04.06.2019 17:00

567. fundur bæjarstjórnar Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 4. júní 2019 kl. 17:00

Viðstaddir: Anna Sigríður Jóhannesdóttir, Díana Hilmarsdóttir, Friðjón Einarsson, Guðbrandur Einarsson, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Gunnar Þórarinsson, Jóhann Friðrik Friðriksson, Margrét Ólöf A. Sanders, Margrét Þórarinsdóttir, Styrmir Gauti Fjeldsted, Ríkharður Ibsen, Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri og Hrefna Gunnarsdóttir ritari. Í forsæti var Jóhann Friðrik Friðriksson.

1. Fundargerðir bæjarráðs 23. og 31. maí 2019 (2019050058)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðirnar. Til máls tóku Margrét Þórarinsdóttir, Jóhann Friðrik Friðriksson, Friðjón Einarsson, Guðbrandur Einarsson, Ríkharður Ibsen og Gunnar Þórarinsson.

Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir, Miðflokki og lagði fram eftirfarandi bókanir:

Liður 1 í fundargerð bæjarráðs frá 23. maí 2019

„Á bæjarráðsfundi sem fram fór 23. maí s.l. var tekin fyrir samþykkt um gatnagerðargjöld. Af því tilefni leggur bæjarfulltrúi Miðflokksins áherslu á að endurskoða verður fasteignagjöld Reykjanesbæjar til lækkunar. Innheimt fasteignagjöld eru í hámarki og það er löngu tímabært að lækka þau, sér í lagi þar sem sveitarfélagið er nú komið undan Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga. Það var ekki fólkið sem í bæjarfélaginu býr sem kom Reykjanesbæ í slíkar fjárhagslegar kröggur, heldur þáverandi kjörnir fulltrúar. Þolinmæði íbúanna gagnvart gengdarlausri skuldasöfnun og óráðsíu var aðdáunarverð, sem leiddi til mikilla aukaútgjalda fyrir heimilin. Nú er komið að íbúum bæjarfélagsins, þegar fjárhagur Reykjanesbæjar er að braggast, og innleiða lækkun fasteignagjalda.“

Liður 10 í fundargerð bæjarráðs þann 23. maí 2019

„Ekki liggur enn fyrir kostnaðaráætlun vegna þessa verkefnis. Það er nauðsynlegt að fara í kostnaðargreiningu áður en haldið er áfram með ritun sögunnar sérstaklega í ljósi þess hve langt tímabil í sögu Keflavíkur er um að ræða. Tímabilið nær yfir tæp 45 ár. Ég vísa því í fyrri bókun mína frá 21 mars sem er svo hljóðandi:
Þann 3. mars kom Miðflokkurinn með fyrirspurn vegna útgáfu bókar um sögu Keflavíkur og spurði hver kostnaður við þessa fyrirhuguðu útgáfu yrði. Forseti bæjarstjórnar gat ekki svarað fyrirspurninni. Málið virðist vera þannig vaxið að hér er meirihlutinn að ráðast í verkefnið án þessa að liggi fyrir kostnaðaráætlun. Þetta eru að sjálfsögðu engin vinnubrögð. Rétt er að geta þess að svona verkefni, kostnaðurinn við svona bókaútgáfu, hefur tilhneigingu til að fara fram úr áætlunum. Má þar nefna útgáfu sögu Akraness sem dæmi.“

Liður 3 í fundargerð bæjarráðs 31. maí 2019

„Salan á hluta HS veitna til einkaaðila árið 2013 var framhald þeirrar sorgarsögu sem hófst með sölu Hitaveitu Suðurnesja árið 2007, sem þáverandi meirihluti sjálfstæðismanna hér í Reykjanesbæ stóð fyrir og verður lengi minnst sem einna stærstu pólitísku mistaka sem gerð hafa verið hér á landi. Salan á Hitaveitunni var meðal annars réttlætt með því að dreifikerfið yrði áfram í eigu sveitarfélaganna undir nafninu HS Veitur. Annað kom síðan á daginn, eins og við þekkjum. HS veitur voru seldar eins langt og lög leyfðu.
Samkvæmt lögum verða veitufyrirtæki að vera í meirihlutaeigu opinberra aðila. Væri þetta ákvæði ekki í lögum hefðu sjálfstæðismenn sjálfsagt selt allan hlutinn í HS veitum, eins og þeir gerðu með hlutinn í HS Orku. Meira að segja voru gerðar tilraunir til að samþykkja sérstakt hluthafasamkomulag HS veitna um að ákvörðunarvaldið yrði á endanum í höndum einkaaðila. Þessu neituðu bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins á sínum tíma, en þeir höfðu neitað ýmsu áður, eins og við þekkjum. Sögðu til dæmis að það stæði aldrei til að selja hlutinn í Hitaveitunni. Allir þekkja síðan hvernig þeir gengu á bak orða sinna.
HS Veitur er fyrirtæki sem veitir grunnþjónustu, sem ekkert sveitarfélag getur verið án og samkeppni er engin, eins og í sölu og dreifingu á heitu og köldu vatni. Fyrirtækið var að fullu í eigu sveitarfélaganna. Í dag er 34,38% fyrirtækisins í eigu einkaaðila, HSV eignarhaldsfélags.
Það átti aldrei að selja einn einasta hlut í HS Veitum, hvað þá HS Orku. Árið 2012, fyrir söluna á hlut í HS veitum til einkaaðila var hagnaður fyrirtækisins eftir skatta 442 milljónir. Í ársreikningi kom fram að fjárhagsstaðan hafi verið sterk og horfur góðar. Hvers vegna í ósköpunum þurfti að selja svona gott fyrirtæki í eigu almennings? Það tók kaupendur ekki mörg ár að fá kaupverðið að fullu til baka í formi arðgreiðslna. Það verður seint tekið frá sjálfstæðismönnum í Reykjanesbæ að þeir fórnuðu almannahagsmunum fyrir skammtímagróða.
Veitufyrirtæki eiga að vera í eigu opinberra aðila að fullu. Það er skoðun mikils meirihluta landsmanna. Ég skora hér með á meirihlutann að leita allra leiða til þess að þetta mikilvæga fyrirtæki HS veitur komist aftur í eigu almennings að fullu. Nú þegar 15% hlutur einkaaðila í fyrirtækinu er til sölu og Reykjanesbær á forkaupsrétt. Bæjarfulltrúi Miðflokksins krefst þess að Reykjanesbær nýti forkaupsrétt sinn í HS veitum og leiti til þess allra leiða að fjármagna kaupin.“

Margrét Þórarinsdóttir, Miðflokki.

Til máls tók Guðbrandur Einarsson, Beinni leið og lagði fram eftirfarandi bókun:

„Bæjarfulltrúa Miðflokksins ætti að vera það ljóst að sveitarfélagið vinnur eftir samþykktri fjárhagsáætlun sem hlotið hefur náð fyrir Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga. Það hefur aldrei verið ætlun meirihluta bæjarstjórnar Reykjanesbæjar að skattpína íbúa sveitarfélagsins og mun lækka skatta um leið og færi gefst.“

Guðbrandur Einarsson, Beinni leið.

Til máls tók Ríkharður Ibsen og lagði fram eftirfarandi bókun frá bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokks:

„Fram kemur í fundargerð bæjarráðs 31. maí undir 5. lið að bæjarráð samþykkir drög að samkomulagi um slit á Fasteignasjóðnum ORK upp á rúma 4 milljarða sem rennur beint til Reykjanesbæjar.
Í ljósi þessara tíðinda vill D-listinn koma því á framfæri að fulltrúar núverandi meirihluta hafa áður látið í veðri vaka að þessi svokölluðu Magma-bréf mætti reikna nánast niður í ekki neitt - en nú hefur aldeilis annað komið á daginn. Ennfremur hafa þeir talið að Reykjanesbær fari aftur yfir lögbundið skuldaviðmið á þessu ári vegna fjárfestinga hjá bæjarfélaginu án þess að taka þetta samkomulag um slit á ORK sjóðnum með inn í reikninginn.
Því vill D-listinn árétta að ekki þýðir fyrir núverandi meirihluta að eigna sér heiðurinn af fjármunum sem þeir sjálfir höfðu afskrifað og gangrýndu þáverandi stjórnendur fyrir að semja um. Það er jafn rangt og að halda því fram að skuldir hafi lækkað þegar þær hafa í raun hækkað. Það er jafn rangt og að þakka sér fyrir tekjur af ytri aðstæðum og innviðum sem aðrir byggðu upp eða áætla tekjur af kísilmálmverum í aðra höndina en berjast á móti þeim með hinni.
D-listinn fagnar þessum málalokum með ORK sjóðinn og leggur áherslu á að auka ekki skattbyrði á íbúa, lækkun fasteignaskatta, aukna atvinnuuppbyggingu og skynsamlega uppbyggingu innviða á næstu árum ásamt mikilvægi þess að aðhalds sé gætt í rekstri sveitarfélagsins.
D-listinn óskar bæjarbúum í Reykjanesbæ til hamingju með þessar málalyktir - því að það er morgunljóst að ávinningurinn er allra þegar vel er gert.“

Margrét A. Sanders, Anna Sigríður Jóhannesdóttir og Ríkharður Ibsen, Sjálfstæðisflokki.

Til máls tók Guðbrandur Einarsson og lagði fram eftirfarandi bókun meirihluta bæjarstjórnar:

„Svokölluð Magmabréf eru löngu horfin á ruslahauga fortíðar og ekki Sjálfstæðisflokknum að þakka að nú sé sveitarfélagið að fá fjármuni út úr FORK-sjóðnum svonefndum. Ýmsar aðstæður hafa hins vegar orðið til þess að það veð sem lá að baki þessu Magmabréfi sem fór í vanskil er nú að skila okkur fjármunum sem munu nýtast okkur til að greiða niður skuldir. Það má með sama hætti spyrja að því hversu miklu sveitarfélagið hefur tapað á því að selja HS-Orku á sínum tíma.“

Guðbrandur Einarsson, Beinni leið, Jóhann Friðrik Friðriksson og Díana Hilmarsdóttir, Framsóknarflokki og Friðjón Einarsson, Guðný Birna Guðmundsdóttir og Styrmir Gauti Fjeldsted, Samfylkingu.

Fundargerðirnar samþykktar 11 – 0.

Fylgigögn

Fundargerð 1220. fundar bæjarráðs 23. maí 2019
Fundargerð 1221. fundar bæjarráðs 31. maí 2019

2. Fundargerð velferðarráðs 26. maí 2019 (2019050527)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina.

Fundargerðin samþykkt 11 – 0 án umræðu.

Fylgigögn

Fundargerð 375. fundar velferðarráðs 26. maí 2019

3. Fundargerð íþrótta- og tómstundaráðs 28. maí 2019 (2019050295)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Margrét Þórarinsdóttir, Anna Sigríður Jóhannesdóttir, Jóhann Friðrik Friðriksson, Kjartan Már Kjartansson, Friðjón Einarsson, Gunnar Þórarinsson og Margrét A. Sanders.

Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir, Miðflokki og lagði fram eftirfarandi bókanir:

Liður 1 í fundargerð íþrótta og tómstundarráðs 28. maí 2019

„Ég furða mig á að í fundargerðinni eru engin gögn varðandi þennan lið en ráðgjafar Capacent mættu á fundinn og gerðu grein fyrir málinu. Ég óska eftir því að fá þessar upplýsingar.“

Liður 3 í fundargerð íþrótta og tómstundarráðs 28. maí 2019

„Ég fagna þessu enda er löngu orðið tímabært að við hyglum afreksfólkinu okkar, sama hvaða íþrótt það stundar. Ég geri það að tillögu minni að Reykjanesbær stofni afrekssjóð fyrir framúrskarandi ungt íþróttafólk í bæjarfélaginu okkar. Í hann væri hægt að leita þegar ungmennin okkar eru valin í landslið og óháð því hvað mörg ungmenni ná svo langt. Ef Reykjanesbær á að rísa undir merki sem íþróttabær verður að hlúa að unga fólkinu sem leggur mikið á sig til árangurs. Margar rannsóknir hafa sýnt að íþróttir hafa mikið forvarnargildi og við eigum að vera stolt af afreksfólkinu okkar og gera því kleift að stunda íþróttir óháð fjárhag foreldranna. Slíkur sjóður gerir það kleift.

Ég mun leggja fram tillögu þessa efnis á næsta bæjarstjórnarfundi.“

Margrét Þórarinsdóttir, Miðflokki.

Fundargerðin samþykkt 11 – 0.

Fylgigögn

Fundargerð 130. fundar íþrótta- og tómstundaráðs 28. maí 2019

4. Fundargerð barnaverndarnefndar 29. maí 2019 (2019050479)

Fundargerð barnaverndarnefndar lögð fram.

Fylgigögn

Fundargerð 260. fundar barnaverndarnefndar 29. maí 2019

5. Fundargerð fræðsluráðs 31. maí 2019 (2019050417)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Margrét Þórarinsdóttir, Anna Sigríður Jóhannesdóttir, Guðbrandur Einarsson og Margrét A. Sanders.

Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir, Miðflokki og lagði fram eftirfarandi bókun:

Liður 4 í fundargerð fræðsluráðs 31. maí 2019

„Ég tel að þetta sé mjög þarft vinnuplagg og tilefni til að gera enn betur.
Varðandi starfsmannakönnun leikskóla þá sé ég að tíðni áreiti meðal starfsfólks er 13.4% í Reykjanesbæ en einungis 7.5% á landsvísu. Einnig kemur fram að aðgengi að ráðgjöf sérfræðinga utan skólans er 58.5% hjá Reykjanesbæ en 70.3% á landsvísu.
Ég tel að þetta séu áhyggjuefni sem er vert að athuga.
Heilt yfir er það ánægjulegt hve þessi starfsmannakönnun leikskóla og grunnskóla kemur vel út.“

Margrét Þórarinsdóttir, Miðflokki.

Fundargerðin samþykkt 11 – 0.

Fylgigögn

Fundargerð 324. fundar fræðsluráðs 31. maí 2019

6. Endurskoðun stjórnskipulags Reykjanesbæjar - fyrri umræða (2019050809)

Forseti gaf orðið laust. Til máls tóku Friðjón Einarsson, Margrét A. Sanders, Jóhann Friðrik Friðriksson, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Gunnar Þórarinsson, Ríkharður Ibsen og Guðbrandur Einarsson.

Til máls tók Margrét A. Sanders og lagði fram eftirfarandi bókun frá bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokks:

„D – listinn getur ekki samþykkt tillögu um nýtt skipurit sem meirihluti bæjarráðs í Reykjanesbæ leggur fram.
Megin ástæða þess er eftirfarandi:
Ábyrgð óskýr – málaflokkar eru settir á nokkra staði án þess að tilgreina hvar ábyrgð hvers og eins liggur. Ekki er ljóst hverjir eru sviðsstjórar eða hverjir eru aðrir stjórnendur.
Hlutverk óskýr – ekki er skýrt hver á að gera hvað og hver á að stýra hverju. Málaflokkar á nokkrum stöðum.
Hlutverk nefnda skarast, settar inn í skipurit óháð því hvaða sviðsstjóri ber ábyrgð á þeim og því erfitt að átta sig á hver er umsjónarmaður. Framtíðarnefnd ekkert skilgreind.
Upphaflega var gert ráð fyrir því að leggja niður íþrótta- og tómstundaráð, það var sett þannig inn í breytingar á samþykktum og svo tekið út. Tillaga ráðgjafa og bæjarstjóra er að íþrótta- og tómstundaráð „verði í það minnsta starfandi næsta árið, meðan unnið er að innleiðingu stefnumótunar og aukinnar áherslu á lýðheilsumál.“ Samkvæmt þeirri tillögu mun þá málaflokkurinn íþrótta- og tómstundamál falla undir velferðarráð samkvæmt þessu og það getum við alls ekki samþykkt.
Ráða á þrjá starfsmenn inn samkvæmt tillögu um skipuritið og samkvæmt upplýsingum sem fylgdu gögnum kostar það 50 milljónir á ári. Á sama tíma og of miklar álögur eru á bæjarbúa, nauðsyn fyrir uppbyggingu innviða og mikið álag á starfsfólk er lagt til að eftirfarandi starfsmenn verði ráðnir sem er ekki í samræmi við þá óvissu sem er framundan í atvinnulífi:
Aðstoðarmaður bæjarstjóra – ef bæjarstjóri þarf ritara þá leggjumst við ekki á móti því en teljum of í lagt að setja það upp þannig að um aðstoðarmann sé að ræða sem kemur fram í skipuriti eða sett fram í tillögum á breyttu skipulagi.
Starfsmaður lýðheilsuráðs – sett inn í starfslýsingu að viðkomandi þurfi að hafa menntun sem lýðheilsufræðingur. Stór fjöldi faghópa eru vel til þess fallnir að geta sinnt slíku starfi og má þar nefna íþróttafræðingar, sálfræðingar, hjúkrunarfræðingar, læknar og fleira fagfólk svo ekki sé rætt um bakgrunn og reynslu þess fagfólks. Þessi þrönga starfslýsing virkar eins og sérsniðin auglýsing.
Skrifstofustjóri Súlunnar - starfslýsing skrifstofustjóra er keimlík starfslýsingu verkefnastjóra viðskiptaþróunar og sum hlutverk nákvæmlega þau sömu.
Ofantalið eru einungis fá atriði sem tekin eru dæmi um, en mikilvægt er að vanda vel svona skipulagsbreytingar með góða stjórnarhætti í huga.“

Margrét A. Sanders, Anna Sigríður Jóhannesdóttir og Ríkharður Ibsen, Sjálfstæðisflokki.

Gunnar Þórarinsson, Frjálsu afli, lagði fram tillögu um að málinu verði frestað fram á haust. Tillagan var felld með 7 atkvæðum Samfylkingar, Framsóknarflokks, Beinnar leiðar og Miðflokks gegn 4 atkvæðum Frjáls afls og Sjálfstæðisflokks.

Samþykkt að vísa málinu til næsta bæjarstjórnarfundar til seinni umræðu með 7 atkvæðum Samfylkingar, Framsóknarflokks, Beinnar leiðar og Miðflokks gegn 4 atkvæðum Frjáls afls og Sjálfstæðisflokks.

7. Endurskoðun samþykkta Reykjanesbæjar - fyrri umræða (2019050808)

Forseti gaf orðið laust. Til máls tóku Jóhann Friðrik Friðriksson og Margrét A. Sanders.

Málinu vísað til næsta bæjarstjórnarfundar til seinni umræðu.

8. Reykjanesbær 25 ára 11. júní 2019 - hátíðarfundur bæjarstjórnar (2019050828)

Forseti bæjarstjórnar lagði fram eftirfarandi tillögu um að bæjarstjórn Reykjanesbæjar haldi sérstakan hátíðarfund í Stapa þriðjudaginn 11. júní nk. kl. 17:00.

Í tilefni af því að 25 ár eru liðin frá stofnun Reykjanesbæjar og fyrsta bæjarstjórn nýs sveitarfélags tók til starfa. Bæjarbúum er boðið á fundinn og til kaffisamsætis í Stapa að honum loknum.

Drög að dagskrá fundar:

1. Forseti setur fund.
2. Forseti rekur í stórum dráttum aðdraganda sameiningar og 25 ára sögu Reykjanesbæjar.
3. Stefnumótun Reykjanesbæjar til ársins 2030, fyrri umræða.
4. Nýtt stjórnskipulag Reykjanesbæjar, síðari umræða.
5. Breytingar á Samþykkt um stjórn Reykjanesbæjar og fundarsköpum bæjarstjórnar (bæjarmálasamþykkt), síðari umræða.

Forseti gaf orðið laust. Til máls tók Margrét A. Sanders.

Tillaga um að halda hátíðarfund í Stapa 11. júní n.k. var samþykkt 11-0.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 19:45.