05.02.2019 00:00

559. fundur bæjarstjórnar Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 5. febrúar 2019 kl. 17:00.

Viðstaddir: Anna Sigríður Jóhannesdóttir, Baldur Þórir Guðmundsson, Díana Hilmarsdóttir, Friðjón Einarsson, Guðbrandur Einarsson, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Gunnar Þórarinsson, Jóhann Friðrik Friðriksson, Margrét Ólöf A. Sanders, Margrét Þórarinsdóttir, Eydís Hentze Pétursdóttir, Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri og Hrefna Gunnarsdóttir ritari. Í forsæti var Jóhann Friðrik Friðriksson.

1. Fundargerðir bæjarráðs 24. og 31. janúar 2019 (2019010002)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðirnar. Til máls tóku Margrét A. Sanders, Guðbrandur Einarsson, Margrét Þórarinsdóttir, Friðjón Einarsson, Baldur Þ. Guðmundsson, Gunnar Þórarinsson, Kjartan Már Kjartansson og Anna Sigríður Jóhannesdóttir.

Eftirfarandi tillaga frá Margréti Sanders fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins var borin undir atkvæði:

„Strax verði hafin stefnumótun með íþróttafélögunum varðandi framtíðaruppbyggingu íþróttamannvirkja í sveitarfélaginu. Niðurstöður skulu liggja fyrir ekki síðar en í maí 2019.“

Samþykkt að vísa tillögunni til bæjarráðs með 10 atkvæðum, Guðbrandur Einarsson bæjarfulltrúi Beinnar leiðar sat hjá.

Eftirfarandi bókanir bárust frá Margréti Þórarinsdóttur, Miðflokknum:

Liður 2 í fundargerð bæjarráðs frá 24. janúar 2019:

„Ljóst er að lítið má út af bregða í auknum kostnaði/framúrkeyrslu á verkefninu þannig að forsendubrestur verði. Bæjarfulltrúi Miðflokksins minnir á að fara verður varlega í öllum fjárfestingum og skuldbindingum sveitarfélagsins og tekur undir það sem kemur fram í kynningunni að huga verði að dreifingu fjármagns í öll hverfi bæjarins þegar kemur að innviðauppbyggingu. Reykjanesbær er að fá aukið fjármagn frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaganna vegna hraðrar uppbyggingar og fólksfjölgunar í bænum. Miðflokkurinn hefur áður bent á það að því fylgja gríðarlegir vaxtaverkir í innviðauppbyggingu eins og þetta dæmi sannar.“

Liður 3 í fundargerð bæjarráðs frá 24. janúar 2019:

„Miðflokkurinn fagnar því að horfið hafi verið af þeirri braut sem mörkuð var með framlagningu samgönguáætlunar samgönguráðherra síðastliðið haust, þar sem skilaboðin voru að Reykjanesbrautin yrði ekki kláruð fyrr en eftir 15-20 ár. Með nýrri nálgun sjáum við brautina klárast á mun skemmri tíma. Mikilvægt er að halda til haga þeim sjónarmiðum að almenn skattlagning á akstur, til dæmis í formi olíu- og bensíngjalda lækki að hluta á móti þessari nýju gjaldtöku til samræmis við þau sjónarmið sem Miðflokkurinn hefur talað fyrir.

Miðflokkurinn fékk rúmlega 13% atkvæða í afliðnum sveitastjórnarkosningum og þessi hluti bæjarbúa er hundsaður af bæði meiri- og minnihluta bæjarstjórnar. Bæjarfulltrúi Miðflokksins gagnrýnir harðlega að fram hafi farið kynning á veggjöldum, og fleiri mikilvægum málum s.s. mikilvægum kynningum sem hafa verið haldnar bæjarráðsfundum án þess að fulltrúa flokksins hafi verið boðið að sitja þær. Veggjöld fela í sér aukna skattheimtu á heimilin í landinu. Skattar á bifreiðaeigendur eru nú þegar miklir og aukast enn frekar nái samgönguáætlun fram að ganga. Til stendur að innheimt verði veggjöld á allar leiðir inn og út úr höfuðborginni. Verði áformin að veruleika er það ekki í fyrsta skipti sem íbúar að Suðurnesjum eru skattlagðir sérstaklega og gætir tortryggni meðal íbúa vegna málsins. Lítil umræða hefur verið um gjaldtökuna, tillögur eru ómótaðar og engar upplýsingar liggja fyrir um hversu hátt gjaldið verði, né um rekstrar- og innheimtukostnað. Miðflokkurinn í Reykjanesbæ getur ekki fallist á þessi áform nema tryggt sé að að gjaldið skili sér til vegaframkvæmda og til komi lækkun á móti á þeim gjöldum sem þegar eru lögð á bifreiðaeigendur eins og bifreiðagjaldi.“

Liður 7 í fundargerð bæjarráðs frá 24. janúar 2019:

„Miðflokkurinn tekur mjög vel í þessar hugmyndir að fyrirmynd Akureyrarbæjar. Ljóst er að mikils viðhalds er þörf á næstu árum og teljum við að þessi leið sé sú besta til að uppfylla þá þörf.“

Liður 10 í fundargerð bæjarráðs frá 24. janúar 2019:

„Bæjarfulltrúi Miðflokksins geldur varhug við því að Kalka eigi að taka við megninu af sorpi af höfuðborgarsvæðinu. Bæði er það mikið umhverfisálag fyrir Reykjanesbæ og ekki síður umferðarálag á Reykjanesbrautina. Svona til glöggvunar þá fara í dag um 55.000 bílar á sólarhring í gegnum Hafnarfjörð. Á þeim hluta sem er einbreiður í Hafnarfjarðarbæ er umferðin um 27.000 bílar á sólarhring. Vestur af Straumsvík aka um 19.000 bílar á sólarhring.
Á meðan ástandið á Reykjanesbrautinni er ekki betra en raun ber vitni er varhugavert að auka álagið á brautina enn frekar með sorpflutningum hingað suður eftir. Áður en lengra er haldið verða frekari upplýsingar að liggja fyrir s.s. þær hvort áætlað er að nýr brennsluofn eigi að vera staðsettur í Helguvík. Bæjarbúar eiga heimtingu á að vita hver áform meirihlutans eru í þessum efnum. Áætlað er að 10 manns verði í stjórn sameinaðs félags en einungis 5 aðilar verði í framkvæmdaráði. Verði af þessari sameiningu er það skýr krafa bæjarfulltrúa Miðflokksins að Reykjanesbær eigi fulltrúa í framkvæmdaráðinu þar sem bærinn er fjórða stærsta sveitafélagið sem að þessari sameiningu standa.“

Liður 2 í fundargerð bæjarráðs frá 31. janúar 2019:

„Miðflokkurinn ítrekar enn og aftur að málefni og framtíð kísilversins í Helguvík eigi að fara í íbúakosningu sbr. heimildarákvæði í sveitastjórnarlögum.“

Liður 7 í fundargerð bæjarráðs frá bæjarráð 31. janúar 2019:

„Það er hreint með ólíkindum að senda þurfi átta embættismenn bæjarins til þess að kynna sér þessi mál. Þetta er fjáraustur úr bæjarsjóði og vel væri hægt að koma kostnaðinum niður í 750.000 kr. færu einungis þrír aðila. Sýna verður ráðdeild á öllum sviðum í rekstri bæjarins og eru utanferðir embættismanna og kjörinna fulltrúa einn partur af því. Minna má á að dagpeningar eru greiddir í svona ferðum og eru þeir skattfrjálsir og mál líta á þá sem kaupauka viðkomandi embættismanna.“

Fundargerðirnar samþykktar 11 – 0.

2. Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 25. janúar 2019 (2019010176)

Forseti gaf orðið laust um fjórða lið fundargerðarinnar. Til máls tóku Guðbrandur Einarsson, Kjartan Már Kjartansson og Baldur Þ. Guðmundsson.

Fjórði liður fundargerðarinnar Íbúðafélag Suðurnesja hsf. - Umsókn um lóð (2018070163) var sérstaklega tekið fyrir. Bæjarstjórn vísar málinu til bæjarráðs. Samþykkt með 11 atkvæðum.

Fimmti liður fundargerðarinnar Tjarnarbraut 6 - Fyrirspurn (2016060396) var samþykktur sérstaklega með 11 atkvæðum án umræðu.

Forseti gaf orðið laust um sjötta lið fundargerðarinnar. Til máls tók Guðbrandur Einarsson og bar fram tillögu um að málinu verði vísað til bæjarráðs. Tillagan var dregin tilbaka.

Sjötti liður fundargerðarinnar Víkingaheimar - Makaskipti á lóðum (2019010116) var sérstaklega tekið fyrir. Bæjarstjórn vísar málinu til frekari vinnslu til skipulagsfulltrúa. Samþykkt með 11 atkvæðum.

Sjöundi liður fundargerðarinnar Stapabraut 21 - Deiliskipulag (2013060104) var samþykktur sérstaklega með 11 atkvæðum án umræðu.

Áttundi liður fundargerðarinnar Heiðarvegur 7 - Fyrirspurn um bílskúr (2019010332) var samþykktur sérstaklega með 11 atkvæðum án umræðu.

Þrettándi liður fundargerðarinnar Vatnsnesvegur 32- Fyrirspurn (2018110071) var samþykktur sérstaklega með 11 atkvæðum án umræðu.

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina.

Fundargerðin samþykkt að öðru leyti 11 – 0 án umræðu.

3. Fundargerð barnaverndarnefndar 28. janúar 2019 (2019010523)

Lögð fram.

4. Fundargerð íþrótta- og tómstundaráðs – 29. janúar 2019 (2019010053)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Margrét Þórarinsdóttir og Anna Sigríður Jóhannesdóttir.

Eftirfarandi bókun barst frá Margréti Þórarinsdóttur, Miðflokknum undir lið 8 í fundargerð íþrótta- og tómstundaráðs.

„Miðflokkurinn leggur ríka áherslu á íþróttaiðkun barna og unglinga og telur hana frumforsendu heilbrigðs lífs auk aðgangs ungmenna að ódýrum og hollum skólamáltíðum eins og segir í stefnu flokksins. Mikið af afreksfólki í íþróttum hefur komið héðan úr bæjarfélaginu og að þessu starfi þarf að hlúa. Það er sýn flokksins að samræma þurfi betur stefnu sveitafélagsins með t.d. sameiginlegum keppnisvöllum og aðstöðu til íþróttaiðkunar ásamt því að byggja ný sameiginleg íþróttamannvirki til framtíðar. Móta verður heilstæða stefnu á þessu sviði í ört stækkandi samfélagi og líta ber á að um grunnþjónustu við íbúana sé að ræða og þar af leiðandi í forgangi fyrir öðrum minna brýnum verkefnum. Lengi býr að fyrstu gerð.“

Fundargerðin samþykkt 11 – 0.

5. Fundargerð fræðsluráðs 1. febrúar 2019 (2019010177)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Margrét A. Sanders, Friðjón Einarsson, Baldur Þ. Guðmundsson og Jóhann Friðrik Friðriksson.

Eftirfarandi bókun barst frá bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokks, Frjáls afls og Miðflokksins undir lið 3 í fundargerð fræðsluráðs.

„Trúnaðarmenn grunnskólanna á Suðurnesjum, þar á meðal í Reykjanesbæ, hafa ályktað að óeðlilegt álag og kulnun sé meðal kennara í Reykjanesbæ. Mikilvægt er að Reykjanesbær bregðist við þessu strax og af festu þar sem líðan kennara og gott starfsumhverfi skiptir sköpum til að tryggja að skólastarf sé sem farsælast bæði fyrir nemendur og kennara.

Við leggjum til að farið verði strax í markvissa greiningarvinnu til að meta starfsaðstæður og umhverfi leik- og grunnskólakennara Reykjanesbæjar með það að markmiði að greina hvort óeðlilegt álag og kulnun sé til staðar. Fundað verði með starfsfólki til að fara sérstaklega yfir þessi mál. Haldnar verði vinnustofur og viðtöl tekin við kennara. Einnig skal leitast við að ræða við kennara sem látið hafa af störfum, eru í veikindaleyfi eða hafa nýlega komið úr leyfi sem rekja má til kulnunar eða streitu. Kallað verði eftir upplýsingum frá þeim stofnunum og fagaðilum sem veitt geta upplýsingar um stöðu mála og öflugir sérfræðingar í þessum málum fengnir að borðinu. Skal niðurstaða úttektarinnar innihalda tímasettar tillögur að úrbótum.“

Fundargerðin samþykkt 11 – 0.

6. Reglur um styrki til greiðslu fasteignagjalda (2018050388)

Forseti gaf orðið laust. Til máls tóku Friðjón Einarsson, Kjartan Már Kjartansson og Baldur Þ. Guðmundsson.

Bæjarstjórn samþykkir reglur um styrki til greiðslu fasteignaskatts með 11 atkvæðum.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 19:00.