556. fundur

18.12.2018 00:00

556. fundur bæjarstjórnar Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 18 desember 2018 kl. 17:00.

Viðstaddir: Baldur Þ. Guðmundsson, Díana Hilmarsdóttir, Friðjón Einarsson, Guðbrandur Einarsson, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Gunnar Felix Rúnarsson, Gunnar Þórarinsson, Jóhann Friðrik Friðriksson, Margrét Ólöf A Sanders, Ríkharður Ibsensson, Styrmir Gauti Fjeldsted, Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri, Hrefna Höskuldsdóttir ritari. Í forsæti var Jóhann Friðrik Friðriksson.

1. Fundargerðir bæjarráðs 6. og 13. desember 2018 (2018010002)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðirnar. Til máls tóku: Díana Hilmarsdóttir, Friðjón Einarsson, Guðbrandur Einarsson, Margrét Ólöf A. Sanders, Jóhann Friðrik Friðriksson, Gunnar Þórarinsson, Baldur Þ. Guðmundsson, Ríkharður Ibsensson, Styrmir Gauti Fjeldsted og Guðný Birna Guðmundsdóttir.

Forseti bæjarstjórnar las upp eftirfarandi bókun:

„Bókun bæjarstjórnar Reykjanesbæjar vegna Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, samþykkt á bæjarstjórnarfundi 18. desember 2018.
Sú staða er nú uppi á HSS að núverandi fjárveitingar duga ekki til rekstrar og nauðsynlegrar endurnýjunar á tækjum og húsnæði stofnunarinnar.
Til þess að jafnvægi verði náð þyrftu fjárveitingar til stofnunarinnar að aukast um 281 milljón króna á árinu 2019 umfram það sem áætlað er í fjárlagafrumvarpi 2019.
Auk þess má gera ráð fyrir að eigið fé verði neikvætt um 58 milljónir króna í árslok.
Ljóst er að núverandi húsnæði HSS og skipulag þess hefur sprengt allt utan af sér, uppfyllir ekki kröfur og hamlar möguleika HSS til að mæta mikilli þörf fyrir aukna þjónustu. Þjónustuþörf hefur aukist verulega á undanförnum árum í samræmi við fjölgun íbúa auk annarra veigamikilla þátta, svo sem fordæmalausrar fjölgunar ferðamanna og stóraukinnar starfsemi á Keflavíkurflugvelli.
Þessi fjölgun íbúa er einstök fyrir heilbrigðisumdæmin á landinu og langt yfir öðrum svæðum.
Samkvæmt frumvarpi til fjárlaga 2019 fær HSS 2.850,8 milljónir króna á árinu 2019. Áætluð raunhækkun fjárveitinga frá 2016 til fjárlagafrumvarps 2019 er liðlega 7%. Til samanburðar þá fjölgar íbúum frá 2016 til og með 2018 um 22% og á árinu 2019 stefnir í sambærilega fjölgun og verið hefur.
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar fordæmir skilningsleysi ráðamanna þjóðarinnar hvað varðar málefni HSS og gerir kröfu til að þetta verði leiðrétt.
Þrátt fyrir mikla samstöðu sveitarstjórna á Suðurnesjum í málefnum HSS virðist það engu skipta þegar kemur að ákvörðunartöku. Bæjarstjórn Reykjanesbæjar vill því hvetja þingmenn kjördæmisins sem og þingheim allan til að styðja okkur í þessari baráttu“.

Til máls tók Gunnar Felix Rúnarsson og lagði fram eftirfarandi bókun Miðflokksins:

„Miðflokkurinn í Reykjanesbæ hefur frá upphafi setu í bæjarstjórn lagt áherslu á að fram fari íbúakosning um framtíð stóriðju í Helguvík. Flokkurinn fagnar því að formaður bæjarráðs hafi nú tekið af allan vafa í þessum efnum og lýst því yfir að íbúakosning muni fara fram. Miðflokkurinn fagnar einnig hvatningu tæplega þrjú þúsund íbúa bæjarins til bæjaryfirvalda um að efna til bindandi íbúakosningu um stóriðju í Helguvík. Mikilvægt er að bæjarstjórn standi einhuga að málinu og láti ekki lagatæknileg atriði letja sig til að framfylgja vilja íbúanna. Réttur bæjaryfirvalda til að efna til íbúakosningar um einstök málefni bæjarins er ótvíræður og skipulagsvald bæjarins óskorað."

Fundargerðirnar samþykktar 11-0.

2. Fundargerð barnaverndarnefndar 3. desember 2018 (2018010344)

Fundargerðin lögð fram.

3. Fundargerð fræðsluráðs 7. desember 2018 (2018010213)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tók: Margrét Ólöf A. Sanders.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

4. Fundargerð íþrótta- og tómstundaráðs 11. desember 2018 (2018010171)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku: Díana Hilmarsdóttir og Friðjón Einarsson.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

5. Fundargerð velferðarráðs 12. desember 2018 (2018010214)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku: Styrmir Gauti Fjeldsted og Kjartan Már Kjartansson.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

6. Fundargerð stjórnar Reykjaneshafnar 13. desember 2018 (2018010352)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina.

Fundargerðin samþykkt 11-0 án umræðu.

7. Fundargerð menningarráðs 14. desember 2018 (2018010136)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina.

Fundargerðin samþykkt 11-0 án umræðu.

8. Lántaka Brunavarna Suðurnesja vegna nýrrar slökkvistöðvar (2018120118)

Forseti las eftirfarandi:

„Reykjanesbær samþykkir hér með á sveitarstjórnarfundi að veita einfalda ábyrgð og veðsetja til tryggingar ábyrgðinni tekjur sínar í samræmi við hlutfall eignarhalds, sbr. heimild í 2. mgr. 68. gr. og 2. mgr. 69. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, til tryggingar láns Brunavarna Suðurnesja b.s hjá Lánasjóði sveitarfélaga að höfuðstól allt að kr. 550.000.000.m með lokagjalddaga þann 15. nóvember 2055, í samræmi við skilmála að lánasamningi sem liggja fyrir á fundinum og sem sveitarstjórnin hefur kynnt sér. Ábyrgðin tekur til allra greiðslna sem og hvers kyns kostnaðar sem hlýst af vanskilum. Nær samþykki sveitarstjórnar jafnframt til undirritunar lánasamnings og að sveitarfélagið beri þær skyldur sem þar greinir.

Er lánið tekið til byggingar nýrrar slökkvistöðvar að Flugvöllum 29. í Reykjanesbæ, sem felur í sér að vera verkefni sem hefur almenna efnahagslega þýðingu, sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006.

Reykjanesbær skuldbindur hér með sveitarfélagið sem eiganda Brunavarna Suðurnesja b.S. til að breyta ekki ákvæði samþykkta félagsins sem leggur hömlur á eignarhald að félaginu að því leyti að félagið megi ekki fara að neinu leyti til einkaaðila.

Fari svo að Reykjanesbær selji eignarhlut í Brunavörnum Suðurnesja b.S til annarra opinberra aðila, skuldbindur sveitarfélagið sig til að sjá til þess að jafnframt yfirtaki nýr eigandi á sig ábyrgð á láninu að sínum hluta.

Jafnframt er Kjartani Má Kjartanssyni, kennitala ekki birt, veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess f.h. sveitarfélagsins Reykjanesbæjar að undirrita lánssamning við Lánasjóð sveitarfélaga sbr. framangreint, sem og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast lántöku þessari, þ.m.t. beiðni um útborgun láns.“

Heimildin samþykkt 11-0.

9. Fundir bæjarstjórnar í janúar 2019 (2018120192)

Jóhann Friðrik Friðriksson lagði fram eftirfarandi tillögu:

„Að venju er gert ráð fyrir að bæjarstjórnarfundir Reykjanesbæjar fari fram fyrsta og þriðja þriðjudag í hverjum mánuði eins og segir í 7.gr. bæjarmálasamþykktar.
Nú ber svo við að 1. janúar, nýársdagur, ber upp á þriðjudag og leggur forseti bæjarstjórnar því til að bæjarstjórnarfundir í janúar verði haldnir 8. janúar og svo 22. janúar“.

Samþykkt 11-0.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18.25.