20.04.2016 12:21

498. fundur bæjarstjórnar Reykjanesbæjar var haldinn 19. apríl 2016 að Tjarnargötu 12, kl. 17:00.

Mættir: Böðvar Jónsson aðalbæjarfulltrúi, Árni Sigfússon aðalbæjarfulltrúi, Magnea Guðmundsdóttir aðalbæjarfulltrúi, Baldur Guðmundsson aðalbæjarfulltrúi, Friðjón Einarsson aðalbæjarfulltrúi, Kristinn Þór Jakobsson aðalbæjarfulltrúi, Guðný Birna Guðmundsdóttir aðalbæjarfulltrúi, Kolbrún Jóna Pétursdóttir bæjarfulltrúi, Guðbrandur Einarsson aðalbæjarfulltrúi, Elín Rós Bjarnadóttir aðalbæjarfulltrúi, Davíð Páll Viðarsson varabæjarfulltrúi og Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri,  Ásbjörn Jónsson ritaði fundargerð og í forsæti var Guðbrandur Einarsson.

Í upphafi fundar var Guðbrandi Einarssyni þakkað fyrir að sitja sinn 200. funda bæjarstjórnar Reykjanesbæjar

1.  Fundargerðir bæjarráðs 7. og 14. apríl  2016 (2016010009)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðirnar. Til máls tóku Kolbrún Jóna Pétursdóttir,  Kristinn Þór Jakobsson, Böðvar Jónsson og Friðjón Einarsson.

Fyrsti liður B í fundargerð bæjarráðs nr. 1070 kemur til afgreiðslu í 5 máli fundarins. Fundargerðirnar samþykktar 11-0 að öðru leyti.

 

2. Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 12. apríl 2016 (2016010178)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina.  Til máls tóku Magnea Guðmundsdóttir,  Baldur Þ. Guðmundsson, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Kristinn Þór Jakobsson, Friðjón Einarsson og Elín Rós Bjarnadóttir

Samþykkt að vísa öðrum tölulið fundargerðarinnar varðandi Brekadal 13 til umhverfis- og skipulagsráðs 11-0.

Tíundi  liður í fundargerðinni um nýtt deiliskipulag Reykjanesvita og nágrennis var borinn sérstaklega upp til atkvæða og var samþykktur með 11 atkvæðum.

Fundargerðin samþykkt 11-0 að öðru leyti.

 

3. Fundargerð íþrótta- og tómstundaráðs 5. apríl 2016 (2016010316)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Kristinn Þór Jakobsson og Guðný Birna Guðmundsdóttir.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

 

4. Fundargerð velferðarráðs 6.apríl 2016 (2016020334)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku  Guðbrandur Einarsson, Árni Sigfússon og Kristinn Þór Jakobsson.  

Fundargerðin samþykkt 11-0.

 

5. Tilkynning til eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga um að Reykjanesbær sé kominn í fjárþröng með vísan til 2. mgr. 77. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 (2016040158) 

Gögn lögð fram á fundi.

Guðbrandur Einarsson kynnti bréf frá ráðgjöfum lífeyrissjóða þeirra sem eru kröfuhafar Reykjaneshafnar dags. 19. apríl 2016. Í bréfinu kemur fram vilji lífeyrissjóðanna til frekari viðræðna vegna fjárhagsvanda Reykjanesbæjar og stofnanna hans.

Lögð var fram af bæjarfulltrúum eftirfarandi tillaga:

„Bæjarstjórn Reykjanesbæjar samþykkir að fresta 5. máli er varðar tilkynningu til eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga til næsta fundar 3. maí 2016.“

Forseti gaf orðið laust.  Til máls tóku Friðjón Einarsson, Árni Sigfússon og Kristinn Þór Jakobsson.  

Samþykkt 11-0 að fresta málinu til næsta fundar 3. maí 2016.

 

6. Ársreikningur Reykjanesbæjar og stofnana hans 2015 – fyrri umræða (2016030234) 

Ársreikningurinn lagður fram á fundi.

Forseti gaf Kjartani Má Kjartanssyni orðið.  Fór hann yfir ársreikninga Reykjanesbæjar og stofnanna hans.  

Til máls tóku Böðvar Jónsson og Árni Sigfússon sem lagði fram eftirfarandi bókun sjálfstæðismanna vegna ársreiknings Reykjanesbæjar  2015:

„Ársreikningur Reykjanesbæjar fyrir árið 2015 boðar betri fjárhagslega afkomu Reykjanesbæjar. Tekjur bæjarins jukust verulega á árinu og talsvert umfram meðaltekjuaukningu sveitarfélaga, þótt frá sé dregið tímabundið aukaálag á útsvar. Það er vegna þess að loksins hefur atvinnulífið tekið verulega við sér, bæði með öflugri uppbyggingu í kringum flug og ferðaþjónustu og uppbyggingu mannvirkja fyrir kísilver og rafræn gagnaver og öflugt frumkvöðlastarf í Reykjanesbæ. Fjárfestingar til að standa undir sterku atvinnulífi og samfélagi til framtíðar, sem kostað hafa miklar lántökur, eru loks að skila sér eftir langa bið og mikil áföll. Íbúafjölgun er langt umfram meðalfjölgun í íslenskum sveitarfélögum og horfur eru á enn frekari aukningu íbúa samkvæmt þróun á fasteignamarkaði, sbr. sölu eigna á Ásbrú. Atvinnuleysi fer stöðugt minnkandi og fjárútgjöld sveitarfélagsins m.a. vegna fjárhagsaðstoðar og annarra fylgikvilla atvinnuleysis fara lækkandi.

Bæði ársreikningur 2015 og fyrstu mánuðir þessa árs sýna að tekjur bæjarfélagsins eru að aukast mun hraðar en áætlanir hafa gert ráð fyrir. Bæði er um að ræða fjölgun íbúa langt umfram meðaltalsfjölgun í sveitarfélögum og einnig auknar tekjur á hvern íbúa. Skuldahlutfall er því að breytast hratt því það tekur mið af tekjum sveitarfélagsins á móti skuldum. Ef tekjurnar hækka en skuldir standa í stað, lækkar skuldahlutfallið og enn frekar ef unnt er að semja um skuldalækkun, bæði með niðurfellingum hluta skulda eða lækkun vaxta.

Reykjanesbær hefur frá stofnun verið afar skuldsett sveitarfélag og svonefnt skuldahlutfall var um 270% árið 2002. Skuldaviðmið, sem sett var á fyrir fjórum árum, á að geta verið komið niður fyrir sett markmið á tilsettum tíma eftir sex ár, hvort sem horft er til bæjarsjóðs eða samstæðu Reykjanesbæjar.   

Skuldaviðmið bæjarsjóðs hefur lækkað síðustu 4 ár úr 292% í 192% og skuldaviðmið samstæðunnar úr 297% í 230%. Með sömu þróun mun Reykjanesbær því ná viðmiðum sínum innan tímamarka.  Þó viðræður sveitarfélagsins við kröfuhafa þess hafi siglt í strand í bili er mikilvægt að leggja ekki árar í bát, heldur leita áfram samninga. Stórar afborganir falla til á þessu ári sem þörf er að endursemja um. Þá hlýtur það að vera eðlileg krafa sveitarfélags að skuldir sem áður voru í höndum hinna föllnu banka en hafa nú verið færðar til ríkisins með viðeigandi niðurskrift, verði a.m.k. ekki innheimtar á hærra verði en Ríkissjóður tók þær á til sín. Þá teljum við að ekki sé fullreynt með að semja við kröfuhafa Reykjaneshafnar t.d. um hugsanlega eignaraðild þeirra að höfninni. 

Um margt hefur samstarf við núverandi meirihluta verið með ágætum og sameiginleg sýn allra bæjarfulltrúa á að starfa vel saman og ná árangri fyrir samfélag okkar.

 Ítrekað hefur komið fram í því ferli sem búið er að kröfuhafar bæjarins hafa viljað ganga til samninga við Reykjanesbæ, en með öðrum formerkjum en lagt var upp með. Í slíkum samningum eru til margar leiðir.

Samhent bæjarstjórn er best til þess fallin að vinna áfram í þágu bæjarbúa með fullt umboð til ákvarðanatöku.“

Árni Sigfússon, Böðvar Jónsson,  Magnea Guðmundsdóttir og Baldur Þ. Guðmundsson.

Til máls tóku Kristinn Þór Jakobsson, Friðjón Einarsson og Guðbrandur Einarsson.  

Samþykkt 11-0 að vísa ársreikningnum til síðari umræðu 3. maí n.k.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið.