565. fundur

07.05.2019 00:00

565. fundur bæjarstjórnar Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 7. maí 2019 kl. 17:00.

Viðstaddir: Anna Sigríður Jóhannesdóttir, Baldur Þórir Guðmundsson, Díana Hilmarsdóttir, Guðbrandur Einarsson, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Gunnar Þórarinsson, Jóhann Friðrik Friðriksson, Margrét Ólöf A. Sanders, Margrét Þórarinsdóttir, Styrmir Gauti Fjeldsted, Eydís Hentze Pétursdóttir, Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri, Hrefna Gunnarsdóttir ritari. Í forsæti var Jóhann Friðrik Friðriksson.

1. Fundargerðir bæjarráðs 17. og 26. apríl og 2. maí 2019 (2019050058)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina frá 17. apríl. Enginn fundarmanna tók til máls.

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina frá 26. apríl. Til máls tóku Díana Hilmarsdóttir, Margrét Þórarinsdóttir, Guðbrandur Einarsson og Kjartan Már Kjartansson.

Eftirfarandi bókanir bárust frá Margréti Þórarinsdóttur, Miðflokki.

Liður 4 í fundargerð bæjarráðs frá 26. apríl 2019:

„Ég tel að bæjarstjórn þurfi að fá betri útskýringar hvað felst í þessari sameiningu. Við þurfum að fá skýrari og betri gögn varðandi málið. Ég er til dæmis alveg undrandi á ráðgjöfum Capacent, hvernig þeir héldu á þessari kynningu, varðandi sameiningu Kölku og Sorpu. Hún var mjög sérstök og ekki nægilega vönduð að mínum dómi. Það hallaði verulega á okkur og þetta birtist mér þannig að hagsmunir Sorpu væru aðalmálið í þessu.
Ég velti fyrir mér hver vill búa hér í Reykjanesbæ þar sem 2 stærstu kísilver í Evrópu eiga að rísa, einnig álver og síðan stærsta sorpbrennsla landsins. Allavega ekki ég. Eins og allir vita þá er stóriðja mengandi og henni fylgir oft byggðarleg röskun.
Ég spyr því meirihlutann að því hvort að það sé búið að gera heildstætt umhverfismat fyrir Helguvík ásamt mengunarmati miðað við að öll þessi starfsemi hefjist í Helguvík.
Miðflokkurinn lagði áherslu í kosningabaráttu sinni á íbúalýðræði og íbúakosningu varðandi mikilvæg og stór málefni. Ég tel svo vera að bæjarbúar ættu að fá greinargóða kynningu á því hvað felst í sameiningu Kölku og Sorpu og síðan ætti að fara fram íbúakosning enda er hér um mikið hagsmunamál fyrir íbúa Reykjanesbæjar en eins og ég kom inn á áðan að öll stóriðja er mengandi.
Ég ítreka hér fyrri bókun mín og legg hana hér fram.

Bæjarfulltrúi Miðflokksins geldur varhug við því að Kalka eigi að taka við megninu af sorpi af höfuðborgarsvæðinu. Bæði er það mikið umhverfisálag fyrir Reykjanesbæ og ekki síður umferðarálag á Reykjanesbrautina. Svona til glöggvunar þá fara í dag um 55.000 bílar á sólarhring í gegnum Hafnarfjörð. Á þeim hluta sem er einbreiður í Hafnarfjarðarbæ er umferðin um 27.000 bílar á sólarhring. Vestur af Straumsvík aka um 19.000 bílar á sólarhring.
Á meðan ástandið á Reykjanesbrautinni er ekki betra en raun ber vitni er varhugavert að auka álagið á brautina enn frekar með sorpflutningum hingað suður eftir. Áður en lengra er haldið verða frekari upplýsingar að liggja fyrir s.s. þær hvort áætlað er að nýr brennsluofn eigi að vera staðsettur í Helguvík. Bæjarbúar eiga heimtingu á að vita hver áform meirihlutans eru í þessum efnum. Áætlað er að 10 manns verði í stjórn sameinaðs félags en einungis 5 aðilar verði í framkvæmdaráði. Verði af þessari sameiningu er það skýr krafa bæjarfulltrúa Miðflokksins að Reykjanesbær eigi fulltrúa í framkvæmdaráðinu þar sem bærinn er fjórða stærsta sveitarfélagið sem að þessari sameiningu standa.“

Liður 6 í fundargerð bæjarráðs frá 26. apríl 2019:

„Ég ítreka fyrri bókun mína og hef þessu við að bæta.
Ég fagna þessum nýju reglum sem eru vissulega heppilegra fyrirkomulag fyrir bæjarbúa að fylgjast með umræðunni í bæjarstjórn og eru hluti af auknu gagnsæi í stjórnsýslu bæjarins. Þetta fyrirkomulag gefur bæjarbúum og fjölmiðlum möguleika á frekari aðhaldi með kjörnum fulltrúum og þeim sem með valdið fara. Bæjarbúar eiga núna auðveldara með að átta sig á ákvörðun bæjarfulltrúa og fulltrúum bæjarráðs og er það mikið fagnaðarefni.“

Margrét Þórarinsdóttir, Miðflokki.

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina frá 2. maí. Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir.

Eftirfarandi bókun barst frá Margréti Þórarinsdóttur, Miðflokki.

Liður 9 í fundargerð bæjarráðs frá 2. maí 2019:

„Ég velti fyrir mér hvers vegna Reykjanesbær ætti að samþykkja frestun á greiðslu gatnagerðagjalda vegna úthlutunar á Kerhólsbraut 6. Kalka er nýbúin að sækja um þessa lóð sem var samþykkt. Það kemur mér svolítið spánskt fyrir sjónir að fresta greiðslu á þessum gatnagerðagjöldum en öll sveitarfélögin eiga hlut í Kölku. Ég óska hér með eftir útskýringum frá meirihlutanum á því hvers vegna eigi að fresta þessum greiðslum.“

Margrét Þórarinsdóttir, Miðflokki.

Til máls tók Kjartan Már Kjartansson.

Fundargerðirnar samþykktar 11 – 0.

2. Fundargerðir umhverfis- og skipulagsráðs 17. apríl og 3. maí 2019 (2019050346)

Forseti gaf orðið laust um eftirfarandi liði fundargerðarinnar frá 17. apríl til sérstakrar samþykktar:

Fjórði liður fundargerðarinnar Suðurgata 9 - Fyrirspurn (2019040201) var samþykktur sérstaklega með 11 atkvæðum án umræðu.
Forseti bar upp tillögu um að vísa sjötta máli Rekstur hótela og gistirýma (2019010346) til bæjarráðs og var það samþykkt 11-0.
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Fundargerðin samþykkt að öðru leyti 11 – 0 án umræðu.

Forseti gaf orðið laust um eftirfarandi liði fundargerðarinnar frá 3. maí til sérstakrar samþykktar:

Annar liður fundargerðarinnar HS Orka - Breyting á deiliskipulagi (2019040362). var samþykktur sérstaklega með 11 atkvæðum án umræðu.
Fjórði liður fundargerðarinnar Unnardalur 1-23 - Niðurstaða grenndarkynningar (2019020383). Til máls tók Margrét A. Sanders. Fjórði liður var samþykktur sérstaklega með 11 atkvæðum.
Fimmti liður fundargerðarinnar Hafnagata 31b - Niðurstaða grenndarkynningar (2019030016) var samþykktur sérstaklega með 11 atkvæðum án umræðu.
Sjöundi liður fundargerðarinnar Umsögn Reykjanesbæjar um frummatsskýrslur vegna efnistöku Íslenskra aðalverktaka í Rauðamel (2018040264) var samþykktur sérstaklega með 11 atkvæðum án umræðu.
Áttundi liður fundargerðarinnar Umsögn Reykjanesbæjar um frummatsskýrslur vegna efnistöku Íslenskra aðalverktaka úr Súlum og Stapafelli (2018040110) var samþykktur sérstaklega með 11 atkvæðum án umræðu.
Níundi liður fundargerðarinnar Umsögn Reykjanesbæjar um breikkun Grindavíkurvegar (2018080100) var samþykktur sérstaklega með 11 atkvæðum án umræðu.
Tíundi liður fundargerðarinnar Brekadalur 61 - Lækkun á gólfkóta (2019040361) var samþykktur sérstaklega með 11 atkvæðum án umræðu.

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Fundargerðin samþykkt að öðru leyti 11 – 0 án umræðu.

3. Fundargerð barnaverndarnefndar 29. apríl 2019 (2019050479)

Fundargerð lögð fram.

4. Fundargerð fræðsluráðs 3. maí 2019 (2019050417)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Margrét Þórarinsdóttir, Guðný Birna Guðmundsdóttir og Guðbrandur Einarsson.

Fundargerðin samþykkt 11 – 0.

5. Ársreikningur Reykjanesbæjar og stofnana hans – seinni umræða (2019050480)

Forseti gaf Kjartani Má Kjartanssyni bæjarstjóra orðið þar sem hann fór yfir þær breytingar sem gerðar hafa verið á ársreikningi frá fyrri umræðu.

Forseti gaf orðið laust. Til máls tók Margrét A. Sanders og lagði fram eftirfarandi bókun bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks Reykjanesbæjar:

„D-listinn fagnar því að Reykjanesbær sé kominn undir lögbundið skuldaviðmið sveitarfélaga þó nýjar reiknireglur hafi þar hjálpað til.
Tekjur hafa aukist um 67% frá 2013 sem er síðasta heila árið áður en núverandi meirihluti tók við og munar þar mest um fjölgun íbúa og auknar skattbyrðar á íbúa. Gjöld hafa ekki aukist að sama skapi eða aðeins um 36% á sama tíma. Bæjarstjóra og starfsfólki bæjarins ber að þakka gott aðhald í rekstri.
Á þessum tíma hafa skuldir bæjarsjóðs aukist um tæpa 4,4 milljarða eða um 18% á meðan eignir hafa einungis aukist um 1,7 milljarða eða um 5,5% og er það áhyggjuefni. Fjárfestingar hafa verið litlar og mikil þörf er á innviðauppbyggingu.
D-listinn leggur áherslu á lækkun fasteignaskatta, aukna atvinnuuppbyggingu og skynsamlega uppbyggingu innviða á næstu árum ásamt mikilvægi þess að aðhalds sé gætt í rekstri sveitarfélagsins.“

Margrét A. Sanders, Baldur Þ. Guðmundsson og Anna Sigríður Jóhannesdóttir, Sjálfstæðisflokki.

Til máls tók Gunnar Þórarinsson og lagði fram eftirfarandi bókun bæjarfulltrúa Frjáls afls:

„Frjálst afl fagnar þeim gríðarlega árangri í fjármálum bæjarins sem bæjarstjórn hefur náð á árunum 2014 til 2018. Frjálst afl barðist í síðustu bæjarstjórnarkosningum fyrir áframhaldandi sókn sem hefur skapað þennan árangur, nú er svo komið að lögbundnu skuldaviðmiði var náð á árinu 2018.
Við viljum benda á nokkra galla í ársreikningnum, en auk okkar þá hefur endurskoðandi bæjarins gert athugasemdir við ársreikninginn í grundvallaratriðum. Þær athugasemdir snúa að vantöldum eignum og eigin fé upp á alls 396 milljónir vegna vantaldra tekna þann 31 desember 2018. Þetta er verulega umfram mikilvægismörk sem ákvörðuð voru af endurskoðanda 333 m.kr. Við þær villur bætist að ekki er tekið tillit til sölu eigna í ORK sjóðnum þar sem gengið nú er 8,03 en í ársreikningi er miðað við mun lægra gengi. Því munar alls 2.671 milljónum króna sem þessar eignir virðast vanmetnar um.
Vegna rangfærslna í ársreikningi setjum við fyrirvara um samþykki á ársreikningi 2018 um að eignir í ársreikningi 2018 eru verulega vanmetnar, þar fer saman að villur þær sem endurskoðandi fann eru verulega umfram eðlileg mörk sem endurskoðendur hafa sett sér við endurskoðunina, auk þess virðist endurskoðun ekki hafa fundið aðrar villur í ársreikningi sem verða að teljast verulegar villur
Það er augljóst að bæjarstjórn áranna 2014 til 2018 náði verulegum árangri í rekstri bæjarins. Þannig hefur skuldaviðmið lækkað niður fyrir lagalegt hámark. Ef ársreikningur hefði verið án óleiðréttra villna hefði skuldaviðmið verið enn lægra. Von Frjáls afls er að áfram verði haldið á sömu vegferð og að bærinn verði áfram vel rekinn, með hag íbúanna að leiðarljósi.“

Gunnar Þórarinsson, Frjálst afl.

Til máls tók Guðbrandur Einarsson og lagði fram eftirfarandi bókun bæjarfulltrúa meirihluta bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, Framsóknarflokks, Samfylkingar og Beinnar leiðar:

„Ársreikningur Reykjanesbæjar sýnir svo ekki er um villst að verulegur árangur hefur náðst í að bæta fjárhagsstöðu sveitarfélagsins.
Skuldaviðmið hefur lækkað úr því að vera 235% árið 2013 í 137% skv. ársreikningi 2018 og uppfyllir Reykjanesbær þar með skilyrði laga um skuldaviðmið.
Skuld pr. íbúa hefur frá 2014 lækkað úr kr. 1.353 í kr. 1.215. Á sama tíma hafa lífeyrisskuldbindingar hins vegar hækkað verulega þ.e. úr 230 kr. pr. íbúa í kr. 324 pr. íbúa hjá bæjarsjóði.
Það að skuldir hafi hækkað í krónum talið á sér sínar eðlilegu skýringar. Á þessu tímabili þ.e. frá 2014 hefur verið unnið að því að bæta fjárhagstöðu sveitarfélagsins sem í raun var komið í þrot á þeim tímapunkti.
Reykjaneshöfn hafði árum saman verið rekin með hundruð milljóna tapi og skv. meðf. töflu voru skuldir hafnarinnar komnar í 8,3 milljarða árinu 2017. Því miður hafa skuldir hafnarinnar ekki reynst sjálfbærar, fjármagnskostnaður safnaðist upp og var orðinn stór hluti heildarskulda hafnarinnar eða milli 5 og 6 milljarðar.
Það var því enginn annar kostur í stöðunni en að færa hluta skulda hafnarinnar yfir í bæjarsjóð og nemur sú tilfærsla 4,6 milljörðum.
Hækkun skulda í samstæðu á sér einnig sínar eðlilegu skýringar. Í samstæðureikningi er m.a. að finna fyrirtækið HS Veitur sem skulduðu í árslok 2014 kr. 8,9 milljarða en skulda í árslok 2018 kr. 17,3 milljarða. Fyrirtækið HS Veitur hefur vaxið og dafnað undanfarin ár og þessar skuldir munu ekki hafa nein áhrif á rekstur Reykjanesbæjar enda sjálfbærar skuldir sem skila arði.
Allar tilraunir til að reyna að draga úr þeim mikla árangri sem náðst hefur í rekstri Reykjanesbæjar verða því að teljast skot út í loftið.“

Reykjaneshöfn – Yfirlit skulda

Guðbrandur Einarsson lagði fram fram eftirfarandi bókun bæjarfulltrúa meirihluta bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, Framsóknarflokks, Samfylkingar og Beinnar leiðar:

„Í skýringu 12 í ársreikningi er eftirfarandi að finna: Skuldabréfaeign við Magma Energy Sweden AB var seld á árinu 2012 til Fagfjárfestingasjóðsins ORK fyrir 6.290 milljónir króna. Greiddar voru 4.000 milljónir króna í formi peninga og skuldabréfaeignar. Áætlaðar núvirtar eftirstöðvar söluverðsins í árslok 2012 námu um 1.970 milljónum króna og voru færðar sem langtímakrafa. Gjalddagi kröfunnar var 1. október 2017 en var framlengt til 15. júní 2018. Samkvæmt kaupsamningi munu eftirstöðvar þessar verða leiðréttar til hækkunar eða lækkunar eftir því hvert virði eigna í ORK verður við uppgjör kröfunnar. Endanlegt virði kröfunnar er því árangurstengt og háð þeim árangri sem næst við innheimtu á Magma bréfinu en það er tryggt með handveði í 996,8 milljónum hluta í HS Orku hf. Á árinu 2017 tilkynnti fjárfestingasjóðurinn yfirtöku á hlutabréfunum og á því ekki frekari kröfu á Magma Energy Sweden AB. Síðustu þekktu viðskipti með hlutabréf í HS Orku hf. fóru fram á genginu 5,35 og miðað við það er verðmæti bréfsins um 5.333 milljónir króna. Krafan var bókfærð á um 1.333 milljónir króna í árslok 2015 og er staðan óbreytt. Í samkomulagi milli Reykjanesbæjar, Eignarhaldsfélagsins Fasteignar ehf. og kröfuhafa þess félags frá 12. febrúar 2018, með gildistöku þann 31.12.2017, er skjalfest að við uppgjör Fagfjárfestingasjóðsins ORK á kröfu Reykjanesbæjar verði þeim fjármunum ráðstafað til lækkunar á skuldum Eignarhaldsfélagsins Fasteignar ehf. við kröfuhafa. Á síðari hluta ársins 2018 hófst söluferli á kröfunni og mun það koma í ljós síðar á árinu 2019 hvert söluverðið verður.“

Það hlýtur að teljast óráð að gera ráð fyrir tekjum af uppgjöri ORK sjóðsins við Reykjanesbæ fyrr en fyrsta lagi á þessu ári. Staðfest tilboð í hlutbréfin í HS Orku liggur ekki fyrir þó að lífeyrissjóðir sem eru forkaupsrétthafar hafi einhverja vitneskju um hvert það er. Reykjanesbær hefur ekki verið upplýstur um neitt. Þá mun Reykjanesbær þurfa að greiða einhverja þóknun til sjóðsins áður en endanlegt uppgjör fer fram.

Það er því ankannalegt að bæjarfulltrúi sem sat í bæjarstjórn fyrir stjórnmálaflokk sem gerði alltaf ráð fyrir bestu mögulegu útkomu af öllu því sem ákveðið var, skuli halda áfram á sömu braut. Bitur reynsla af slíku virðist ekki hafa kennt honum neitt.

Þetta ferli hefur nú þegar tekið mörg ár og rétt og eðlilegt að bíða og sjá hverju þetta skilar sveitarfélaginu að lokum.“

Til máls tóku Baldur Þ. Guðmundsson, Guðbrandur Einarsson, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Margrét A. Sanders, Gunnar Þórarinsson og Jóhann Friðrik Friðriksson.

Ársreikningur 2018 samþykktur 11-0. Gunnar Þórarinsson, Frjálsu afli samþykkir reikninginn með fyrirvara. Telur hann að eignir sem og eigið fé sé verulega vanmetið í ársreikningi.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 19:15.