499. fundur

06.05.2016 12:40

499. fundur bæjarstjórnar Reykjanesbæjar var haldinn 3. maí 2016 að Tjarnargötu 12, kl. 17:00.

Mættir: Böðvar Jónsson aðalbæjarfulltrúi, Árni Sigfússon aðalbæjarfulltrúi, Magnea Guðmundsdóttir aðalbæjarfulltrúi, Baldur Guðmundsson aðalbæjarfulltrúi, Gunnar Þórarinsson aðalbæjarfulltrúi, Friðjón Einarsson aðalbæjarfulltrúi, Kristinn Þór Jakobsson aðalbæjarfulltrúi, Guðný Birna Guðmundsdóttir aðalbæjarfulltrúi, Kristján Jóhannsson varabæjarfulltrúi, Guðbrandur Einarsson aðalbæjarfulltrúi, Elín Rós Bjarnadóttir aðalbæjarfulltrúi og Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri.  Guðlaug María Lewis ritaði fundargerð og í forsæti var Guðbrandur Einarsson.

1.  Fundargerð bæjarráðs 29. apríl  2016 (2016010009)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Baldur Guðmundsson, Kristinn Jakobsson, Gunnar Þórarinsson, Guðný Birna Guðmundsdóttir.

Fundargerðin  samþykkt 11-0.

 

2. Fundargerðir stjórnar Reykjaneshafnar 12., 18., 19. og 28. apríl 2016 (2016010178)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðirnar. 

 

5. mál frá 184 fundi stjórnar Reykjaneshafnar frá 28.apríl 2016 var sérstaklega borið upp: 

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar samþykkir hér með að veita  einfalda ábyrgð vegna lántöku Reykjaneshafnar hjá Lánasjóði sveitarfélaga að fjárhæð 65.000.000 kr. til 10 ára, í samræmi við samþykkta skilmála lánveitingarinnar sem liggja fyrir fundinum. Ábyrgð þessi er veitt sbr. heimild í 1. mgr. 69. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, og veitir sveitarstjórnin lánasjóðnum veð í tekjum sínum til tryggingar þeirri ábyrgð, sbr. heimild í 2. mgr. 68. gr. sömu laga. Ábyrgðin tekur til greiðslu höfuðstóls láns þessa, ásamt vöxtum og verðbótum auk  hvers kyns innheimtukostnaðar.  Lánið er tekið til endurfjármögnunar afborgana af lánum Reykjaneshafnar, sem fellur undir lánshæf verkefni,  sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006.

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar skuldbindur hér með sveitarfélagið sem eiganda Reykjaneshafnar til að selja ekki eignarhlut sinn í Reykjaneshöfn til einkaaðila, í heild eða að hluta, fram til þess tíma að lán þetta er að fullu greitt.

Fari svo að Reykjanesbær selji eignarhlut í Reykjaneshöfn til annarra opinberra aðila, skuldbindur Reykjanesbær sig til þess að tryggja að samhliða yfirtaki nýr eigandi ábyrgð á láninu í hlutfalli við eignarhlut sinn í félaginu.

Jafnframt er Kjartani Má Kjartanssyni, kennitala ekki birt, veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess að samþykkja f.h. Reykjanesbæjar veitingu ofangreindrar ábyrgðar og veðsetningar og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast veitingu ábyrgðar þessarar.

Ábyrgðin samþykkt 11-0.

Fundargerðin samþykkt 11-0 að öðru leyti án umræðu.

 

3. Fundargerð fræðsluráðs 29. apríl 2016 (2016010316)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tók Árni Sigfússon.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

 

4. Tilkynning til eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga um að Reykjanesbær sé kominn í fjárþröng með vísan til 2. mgr. 77. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 (2016040158) 

Til máls tók Friðjón Einarsson og lagði fram eftirfarandi breytingartillögu:

Viðræður við kröfuhafa Reykjanesbæjar (A – B hluta) hafa staðið yfir sl. 18 mánuði, með vitund og samþykki Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga.   Heildarsamkomulag við alla kröfuhafa er ekki í sjónmáli og því ljóst að ekki tekst að skila aðlögunaráætlun sem sýnir hvernig Reykjanesbær getur uppfyllt skilyrði laga um fjármál sveitarfélaga, hvað varðar skuldaviðmið, en frestur til þess rann út 31.mars s.l.

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar samþykkir því að tilkynna Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga að samningar séu ekki í sjónmáli.

Forseti gaf orðið laust. Til máls tóku Böðvar Jónsson, Guðbrandur Einarsson, Friðjón Einarsson, Gunnar Þórarinsson, Kristinn Jakobsson, Árni Sigfússon, Kristján Jóhannsson, Magnea Guðmundsdóttir, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Elín Rós Bjarnadóttir og Baldur Guðmundsson.

Böðvar Jónsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, gerði það að tillögu sinni að málinu yrði vísað í bæjarráð. Tillagan felld með 7 atkvæðum meirihluta ásamt bæjarfulltrúa Framsóknarflokks gegn 4 atkvæðum bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks.

Breytingartillagan samþykkt með 7 atkvæðum meirihluta ásamt bæjarfulltrúa Framsóknarflokks gegn 4 atkvæðum bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks.

Sjálfstæðismenn leggja fram eftirfarandi bókun:

Bréf lífeyrissjóðanna sem lagt er fram í dag sýnir vilja til samninga þótt lífeyrissjóðirnir vilji ekki leggja að jöfnu samninga við erlenda vogunarsjóði og íslenska lífeyrissjóði. Stærstu skuldir Reykjanesbæjar eru nú í höndum ríkisins eftir að þær voru fluttar þangað úr þrotabúum gömlu bankanna, með verulegum afslætti. Enn aðrar eru hjá ríkinu í gegnum Íbúðarlánasjóð sem ekki vilja semja við Reykjanesbæ á sama tíma og skuldir einkahlutafélaga hafa verið felldar niður í stórum stíl. Það er því engan veginn tímabært að fullyrða að ekki náist samningar við kröfuhafa og ekki verði frekar reynt án beinnar þátttökur Eftirlitsnefndar eða fjárhaldsstjórnar. Á það getum við ekki fallist.

 

5. Ársreikningur Reykjanesbæjar og stofnana hans 2015 – síðari umræða (2016030234) 

Forseti gaf Kjartani Má Kjartanssyni orðið þar sem hann fór yfir lykiltölur úr ársreikningi og breytingar sem orðnar eru frá fyrri umræðu. 

Til máls tók Gunnar Þórarinsson og lagði fram eftirfarandi bókun meirihluta bæjarstjórnar Reykjanesbæjar:

Árið 2015 er fyrsta heila árið frá því að ný bæjarstjórn tók við völdum eftir kosningarnar 2014.  Ársreikningur ársins 2015 sýnir mikinn viðsnúning í rekstri bæjarins frá árunum á undan. Skatttekjur hafa aukist um 20,12% frá fyrra ári og heildartekjur bæjarsjóðs um 12.91%, en með B hluta fyrirtækjum hafa tekjur aukist um 8,86% frá fyrra ári.
Þá hefur framlegð bæjarsjóðs breyst frá því að vera neikvæð í að vera 9,46% og ef B hluta fyrirtæki eru tekin með er framlegðin 19,59% samanborið við 16,11% árið 2014. 
Það átak sem núverandi meirihluti bæjarstjórnar stóð fyrir til að hagræða í rekstri bæjarfélagsins hefur því skilað verulegum árangri.  Þannig hefur skuldahlutfall bæjarsjóðs með B hluta fyrirtækjum  lækkað úr 253,6% í 249,22% og skuldviðmið skv. reglugerð 502/2012 lækkað úr 232,67% í 230,53%. 

Þó verður að hafa í huga, að dregið hefur verið úr hvers konar viðhaldi, bæði gatna og annarra fasteigna til þess að ná þessari niðurstöðu.  Það mun leiða til þess að útgjöld í framtíðinni í þeim þáttum verða þeim mun meiri. Þá mun sú útsvarshækkun sem í gildi er hugsuð til skamms tíma, því enginn vilji er til þess að leggja meiri álögur á íbúa Reykjanesbæjar en annarra sveitarfélaga.

Ljóst er að þau markmið sem sett hafa verið í viðræðum bæjaryfirvalda við kröfuhafa sem hafa verið samþykkt af meirihluta þeirra um að nauðsynlegt sé að þeir færi skuldir niður um 6.350 milljónir króna er forsenda þess að skuldaviðmiðið 150% náist á rekstrarárinu 2022.

Guðbrandur Einarsson, Friðjón Einarsson, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Kristján Jóhannsson, Gunnar Þórarinsson, Elín Rós Bjarnadóttir.

Til máls tók Árni Sigfússon sem lagði fram eftirfarandi bókun sjálfstæðismanna vegna ársreiknings Reykjanesbæjar  2015:

Loksins eru fjárfestingarnar að skila sér.

Eftir langvarandi tafir og áföll eru þær miklu fjárfestingar sem Reykjanesbær lagði í á árunum 2004-2009 loks að skila afrakstri. Vissulega hefur biðin verið mun lengri en við ætluðum og kostnaður af lántökum vegna fjárfestinga mun þyngri en til stóð. Engu að síður eru öll merki þess að nú séu fjárfestingarnar teknar að skila hreinum tekjum til baka. Afrakstur í formi betri menntunar og betra mannlífs er þó löngu farinn að skila sér. Skýr merki um auknar tekjur bæjarins eru á árinu 2015 og enn augljósari merki þess á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs. Marksækin áform bæjarstjórnar síðasta áratug lögðu grunn að tækifærum og blómstrandi mannlífi sem nú er að taka flugið:

Það er gott að ekki var farið eftir þeim stjórnmálaöflum sem töldu að jafna ætti allar eignir á fyrrum varnarsvæði við jörðu. Sala eigna á því svæði, Ásbrú, er talin munu nema yfir 10 milljörðum kr. á þessu ári. Yfir tvö þúsund íbúðum á svæðinu hefur nú ýmist verið breytt í hótel, nemendaíbúðir, starfsmannaíbúðir vegna flugvallarsvæðisins eða fjölskylduíbúðir. Útsvarstekjur eru að aukast verulega með tilkomu nýrra íbúa inn á svæðið, sem og auknar fasteignagjaldatekjur m.a. af gistirýmum.

Götur og lóðir í nýjum hverfum standa tilbúnar og umsóknum um lóðir og endurbætur á húsnæði rignir inn.

Kostnaður vegna fjárhagsaðstoðar og félagslegrar aðstoðar hríðlækkar.

Í Helguvík er loks nýtt kísilver að hefja starfsemi upp úr miðju ári og annað fylgir í kjölfarið. Þau skapa hundruð vel launaðra starfa. Hin gríðarlega aukning flugumferðar til og frá Íslandi nýtur góðs af því að nánast allt flugvélaeldsneyti er flutt til landsins í gegnum Helguvík. Nú, þegar verkefnin í Helguvík eru loksins komin á fulla ferð, myndast langþráður grundvöllur fyrir fjárfesta að huga að þeim svæðum ofan Helguvíkur á milli hafnar og flugvallar, sem standa tilbúin og bærinn er eigandi að. Markaðsvirði þessa svæðis nemur um 4-5 milljörðum kr. en er hvergi skráð í bókum bæjarins.

Þúsundir starfsmanna bætast við á Keflavikurflugvelli á þessu ári, ýmist vegna byggingarframkvæmda á flugvallarsvæðinu eða margvíslegra þjónustustarfa þar eða í tengslum við ferðaþjónustuna.

Íbúum fjölgar hratt. Þeir koma inn í samfélag sem er hreinlegt, vel hirt, með fallega göngustíga  í bænum og meðfram ströndinni, blómstrandi menningu og íþróttalíf, öflugustu leik- og grunnskóla á landinu, fjölbrautaskóla og Keili sem miðstöð vísinda og fræða. Þeir koma inn í samfélag sem býður næga vinnu.

Nú sem fyrr hefur rekstrarkostnaður Reykjanesbæjar verið á meðal þess sem lægst gerist hjá sveitarfélögum, þrátt fyrir vandaða þjónustu.  Vert er að nefna að vel hefur tekist að halda kostnaði niðri á síðasta ári eins og ársreikningur ber með sér. Kostnaður af launum ber þó með sér talsverð umskipti á starfsmönnum sem áttu inni starfslokasamninga og umtalsverðan kostnað vegna uppsagna á starfsfólki og endurráðninga auk aðkeyptrar ráðgjafar meirihlutans vegna lánamála. Vonandi er það einungis fyrir liðið ár. Í heildina litið hefur verið vel haldið utan um rekstur bæjarins og eiga bæjarstjórn, bæjarstjóri og starfsmenn hrós skilið fyrir þá vinnu.

Við sjálfstæðismenn hétum því að vinna vel með núverandi meirihluta að “sókninni“. Við samþykktum samhljóða fjárhagsáætlun síðasta árs og höfum staðið með meirihlutanum að flestum erfiðum ákvörðunum til að halda kostnaði niðri. Við heitum áframhaldandi stuðningi við sóknina. Það er í þágu íbúanna. Áfram Reykjanesbær!

Böðvar Jónsson, Árni Sigfússon, Magnea Guðmundsdóttir, Baldur Guðmundsson.

Til máls tóku Kristinn Þór Jakobsson og Kjartan Már Kjartansson.

Ársreikningarnir samþykktir 11-0.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið.