534. fundur

19.12.2017 00:00

534. fundur bæjarstjórnar Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 19. desember 2017 kl. 17:00.

Viðstaddir: Árni Sigfússon, Baldur Þ. Guðmundsson, Böðvar Jónsson, Alexander Ragnarsson, Friðjón Einarsson, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Guðbrandur Einarsson, Davíð Páll Viðarsson, Kolbrún Jóna Pétursdóttir, Kristinn Þór Jakobsson, Ingigerður Sæmundsdóttir, Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri, Hrefna Gunnarsdóttir ritari. Í forsæti var Guðbrandur Einarsson.

1. Fundargerðir bæjarráðs 7. og 14. desember 2017 (2017010007)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðirnar. Til máls tók Guðbrandur Einarsson og lagði fram tvær bókanir allrar bæjarstjórnarinnar. Fyrsta bókunin er eftirfarandi og er áskorun á ríkisstjórn og Alþingi :

„Reykjanesbær stendur frammi fyrir miklum áskorunum við að tryggja þjónustu við ört fjölgandi íbúa á sama tíma og sveitarfélagið vinnur eftir samþykktri aðlögunaráætlun. Íbúafjölgun í Reykjanesbæ hefur verið langt umfram fjölgun íbúa á landinu öllu. Frá árinu 2014 hefur íbúum bæjarins fjölgað um 26% en fjölgun íbúa á landinu öllu er um 4%. Samhliða fordæmalausri íbúafjölgun í Reykjanesbæ hafa fjárframlög ríkisins til svæðisins ekki verið aukin í takt við hana með þeim afleiðingum að fjárframlög á hvern íbúa hafa dregist verulega saman. Í áætlanagerð ríkisins virðist ekki hafa verið tekið eðlilegt tillit til þess hversu langt yfir meðaltali fjölgunin á svæðinu er og því stendur svæðið langt að baki öðrum svæðum þegar kemur að fjárframlögum til opinberrar þjónustu.

Á undanförnum árum hafa fjárframlög ríkisins til opinberra stofnana verið mun lægri en á öðrum landssvæðum, sérstaklega þegar horft er til framlaga á hvern íbúa. Þetta var enn á ný staðfest í úttekt sem bæjarstjórn Reykjanesbæjar lét vinna fyrir sig á fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2018 sem lagt var fram í september. Skoðun á fjárlagafrumvarpi nýrrar ríkisstjórnar bendir ekki til þess að miklar breytingar hafi verið gerðar á fjárframlögum til þeirra mála sem tengjast Suðurnesjum.

Fjölgun íbúa og minna atvinnuleysi vegna mikilla umsvifa á svæðinu skilar meiri tekjum til svæðisins en kallar líka á auknar fjárveitingar sveitarfélagsins svo hægt sé að takast á við þennan mikla uppgang og fordæmalausu fjölgun af ábyrgð. Nefna má að vöxtur í flugsamgöngum kallar á aukna þörf á landamæravörslu og löggæslu. Fjölgun íbúa og ferðamanna hefur einnig í för með sér aukið álag á heilsugæsluna á svæðinu, kallar á mikla uppbyggingu í samgöngum, fjölgun grunnskólanemenda hefur í för með sér aukið álag á skólakerfið og svo mætti áfram telja. Á sama tíma og sveitarfélagið hefur staðið frammi fyrir þessum miklu áskorunum hafa framlög ríkisins samt almennt verið lægri en til sambærilegra verkefna í öðrum landshlutum. Ljóst er að hið opinbera verður að styðja við þennan uppgang ef ekki á að stefna í óefni.

Á undanförnum mánuðum hafa fulltrúar sveitastjórnanna og opinberra stofnana á Suðurnesjum leitað skýringa á þessu í Stjórnarráðinu og verið tekið ágætlega. Bæjarstjórn Reykjanesbæjar skorar á ríkisstjórn og Alþingi að auka fjárframlög til opinberra stofnana á Suðurnesjum þannig að íbúar á svæðinu njóti sömu fjárframlaga og íbúar í öðrum landshlutum.“

Undir þetta rita allir bæjarfulltrúar Reykjanesbæjar: Árni Sigfússon, Baldur Þ. Guðmundsson, Böðvar Jónsson, Alexander Ragnarsson, Friðjón Einarsson, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Guðbrandur Einarsson, Davíð Páll Viðarsson, Kolbrún Jóna Pétursdóttir, Kristinn Þór Jakobsson og Ingigerður Sæmundsdóttir.

Seinni bókunin er um aðgerðir gegn einelti, kynbundinni og kynferðislegri áreitni og er eftirfarandi:

„Í ljósi þeirrar mikilvægu umræðu sem átt hefur sér stað í samfélaginu undanfarin misseri þar sem fjöldi kvenna hefur stigið fram og lýst reynslu sinni undir myllumerkinu #metoo vilja bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ árétta og renna styrkari stoðum undir þá afdráttarlausu stefnu að kynbundin og kynferðisleg áreitni eða ofbeldi af nokkru tagi er ekki liðin á vinnustöðum sveitarfélagsins.

Í starfsmannastefnu Reykjanesbæjar segir:

„Traust og virðing er undirstaða samskipta milli starfsmanna, starfsmanna og kjörinna fulltrúa sem og milli starfsmanna og íbúa. Samskipti sem með orðum, látbragði eða atferli, ógna, trufla eða ögra öðrum á vinnustaðnum eru óásættanleg. Leggi starfsmaður annan samstarfsmann í einelti eða sýnir honum kynferðislega áreitni, telst sá hinn sami vera að brjóta grundvallarreglur samskipta á vinnustað. Slíkt getur leitt til áminningar og brottreksturs úr starfi.“

Einelti, ofbeldi, kynbundin eða kynferðisleg áreitni er ekki undir neinum kringumstæðum liðin á vinnustöðum Reykjanesbæjar.

Við skilgreiningu á hvað einelti, kynbundin og kynferðisleg áreitni er, er stuðst við reglugerð nr. 1000/2004 en þar segir í 3. og 4. gr.:

Kynbundin áreitni: Hvers kyns ósanngjörn og/eða móðgandi hegðun, sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk og hefur áhrif á sjálfsvirðingu þess sem fyrir henni verður og er haldið áfram þrátt fyrir að gefið sé skýrt í skyn að hegðunin sé óvelkomin. Áreitnin getur verið líkamleg, orðbundin eða táknræn. Eitt tilvik getur talist kynbundin áreitni ef það er alvarlegt.

Kynferðisleg áreitni: Hvers kyns ósanngjörn og/eða móðgandi kynferðisleg hegðun sem er í óþökk og hefur áhrif á sjálfsvirðingu þess sem fyrir henni verður og er haldið áfram þrátt fyrir að gefið sé skýrt í skyn að hegðunin sé óvelkomin. Áreitnin getur verið líkamleg, orðbundin eða táknræn. Eitt tilvik getur talist kynferðisleg áreitni ef það er alvarlegt.

Ábyrgð Reykjanesbæjar sem vinnuveitanda nálægt eitt þúsund einstaklinga er afar rík. Leggja bæjaryfirvöld því ríka áherslu á að stjórnendur í sveitarfélaginu fái þjálfun og aðstoð við að greina og koma með kerfisbundnum hætti í veg fyrir kynferðislega og kynbundna áreitni í sínu nærumhverfi. Hverskyns þöggun eða afneitun gagnvart þessu málefni verður ekki liðin og bera stjórnendur, bæjaryfirvöld og aðrir þeir sem kunna að verða varir við framkomu af þessu tagi sameiginlega ábyrgð á að uppræta hana.“

Undir þetta rita allir bæjarfulltrúar Reykjanesbæjar: Árni Sigfússon, Baldur Þ. Guðmundsson, Böðvar Jónsson, Alexander Ragnarsson, Friðjón Einarsson, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Guðbrandur Einarsson, Davíð Páll Viðarsson, Kolbrún Jóna Pétursdóttir, Kristinn Þór Jakobsson og Ingigerður Sæmundsdóttir.
Til máls tóku Friðjón Einarsson, Kristinn Þ. Jakobsson og Böðvar Jónsson.
Fundargerðirnar samþykktar 11-0.

2. Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 12. desember 2017 (2017010147)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina.
Sjötti liður fundargerðarinnar, Deiliskipulagstillaga – Aðalgata 60 og 62 (2017100050), var samþykktur sérstaklega með 11 atkvæðum.
Sjöundi liður fundargerðarinnar, Deiliskipulagstillaga- Leirdalur 7-21 (2016060374), var samþykktur sérstaklega með 11 atkvæðum.
Tólfti liður fundargerðarinnar, HS Orka – Breyting á deiliskipulagi (2016010529), var samþykktur sérstaklega með 11 atkvæðum.
Sextándi liður fundargerðarinnar, Dalsbraut 8 – Fyrirspurn um fjölgun íbúða (2017120071), var samþykktur sérstaklega með 11 atkvæðum.
Sautjándi liður fundargerðarinnar, Borgarvegur 5 – Breyting á bílskúr (2017120070), var samþykktur sérstaklega með 11 atkvæðum.
Átjándi liður fundargerðarinnar, Klettatröð 8 og 10- Breyting á aðalskipulagi (2017110118), var samþykkt að vísa aftur til ráðsins.
Tuttugasti og fyrsti liður fundargerðarinnar, Vitabraut 1 og 1a- Deiliskipulag (2017120074), var samþykktur sérstaklega með 11 atkvæðum.
Fundargerðin samþykkt að öðru leyti 11-0 án umræðu.

3. Fundargerð fræðsluráðs 24. nóvember 2017 (2017010198)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Alexander Ragnarsson, Baldur Guðmundsson, Kristinn Þ. Jakobsson og Guðný Birna Guðmundsdóttir. Fundargerðin samþykkt 11-0.

4. Fundargerð íþrótta- og tómstundaráðs 5. desember 2017 (2017010209)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Fundargerðin samþykkt án umræðu 11-0.

5. Fundargerð velferðarráðs 6. desember 2017 (2017020056)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Baldur Guðmundsson, Kristinn Þ. Jakobsson, Friðjón Einarsson, Kjartan Már Kjartansson, Guðbrandur Einarsson, Guðný Birna Guðmundsdóttir og Böðvar Jónsson. Fundargerðin samþykkt 11-0.

6. Fundargerð barnaverndarnefndar 11. desember 2017 (2017010280)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Fundargerðin lögð fram án umræðu.

7. Fundargerð menningaráðs 14. desember 2017 (2017010176)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tók Baldur Guðmundsson Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18:15.