakendur í fjölbreyttu samfélagi.



Meginmarkmið

Meginmarkmið menntastefnunnar er að skapa öllum börnum og ungmennum í Reykjanesbæ öruggt og hvetjandi umhverfi þannig að þeim líði vel, þau hafi tækifæri til að rækta hæfileika sína og blómstra með opnum hug og gleði í hjarta.

Leiðarljós

Menntastefnan byggir á þremur leiðarljósum sem eiga að einkenna allt starf með börnum og ungmennum í sveitarfélaginu. Þau varða leiðina að farsæld barna þar sem allir sem koma að menntun og uppeldi eru mikilvægir þátttakendur.


Börnin mikilvægust

Öll börn hafa rétt til einkalífs, frjálsrar hugsunar og tjáningar. Því er mikilvægt að skapa umhverfi sem einkennist af trausti og virðingu svo hvert og eitt hafi svigrúm til að taka virkan þátt, vera það sjálft og tjá sig frjálslega um málefni sem hafa áhrif á líf þeirra. Allar ákvarðanir sem varða börn og ungmenni eiga að vera teknar með hagsmuni þeirra að leiðarljósi.


Allt starf með börnum og ungmönnum á að snúast um að auka farsæld þeirra og skapa aðstæður þar sem þau fá tækifæri til að vaxa og þroskast í öruggu og hvetjandi umhverfi. Í skóla, íþrótta- og tómstundastarfi er lögð áhersla á að leiðbeina sérhverju barni og styðja svo það uppgötvi styrkleika sína, efli færni, öðlist jákvæða sýn á lífið og viðhafi heilbrigðan lífsstíl þannig að það sé sem best í stakk búið til að takast á við þær áskoranir sem mæta því hverju sinni. 


Menntun á að hjálpa börnum og ungmennum að rækta sjálfsmynd sína, hæfileika og færni. Auk þess á hún að kenna þeim að þekkja réttindi sín og virða réttindi annarra, menningu þeirra og fjölbreytileika, lifa í sátt og samlyndi og umgangast náttúruna af virðingu.


Kraftur fjölbreytileikans

Ein af grunnþörfum hverrar manneskju er að tilheyra. Til að ýta undir virka þátttöku og hlúa að heilbrigðri sjálfsmynd er mikilvægt að skapa börnum og ungmennum umhverfi þar sem styrkleikar þeirra fá að njóta sín. Til að skapa slíkt umhverfi þarf fagfólk að koma auga á þær auðlindir sem börn bera með sér, reynslu þeirra, þekkingu og áhuga á sama tíma og það ígrundar á gagnrýninn hátt starfshætti sína og viðhorf.


Virðing fyrir ólíkum skoðunum, menningu og fjölbreytileika endurspeglast í starfi með börnum og ungmennum og birtist í ólíku, skipulagi og starfsháttum allra sem sinna menntun og uppeldi. Í slíku umhverfi fá börn og ungmenni tækifæri til að tjá sig, koma skoðunum sínum á framfæri og sýna hug sinn í verki. Þannig verða börn og ungmenni virkir þátttakendur í mótun þess samfélags sem þau tilheyra.  


Faglegt menntasamfélag

Í árangursríku menntasamfélagi eru allir mikilvægir. Þar ríkir menning sem hvetur og viðheldur stöðugri endurnýjun og framþróun meðal allra þeirra sem koma að menntun og uppeldi í þeim sameiginlega tilgangi að styrkja og efla börnin.

Í virku menntasamfélagi vinnum við saman, styðjum hvert annað og leitum sameiginlegra leiða til að greina áherslur okkar og starfshætti og innleiða nýja sem stuðla að aukinni hæfni og bættum árangri.

 

Í styðjandi umhverfi gefst okkur tækifæri til að þróa þekkingu, viðhorf, gildi og reynslu á jákvæðan hátt með það fyrir augum að efla fagmennsku í starfi með börnum og ungmennum. Þannig má auka gæði náms, kennslu og þjálfunar til að ná sífellt betri árangri í samræmi við breyttar áherslur á hverjum tíma.


Stefnuáherslur

Menntastefnan byggir á fimm megin áherslum sem eiga að ná yfir þá eiginleika og hæfni sem við viljum þroska og efla hjá börnum og ungmennum í leik og starfi. Þeim er ætlað að stuðla að því að börnunum okkar líði vel og þau njóti gæða menntunar til að takast á við áskoranir í nútíð og framtíð.


Mér líður vel

Vellíðan er grundvöllur þess að börnum farnist vel, þau séu virk, tileinki sér nám og öðlist hæfni sjálfum sér og öðrum til heilla. 


Að þekkja tilfinningar sínar og innri hvata er mikilvægt hverjum einstaklingi og á þeirri vegferð þarf að vera svigrúm fyrir bæði mistök og sigra. Umhverfi sem einkennist af jákvæðri athygli, virkri hlustun og hvatningu skapar jarðveg fyrir börn og ungmenni að blómstra sem einstaklingar og hugrekki til að vera þau sjálf. Sterk sjálfsmynd hefur ekki aðeins áhrif á vellíðan heldur er hún ein sterkasta forvörnin gegn áhættuhegðun.


Heilbrigðir lífshættir stuðla jafnframt að vellíðan barna. Heilsueflandi áherslur sem ná yfir holla næringu, hreyfingu og hvíld eru mikilvægar ásamt öðrum þáttum sem styðja við líkamlega, andlega og félagslega heilsu.  


Gleðin þarf að vera ríkjandi í umhverfi barna svo upplifun þeirra verði í senn gefandi og skemmtileg. Að læra í gegnum leik er grunnur að þroskaferli sérhvers barns en leikurinn færir jafnframt ótal tækifæri til að upplifa gleði og efla um leið sköpunarhæfni og stuðla að vellíðan. 



Allir með

Mannleg tengsl og samskipti við ólíka aðila fylgja okkur alla ævi. Ánægjuleg og árangursrík samskipti efla jákvæð tengsl og veita okkur gleði.

 

Félagsfærni er mikilvæg undirstaða góðra samskipta, vináttu og skilnings á öðrum. Hún hjálpar börnum og ungmennum að tjá skoðanir sínar, setja sig í spor annarra og koma fram af virðingu. Góð félagsfærni eykur aðlögunarhæfni og er forvörn gegn þáttum eins og einmannaleika og vanlíðan. Félagsfærni þroskast í samskiptum við aðra og eflist í aðstæðum sem einkennast af lýðræðislegri þátttöku, vinsemd og skilningi.


Samvinna í minni eða stærri hópum þar sem allir hafa hlutverk og bera ábyrgð á sínu framlagi eflir jafnframt félagslegan þroska. Þjálfun í að vinna með öðrum að sameiginlegu markmiði styrkir eiginleikann að taka tillit til annarra, skiptast á skoðunum og taka sameiginlegar ákvarðanir. 



Opnum hugann

Læsi er samheiti yfir marga færniþætti og endurspeglar hæfni til að skynja og skilja samfélagið og umhverfið á gagnrýninn hátt. Læsi er grundvöllur þess að afla sér þekkingar sem eykur víðsýni og þroskar gagnrýna hugsun, ýtir undir valdeflingu, virkni og lýðræðislega þátttöku.  


Fjölbreytt miðlun efnis þroskar sjálfsstætt gildismat barna og hæfnina til að setja ólík sjónarhorn í samhengi. Gagnrýnin hugsun reiðir sig ekki einungis á bein rök né alhæfingar heldur sameinar skoðanir, skilning og tilfinningar með heilbrigðum hætti. 


Mikilvægt er að börn og ungmenni fái tækifæri til að vinna með ólík tjáningarform við miðlun og frelsi til að beita orðum eða hvers konar táknum í sína þágu og samfélagsins alls. Sá sem hefur tækifæri til tjáningar með fjölbreyttum leiðum eykur möguleika sína á að hugsa lengra og stærra. 



Sköpunargleði

Sköpun er meðfæddur eiginleiki sem á rætur í eðlislægri forvitni og athafnaþrá. Til að sá eiginleiki fái notið sín þarf að búa börnum og ungmennum umhverfi sem ýtir undir það að þau nýti og njóti sköpunarhæfni sinnar. 


Sköpun á að vera órjúfanlegur þáttur í öllu starfi með börnum og ungmennum og birtast í fjölbreyttu samhengi, skipulagi og starfsháttum allra sem sinna menntun og uppeldi. Í skapandi og nærandi jarðvegi blómstrar nýsköpun, frumkvæði og frjó hugsun. 


Með því að veita börnum tækifæri til sköpunar sem byggir á forvitni, ímyndunarafli, áhuga, leit og leik öðlast þau aukna sjálfsþekkingu, hæfni og áræðni til að hafa áhrif á heiminn í kringum sig.  



Við og jörðin

Formleg og óformleg menntun til sjálfbærni með áherslu á mannréttindi, frelsi og jöfnuð eykur þekkingu og færni til að bregðast við áskorunum nútímans og framtíðarinnar á valdeflandi og skapandi hátt.


Mikilvægt er að stuðla að aukinni meðvitund um þá staðreynd að við eigum aðeins eina jörð og með aðgerðum í nærumhverfinu höfum við áhrif á lífskjör og aðstæður fólks annars staðar á jörðinni.


Með því að veita börnum tækifæri til að velta fyrir sér eigin gildum og viðhorfum og skoða á gagnrýninn hátt samspil náttúru og mannlífs munu þau finna nýjar leiðir sem leiða til aukinnar farsældar og sjálfbærs samfélags.


Umfang og ábyrgð

Menntastefna Reykjanesbæjar sem gildir til ársins 2030 tekur mið af grunnstefnu Reykjanesbæjar sem ber heitið Í krafti fjölbreytileikans og stefnuáherslu hennar Börnin mikilvægust ásamt Barnasáttmála og Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Menntastefna fyrir Ísland til 2030 er einnig höfð til hliðsjónar sem og gildandi aðalnámskrár leik-, grunn- og framhaldsskóla.


Fjölskipaður stýrihópur hagaðila kom að mótun menntastefnunnar. Kannanir voru lagðar fyrir börn, ungmenni og fullorðna með það fyrir augum að draga fram áherslur og forgangsatriði. Auk þess voru haldin rýnisamtöl við börn á ólíkum aldri.


Innleiðing stefnunnar hefst haustið 2021 þar sem hver stofnun innan fræðslusviðs gerir sína eigin aðgerðaáætlun sem byggir á stefnunni til þriggja ára í senn, en tekur um leið mið af aðstæðum á hverjum stað. Menntastefna Reykjanesbæjar er á ábyrgð sviðsstjóra fræðslusviðs og er gert ráð fyrir að hún sé endurskoðuð að minnsta kosti einu sinni á gildistíma hennar.