1374. fundur

23.06.2022 08:00

1374. fundur bæjarráðs Reykjanesbæjar, fjarfundur, 23. júní 2022, kl. 08:00

Viðstaddir: Friðjón Einarsson formaður, Birgir Már Bragason, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir og Helga Jóhanna Oddsdóttir.

Margrét A. Sanders boðaði forföll, Helga Jóhanna Oddsdóttir sat fyrir hana.
Valgerður Björk Pálsdóttir boðaði forföll, Birgir Már Bragason sat fyrir hana.
Margrét Þórarinsdóttir áheyrnarfulltrúi boðaði forföll, Gunnar Felix Rúnarsson sat fyrir hana.

Að auki sátu fundinn Gunnar Felix Rúnarsson áheyrnarfulltrúi, Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri og Hrefna Gunnarsdóttir ritari.

Gestir fundarins komu inn í gegnum fjarfundarbúnað.

1. Iðunn H2 – vetnisframleiðsla í Helguvík (2021070366)

Auður Nanna Baldvinsdóttir frá Iðunni H2 og Sigurgestur Guðlaugsson verkefnastjóri atvinnu- og viðskiptaþróunar mættu á fundinn. Kynning á verkefninu.

2. Fjölgun stöðugilda á umhverfissviði (2022060294)

Lögð fram tillaga að fjölgun stöðugilda um tvö innan eignaumsýslu Reykjanesbæjar og kaup á bíl. Fjölgun stöðugilda kr. 10.000.000 og bílakaup kr. 5.000.000. Samhliða fari fram úttekt á starfsemi og verkefnastöðu á umhverfissviði.

Bæjarráð samþykkir að vísa erindinu vegna fjölgun stöðugilda til viðauka í fjárhagsáætlun 2022.
Bæjarráð samþykkir að vísa erindinu vegna bílakaupa til viðauka við fjárfestingaráætlun 2022.

Bæjarráð heimilar Guðlaugi H. Sigurjónssyni sviðsstjóra umhverfissviðs að auglýsa tvö störf á umhverfissviði. Helga Jóhanna Oddsdóttir (D) sat hjá við atkvæðagreiðsluna.

Helga Jóhanna Oddsdóttir lagði fram bókun Sjálfstæðisflokks:

„Fjölgun stöðugilda á USK
Í stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningar í vor var lögð áhersla á að efla USK en að það yrði gert með ábyrgum og vel ígrunduðum hætti eins og annað í rekstri sveitarfélagsins. Í meðfylgjandi minnisblaði frá bæjarstjóra sjáum við ekki að slík vinnubrögð hafi verið viðhöfð.
Við viljum því koma á framfæri ósk um að betur verði staðið að ákvörðun um þessi tvö stöðugildi. Eins og minnisblaðið er sett fram er ekki að sjá að þarfagreining liggi fyrir umfram það sem fram kom í ákalli frá USK á síðasta fundi bæjarráðs. Hvað kom fram í þessum samtölum við starfsfólk? Hvaða starfslýsingar liggja að baki þeim störfum sem ráða á í? Hvaða vanda munu nýir starfsmenn leysa? Hvaða menntun þurfum við inn á þessum tímapunkti?
Við leggjum áherslu á að bregðast hratt og vel við vanda USK en aldrei á kostnað vandvirkni og rýni á hvernig best sé farið með það fjármagn sem veita þarf til, enda ekki tjaldað til einnar nætur þegar starfsfólk er ráðið til sveitarfélagsins.“

3. Ráðningarsamningur bæjarstjóra (2022060066)

Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri vék af fundi undir þessum lið.

Ráðningarsamningur lagður fram til kynningar.

Helga Jóhanna Oddsdóttir lagði fram bókun Sjálfstæðisflokks:

„Ráðningarsamningur bæjarstjóra

Varðandi ráðningarsamning bæjarstjóra leggur Sjálfstæðisflokkurinn fram eftirfarandi bókun og ósk um svör við þeim spurningum sem í henni felast.

Liður 1-2 í ráðningarsamningi sýnir 31,4% hækkun á launum bæjarstjóra frá upphafi síðasta kjörtímabils. Laun bæjarstjóra í ráðningarsamningi þann 13.6.2018 námu kr. 1.850.000 en verða nú kr. 2.431.546. Hvernig hefur þessi hækkun átt sér stað á sl. fjórum árum?

Í síðustu kjarasamningum hefur áherslan verið á að hækka lægstu laun, sem þýðir að prósentuhækkun lægstu launa hefur verið meiri en áður. Þessu fylgdi sérstök beiðni um að laun hærra launaðra yrðu ekki látin hækka umfram eðlilegar hækkanir. Tenging launa bæjarstjóra við meðaltalshækkun launa starfsmanna sveitarfélaga þýðir, að bæjarstjóri hefur verið að njóta átaksins í hækkun lægstu launa þvert á markmið þess og óskir vinnumarkaðar, sem er með öllu ótækt.

Hvaða aðrar greiðslur, „sem greiddar eru af öðrum“ þiggur bæjarstjóri sbr. lið 2? Óskað er eftir tæmandi lista og upplýsingum um heildarlaun bæjarstjóra að öllum þeim greiðslum meðtöldum.

Athygli vekur að önnur kjör bæjarstjóra skulu tengd við kjarasamning Starfsmannafélags Suðurnesja en þó er nýr liður í samningi bæjarstjóra sem kveður á um slysa-, veikinda- og líftryggingu. Hverjir aðrir í starfsmannahópi Reykjanesbæjar njóta slíkra fríðinda og hverjar eru fjárhæðirnar umfram það sem fylgir kjarasamningi SFS?

Hver hefur hækkun almennra starfsmanna Reykjanesbæjar sem einnig njóta kjara skv. SFS verið á kjörtímabilinu?

Dagsetningar ráðningarsamnings eru óljósar og ætti að vera einfalt að lagfæra þannig að gildistími sé t.d. til 31.5.2026.

Skýra þarf betur ákvæðið „Bæjarstjóri á rétt á að fá greidd full laun skv. fyrsta lið í 6 mánuði frá starfslokum, hvort sem er á kjörtímabilinu eða að samningstíma loknum“. Þýðir þetta að bæjarstjóri geti sagt upp störfum og ráðið sig í annað launað starf á kjörtímabilinu en engu að síður notið 6 mánaða launa frá Reykjanesbæ eftir að hann lætur af starfi bæjarstjóra?

Við gerum ekki athugasemdir við biðlaunaákvæðið sem felst í því að bæjarstjóri njóti 6 mánaða launa eftir að samningstíma lýkur og þar til hann ræður sig í annað starf, gerist það innan þess tíma.“

4. Beiðni um stuðning við afrekssundmenn (2022060432)

Bæjarráð felur Kjartani Má Kjartanssyni bæjarstjóra að vinna áfram í málinu.

Helga Jóhanna Oddsdóttir lagði fram bókun Sjálfstæðisflokks:

„Sjálfstæðisflokkurinn fagnar því að Reykjanesbær sé að horfa til þess að styðja við ungt afreksfólk. Við leggjum um leið til, að mótaður verði rammi utan um stuðning sveitarfélagsins við afreksfólkið okkar, þannig að ljóst sé hvernig stuðningi sé háttað og hvað afreksfólk þarf að uppfylla til að eiga kost á honum.“

5. Ársreikningur Samtaka orkusveitarfélaga 2021 (2022060413)

Ársreikningur lagður fram.

6. Umsagnarmál í samráðsgátt (2022010082)

a. Öryggisþjónusta – frumvarp um öryggisráðstafanir og öryggisvistun
Með því að smella hér opnast umsagnarmál í samráðsgátt.
b. Öryggisþjónusta – kortlagning, greining og stefna
Með því að smella hér opnast umsagnarmál í samráðsgátt.

Umsagnarmál lögð fram.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10:15.