08.05.2018 00:00

543. fundur bæjarstjórnar Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 8. maí 2018 kl. 17:00.

Viðstaddir: Árni Sigfússon, Baldur Guðmundsson, Böðvar Jónsson, Elín Rós Bjarnadóttir, Friðjón Einarsson, Guðbrandur Einarsson, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Gunnar Þórarinsson, Ingigerður Sæmundsdóttir, Kolbrún Jóna Pétursdóttir, Kristinn Þór Jakobsson, Kjartan Már Kjartansson bæjarstóri, Hrefna Gunnarsdóttir ritari. Í forsæti var Guðbrandur Einarsson.

1. Fundargerðir bæjarráðs 18, 26. apríl og 3. maí 2018 (2018010002)

Forseti gaf orðið laust. Til máls tóku Böðvar Jónsson,Guðbrandur Einarsson og Kjartan Már Kjartansson.

Fundargerðirnar samþykktar 11-0.

2. Fundargerð velferðarráðs 17. apríl 2018 (2018010214)

Forseti gaf orðið laust.

Fundargerðin samþykkt án umræðu 11-0.

3. Fundargerð barnaverndarnefndar 23. apríl 2018 (2018010344)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Fundargerðin lögð fram án umræðu.

4. Fundargerð stjórnar Reykjaneshafnar 24. apríl 2018 (2018010352)

Annað mál frá 216. fundi stjórnar Reykjaneshafnar 24. apríl 2018 var tekið sérstaklega fyrir með eftirfarandi bókun: 

„Bæjarstjórn Reykjanesbæjar samþykkir hér með að veita einfalda ábyrgð vegna lántöku Reykjaneshafnar hjá Lánasjóði sveitarfélaga að fjárhæð 30.000.000 kr. til 6 ára, í samræmi við samþykkta skilmála lánveitingarinnar sem liggja fyrir fundinum. Ábyrgð þessi er veitt sbr. heimild í 1. mgr. 69. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, og veitir sveitarstjórnin lánasjóðnum veð í tekjum sínum til tryggingar þeirri ábyrgð, sbr. heimild í 2. mgr. 68. gr. sömu laga. Ábyrgðin tekur til greiðslu höfuðstóls láns þessa, ásamt vöxtum og verðbótum auk hvers kyns innheimtukostnaðar. Lánið er tekið til endurfjármögnunar afborgana af lánum Reykjaneshafnar, sem fellur undir lánshæf verkefni, sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006.

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar skuldbindur hér með sveitarfélagið sem eiganda Reykjaneshafnar til að selja ekki eignarhlut sinn í Reykjaneshöfn til einkaaðila, í heild eða að hluta, fram til þess tíma að lán þetta er að fullu greitt.

Fari svo að Reykjanesbær selji eignarhlut í Reykjaneshöfn til annarra opinberra aðila, skuldbindur Reykjanesbær sig til þess að tryggja að samhliða yfirtaki nýr eigandi ábyrgð á láninu í hlutfalli við eignarhlut sinn í félaginu.

Jafnframt er Kjartani Má Kjartanssyni, kennitala ekki birt, veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess að samþykkja f.h. Reykjanesbæjar veitingu ofangreindrar ábyrgðar og veðsetningar og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast veitingu ábyrgðar þessarar.“

Heimildin samþykkt 11-0.

Forseti gaf orðið laust.

Fundargerðin samþykkt að öðru leyti án umræðu 11-0.

5. Fundargerð fræðsluráðs 4. maí 2018 (2018010213)

Forseti gaf orðið laust.

Fundargerðin samþykkt án umræðu 11-0.

6. Verklagsreglur og stefna Reykjanesbæjar í skjalamálum - seinni umræða (2018040132)

Forseti gaf orðið laust.

Stefnan samþykkt án umræðu 11-0.

7. Ársreikningur Reykjanesbæjar og stofnana hans – seinni umræða (2018040133) 

Forseti gaf Kjartani Má Kjartanssyni bæjarstjóra orðið þar sem hann fór yfir þær breytingar sem gerðar hafa verið á ársreikningi frá fyrri umræðu.

Til máls tók Guðbrandur Einarsson og lagði fram eftirfarandi bókun meirihluta bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, Samfylkingar, Frjáls Afls og Beinnar Leiðar:

„Ársreikningur Reykjanesbæjar 2017 sýnir að útsvarstekjur aukast verulega á milli ára m.a. vegna aukins íbúafjölda, skuldir og skuldbindingar eru að lækka og afgangur af reglubundnum rekstri hefur aldrei verið meiri.

Samkvæmt rekstrarreikningi A-hluta bæjarsjóðs nam afgangur af rekstri 1.206 milljónum króna.

Rekstrarniðurstaða fyrir fjármunatekjur og fjármagnsgjöld nam 2.1 milljarði króna. Eigið fé bæjarsjóðs í árslok 2017 nam 5 milljörðum króna og er eiginfjárhlutfallið nú 15,3%. Heildarskuldir og skuldbindingar bæjarsjóðs nema rúmum 28 milljörðum króna og er skuldaviðmið bæjarsjóðs 157,77%.

Samkvæmt rekstrarreikningi samstæðu var afgangur af rekstri kr. 1.305 milljónir.

Rekstrarniðurstaða fyrir fjármunatekjur og fjármagnsgjöld var 3,7 milljarðar króna. Eigið fé samstæðu A og B hluta í árslok 2017 var tæpir 14.2 milljarðar og er eiginfjárhlutfallið 24,7%.Heildarskuldir og skuldbindingar samstæðu A og B hluta nema 43 milljörðum króna og lækka á milli ára. Skuldaviðmið samstæðu fer úr 208,5% í 185,74%.

Á árinu 2017 var framlegð aukin m.a. með auknum skatttekjum sem og hagræðingu í rekstri og samkvæmt ársreikningi er hún 18,63% í bæjarsjóði og 24,26% í samstæðu.

Allt þetta kjörtímabil hefur verið unnið eftir Sókninni eins og ákveðið var að gera við upphaf þess. Það er að skila þeim árangri að sveitarfélagið nær að uppfylla þau skilyrði sem það undirgekkst í svokallaðri aðlögunaráætlun fyrir árin 2017 til 2022 en þar er gert ráð fyrir að Reykjanesbær nái 150% skuldaviðmiði fyrir árslok 2022.

Við erum á réttri leið og mikilvægt að áfram verði haldið á sömu braut. Það mun skila tilætluðum árangri.“

Guðbrandur Einarsson, Friðjón Einarsson, Gunnar Þórarinsson, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Elín Rós Bjarnadóttir, Kolbrún Jóna Pétursdóttir.

 Til máls tók Baldur Guðmundsson og lagði fram eftirfarandi bókun bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks Reykjanesbæjar:

„Reykjanesbær stendur á krossgötum. Samfelld fólksfjölgun svo mörg ár í röð á sér engin fordæmi og hefur okkur tekist að taka á móti þessum mikla fjölda fólks þar sem mörg svæði voru tilbúin undir nýbyggingar. Húsnæði á Ásbrú og víðar stóð lengi ónotað en nú er allt að verða að fullu nýtt. Þessar hagstæðu ytri aðstæður má fyrst og fremst þakka hinni miklu fjölgun ferðamanna og þann gríðarlega vöxt sem hefur átt sér stað í starfsmannahaldi flugstöðvarinnar.

Ársreikningur Reykjanesbæjar fyrir 2017 endurspeglar þessi miklu umsvif á svæðinu og ánægjulegu tíðindin eru þau að tekjur voru vanáætlaðar um nánast sömu tölu og rekstrarniðurstaða reikningsins sýnir. Skatttekjur voru þannig 13% umfram áætlun og jukust um 21% milli ára sem er vel og er framlegðin nú ríflega 18% og hefur ekki verið jafngóð síðan 2011. Launakostnaður jókst að sama skapi um 20% sem helgast af kjarasamningum og fjölgun stöðugilda m.a. á bæjarskrifstofum.

Langri lotu fjárhagslegrar endurskipulagningar lauk í byrjun þessa árs og hefur endurfjármögnun skulda skilað sér í lægri fjármagnskostnaði. Lækkunin nemur um 400 milljónum króna sem fer nálægt þeirri fjárhæð sem bærinn hefur greitt í ráðgjafakostnað við endurskipulagningu fjármálanna. Ekki tókst að fá niðurfellingu skulda í þessu ferli eins og lagt var upp með en ákveðnar eignir sem ekki gegna lögbundnu hlutverki voru settar í sér félag og eru núna í söluferli. Sú aðgerð er tímabundin ráðstöfun og leggja bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins áherslu á að ljúka uppgjöri á málum tengdum Fork sjóðnum svo koma megi í veg fyrir sölu mikilvægra eigna á borð við Hljómahöllina, íþróttaakademíuna eða 88 húsið sem eru okkur mikilvægar til að viðhalda fjölbreyttu og líflegu samfélagi fyrir íbúana.

Lítið hefur verið fjárfest í innviðum samfélagsins á yfirstandandi kjörtímabili og allt útlit er fyrir að bygging Stapaskóla muni tefjast um eitt ár sem er miður. Til að mæta fyrirsjáanlegri áframhaldandi fjölgun íbúa sem kemur fram í húsnæðisáætlun Reykjanesbæjar verður að huga að endurbættu aðalskipulagi bæjarins og gera ráð fyrir nýjum íbúahverfum í náinni framtíð.

Við fögnum því að fjárhagur Reykjanesbæjar sé að vænkast og bíðum spennt eftir að takast á við hin krefjandi verkefni sem bíða nýrrar bæjarstjórnar. Hér er samfélagið í örum vexti og hér eru mýmörg tækifæri til að vinna úr.“

Árni Sigfússon, Böðvar Jónsson, Baldur Guðmundsson ogIngigerður Sæmundsdóttir.

Til máls tóku Guðbrandur Einarsson, Kjartan Már Kjartansson, Kristinn Þ. Jakobsson, Friðjón Einarsson, Árni Sigfússon og Gunnar Þórarinsson.

Ársreikningur 2017 samþykktur 11-0.

Fleira ekki gert og fundi slitið.