04.12.2018 00:00

555. fundur bæjarstjórnar Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 4. desember 2018, kl. 17:00

Viðstaddir: Anna Sigríður Jóhannesdóttir, Díana Hilmarsdóttir, Friðjón Einarsson, Guðbrandur Einarsson, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Gunnar Þórarinsson, Jóhann Friðrik Friðriksson, Margrét Þórarinsdóttir, Margrét Ólöf A. Sanders, Ríkharður Ibsen, Styrmir Gauti Fjeldsted, Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri og Hrefna Höskuldsdóttir ritari. Í forsæti var Jóhann Friðrik Friðriksson.

1. Fundargerðir bæjarráðs 22. og 29. nóvember 2018 (2018010002)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðirnar. Til máls tóku: Guðný Birna Guðmundsdóttir, Anna Sigríður Jóhannesdóttir, Guðbrandur Einarsson, Friðjón Einarsson, Margrét Ólöf A. Sanders, Jóhann Friðrik Friðriksson og Margrét Þórarinsdóttir.

Fundargerðirnar samþykktar 11-0.

2. Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 23. nóvember 2018 (2018010164)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina:

Þriðji liður fundargerðarinnar HS Orka – framkvæmdaleyfi REY-4 (2018110220), var samþykktur sérstaklega með 11 atkvæðum.

Fimmti liður fundargerðarinnar Seljudalur 25 – Ósk um stækkun á byggingareit (2018110223), var samþykktur sérstaklega með 11 atkvæðum.

Áttundi liður fundargerðarinnar Klettatröð 6, 8 og 10 – Breyting á deiliskipulagi vegna reksturs á gistiheimili (2017110118).
Til máls tóku: Margrét Ólöf A. Sanders, Friðjón Einarsson, Ríkharður Ibsen, Gunnar Þórarinsson og Guðbrandur Einarsson. 
Margrét Sanders lagði til að málinu yrði vísað aftur til umhverfis – og skipulagssviðs. Tillagan var felld með 6 atkvæðum gegn 5. 
Liðurinn var samþykktur sérstaklega með 6 atkvæðum gegn 5.

Níundi liður fundargerðarinnar Athafnasvæði vegna uppbyggingar Hlíðahverfis (2018110248), var samþykktur sérstaklega með 11 atkvæðum.

Tíundi liður fundargerðarinnar Reynidalur 4, 6 og 8 – Fjölgun íbúða (2018110241), var samþykktur sérstaklega með 11 atkvæðum.

Tólfta lið fundargerðarinnar Vallarás 4 – Lóðaumsókn (2018110246), er vísað aftur til umhverfis- og skipulagsráðs til nýrrar afgreiðslu. Til máls tók Margrét Ólöf A. Sanders og lagði til að ellefta lið yrði einnig vísað aftur til umhverfis- og skipulagsráðs. Til máls tók Friðjón Einarsson.
Samþykkt sérstaklega með 11 atkvæðum að vísa bæði ellefta og tólfta lið til umhverfis- og skipulagsráðs.

Þrettánda lið fundargerðarinnar Vallarás 6 – Lóðaumsókn (2018110247), er vísað aftur til umhverfis- og skipulagsráðs til nýrrar afgreiðslu. Samþykkt sérstaklega með 11 atkvæðum.

Fjórtándi liður fundargerðarinnar Flugvellir 29 – Slökkvistöð (2018110273), var samþykktur sérstaklega með 11 atkvæðum.

Fundargerðin samþykkt að öðru leyti 11-0.

3. Fundargerð barnaverndarnefndar 19. nóvember 2018 (2018010344)
Fundargerðin lögð fram án umræðu.

4. Fundargerð stjórnar Reykjaneshafnar 22. nóvember 2018 (2018010352)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku: Guðný Birna Guðmundsdóttir og Friðjón Einarsson.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

5. Jafnlaunastefna Reykjanesbæjar - síðari umræða (2018100161)
Forseti gaf orðið laust um stefnuna. Til máls tóku: Guðný Birna Guðmundsdóttir, Margrét Ólöf A. Sanders og Kjartan Már Kjartansson.

Jafnlaunastefna Reykjanesbæjar samþykkt 11-0.

6. Kosningar í nefndir, ráð og stjórnir sbr. 57. gr. samþykktar um stjórn Reykjanesbæjar og fundarsköp bæjarstjórnar nr. 1000/2013 (2018060140)
Þórdís Elín Kristinsdóttir hefur óskað eftir lausn sem varamaður frá nefndarstörfum í fræðsluráði. Tillaga kom um Friðjón Einarsson sem varamann og var hann sjálfkjörinn.
Tinna Kristjánsdóttir hefur óskað eftir lausn sem varamaður frá nefndarstörfum í barnaverndarnefnd. Tillaga kom um Halldóru Fríðu Þorvaldsdóttur sem varamann og var hún sjálfkjörin.
Annel Jón Kristjánsson hefur óskað eftir lausn sem varamaður frá nefndarstörfum í barnaverndarnefnd. Tillaga kom um Margréti Þórarinsdóttur sem varamann og var hún sjálfkjörin.
Annel Jón Kristjánsson hefur óskað eftir lausn sem varamaður frá nefndarstörfum í stjórn Reykjaneshafnar. Tillaga kom um Jón Má Sverrisson sem varamann og var hann sjálfkjörinn.

7. Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar og sameiginlega rekinna stofnana 2019 - 2022 - síðari umræða (2018070011)
Forseti gaf orðið laust. Til máls tóku Kjartan Már Kjartansson og Margrét Þórarinsdóttir sem lagði fram eftirfarandi bókun:

Breytingartillaga við fjárhagsáætlun.

„Virðulegi forseti og aðrir viðstaddir.
Ég legg hér fram breytta breytingartillögu við fjárhagsáætlun vegna skólamáltíða.
Tillagan hljóðar svo:
Fyrir fyrsta barn er greitt fullt gjald og niðurgreiðslan hin sama.
Fyrir annað barn er greitt 50% af gjaldskrá og niðurgreiðslan eykst því um 50%. Fyrir þriðja barn og fleiri þá er 25% af gjaldskrá og niðurgreiðslan eykst því um 75%.
Þessi tillaga er mjög svo nauðsynleg vegna þess að það eru fjölskyldur hér í bæjarfélaginu sem þurfa nauðsynlega á þessu að halda. Það er því miður staðreynd að Hjálparstarf kirkjunnar er að greiða skólamáltíðir fyrir börn í bæjarfélaginu okkar. Við getum ekki verið þekkt fyrir það. Ég legg til að þetta verði fjármagnað undir liðnum ófyrirséð útgjöld sem er skráð á málaflokk 21. En um er að ræða 25 milljónir.
Ég vil að þetta sé bókað.“

Margrét Þórarinsdóttir bæjarfulltrúi Miðflokksins

Til máls tók: Guðbrandur Einarsson sem lagði fram eftirfarandi bókun meirihluta bæjarstjórnar, bæjarfulltrúa Beinnar leiðar, Framsóknarflokksins og Samfylkingar og óháðra í bæjarstjórn:

„Fjárhagslegum markmiðum náð fyrr en ætlað var.
Með fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar vegna ársins 2019 og þriggja ára áætlun 2020-2022 er það staðfest að fjárhagslegum markmiðum sveitarfélagsins verði náð fyrir tilsettan tíma eins og lög gera ráð fyrir.
Margt hefur hjálpað til s.s. mikið aðhald í rekstri og hagstæð ytri skilyrði sem skilað hafa sveitarfélaginu auknum tekjum.
Þetta gerist þrátt fyrir að verið sé að gera ráð fyrir talsverðum fjárfestingum á næstu árum m.a. vegna framkvæmda við ýmsar skólabyggingar í sveitarfélaginu, ásamt því að hafist verður handa við byggingu nýs grunnskóla í Innri Njarðvík.
Þá hefur sveitarfélagið einnig hug á að hefja vinnu við undirbúning byggingar á nýju hjúkrunarheimili sem komi til framkvæmda á kjörtímabilinu.
Áfram er unnið að því að lækka álögur á íbúa eins og kostur er. Horfið hefur verið frá hækkuðu útsvari og nú greiða íbúar Reykjanesbæjar sömu prósentu í útsvar og íbúar flestra annarra sveitarfélaga á Íslandi.
Þá er ráðgerð lækkun á fasteignaskatti í gjaldskrá ársins 2019 úr 0,46% í 0,36% til þess að mæta hækkuðu fasteignamati.
Það er því ástæða til að gleðjast yfir núverandi stöðu.“

Guðbrandur Einarsson, Díana Hilmarsdóttir, Styrmir G. Fjeldsted, Friðjón Einarsson, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Jóhann Friðrik Friðriksson.

Til máls tók Margrét Ólöf A. Sanders og lagði fram eftirfarandi bókun bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Frjáls afls við afgreiðslu fjárhagsáætlunar 2019-2022.

Bókun D-listans og Á-listans vegna fjárhagsáætlunar.

„D-listinn og Á-listinn samþykkja fjárhagsáætlun fyrir árið 2019. Samráð og samstarf á milli meirihluta og minnihluta við vinnslu fjárhagsáætlunar hefur verið til fyrirmyndar. Einnig ber að þakka starfsmönnum Reykjanesbæjar fyrir vel unnin störf við undirbúning áætlunarinnar.
Nokkur atriði sem D-listinn og Á-listinn vilja þó leggja áherslu á:

  1. Fasteignaskattar eru að hækka. Um leið og við fögnum prósentulækkun fasteignaskatta á bæjarbúa þá bendum við á að fasteignamat hefur hækkað gríðarlega á milli ára og dugar prósentulækkunin ekki til að mæta því. D-listinn og Á-listinn leggja áherslu á að stefna skuli að því að álögur á einstaklinga og fyrirtæki lækki enn frekar.
  2. Fyrsti áfangi Stapaskóla hefur verið boðinn út og er ánægjulegt að lægsta tilboð er 130 milljónum undir kostnaðaráætlun. Grunnskólinn er hinn glæsilegasti og útlit hans sýnir mikinn metnað enda mun hann standa um langan aldur. D-listinn og Á-listinn telja þó að miðað við aðrar sambærilegar skólabyggingar í landinu sé lítið til sparað og verið sé að fara nýjar og óhefðbundnar leiðir í byggingunni sem eru mjög dýrar. Einnig er gert ráð fyrir að skólinn verði félags- og menningarmiðstöð hverfisins án almennilegrar þarfagreiningar. Á meðan ekki er eðlileg uppbygging innviða í sveitarfélaginu vegna fjárhagsaðstæðna þá skýtur það skökku við að farið sé í svo dýra byggingu.
  3. Innviðir sem eru utan lögbundinnar þjónustu hafa setið á hakanum svo sem aðstaða fyrir íþróttir- og tómstundastarf. D-listinn og Á-listinn telja mikilvægt að forgangsraða, setja fram tímasetta áætlun, kostnaðargreina og hefja hönnun sem fyrst á ýmsum innviðum á þessu sviði. Það er löngu tímabært.
  4. Tekjur af svokölluðu Magmabréfi eru ekki inni í fjárhagsáætlun. Nú liggur fyrir að Reykjanesbær mun fá að minnsta kosti þrjá milljarða vegna sölunnar sem er í samræmi við málflutning D-listans og Á-listans á síðustu árum. Salan mun því hafa mjög jákvæð áhrif á stöðu bæjarsjóðs og verða þess valdandi að Reykjanesbær mun ná 150 prósenta skuldaviðmiði mun fyrr en áætlað var.“

Margrét Sanders D-listinn, Anna Sigríður Jóhannesdóttir D-listinn, Ríkharður Ibsen D-listinn, Gunnar Þórarinsson Á-listinn.

Breytingatillaga Margrétar Þórarinsdóttur felld með 6 atkvæðum gegn 1 atkvæði, 4 sitja hjá.

Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar og sameiginlega rekinna stofnanna samþykkt með 10 atkvæðum. Einn situr hjá.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 20:00.