18.04.2017 00:00

520. fundur bæjarstjórnar Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 .þann 18. apríl 2017 kl. 17:00.

Viðstaddir: Árni Sigfússon, Böðvar Jónsson, Baldur Guðmundsson, Elín Rós Bjarnadóttir, Friðjón Einarsson, Guðbrandur Einarsson, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Gunnar Þórarinsson, Kristinn Þór Jakobsson, Helga María Finnbjörnsdóttir, Magnea Guðmundsdóttir, Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri, Hrefna Gunnarsdóttir ritari. Í forsæti var Guðbrandur Einarsson.

1. Fundargerðir bæjarráðs 6. og 12. apríl 2017 (2017010007)
Forseti gaf orðið laust.
Fundargerðirnar samþykktar án umræðu 11-0.

2. Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 11. apríl 2017 (2017010147)
Forseti gaf orðið laust. Til máls tóku Kristinn Þ. Jakobsson, Kjartan Már Kjartansson og Friðjón Einarsson.
Tuttugustu og fimmti liður í fundargerðinni, Trönudalur 1-31 skipulagsbreyting, var tekinn sérstaklega til afgreiðslu og var samþykktur 11-0.
Þrítugasti og fyrsti liður í fundargerðinni, Brautarsel 39, skipting lóðar, var tekinn sérstaklega til afgreiðslu og var samþykktur 11-0.
Þrítugasti og þriðji liður í fundargerðinni, Hafnargata 12, deiliskipulag, var tekinn sérstaklega til afgreiðslu og var samþykktur 11-0.
Þrítugasti og fimmti liður í fundargerðinni, Leirdalur 2-16, skipulagsbreyting, var tekinn sérstaklega til afgreiðslu og var samþykktur 11-0.
Þrítugasti og sjötti liður í fundargerðinni, Dalsbraut 15, skipulagsbreyting, var tekinn sérstaklega til afgreiðslu og var samþykktur 11-0.
Þrítugasti og níundi liður í fundargerðinni, reglur um lóðaúthlutanir, var tekinn sérstaklega til afgreiðslu og var samþykktur 11-0.
Guðný Birna Guðmundsdóttir lýsir sig vanhæfa undir 19. lið.
Fundargerðin samþykkt 11-0 að öðru leyti. 

3. Fundargerð íþrótta- og tómstundaráðs 4. apríl 2017 (2017010209)
Forseti gaf orðið laust. Til máls tók Friðjón Einarsson.
Fundargerðin samþykkt 11-0.

4. Fundargerð stjórnar Reykjaneshafnar 10. apríl 2017 (2017020267)
Forseti gaf orðið laust. Til máls tóku Magnea Guðmundsdóttir, Kjartan Már Kjartansson, Kristinn Þ. Jakobsson, Guðbrandur Einarsson, Friðjón Einarsson og Böðvar Jónsson.

Þriðja mál frá 202. fundi stjórnar Reykjaneshafnar 10. apríl 2017 var tekið sérstaklega fyrir með eftirfarandi bókun:

„Bæjarstjórn Reykjanesbæjar samþykkir hér með að veita einfalda ábyrgð vegna lántöku Reykjaneshafnar hjá Lánasjóði sveitarfélaga að fjárhæð 30.000.000 kr. til 7 ára, í samræmi við samþykkta skilmála lánveitingarinnar sem liggja fyrir fundinum. Ábyrgð þessi er veitt sbr. heimild í 1. mgr. 69. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, og veitir sveitarstjórnin lánasjóðnum veð í tekjum sínum til tryggingar þeirri ábyrgð, sbr. heimild í 2. mgr. 68. gr. sömu laga. Ábyrgðin tekur til greiðslu höfuðstóls láns þessa, ásamt vöxtum og verðbótum auk hvers kyns innheimtukostnaðar. Lánið er tekið til endurfjármögnunar afborgana af lánum Reykjaneshafnar, sem fellur undir lánshæf verkefni, sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006.

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar skuldbindur hér með sveitarfélagið sem eiganda Reykjaneshafnar til að selja ekki eignarhlut sinn í Reykjaneshöfn til einkaaðila, í heild eða að hluta, fram til þess tíma að lán þetta er að fullu greitt.
Fari svo að Reykjanesbær selji eignarhlut í Reykjaneshöfn til annarra opinberra aðila, skuldbindur Reykjanesbær sig til þess að tryggja að samhliða yfirtaki nýr eigandi ábyrgð á láninu í hlutfalli við eignarhlut sinn í félaginu.
Jafnframt er Kjartani Má Kjartanssyni, kennitala ekki birt, veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess að samþykkja f.h. Reykjanesbæjar veitingu ofangreindrar ábyrgðar og veðsetningar og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast veitingu ábyrgðar þessarar.“

Heimildin samþykkt 11-0.
Fundargerðin samþykkt að öðru leyti 11-0.

5. Ársreikningur Reykjanesbæjar og stofnana hans 2016 – fyrri umræða (2017040065)
Ársreikningur lagður fram á fundi.
Forseti gaf Kjartani Má Kjartanssyni orðið. Fór hann yfir ársreikninga Reykjanesbæjar og stofnana hans.
Til máls tóku Friðjón Einarsson, Árni Sigfússon, Kristinn Þ. Jakobsson, Gunnar Þórarinsson, Böðvar Jónsson og Guðbrandur Einarsson.

Bókun sjálfstæðismanna vegna ársreiknings Reykjanesbæjar fyrir árið 2016:

„Uppbyggingarstefna síðustu ára undir forystu Sjálfstæðisflokksins er nú að skila bæjarsjóði stórauknum tekjum. Áhersla þessarar stefnu á uppbyggingu mikilvægra innviða eins og leikskóla, grunnskóla, menningar- íþróttaaðstöðu, gatna, atvinnu- og íbúðarlóða, hefur búið bæinn undir að taka við verulegri aukningu íbúa. Það skilar nú tekjum í bæjarsjóð langt umfram kostnað. Við erum einnig stolt af þeirri áherslu á að hafa stórbætt sjálft leik- og grunnskólastarf, sem hefur skilað skólum Reykjanesbæjar í hóp hinna bestu á landinu.
Þekkt er sú staðreynd að undir forystu sjálfstæðismanna í bæjarstjórn var launakostnaður bæjarins á hvern íbúa einn sá lægsti á meðal sveitarfélaga. Þetta hafði tekist að gera þrátt fyrir hátt þjónustustig. Það er fagnaðarefni að nýjum meirihluta hefur áfram tekist að halda í þessa stefnu og veita gott rekstraraðhald, um leið og haldið er í gott þjónustustig.
Enginn fer í grafgötur með að uppbyggingarstefnan var okkur kostnaðarsöm því lán þurfti til fjárfestinga en brotthvarf varnarliðsins og efnahagshrun voru glímur sem þýddu verulegar tafir í að tekjur stæðu á móti mikilli fjárfestingu. Þessi uppbygging fyrri ára hefur þó leitt til þess að við höfum getað mætt einni mestu fólksfjölgun á landinu án þess að leggja í kostnaðarsamar framkvæmdir á þessu kjörtímabili. Tölur ársreiknings ársins 2016 sýna svo ekki verður um villst að nú hefur atvinnulífið tekið mikinn kipp og atvinnuleysi er í lágmarki. Þannig hafa tekjur bæjarins stóraukist á meðan kostnaður, m.a. af atvinnuleysi og félagslegri þjónustu hefur lækkað verulega.
Skuldaviðmið lækkar hratt og allt útlit fyrir að Reykjanesbær uppfylli kröfur um skuldahlutfall innan ársins 2022 eins og lög gera ráð fyrir. Það mun gerast þrátt fyrir að ekki hafi orðið úr ítrekuðum fullyrðingum og stórfyrirsögnum um að eina leiðin til að standast kröfur ríkisins um ákveðið skuldahlutfall væri að fá milljarða af skuldum bæjarins eða hafnarinnar niðurfellda. Með auknum tekjum erum við nú að standast þessi ríkisviðmið, án skuldaniðurfellinga.
Til hamingju Reykjanesbær.“

Samþykkt 11-0 að vísa ársreikningnum til síðar umræðu 2. maí n.k.

6. Aðlögunaráætlun 2017 – 2022 – síðari umræða (2017030258)
Kjartan Már Kjartansson fór yfir helstu atriði aðlögunaráætlunarinnar.

Bókun meirihlutans með aðlögunaráætlun 2017-2022 lögð fram í bæjarstjórn Reykjanesbæjar þriðjudaginn 18. apríl 2017:

„Sú aðlögunaráætlun sem hér er til seinni umræðu og afgreiðslu, er afrakstur mikillar vinnu sem staðið hefur yfir, allt frá því að nýr meirihluti tók við eftir sveitarstjórnarkosningarnar í maí 2014.
Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga hafði áður krafið Reykjanesbæ um slíka áætlun vegna fjárhagslegrar stöðu sveitarfélagsins og skilaði þáverandi meirihluti sjálfstæðismanna inn aðlögunaráætlun árið 2013. Það kom hins vegar fljótlega í ljós að sú áætlun var ekki raunhæf og stóðst ekki. Því þurfti sveitarfélagið að leggja fram nýja raunhæfa áætlun og hefur vinna við hana og forsendur hennar staðið sleitulaust síðan. Það er sú áætlun sem hér er til afgreiðslu í dag.

Skuldaviðmið niður fyrir 150% árið 2022
Fyrir liggur að Reykjanesbær þarf skv. lögum að hafa náð 150% skuldaviðmiði fyrir árslok 2022 og með þeirri áætlun sem meirihluti Reykjanesbæjar lagði fram undir nafninu „Sóknin“ og kynnt var á íbúafundi þann 29. október 2014 var búinn til einhvers konar vegvísir með hvaða hætti mögulegt væri að uppfylla skilyrði laga fyrir þann tíma. Að ýmsu hefur verið unnið síðan. Margt hefur áunnist en annað verið erfiðara viðureignar, en þó er ljóst að með þessari áætlun er verið að ná því markmiði sem að var stefnt þ.e. að standast skilyrði laga.

Árangur í rekstri
Verulegur árangur hefur náðst í rekstri sveitarfélagsins, tekjur hafa verið að aukast verulega en með aðhaldssemi hefur böndum verið komið á aukningu útgjalda sem eru í samræmi við það sem að var stefnt. Við öll, íbúar Reykjanesbæjar, tókum á okkur auknar álögur með hækkuðu útsvari, en það mun verða fært til fyrra horfs um næstu áramót. Það sem mestan tíma hefur tekið eru „viðræður við kröfuhafa“ en stærstur hluti skuldavandans er til komin vegna fjárhagslegrar stöðu Reykjaneshafnar og leiguskuldbindinga við Fasteign sem aukist hafa verulega frá árinu 2003.
Í upphafi var óskað eftir niðurfærslu skulda en á það var ekki fallist og því þurfti að leita annarra leiða sem myndu leiða til samsvarandi niðurstöðu. Með endurfjármögnun og vaxtalækkun skulda Reykjaneshafnar er hægt að ná fram 1,3 milljarða lækkun á skuldum á tímabilinu.
Þá mun fyrirkomulagi leigusamninga við Fasteign verða breytt sem mun skila 2,2 milljarða lækkun leiguskuldbindinga. Jafnframt verður Fasteignum Reykjanesbæjar, sem halda utan um félagslega húsnæðiskerfið, breytt í húsnæðissjálfseignarstofnun, eins og heimilt er skv. nýjum lögum um almennar íbúðir. Það mun lækka skuldbindingar Reykjanesbæjar um 6,1 milljarð á tímabilinu.
Ýmsar minni aðgerðir eru einnig fyrirhugaðar til viðbótar þessu sem hér er tilgreint.

Tekjuauki hefur einnig útgjöld í för með sér
Sá tekjuauki sem er að verða vegna fjölgunar íbúa mun að sjálfsögðu hafa áhrif á skuldaviðmið til lækkunar en slíkri fjölgun íbúa fylgja einnig verulegar fjárfestingar í innviðum, sem hafa áhrif á skuldaviðmið í hina áttina.
Nú liggur fyrir að ráðist verður í byggingu nýs grunnskóla í Dalshverfi II og sú mikla fjölgun sem er að eiga sér stað í Ásbrú kallar að sjálfsögðu á aukna fjárfestingu og aukin útgjöld. Þá verður að gera ráð fyrir að fyrirhuguð uppbygging í Hlíðarhverfi hafi í för með sér auknar fjárfestingar og verulegan útgjaldaauka.

Óvissa framundan
Það er ljóst að framundan er mikil vinna og að sumu leyti óvissa um tekjur og gjöld og nauðsynlegt er að vera á varðbergi gagnvart þeim miklu breytingum sem hér eru að eiga sér stað í náinni framtíð. Sú aðlögunaráætlun sem hér liggur fyrir hefur verið kynnt fyrir Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga og fleiri aðilum sem hagsmuna eiga að gæta án athugasemda.

Meirihlutinn vill að lokum þakka öllum þeim sem komu að þessari vinnu fyrir þeirra framlag, starfsmönnum sveitarfélagsins, ráðgjöfum, öðrum bæjarfulltrúum og nefndarmönnum.“

Aðlögunaráætlun 2017-2022 samþykkt 11-0 án umræðu.


Fleira ekki gert og fundi slitið.