02.12.2021 13:00

1347. fundur bæjarráðs Reykjanesbæjar, haldinn í Merkinesi, Hljómahöll 2. desember 2021, kl. 13:00

Viðstaddir: Friðjón Einarsson formaður, Baldur Þ. Guðmundsson, Jóhann Friðrik Friðriksson, Margrét A. Sanders, Valgerður Björk Pálsdóttir, Gunnar Þórarinsson áheyrnarfulltrúi, Margrét Þórarinsdóttir áheyrnarfulltrúi, Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri og Hrefna Gunnarsdóttir ritari.

Gestir fundarins taka þátt í gegnum fjarfundabúnað.

1. Húsnæði Myllubakkaskóla (2021050174)

Lögð fram svör frá Helga Arnarsyni sviðsstjóra fræðslusviðs við fyrirspurn Bjarna Páls Tryggvasonar varaformanns fræðsluráðs varðandi umferðaröryggi, gönguleiðir og skipulag starfsstöðva nemenda og starfsfólks Myllubakkaskóla.

Fylgigögn:

Svar við fyrirspurn vegna flutnings Myllubakkaskóla

2. Skuld Reykjaneshafnar við Reykjanesbæ (2021110602)

Lagt fram minnisblað frá GrantThornton ehf.
Líkt og fram kemur í minnisblaðinu yrði eftirgjöf skulda tekjufærð hjá höfninni en þar sem hún er ekki tekjuskattsskyld yrðu tekjurnar ekki tekjuskattsskyldar. Óljóst er hvort niðurfelling skuldar telst „aukið framlag til að bæta eiginfjárstöðu“ í skilningi 3. mgr. 18. gr. hafnarlaga, en slíkt framlag þarfnast samþykkis ráðherra. Kjósi bæjarsjóður að fella niður skuldir hafnarinnar er þó mælt með að það verði leitað eftir samþykki ráðherra í samræmi við ákvæðið.

Bæjarráð samþykkir framlagðar tillögur um niðurfellingu skulda Reykjaneshafnar.

3. Fjárhagsáætlun 2022 (2021060488)

Bæjarráð samþykkir með öllum atkvæðum framlagða gjaldskrá Reykjanesbæjar fyrir árið 2022.

Regína F. Guðmundsdóttir fjármálastjóri mætti á fundinn og fór ásamt Kjartani Má Kjartanssyni bæjarstjóra yfir fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar 2022-2025.

Margrét Þórarinsdóttir (M) lagði fram eftirfarandi bókun:

"Tillaga að breytingu á fjárhagsáætlun:
Það olli mér miklum vonbrigðum við fjárhagsáætlunargerð að sjá að skerðing yrði á stuðningsúrræðum í barnavernd. Um er að ræða tilsjónarúrræðið Tilsjón sem er stuðningsúrræði á vegum barnaverndar sem fram fer inni á heimilum fjölskyldna.

Meginmarkmið úrræðisins er að styðja og styrkja foreldra í hlutverki sínu sem uppalendur og stuðla að bættri líðan fjölskyldumeðlima og fjölskyldunnar sem heild. Verkefni tilsjónaraðila eru fjölbreytt og felast m.a. í að veita uppeldislega ráðgjöf í aðstæðum, aðstoða foreldra með rútínur (svefnrútínu, baðrútínu, næringu, heimanám o.fl.), aðstoða og leiðbeina foreldrum með utanumhald á heimili s.s. með fjármál, tiltekt, þrif o.fl. Þá hafa tilsjónaraðilar að einhverju leyti sinnt eftirliti með heimili, t.a.m. varðandi grun um neyslu foreldra og/eða ofbeldi eða í öðrum í aðstæðum þar sem má ætla að barn sé ekki öruggt á heimili. Tilsjónaraðilar sinna einnig stuðningi við börn/foreldra þar sem þörf er á að rjúfa félagslega einangrun.

Í dag er stöðugildi tilsjónaraðila í Birtunni. Birtan er stuðningsþjónusta Velferðarsviðs sem vinnur samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 og barnaverndarlögum nr. 80/2002. Þjónustan veitir félagslega og uppeldislega ráðgjöf og veitir foreldrafærniþjálfun byggða á gagnreyndum aðferðum, s.s. PMTO (Parent management training – Oregon aðferð). Stuðningsþjónustan er veitt á virkum dögum á dagvinnutíma. Flestar fjölskyldur sem fá þjónustu í Birtunni eru skjólstæðingar barnaverndar. Í dag eru 11 fjölskyldur sem fá þjónustu, þar af eru 5 fjölskyldur sem þyrftu stuðningsúrræðið tilsjón, þar af ein fjölskylda sem þarf viðamikla þjónustu. 16 fjölskyldur eru á bið, en sú fjölskylda sem efst er á biðlistanum er búin að vera á bið frá 15. júní sl. Mikil þörf er á stuðningsúrræðinu tilsjón fyrir fjölskyldur barnaverndar. Þörfin felst einkum í að sinna ofangreindum verkefnum, ásamt því að sinna eftirfylgd á þjónustu Birtunnar, hjálpa foreldrum að aðlaga bætta færni í aðstæðum á heimili og veita þjónustu ef bið er í Birtuna.

Oft á tíðum hafa skjólstæðingar barnaverndar þörf á stuðningi á heimili utan dagvinnutíma, þ.e. eftir kl. 16:00 og um helgar. Í dag er slík þjónusta ekki veitt. Tilsjón er mikilvægt stuðningsúrræði til þess að tryggja sem best að þörfum fjölskyldna sé mætt og til þess að grípa sem fyrst inn í mál þar sem þörf er á að gæta að umönnun og öryggi barna. Þá er tilsjón mikilvægt stuðningsúrræði til þess að koma í veg fyrir að vista þurfi börn, tímabundið eða í lengri tíma, utan heimilis. Slíkt er bæði verulega íþyngjandi fyrir fjölskyldur og kostnaðarsamt fyrir sveitarfélagið.

Í dag er þörf á tilsjón fyrir 36 fjölskyldur til að sinna ofangreindum verkefnum. Það er fyrir utan þjónustu sem veitt er í Birtunni og ekki eru taldar með fjölskyldur sem þurfa viðamikla þjónustu. Að jafnaði er miðað við 8 stundir á mánuði, en í einstaka tilfellum er þörf á allt að 16 stundum á mánuði. Kostnaðaráætlun miðað við þörf í dag er samtals: 36 fjölskyldur x 8 = 288 x 4003 = 1.152.864 krónur á mánuði x 12 = á ári: 13.834.368. Ef við ætlum að skerða þessa þjónustu þá tel ég að við munum lenda í meiri kostnaði þar sem að þetta eru fyrirbyggjandi aðgerðir og snemmtæk íhlutun."

Margrét Þórarinsdóttir, bæjarfulltrúi Miðflokksins

Bæjarstjóra falið að afla upplýsinga um tilgreind verkefni sem fram komu á fundinum og leggja fram tillögur í bæjarstjórn 7. desember 2021.

Fjárhagsáætluninni vísað til seinni umræðu í bæjarstjórn 7. desember 2021.

4. Stjórnarfundur Tjarnargötu 12 ehf. (2021110601)

Málinu frestað.

5. Fundargerð stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga 26. nóvember 2021 (2021020026)

Fundargerð lögð fram.

Fylgigögn:

Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga - 903

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 14:00. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 7. desember 2021.