553. fundur

06.11.2018 00:00

553. fundur bæjarstjórnar Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 6. nóvember 2018 kl. 17:00.

Viðstaddir: Anna Sigríður Jóhannesdóttir, Baldur Þórir Guðmundsson, Díana Hilmarsdóttir, Friðjón Einarsson, Guðbrandur Einarsson, Eydís Hentze Pétursdóttir, Gunnar Þórarinsson, Jóhann Friðrik Friðriksson, Margrét Ólöf A. Sanders, Margrét Þórarinsdóttir, Styrmir Gauti Fjeldsted og Hrefna Gunnarsdóttir ritari. Í forsæti var Jóhann Friðrik Friðriksson.

1. Fundargerðir bæjarráðs 18. og 25. október og 1. nóvember 2018 (2018010002)

Forseti gaf orðið laust. Til máls tóku Guðbrandur Einarsson, Gunnar Þórarinsson, Friðjón Einarsson, Margrét Sanders og Anna Sigríður Jóhannesdóttir.

Fundargerðirnar samþykktar 11-0.

2. Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 26. október 2018 (2018010164)

Þriðji liður fundargerðarinnar, Pósthússtræti 5,7 og 9 - Niðurstaða grenndarkynningar (2018070042).

Forseti gaf orðið laust. Til máls tóku Gunnar Þórarinsson, Friðjón Einarsson, Margrét Sanders, Margrét Þórarinsdóttir, Guðbrandur Einarsson og Jóhann Friðrik Friðriksson.

Tillaga kom fram um að vísa þriðja lið til bæjarráðs. Samþykkt 11-0.

Fimmti liður fundargerðarinnar, Melás 9 - Fyrirspurn (2018100226), var samþykktur sérstaklega með 11 atkvæðum.

Fundargerðin samþykkt að öðru leyti 11-0.

3. Fundargerð stjórnar Reykjaneshafnar 18. október 2018 (2018010352)

Fimmta mál frá 222. fundi stjórnar Reykjaneshafnar 18. október 2018 var tekið sérstaklega fyrir með eftirfarandi bókun:

„Bæjarstjórn Reykjanesbæjar samþykkir hér með að veita einfalda ábyrgð vegna lántöku Reykjaneshafnar hjá Lánasjóði sveitarfélaga að fjárhæð 25.000.000 kr. til 6 ára, í samræmi við samþykkta skilmála lánveitingarinnar sem liggja fyrir fundinum. Ábyrgð þessi er veitt sbr. heimild í 1. mgr. 69. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, og veitir sveitarstjórnin lánasjóðnum veð í tekjum sínum til tryggingar þeirri ábyrgð, sbr. heimild í 2. mgr. 68. gr. sömu laga. Ábyrgðin tekur til greiðslu höfuðstóls láns þessa, ásamt vöxtum og verðbótum auk hvers kyns innheimtukostnaðar. Lánið er tekið til endurfjármögnunar afborgana af lánum Reykjaneshafnar, sem fellur undir lánshæf verkefni, sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006.

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar skuldbindur hér með sveitarfélagið sem eiganda Reykjaneshafnar til að selja ekki eignarhlut sinn í Reykjaneshöfn til einkaaðila, í heild eða að hluta, fram til þess tíma að lán þetta er að fullu greitt.

Fari svo að Reykjanesbær selji eignarhlut í Reykjaneshöfn til annarra opinberra aðila, skuldbindur Reykjanesbær sig til þess að tryggja að samhliða yfirtaki nýr eigandi ábyrgð á láninu í hlutfalli við eignarhlut sinn í félaginu.

Jafnframt er Kjartani Má Kjartanssyni, kennitala ekki birt, veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess að samþykkja f.h. Reykjanesbæjar veitingu ofangreindrar ábyrgðar og veðsetningar og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast veitingu ábyrgðar þessarar.“

Heimildin samþykkt 11-0.

Forseti gaf orðið laust. Til máls tóku Friðjón Einarsson og Guðbrandur Einarsson.

Fundargerðin samþykkt að öðru leyti 11-0.

4. Fundargerð fræðsluráðs 2. nóvember 2018 (2018010213)

Baldur Þórir Guðmundsson flutti minningarorð um Guðmund H. Norðdal sem lést 31. október 2018.

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Anna Sigríður Jóhannesdóttir, Jóhann Friðrik Friðriksson og Guðbrandur Einarsson.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

5. Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar og sameiginlega rekinna stofnana 2019 - 2022 - fyrri umræða (2018070011)

Forseti gaf orðið laust um fjárhagsáætlunina. Til máls tók Friðjón Einarsson er fylgdi áætluninni úr hlaði.

Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir og lagði fram eftirfarandi fyrirspurnir:

Fyrirspurnir til meirihlutans varðandi fjárhagsáætlun 2019

Ég er hér með nokkrar fyrirspurnir varðandi fjárhagsáætlun fyrir árið 2019.

Í fyrsta lagi
Í fjárhagsáætluninni fyrir árið 2019 er að sjá að aukning skatttekna er áætluð yfir milljarð. Miðflokkurinn óskar eftir sundurliðun vegna skiptingu þessara skatttekna.

Í öðru lagi
Er það svo að meirihlutinn hefur ekki ákveðið að koma meira til móts við íbúa Reykjanesbæjar og lækka skattprósentu er varðar fasteignaskatt? Lækkunin samkvæmt fjárhagsáætlun nemur 0,1 prósentustigi sem er í raun og veru sama skattheimta og var á árinu 2018.
Það er ljóst að á undanförnum árum hefur átt sér stað gegndarlaus hækkun íbúðaverðs sem hefur bein áhrif á hækkun fasteignamats. Heimta fasteignaskatts er því óbreytt og er því mikil vonbrigði fyrir íbúa Reykjanesbæjar. Er það stefna meirihlutans að halda íbúum í ofurskattlagningu?

Í þriðja lagi
Gerði fjárhagsáætlun fyrir árið 2019 ráð fyrir byggingu Stapaskóla? Ég gat ekki séð að svo væri.

Í fjórða lagi
Gerir meirihlutinn ráð fyrir því að á þessu kjörtímabili munum við komast undan eftirlitsnefnd sveitarfélaga af því gefnu tilefni að ráðist verði í byggingu nýs skóla?

Í fimmta lagi
Í B hluta fjárhagsáætlunarinnar fyrir árið 2019 gerir Reykjaneshöfn ráð fyrir komu Thorsils, getur meirihlutinn svarað því hvaða forsendur liggja þar að baki?

Í sjötta lagi
Í A hluta fjárhagsáætlunarinnar bls. 11 kemur fram í langtímakröfum að útistandandi séu rúmir 2,2 milljarðar. Miðflokkurinn óskar eftir útskýringum um hvaða kröfur hér sé að ræða.

Ég vil að þetta sé bókað.“

Margrét Þórarinsdóttir
Oddviti Miðflokksins í Reykjanesbæ.

Til máls tók Guðbrandur Einarsson og lagði fram eftirfarandi bókun meirihluta bæjarstjórnar, bæjarfulltrúa Beinnar leiðar, Framsóknarflokks og Samfylkingar:

„Fjárhagsáætlun 2019 og þriggja ára áætlun bera þess merki að áfram er unnið skv. aðlögunaráætlun, með það að markmiði að uppfylla þær fjárhagslegu skyldur sem sveitarfélaginu ber að uppfylla.

Gert er ráð fyrir jákvæðri afkomu sveitarfélagsins á næsta ári upp á rúman 1,1 milljarð hjá samstæðu og 134 milljónum hjá bæjarsjóði. Þetta gerir það að verkum að skuldaviðmið fer úr 181% í 175% og mun halda áfram að lækka.

Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði eða EBITDA verður 23% sem skilar jákvæðri rekstarniðurstöðu þrátt fyrir að vaxtagjöld séu 2,5 milljarðar.

Það er ljóst að mikil fólksfjölgun eykur á þörf sveitarfélagsins til fjárfestinga og því mikilvægt að fjárhagslegum markmiðum verið náð eins og fljótt og kostur er, en í síðasta lagi í árslok 2022. Má þar nefna mikla fjárfestingu vegna Stapaskóla og annarra skólamannvirkja. Einnig er ráðgert að hefja vinnu við að koma fráveitumálum í viðunandi horf.

Í þessari fjárhagsáætlun er lagt til að lækka skattprósentu fasteignaskatts úr 0,46% í 0,36% til þess að mæta mikilli hækkun sem varð á fasteignamati.

Með þessu er reynt að koma í veg fyrir auknar álögur á íbúa vegna þessara miklu breytinga en uppfylla samt skilyrði aðlögunaráætlunar um 1.750 milljón króna tekjur af fasteignaskatti.

Þetta er þó háð samþykki Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga og mun bæjarstjórn fylgja því eftir með nefndinni n.k. þriðjudag.“

Til máls tóku Friðjón Einarsson, Gunnar Þórarinsson, Margrét Sanders, Jóhann Friðrik Friðriksson, Eydís Hentze Pétursdóttir og Guðbrandur Einarsson.

Fjárhagsáætlun 2019-2022 vísað til síðari umræðu 4. desember nk. Samþykkt 11-0.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 19:12.