07.11.2017 00:00

531. fundur bæjarstjórnar Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 7. nóvember 2017 kl. 17:00.

Viðstaddir: Árni Sigfússon, Baldur Guðmundsson, Böðvar Jónsson, Elín Rós Bjarnadóttir, Friðjón Einarsson, Guðbrandur Einarsson, Eysteinn Eyjólfsson, Gunnar Þórarinsson
Kolbrún Jóna Pétursdóttir, Kristinn Þór Jakobsson, Ingigerður Sæmundsdóttir, Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri og Hrefna Gunnarsdóttir ritari. Í forsæti var Guðbrandur Einarsson.

1. Fundargerðir bæjarráðs 19. og 26. október og 2. nóvember 2017 (2017010007)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðirnar. Til máls tóku Eysteinn Eyjólfsson, Elín Rós Bjarnadóttir og Kjartan Már Kjartansson.

Samþykkt var frá bæjarstjórn eftirfarandi bókun:
„Í kjölfar bilunar í flutningskerfi Landsnets sunnudagskvöldið 5. nóv. sl. ítrekar bæjarstjórn Reykjanesbæjar bókun sem gerð var á aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum 2016 en þar var skorað á ráðherra að beita sér fyrir öryggi í raforkumálum á Suðurnesjum.

Mikilvægt er að Suðurnesjalína 2 verði reist sem fyrst. Flutningsgeta núverandi línu er fullnýtt og hamlar núverandi kerfi uppbyggingu á svæðinu. Suðurnesjalína 1 er eina tenging Reykjanesskagans við meginflutningskerfi Landsnets og hafa bilanir á henni valdið straumleysi. Það er ekki ásættanlegt m.a. með tilliti til þess að eini alþjóðaflugvöllur landsins er staðsettur á Suðurnesjum.

Mikið álag veldur enn frekari hættu á truflunum á raforkuflutningum, sem og getur valdið tjóni hjá notendum. Það er brýnt hagsmunamál íbúa og atvinnulífs á Reykjanesi að flutningskerfi raforku verði styrkt sem fyrst.“

Fundargerðirnar samþykktar 11-0.

2. Fundargerð barnaverndarnefndar 16. október 2017 (2017010280)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Fundargerðin lögð fram án umræðu.

3. Fundargerð velferðarráðs 23. október 2017 (2017020056)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Fundargerðin samþykkt 11-0 án umræðu.

4. Fundargerð stjórnar Reykjaneshafnar 26. október 2017 (2017020267)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tók Friðjón Einarsson

Annar töluliður fundargerðarinnar er tekinn sérstaklega fyrir til samþykktar:

„Bæjarstjórn Reykjanesbæjar skuldbindur hér með sveitarfélagið sem eiganda Reykjaneshafnar til að selja ekki eignarhlut sinn í Reykjaneshöfn til einkaaðila, í heild eða að hluta, fram til þess tíma að lán þetta er að fullu greitt.
Fari svo að Reykjanesbær selji eignarhlut í Reykjaneshöfn til annarra opinberra aðila, skuldbindur Reykjanesbær sig til þess að tryggja að samhliða yfirtaki nýr eigandi ábyrgð á láninu í hlutfalli við eignarhlut sinn í félaginu.
Jafnframt er Kjartani Má Kjartanssyni, kennitala ekki birt, veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess að samþykkja f.h. Reykjanesbæjar veitingu ofangreindrar ábyrgðar og veðsetningar og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast veitingu ábyrgðar þessarar.“

Heimildin samþykkt 11-0.

Samþykkt að vísa þriðja lið fundargerðarinnar Viðaukaáætlun við fjárhagsáætlun 2017 (2016100197) til bæjarráðs. Samþykkt 11-0.

Fundargerðin samþykkt að öðru leyti 11-0.

5. Fundargerð fræðsluráðs 27. október 2017 (2017010198)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Fundargerðin samþykkt 11-0 án umræðu.

6. Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar og sameiginlega rekinna stofnana 2018 - 2022 - fyrri umræða (2017050361)
Forseti gaf orðið laust um fjárhagsáætlunina. Til máls tók Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri er fylgdi áætluninni úr hlaði.
Til máls tók Gunnar Þórarinsson er lagði fram eftirfarandi bókun meirihluta bæjarstjórnar, bæjarfulltrúa Beinnar leiðar, Frjáls afls og Samfylkingar og óháðra í bæjarstjórn:

„Fjárhagsáætlun fyrir árið 2018 ber þess merki að sveitarfélagið þarf að undirgangast skilyrði aðlögunaráætlunar um framlegð og lækkun skuldahlutfalls. Þessi aðlögunaráætlun er í gildi til 2022 og mikilvægt að eftir henni sé farið, til þess að Reykjanesbær öðlist á ný það fjárhagslega sjálfstæði sem nauðsynlegt er og geti veitt þá þjónustu sem ætlast er til. Mikil íbúafjölgun hefur reynt á sveitarfélagið sem hefur lögbundnar skyldur þrátt fyrir erfiða fjárhagslega stöðu. Þrátt fyrir þessar áskoranir þá koma ýmis mikilvæg atriði fram í þessari fjárhagsáætlun sem hafa munu jákvæð áhrif á hag íbúa á næsta ári.

Frá 1. janúar mun útsvar verða lækkað úr 15,05% í 14,52% eins og meirihluti bæjarstjórnar hafði boðað. Með því að greiða hærra útsvar hafa íbúar lagt sitt af mörkum til að gera sveitarfélaginu kleift að ná því markmiði að skuldir verði innan lögboðinna marka í lok ársins 2022. Þá hefur einnig verið tekin ákvörðun um að lækka fasteignaskatt úr 0,5% í 0,48% til þess að minnka álögur á íbúa vegna þeirrar hækkunar á fasteignamati sem orðin er.

Til þess að standa við þann málefnasamning sem núverandi meirihlutasamstarf byggir á eru hvatagreiðslur hækkaðar. Þær voru kr. 7.000.- í upphafi kjörtímabils, hafa hækkað um kr. 7.000 á ári og verða nú kr. 28.000.-. Þá hefur verið tekin ákvörðun um að hækka þjálfarastyrki til íþróttafélaga um kr. 6.000.000.- til þess auðvelda þeim að ráða til sín menntaða þjálfara og styrkja það forvarnarstarf sem unnið er af hálfu íþróttafélaganna. Þá verða einnig veittir fjármunir til þess að taka á leigu húsnæði sem hýsa mun allar bardagaíþróttir á einum stað. Þá var einnig ýmsum velferðarmálum hrint af stað á þessu ári s.s. afsláttur systkina milli skólastiga og gjaldfrjáls ritföng í skólum.

Meirihluti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar lítur svo á að með þessari fjárhagsáætlun sem er sú síðasta á þessu kjörtímabili hafi verið staðið við öll þau fyrirheit sem gefin voru í málefnasamningi núverandi meirihluta. Við erum að horfa fram á bjartari tíma en við þurftum að horfast í augu við árið 2014 og því mikilvægt að halda áfram á þeirri vegferð sem farin hefur verið undangengin ár. Meirihlutinn vill þakka starfsmönnum sveitarfélagsins og öðrum bæjarfulltrúum fyrir samstarfið við gerð þessarar fjárhagsáætlunar.“

Til máls tóku Árni Sigfússon, Kristinn Þ. Jakobsson, Friðjón Einarsson, Guðbrandur Einarsson, Elín Rós Bjarnadóttir og Kjartan Már Kjartansson.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18:10.