04.10.2016 00:00

506. fundur bæjarstjórnar Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 4. október 2016 kl. 17:00.

Viðstaddir: Árni Sigfússon, Baldur Guðmundsson, Böðvar Jónsson, Friðjón Einarsson, Guðbrandur Einarsson, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Gunnar Þórarinsson,  Kolbrún Jóna Pétursdóttir, Kristinn Þór Jakobsson, Magnea Guðmundsdóttir, Alexander Ragnarsson varabæjarfulltrúi, Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri,  Ásbjörn Jónsson ritari. Í forsæti var Guðbrandur Einarson.

Í upphafi fundar óskaði forseti heimildar bæjarstjórnar að bæta við í öðrum dagskrárlið fundargerð stjórnar Reykjaneshafnar frá 3. október sl. með vísan til 20. gr. samþykktar um stjórn Reykjanesbæjar og fundarsköp bæjarstjórnar.   Gert var fundarhlé.  Fundur hófst aftur kl. 17.10. 
Samþykkt 11-0.

1. Fundargerðir bæjarráðs 22. og 29. september 2016 (2016010009)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðirnar.  Fundargerðirnar samþykktar 11-0 án umræðu.

2. Fundargerð stjórnar Reykjaneshafnar 19. september 2016 og 3. október 2016.
Forseti gaf orðið laust um fundargerðirnar.  Fundargerðirnar samþykktar 11-0 án umræðu.

3. Fundargerð fræðsluráðs 28. september 2016 (2016010248)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina.  Til máls tóku Alexander Ragnarsson,  Árni Sigfússon,  Friðjón Einarsson, Kristinn Þór Jakobsson, Böðvar Jónsson, Magnea Guðmundsdóttir,  Gunnar Þórarinsson, Kjartan Már Kjartansson, Baldur Þ. Guðmundsson og  Guðbrandur Einarsson sem lagði fram eftirfarandi bókun meirihluta bæjarstjórnar:

„Nýja menntastefnan sem nýbúið er að samþykkja í góðri sátt er heildstæð áætlun um það hvernig nám á öllum skólastigum, leikur, listir og íþróttir fléttast saman og stuðlar sameiginlega að því að undirbúa unga fólkið okkar sem best undir það að vera virkir þátttakendur í samfélagi 21. aldarinnar. Í menntastefnunni er meðal annars lögð áhersla lýðræði með aukinni þátttöku unga fólksins, öryggi í starfi og leik, læsi í víðum skilningi og innihaldsríkt, merkingarbært, fjölbreytt og skapandi nám.  Fyrri menntastefna var komin til ára sinna og hafði ekki verið endurskoðuð frá árinu 2001. Ný menntastefna undirstrikar þær áherslur að menntun barnanna okkar fer ekki einungis fram í skólum, heldur einnig í íþrótta- og tómstundastarfi. Í því samhengi má nefna að börn þroskast líkamlega, félagslega, tilfinningalega, mállega og vitsmunalega á sama tíma og því er samþætting mjög mikilvæg.
Kostir þess að sameina fræðslusvið og íþrótta- og tómstundasvið eru margir og augljósir. Þetta kemur ekki síst skýrt fram í nýrri menntastefnu sem leggur áherslu á að barnið sé ávallt í brennidepli og öll menntun, þjónusta og umönnun sé samhæfð með það að markmiði að efla alhliða þroska barnsins. Það er því okkar mat að ekki þurfi að fjölga aftur æðstu stjórnendum. Frekar ætti að horfa til þess hvort og þá hvar bæta megi þjónustuna við börnin okkar.
Ein af helstu áskorunum skólaþjónustunnar hefur verið að finna leiðir til þess að stytta biðtíma eftir þjónustu, án þess að það komi niður á gæðum hennar. Á liðnu ári hafa allir verkferlar skólaþjónustunnar verið endurskoðaðir með það að markmiði að auka skilvirkni og efla fagmennsku, bæði út í skólunum og innan þjónustu sviðsins. Hefur sú endurskoðun bæði snúið að tilvísunum og verklagi. Lögð hefur verið áhersla á að beina málum í þann farveg að viðeigandi þjónusta sé veitt eins fljótt og auðið er. Þannig er skólum jafnframt ætlað að gera áætlun um hvernig styðja eigi við barn á biðtíma, þ.e. þar til mál þess kemst að hjá sérfræðingi skólaþjónustu. Þannig er tryggt að byrjað er strax að vinna með barninu m.t.t. þess gruns sem liggur fyrir í stað þess að bíða eftir formlegri greiningu.
Reykjanesbær býður nú upp á ný uppeldisnámskeið fyrir foreldra.  Á skólaárinu 2015-2016 stóð skólaþjónustan að fjórum námskeiðum fyrir foreldra barna í leik- og grunnskólum. Námskeiðin voru ýmist almenns eðlis eða sérhæfð, þar sem kenndar voru árangursríkar uppeldisaðferðir fyrir foreldra. Námskeiðið Uppeldi sem virkar - færni til framtíðar var haldið í fyrsta sinn, en námskeiðið er ætlað foreldrum barna frá 6 mánaða til 6 ára.  Haldin voru tvö námskeið fyrir foreldra barna með ADHD og þá var námskeiðið Klókir litlir krakkar haldið í fyrsta sinn, en námskeiðið er ætlað foreldrum barna á leikskólaaldri sem eru farin að sýna fyrstu einkenni óöryggi og kvíða.
Lögð hefur verið áhersla á að efla endurmenntun fyrir skólafólk og sérfræðinga fræðslusviðs með það að markmiði að starfsfólk geti nýtt sér nýjustu þekkingu. Komið var á fót reglulegri hóphandleiðslu fyrir starfsfólk fræðslusviðsins og einnig fyrir námsráðgjafa í grunnskólunum. Endurmenntunarnámskeið hafa verið sérstaklega vel heppnuð og í ágúst sl. voru haldnir  í fyrsta sinn sameiginlegir endurmenntunardagar fyrir leik- og grunnskólakennara.  Fræðslusviðið hefur sótt um og fengið myndarlega styrki úr Endurmenntunarsjóði grunnskóla til að styðja við endur- og símenntun starfsfólks og efla fagmennsku. Fjöldi námskeiða sem fræðslusvið stóð fyrir á sl. skólaári voru 37 talsins.
Á skólaárinu 2015-2016 unnu sérfræðingar skólaþjónustu 45 mál umfram nýjar tilvísanir. Fjöldi barna á bið eftir aðkomu sérfræðiþjónustu er því minni en í lok skólaársins 2014-2015. Fjöldi nýrra beiðna skólaárið 2015-2016 var 326. Fjöldi mála lokið haust 2016 var 371.
Fjöldi tilvísana sýnir að þörfin fyrir þjónustu er mikil og er afar mikilvægt að forgangsraðað sé í átt að minnkuðum biðtíma og snemmtækri íhlutun. Meirihluti beiðna felur í sér ósk um aðkomu sálfræðinga eða nærri 6 af hverjum 10.
Að lokum má geta þess að litið hefur verið til Reykjanesbæjar sem fyrirmyndar m.a. vegna þess verklags sem hér er viðhaft og þá hefur fulltrúi Heilbrigðisráðuneytis komið í heimsókn til þess að kynna sér þá verkferla sem hér er verið að vinna með."
Guðbrandur Einarsson, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Friðjón Einarsson, Gunnar Þórarinsson, Alexander Ragnarsson og Kolbrún Jóna Pétursdóttir.

Til máls tóku Böðvar Jónsson og Guðbrandur Einarsson. Gert var fundarhlé.  Fundur hófst aftur kl. 18:30 Til máls tók Árni Sigfússon sem lagði  fram eftirfarandi bókun bæjarfulltrúa  Sjálfstæðisflokks:

„Reykjanesbær hefur undanfarin ár unnið eftir framtíðarsýn í skólamálum sem hefur skipað skólunum í hóp bestu skóla á Íslandi. Þar á meðal var efnt til ókeypis uppeldisnámskeiða sem foreldrar þurfa núna að greiða fyrir.  Full ástæða er til að vera á varðbergi í skólamálum og tryggja að við náum áfram árangri. 
Erum við áfram að skila árangri í samræmdum prófum? Hafa biðlistar eftir sérfræðiþjónustu lengst á milli áranna 2014 til 2016 ? 
Getum við betur haldið á réttindakennurum þegar þeim hefur fækkað á þessu ári? 
Hefur útvíkkun á verkefum  fræðslustjóra sem nú er jafnframt yfir öllu íþrótta- og tómstundastarfi, þannig að 70% útgjalda málaflokka eru undir einum manni þegar fjórir skipta hinum 30%, verið til góðs fyrir skólastarfið ?
Sjálfstæðismenn telja mikilvægt að við séum á varðbergi en vonandi er ekki ástæða til að óttast þá greiningarvinnu sem nauðsynlegt er að vinna til að svara þessum spurningum.“
Árni Sigfússon, Böðvar Jónsson, Baldur Þ. Guðmundsson og Magnea Guðmundsdóttir. 

Fundargerðin samþykkt 11-0.

4. Fundargerð velferðarráðs 30. september 2016 (2016020334)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina.  Fundargerðin samþykkt 11-0 án umræðu.

Fleira ekki gert og fundi slitið.