471. fundur

27.01.2015 00:00

471. fundur bæjarstjórnar Reykjanesbæjar haldinn 27. janúar 2015 að Tjarnargötu 12, kl: 17:00

Mættir : Böðvar Jónsson aðalbæjarfulltrúi, Magnea Guðmundsdóttir aðalbæjarfulltrúi, Gunnar Þórarinsson aðalbæjarfulltrúi, Baldur Guðmundsson aðalbæjarfulltrúi, Friðjón Einarsson aðalbæjarfulltrúi, Kristinn Þór Jakobsson aðalbæjarfulltrúi, Guðný Birna Guðmundsdóttir aðalbæjarfulltrúi, Guðbrandur Einarsson aðalbæjarfulltrúi, Anna Lóa Ólafsdóttir, aðalbæjarfulltrúi Elín Rós Bjarnadóttir aðalbæjarfulltrúi, Jóhann S. Sigurbergsson varabæjarfulltrúi, Kjartan M. Kjartansson bæjarstjóri, Hjörtur Zakaríasson fundarritari og í forsæti var Anna Lóa Ólafsdóttir.

1. 1. mál bæjarráðs frá 22. janúar sl. um skipulagsbreytingar og breytt skipurit. (2014110407)

Áður en gengið var til dagskrár lagði Friðjón Einarsson fram eftirfarandi tillögu:  Undirritaður leggur til að fundur í bæjarstjórn Reykjanesbæjar, haldinn 27. janúar 2015, verði lokaður.

Til máls tóku Böðvar Jónsson, Kristinn Jakobsson og Guðbrandur Einarsson.  
Þegar hér var komið óskaði forseti eftir fundarhléi.

Fundur aftur settur og lýsti forseti yfir því að Friðjón Einarsson hefði dregið tillögu sína um lokaðan fund til baka og er fundurinn því opinn almenningi.

Forseti gaf síðan orðið laust um 1. mál bæjarráðs frá 22/1´15. um skipulagsbreytingar og breytt skipurit.  Til máls tók Friðjón Einarsson er lagði fram eftirfarandi tillögu: Bæjarstjórn samþykkir að fela bæjarstjóra að segja upp ráðningarsamningum allra framkvæmdastjóra og auglýsa störf sviðsstjóra í nýju skipuriti laus til umsóknar. Bæjarstjórn samþykkir einnig að sviðsstjórar í nýju skipuriti komi að frekari vinnu við lokafrágang innra skipulags hvers sviðs, niðurröðun og mönnun verkefna og samstarfs á milli sviða og að þeirri vinnu verði lokið eigi síðar en 1. júní 2015.

Friðjón Einarsson, Guðbrandur Einarsson, Gunnar Þórarinsson, Elín Rós Bjarnadóttir, Anna Lóa Ólafsdóttir og Guðný Birna Guðmundsdóttir.

Til máls tók Böðvar Jónsson er lagði fram eftirfarandi:  Undrituð leggja til eftirfarandi breytingatillögur í bæjarstjórn 27.01.15

1) Fagsvið verði fjögur í stað þriggja og við bætist sérstakt atvinnumálasvið.
Greinargerð :
Atvinnumál eru ávallt eitt af mikilvægust verkefnum hverrar bæjarstjórnar. Síðustu ár hafa ennfremur verið erfið í atvinnulegu tilliti og atvinnuleysi hefur verið í sögulegu hámarki hér á Suðurnesjum í nokkur ár. Mjög mikilvægt er að málaflokkurinn fái það vægi og þá áherslu sem nauðsynlegt er. Síðustu ár hefur verið lagður grunnur að fjölda vel launaðra starfa m.a. í Helguvík sem gætu bæði leitt til aukinna tekna fjölda íbúa og um leið aukinnna tekna sveitarfélagsins. Á meðan þeim verkefnum er siglt í höfn teljum við mikilvægt og nauðsynlegt að málaflokkurinn fái sterkara vægi í skipuriti sveitarfélagsins en gert er ráð fyrir í tillögu meirihlutans. Áður en kemur til sjálfstæðs Atvinnusviðs verði horft til sömu verkefna hjá SSS og Þróunarfélagi Keflavíkur og skipulag samræmt sem hentar atvinnuuppbyggingu best. Þangað til heyri atvinnumálin áfram undir Atvinnu- og hafnaráð.

2) Stoðsviðin verði þrjú í stað tveggja og við bætist sérstakt Markaðs- menningar og íþróttasvið. 
Greinargerð :
Sjálfstæðismenn leggja áherslu á að áherslur okkar samfélags komi skýrt fram í skipuriti sveitarfélagsins. Áhersla okkar á íþróttir og menningu hefur í gegnum tíðina og ekki hvað síst á síðustu árum vakið sérstaka eftirtekt víða um land. Við teljum mikilvægt að þessar áherslur endurspeglist í skipuriti sveitarfélagsins með sérstöku sviði sem fylgi málaflokkunum eftir en sé ekki hluti af öðrum fag- og/eða stoðsviðum.  

Sú ákvörðun að fella íþrótta- og tómstundamál undir Fræðslusvið teljum við ekki skynsamlegt. Þar eru felld undir sama hatt lögbundin verkefni sveitarfélags á sviði fræðslumála við ólögbundið verkefni sem er margvíslegur stuðningur við uppbyggingu íþrótta- og tómstundamála. Reynslan í slíkum tilfellum hefur sýnt að hið lögbundna hefur alltaf yfirhöndina og þurfi að draga saman seglin tímabundið t.d. vegna fjárhagsaðstæðna er óhikað gengið fyrst á þann þátt sem ekki er lögbundinn. Samhliða breytingu á íþróttasviði verði kannaðir kostir og gallar þess að færa rekstrarlega stjórn íþróttahúsa til USK eða semja við íþróttafélög um rekstur þeirra að einhverju eða öllu leyti.
Forvarnarstarf verði vistað undir stjórn Markaðs- Menningar- og Íþróttasviðs þar sem það kemur m.a. inn á forvarnir á mörgum sviðum í menntun, menningu, íþróttum, umferð, skipulagi, barna- og unglingavernd.

Böðvar Jónsson, Magnea Guðmundsdóttir, Magnea Guðmundsdóttir og Jóhann S. Sigurbergsson.

Til máls tóku Baldur Guðmundsson, Guðbrandur Einarsson, Kristinn Jakobsson, Kjartan M. Kjartansson, Elín Rós Bjarnadóttir, Friðjón Einarsson, Magnea Guðmundsdóttir, Gunnar Þórarinsson, Jóhann S. Sigurbergsson og Böðvar Jónsson.

Tillaga sjálfstæðismanna nr. 1.   Tillagan felld með 6 atkvæðum meirihlutans gegn 4 atkvæðum sjálfstæðismanna.  Kristinn Jakobsson fulltrúi Framsóknarflokksins situr hjá.
Tillaga sjálfstæðismanna nr. 2.     Tillagan felld með 6 atkvæðum meirihlutans gegn 4 atkvæðum sjálfstæðismanna.  Kristinn Jakobsson fulltrúi Framsóknarflokksins situr hjá.

Tillaga um breytingar á stjórnskipulagi Reykjanesbæjar samþykkt með 7 atkvæðum meirihlutans og Kristins Jakobssonar fulltrúi Framsóknarflokksins gegn 4 atkvæðum sjálfstæðismanna.  Tillaga meirihlutans um uppsögn á ráðningarsamningum framkvæmdastjóra samþykkt með 6 atkvæðum meirihlutans gegn 5 atkvæðum minnihlutans.
Böðvar Jónsson óskar bókað:  Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggjast eindregið gegn tillögu um uppsögn allra framkvæmdastjóra sveitarfélagsins og telja að með því séu bæjarfulltrúar meirihlutans að stofna í hættu mikilvægri þekkingu og reynslu starfsmanna sem sumir hafa starfað hjá sveitarfélaginu um áratuga skeið. Með ákvörðuninni er hætta á að Reykjanesbær missi frá sér afburða stjórnendur sem hafa reynst mikil stoð fyrir samfélagið í gegnum tíðina. Þó að þær skipulagsbreytingar sem meirihlutinn hefur nú  ákveðið að ráðast í séu umtalsverðar eru þær alls ekki svo stórvægilegar að nauðsynlegt sé að fara í uppsagnir allra framkvæmdastjóra sveitarfélagsins. Þá bera breytingarnar það ekki með sér að vinnubrögð verði betri eða markvissari. Þvert á móti er ráðist að mikilvægum málaflokkum þ.á.m. íþrótta- og tómstundastarfi barna og menningarmálum.

Ljóst er að skipulagsbreytingarnar hafa lítil sem engin áhrif á a.m.k. þrjá sviðsstjóra en breytingu þyrfti að gera hjá öðrum þremur. Ef vilji væri til mætti kanna hvort ekki næðust samningar við þessa þrjá framkvæmdastjóra um nýtt hlutverk og nýtt starfssvið án þess að til uppsagna þyrfti að koma.

Með aðgerðum sínum í starfsmannamálum og uppsögnum samninga við starfsfólk hefur meirihlutinn farið út á mjög hálan ís. Lykilfólk með langa reynslu hefur sagt upp störfum en um leið er verið að bjóða svipuð kjör til nýrra starfsmanna með litla starfsreynslu. Ákvörðun um uppsögn yfirmanna vegna skipulagsbreytinga mun enn frekar auka á óánægju og skapa óvissu og ólgu um það mikilvægt starf  sem unnið er á bæjarskrifstofunum og leiða til þess að hæft fólk mun leita til annarra starfa.

Böðvar Jónsson, Magnea Guðmundsdóttir, Baldur Guðmundsson og Jóhann S. Sigurbergsson.

Friðjón Einarsson er lagði fram eftirfarandi bókun meirihlutans:  Sú tillaga um að segja upp öllum framkvæmdastjórum Reykjanesbæjar byggir á því sjónarmiði að eitt skuli yfir alla ganga. Þær veigamiklu breytingar sem verið er að gera á skipuriti sveitarfélagsins gera það að verkum að ákveðin störf eru lögð niður og þeir starfsmenn sem sinnt hafa þeim verkum missa þar með vinnu sína. Í því ljósi og til þess að allir sitji við sama borð er tillaga um uppsagnir allra framkvæmdastjóra fram komin.

Friðjón Einarsson, Guðbrandur Einarsson, Anna Lóa Ólafsdóttir, Gunnar Þórarinsson, Guðný Birna Guðmundsdóttir og Elín Rós Bjarnadóttir.

Fleira ekki gert og fundi slitið.
__________________________________