19.11.2014 11:15

465. fundur bæjarstjórnar Reykjanesbæjar haldinn 18. nóvember 2014 að Tjarnargötu 12, kl: 17:00.

Mættir : Böðvar Jónsson aðalbæjarfulltrúi, Magnea Guðmundsdóttir aðalbæjarfulltrúi, Gunnar Þórarinsson aðalbæjarfulltrúi, Baldur Guðmundsson aðalbæjarfulltrúi, Friðjón Einarsson aðalbæjarfulltrúi, Kristinn Þór Jakobsson aðalbæjarfulltrúi,  Guðbrandur Einarsson aðalbæjarfulltrúi, Anna Lóa Ólafsdóttir aðalbæjarfulltrúi, Elín Rós Bjarnadóttir aðalbæjarfulltrúi, Ingigerður Sæmundsdóttir varabæjarfulltrúi, Eysteinn Eyjólfsson varabæjarfulltrúi, Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri, fundarritari Hjörtur Zakaríasson og í forsæti var Anna Lóa Ólafsdóttir.

1. Fundagerðir bæjarráðs 6/11 og 13/11´14 (2014010041)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðirnar.  Til máls tók Guðbrandur Einarsson er lagði fram eftirfarandi bókun:
Bókun lögð fram á bæjarstjórnarfundi 18. nóvember 2014
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar harmar þá stöðu sem upp er komin í viðræðum tónlistarkennara og launanefndar sveitarfélaga um gerð nýs kjarasamnings. Það er mjög mikilvægt að verkfall dragist ekki úr hófi því slíkt getur haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir þá einstaklinga sem stunda nám við tónlistarskólana. Bæjarstjórn skorar á samningsaðila að leita leiða til þess að ná samkomulagi hið fyrsta svo að koma megi skólastarfi í eðlilegan farveg.

Guðbrandur Einarsson, Gunnar Þórarinsson, Friðjón Einarsson, Elín Rós Bjarnadóttir, Anna Lóa Ólafsdóttir, Kristinn Jakobsson, Böðvar Jónsson, Baldur Þ. Guðmundsson, Magnea Guðmundsdóttir, Ingigerður Sæmundsdóttir, Eysteinn Eyjólfsson.

Til máls tók Friðjón Einarsson er lagði fram eftirfarandi tillögu: Bæjarstjórn Reykjanesbæjar samþykkir að skipa nefnd sem fær það hlutverk að endurskoða bæjarmálasamþykkt Reykjanesbæjar. Sérstaklega skal taka til skoðunar framkomnar breytingatillögur sem lagðar hafa verið fram í bæjarstjórn og bæjarráði nýverið. Nefndin skal skipuð þeim Önnu Lóu Ólafsdóttur, forseta bæjarstjórnar, Böðvari Jónssyni, fyrrverandi forseta bæjarstjórnar og Hirti Zakaríassyni, bæjarritara.
Nefndin skal leggja fram tillögur að breytingum fyrir bæjarráð Reykjanesbæjar sem fyrst.

Friðjón Einarsson.

Til máls tók Böðvar Jónsson er lagði fram eftirfarandi bókun:  Við undirrituð, bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, leggjumst gegn ákvörðun bæjarráðs um kjaraskerðingu starfsmanna sem felur í sér umtalsverðar launalækkanir.

Ákvörðunin var tekin með fljótfærnislegum hætti og án nákvæmrar greiningarvinnu. Ekki lá fyrir hversu margir starfsmenn yrðu fyrir skerðingum né hversu mikil áhrif skerðingin hefði á einstaka starfsmenn. Þá lá ekki fyrir nein greining eða spá um hvaða áhrif breytingin hefði á starfsmannahald sveitarfélagsins eða hugsanleg viðbrögð einstakra starfsstétta. Ákvörðunin var tekin án þess að búið væri að undirbúa hvernig starfsmönnum yrði tilkynnt um breytingarnar og ekkert var hugað að því að veita starfsmönnum aðstoð eða stuðning í kjölfar tilkynningarinnar. Rétt er að minna á til að þessir sömu einstaklingar fengu á sama tíma fréttir af hærri gjöldum og sköttum á næstu árum.

Við teljum að ákvörðun um breytingar á launakjörum starfsmanna hefði ekki átt að taka nema í samhengi við aðrar niðurskurðartillögur í „Sókninni“. Fyrir liggur að bæjarráð tók samhljóða ákvörðun um lækkun kostnaðar upp á 500 milljónir króna. Til stóð að bæjarráð færi sameiginlega í vinnu við að ná því markmiði. Enn er unnið að útfærslu niðurskurðar á rekstrarliðum sveitarfélagsins. Fyrsta skoðun gefur til kynna að unnt sé að ná niður kostnaði á rekstrarþáttum sem nemur u.þ.b. 400 milljónum á ári. Takist það er ljóst að niðurskurður upp á 250 milljónir í launakostnaði með tilheyrandi óánægju starfsmanna, uppsögnum og í kjölfarið kostnaði við nýráðningar og þjálfun nýrra starfsmanna, er óþörf aðgerð þar sem allt of langt er gengið.

Böðvar Jónsson, Baldur Guðmundsson, Magnea Guðmundsdóttir, Ingigerður Sæmundsdóttir.

Til máls tóku Kristinn Jakobsson, Magnea Guðmundsdóttir og Guðbrandur Einarsson er lagði fram eftirfarandi bókun:  Sú tillaga sem Kristinn Jakobsson lagði fram í bæjarráði var eingöngu hugsuð til þess að upphefja hann sjálfan á kostnað annarra. Með tillögunni lagði hann til að föst laun bæjarráðsmanna yrðu þurrkuð út. Þar sem Kristinn er áheyrnarfulltrúi nýtur hann ekki fastra launa heldur fær greitt fyrir hvern sóttan fund.  Hann ætlaði því ekki að leggja neitt til sjálfur. Tillagan var því eingöngu lýðskrum eins og það gerist best.

Guðbrandur Einarsson.

Til máls tók Eysteinn Eyjólfsson, Gunnar Þórarinsson, Baldur Guðmundsson, bæjarstjóri Kjartan M. Kjartansson, Elín Rós Bjarnadóttir og Anna Lóa Ólafsdóttir.
Kristinn Jakobsson lagði til breytingartillögu við tillögu Friðjóns Einarssonar um skipan fulltrúa í nefnd um endurskoðun á bæjarmálasamþykkt en Kristinn lagði til að allir stjórnarmálaflokkar ættu fulltrúar í vinnu nefndarinnar. Breytingartillagan var  felld með 6 atkvæðum meirihlutans. Kristinn Jakobsson greiddi atkvæði með tillögunni. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks sátu hjá.  Tillaga Friðjóns Einarssonar samþykkt 11-0. 

Fundagerðirnar síðan bornar upp:  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks greiða atkvæði á móti 11. máli frá 6/11´14 og vísa í bókun. Fundagerðirnar samþykktar 11-0 að öðru leyti.

2. Fundargerð atvinnu- og hafnaráðs 12/11´14 (2014010256)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina.  Fundargerðin samþykkt 11-0 án umræðu.

3. Fundargerð fjölskyldu- og félagsmálaráðs 10/11´14 (2014010742)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Fundargerðin samþykkt 11-0 án umræðu.

4. Fundargerð menningarráðs 13/11´14  (2014010159)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina.  Til máls tóku Baldur Guðmundsson og Anna Lóa Ólafsdóttir.  Fundargerðin samþykkt 11-0.

5. Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 12/11´14 (2014010200)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina.  Til máls tóku Eysteinn Eyjólfsson og Kristinn Jakobsson.  Fundargerðin samþykkt 11-0.

6. Fundagerðir stjórnar BS 27/10 og 4/11´14 (2014010709)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðir stjórnar BS.  Til máls tóku Friðjón Einarsson og bæjarstjóri Kjartan M. Kjartansson.  Fundargerðirnar lagðar fram.

7. Fundargerð stjórnar SSS 11/11´14 (2014010042)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina.  Fundargerðin lögð fram án umræðu.

8. Fundargerð stjórnar SS 13/11´14. (2014010039)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina.  Fundargerðin lögð fram án umræðu.

Fleira ekki gert og fundi slitið.