05.12.2017 00:00

533. fundur bæjarstjórnar Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 5. desember 2017 kl. 17:00.

Viðstaddir: Böðvar Jónsson, Elín Rós Bjarnadóttir, Friðjón Einarsson, Guðbrandur Einarsson, Gunnar Þórarinsson, Kolbrún Jóna Pétursdóttir, Kristinn Þór Jakobsson, Ingigerður Sæmundsdóttir, Jóhann S. Sigurbergsson, Ísak Ernir Kristinsson, Eysteinn Eyjólfsson, Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri, Hrefna Gunnarsdóttir, ritari. Í forsæti var Guðbrandur Einarsson.

1. Fundargerðir bæjarráðs 23. og 30. nóvember 2017 (2017010007)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðirnar. Til máls tóku Kjartan Már Kjartansson og Ingigerður Sæmundsdóttir. Fundargerðirnar samþykktar 11-0.

2. Fundargerð barnaverndarnefndar 20. nóvember 2017 (2017010280)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Fundargerðin lögð fram án umræðu.

3. Fundargerð velferðarráðs 27. nóvember 2017 (2017020056)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Ísak Ernir Kristinsson, Kristinn Þ. Jakobsson, Ingigerður Sæmundsdóttir, Kjartan Már Kjartansson og Friðjón Einarsson.
Fundargerðin samþykkt 9-0. Jóhann S. Sigurbergsson og Kristinn Þ. Jakobsson greiddu ekki atkvæði.

4. Fundargerð stjórnar Reykjaneshafnar 28. nóvember 2017 (2017020267)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Fundargerðin samþykkt án umræðu 11-0.

5. Kosning annars varaforseta í bæjarstjórn (2017110384)
Tillaga kom um Ingigerði Sæmundsdóttur sem annan varaforseta bæjarstjórnar og var hún sjálfkjörin.

6. Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar og sameiginlega rekinna stofnana 2018 - 2022 - síðari umræða (2017050361)
Forseti gaf orðið laust um fjárhagsáætlunina. Til máls tók Kjartan Már Kjartansson er fór yfir helstu liði fjárhagsáætlunarinnar.
Til máls tók Böðvar Jónsson og lagði fram eftirfarandi bókun bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins við afgreiðslu fjárhagsáætlunar 2018 til 2022:

„Fjárhagsáætlun er nú lögð fram í síðasta skipti á þessu kjörtímabili. Hagfelld þróun efnahagsmála, minnkun atvinnuleysis og hækkun atvinnutekna bæjarbúa hafa leitt til þess að árlegar tekjur bæjarsjóðs hafa hækkað um tæp 40% á milli áranna 2014 og 2017, eða um 3700 milljónir króna á ársgrundvelli.
Þá hefur aðhaldssamur rekstur auk lækkandi kostnaðar m.a. vegna fjárhagsaðstoðar og húsaleigubóta leitt til þess að rekstrargjöld hafa vaxið hægar en tekjur.
Aukaálag á útsvar hefur nú verið lagt á þrjú ár í röð. Um það var full sátt í bæjarstjórn. Á sama hátt er það sameiginleg niðurstaða allra bæjarfulltrúa að lækka nú útsvar niður í hefðbundið hámark. Auk þess var góð sátt um þá skoðun bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að lækka skattprósentu fasteignaskatts að hluta á móti hækkun fasteignamats.
Vegna ákvörðunar um lækkun útsvars nú um áramótin þá hækka tekjur mun minna en gjöld á milli áranna 2017 og 2018. Tekjuspá næstu ára er varfærin og þarf að gæta þess að sú varfærni dragi ekki um of úr getu sveitarfélagsins til að veita íbúum góða þjónustu. Þannig má benda á að íbúafjölgun verður að öllum líkindum mun meiri en spáin gerir ráð fyrir og skatttekjur og framlög frá Jöfnunarsjóði eru væntanlega talsvert of lág. Fjölgun íbúa fylgir þó einnig nokkur útgjaldaauki.
Talsverðar breytingar eru gerðar á efnahagsreikningi sem leiðir til tímabundinnar lækkunar á skuldum samstæðunnar en hækkunar á skuldum bæjarsjóðs. Flestar eru þessar breytingar jákvæðar. Ekki varð af neinum skuldaniðurfellingum í viðræðum við kröfuhafa eins og meirihluti bæjarstjórnar stefndi að í upphafi kjörtímabils þó nokkur árangur hafi náðst með lækkun vaxta. Mikil vonbrigði fylgja þó samningum við ríkissjóð og ríkisbankana um endurskipulagningu Fasteignar hf. en þar eru vaxtakjör sveitarfélaginu óhagfelld ef borið er saman við vaxtakjör okkar hjá Lánasjóði sveitarfélaga. Það er dapurt að hæstu vextir sem sveitarfélagið er krafið um vegna skulda sinna sé af hálfu ríkisins.
Mikill kostnaður hefur fylgt þeirri vinnu sem viðræður við kröfuhafa hefur kallað á og staðið hefur yfir í rúm þrjú ár. Afar mikilvægt er að kostnaður vegna þeirrar vinnu verði endurgreiddur að fullu frá Jöfnunarsjóði eins og rætt hefur verið um. Að öðrum kosti hefur ekki verið til mikils unnið.
Fjárhagsáætlun 2018-2022 hefur verið unnin í góðri sátt allra bæjarfulltrúa. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins munu því samþykkja fyrirliggjandi áætlun eins og þeir hafa gert allt þetta kjörtímabil. Er það merki um góða samvinnu en um leið ábyrga afstöðu allra bæjarfulltrúa, jafnvel þó að þeir tilheyri minnihluta bæjarstjórnar. Má geta þess að fyrir þetta kjörtímabil hafði fjárhagsáætlun aðeins einu sinni áður verið samþykkt samhljóða í bæjarstjórn Reykjanesbæjar.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í bæjarráði höfðu ákveðnar áherslur í þessari fjárhagsáætlunargerð og fengu flestar þeirra jákvæða meðhöndlun við gerð áætlunarinnar. Eitt af því fáa sem ekki náðist samstaða um er gjaldfrjáls aðgangur barna að strætó. Það er leitt hvað meirihlutinn hefur verið eindreginn í þeirri ákvörðun sinni að rukka börn um aðgang að almenningssamgöngum sérstaklega í ljósi þess hvað það skilar bæjarfélaginu litlum tekjum. Hafa fulltrúar Sjálfstæðisflokksins ítrekað bókað vegna þessarar ákvörðunar. Að öðru leyti hafa fá ágreiningsmál komið upp við afgreiðslu þessarar fjárhagsáætlunar.
Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins þakka bæjarstjóra, starfsmönnum sveitarfélagsins og bæjarfulltrúum öllum fyrir vel unnin störf og gott samstarf um gerð fjárhagsáætlunar.“

Til máls tóku Kristinn Þ. Jakobsson, Gunnar Þórarinsson, Friðjón Einarsson, Böðvar Jónsson, Guðbrandur Einarsson, Eysteinn Eyjólfsson og Ísak Ernir Kristinsson.

Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar og sameiginlega rekinna stofnanna 2018 - 2022 samþykkt 11-0.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18:40.