02.01.2015 13:35

468. fundur bæjarstjórnar Reykjanesbæjar haldinn 30. desember 2014 að Tjarnargötu 12, kl: 17:00

Mættir : Anna Lóa Ólafsdóttir aðalbæjarfulltrúi,  Böðvar Jónsson aðalbæjarfulltrúi, Árni Sigfússon aðalbæjarfulltrúi, Magnea Guðmundsdóttir aðalbæjarfulltrúi, Gunnar Þórarinsson aðalbæjarfulltrúi, Kristinn Þór Jakobsson aðalbæjarfulltrúi, Guðný Birna Guðmundsdóttir aðalbæjarfulltrúi, Guðbrandur Einarsson aðalbæjarfulltrúi, Elín Rós Bjarnadóttir aðalbæjarfulltrúi, Ingigerður Sæmundsdóttir varabæjarfulltrúi, Eysteinn Eyjólfsson varabæjarfulltrúi, Kjartan M. Kjartansson bæjarstjóri, Hjörtur Zakaríasson fundarritari og í forsæti var Anna Lóa Ólafsdóttir.


1. Fundargerð bæjarráðs 23/12´14 (2014010041)
Forseti óskaði eftir að fundargerð bæjarráðs frá 23/12´14 verði tekin á dagskrá sem 1. mál og var það samþykkt samhljóða.
Forseti gaf síðan orðið laust um fundargerðina.  Fundargerðin samþykkt 11-0 án umræðu.

2. Samkomulag við innanríkisráðuneytið (2014110075)
Forseti gaf Kjartani M. Kjartanssyni bæjarstjóra orðið er fylgdi úr hlaði samkomulagi við innanríkisráðuneytið. Til máls tók Böðvar Jónsson. Samkomulag við innanríkisráðuneytið samþykkt 11-0.

3. Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar og sameiginlega rekinna stofnana 2015 - 2018 - síðari umræða (2014120008)
Forseti gaf orðið laust um fjárhagsáætlunina.  Til máls tóku Kjartan M. Kjartansson bæjarstjóri, Árni Sigfússon lagði fram eftirfarandi bókun bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins við afgreiðslu fjárhagsáætlunar 2015.

Nýr meirihluti í bæjarstjórn Reykjanesbæjar leggur nú fram sína fyrstu fjárhagsáætlun.

Þrátt fyrir yfirlýsingar og jákvæð fyrirheit gagnvart íbúum við síðustu kosningar svo og margra ára skammir í garð Sjálfstæðismanna á undanförnum árum og áratugum, hlýtur að vekja sérstaka athygli að meirihlutinn skuli leggja fram fjárhagsáætlun þar sem gert er ráð fyrir tapi upp á rúma 500 milljónir króna hjá A-hluta bæjarsjóðs og rúmlega 400 milljón króna tapi þegar horft er til samstæðunnar.

Fjárhagsáætlunin staðfestir hins vegar það sem Sjálfstæðismenn hafa sagt um árabil að rekstur sveitarfélagsins sé erfiður og nauðsynlegt sé að auka tekjur bæði íbúa og sveitarfélagsins með fjölgun vel launaðra starfa.

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja afar mikilvægt að bæjarstjórn standi samhent að gerð  fjárhagsáætlana eftir því sem kostur er, sér í lagi þegar niðurskurður hefur átt sér stað og er framundan eins og nú.  Af þeirri ástæðu lögðu bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins aðeins fram tvær breytingatillögur við þá fjárhagsáætlun sem kynnt var við fyrri umræðu. Um leið og við fögnum því að meirihlutinn hafi séð að sér og frestað 25 milljón króna framkvæmdum við fyrirhugað tjaldsvæði, sem ekki nýtist íbúum Reykjanesbæjar nema á mjög takmarkaðan hátt, voru það mikil vonbrigði að meirihlutinn skyldi fella tillögu okkar Sjálfstæðismanna um að halda áfram með kerfi umönnunargreiðslna til foreldra barna undir 15 mánaða aldri sem kjósa fremur að sinna börnum sínum heima en að setja þau í vistun til dagforeldra. Hér er um mismunun að ræða. Ákvörðun meirihlutans mun hafa afdrifarík áhrif á u.þ.b. 60 fjölskyldur í sveitarfélaginu, draga úr samverustundum foreldra með ungum börnum sínum, auka álag og biðlista eftir plássi hjá dagforeldrum og væntanlega hækka verð þegar til lengri tíma er litið. Augljóst var af þeim umræðum sem fram hafa farið í bæjarstjórn og bæjarráði um málið að fulltrúar meirihlutans hafa horn í síðu umönnunargreiðslna. Þær voru hugmyndafræði og ákvörðun Sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ, teknar fyrst upp hér 2006 en síðar í fjölmörgum sveitarfélögum á landinu í kjölfarið.

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins minna á að með þeirri fjárhagsáætlun sem nú er til afgreiðslu er ekki gert ráð fyrir auknum tekjum af atvinnuverkefnum sem verið hafa í undirbúningi um árabil, m.a. í Helguvík. Af þeim sökum er nú tekin ákvörðun um að hækka bæði útsvar og fasteignagjöld umtalsvert.  Ítrekuð er sú skoðun sem bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa lýst í bæjarstjórn að um leið og þau atvinnuverkefni munu skila sér í hús er mikilvægt að bæjarstjórn standi samhent að því að draga til baka ákvarðanir um hækkun gjalda á íbúa sveitarfélagsins.

Árni Sigfússon, Böðvar Jónsson, Magnea Guðmundsdóttir, Ingigerður Sæmundsdóttir.

Til máls tók Gunnar Þórarinsson er lagði fram eftirfarandi bókun bæjarfulltrúa Beinnar leiðar, Frjáls afls og Samfylkingar og óháðra í bæjarstjórn 30. desember 2014.

Reykjanesbær aftur á rétta braut

Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar fyrir árið 2015 endurspeglar íþyngjandi skuldastöðu bæjarfélagsins. Brýn nauðsyn er að ná utan um stöðuna þar sem reksturinn hefur ekki verið að skila nægilegri framlegð til að standa við skuldbindingar bæjarins.

Fjárhagsáætlunin er byggð á úttekt fagaðila, unnin í samráði við Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga og staðfest í samkomulagi bæjarins við Innanríkisráðherra.

Lögð er áhersla á hagræðingu í rekstri bæjarfélagsins og B-hluta fyrirtækja en einnig er gert ráð fyrir auknum skatttekjum með hærri álagningu í útsvari og fasteignasköttum. Hagræðingin í rekstrinum snýr í fyrsta lagi að þeim launaliðum sem tilheyra ekki föstum launum. Þar er um að ræða greiðslur fyrir notkun bifreiða starfsmanna en framvegis verður einungis greitt fyrir akstur sem starfsmenn aka sannarlega fyrir bæjarfélagið skv. skráningu í akstursbók. Þá verður dregið úr greiðslum fyrir yfirvinnu.

Varðandi hagræðingu í öðrum rekstrarútgjöldum þá er sjónum fyrst og fremst beint að þeim verkefnum sem ekki eru lögbundin en þó er reynt að verja þjónustu sem snýr að barnafjölskyldum.  Þannig eru leikskólagjöld óbreytt, hvatagreiðslur auknar og aukin framlög til foreldra sem nýta sér þjónustu dagmæðra meðan umönnunargreiðslur til foreldra eru felldar niður. Með því er reynt að ýta undir framboð á þjónustu dagmæðra þannig að þær fjölskyldur sem hafa nýtt sér umönnunargreiðslur geti nýtt sér þá þjónustu.

Áfram verður unnið að því að fjölga fjölbreyttum atvinnutækifærum m.a. með áframhaldandi uppbyggingu í Helguvík. Þá verður unnið að því að koma í not öllum þeim íbúðum sem standa auðar, svo og öllum þeim lóðum sem er búið að gera klárar fyrir byggingar bæði fyrir íbúðar- og atvinnuhúsnæði.   

Markmið fjárhagsáætlunarinnar er að rekstur sveitarfélagsins skili afgangi sem nýtist til niðurgreiðslu uppsafnaðra skulda og aukinnar þjónustu við íbúa þegar fram líða stundir. Hér kveður við ábyrgari tón í rekstri bæjarins en áður sem mun verða til þess að gera rekstur sveitarfélagsins sjálfbæran og koma Reykjanesbæ á rétta braut á nýjan leik.

Gunnar Þórarinsson, Guðbrandur Einarsson, Anna Lóa Ólafsdóttir, Eysteinn Eyjólfsson, Elín Rós Bjarnadóttir, Guðný B. Guðmundsdóttir.

Til máls tók Kjartan M. Kjartansson er lagði fram eftirfarandi bókun með fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar 2015-2018 ,síðari umræðu þ. 30. des. 2014:

Í fjárhagsáætluninni er gert ráð fyrir eftirfarandi:

• Að fjármagnsþörf upp á 1,4 milljarða, að meðtöldum yfirdrætti, verði mætt með lækkun fjármagnskostnaðar eftir að samningaviðræður við kröfuhafa hafa farið fram á árinu 2015 og endurfjármögnun eftir þörfum.

• Að á árinu 2015 verði langtímaskuld B-hluta stofnunarinnar Fráveitu Reykjanesbæjar gerð upp með skuldajöfnun á viðskiptareikningi við A-hluta. Einnig að unnið verði að langtímaáætlun um fjárfestingar fráveitunnar til framtíðar með hliðsjón af álagningu fráveitugjalda.

• Að á árinu 2015 verði viðskiptaskuld Fasteigna Reykjanesbæjar ehf. við A-hluta breytt í hlutafé fyrir allt að 291 milljón króna. Það fé verði nýtt til greiðslu skammtímaskulda og uppgjörs á viðskiptareikningi við A-hluta. Hlutafjáraukning þessi skal fara fram þegar lokið hefur verið við fjárhagslega endurskipulagningu félagsins er tryggi að félagið verði sjálfbært til framtíðar.

Kjartan M. Kjartansson, bæjarstjóri.

Til máls tók Kristinn Jakobsson er lagði fram eftirfarandi bókun:
Telja verður þá ákvörðun meirihlutans furðulega að henda þeirri þróun sem hafin var síðastliðið vor, með íbúavef Reykjanesbæjar, fyrir róða. Tilraun sem ekki er búið að fullreyna. Íbúar hafa haft góða og greiða leið til að hafa áhrif á sitt umhverfi, stjórnsýslu og samráði við stjórn bæjarfélagsins. Nú kýs meirihlutinn þrátt fyrir fögur fyrirheit um aukið lýðræði og bætt samráð við íbúa að skera á frábæra leið til að íbúar geti haft bein áhrif og séð tillögur sína fá formlega teknar fyrir og afgreiddar.  Meirihlutinn sýnir nú sem fyrr að þau eru hrædd við aukið íbúalýðræði. Lýðræði kemur ekki ókeypis það kostar bæði fé og fyrirhöfn að bæta það. 

Kristinn Jakobsson.

Til máls tóku Guðbrandur Einarsson, Böðvar Jónsson, Magnea Guðmundsdóttir, Eysteinn Eyjólfsson og Ingigerður Sæmundsdóttir.

Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar og sameiginlega rekinna stofnanna 2015-2108 samþykkt 11-0.

Fleira ekki gert og fundi slitið.