03.12.2019 17:00

577. fundur bæjarstjórnar Reykjanesbæjar var haldinn í Merkinesi, Hljómahöll þann 3. desember 2019 kl. 17:00

Viðstaddir: Anna Sigríður Jóhannesdóttir, Baldur Þ. Guðmundsson, Díana Hilmarsdóttir, Friðjón Einarsson, Guðbrandur Einarsson, Gunnar Þórarinsson, Jóhann Friðrik Friðriksson, Margrét Þórarinsdóttir, Styrmir Gauti Fjeldsted, Eydís Hentze Pétursdóttir, Hanna Björg Konráðsdóttir, Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri og Hrefna Gunnarsdóttir ritari. Í forsæti var Jóhann Friðrik Friðriksson.

1. Fundargerðir bæjarráðs 21. og 28. nóvember (2019050058)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðirnar. Til máls tók Díana Hilmarsdóttir.

Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir, (M) og lagði fram eftirfarandi bókun:

Liður 2 í fundargerð bæjarráðs frá 21. nóvember 2019:

„Mig setti hljóða þegar ég fór að rýna fjárhagsáætlun bæjarins fyrir árið 2020 og sá allan þennan kostnaðarauka við stjórnsýslusviðið. Hækkunin er upp á rúmar 40 milljónir á milli ára. Það sem kom mér mest á óvart var að laun sviðsstjóra voru hækkuð um 8,9% eða 122.000 þúsund krónur og eru orðin 1.420.000 krónur á mánuði. Finnst meirihlutanum eðlilegt að hækka laun þeirra með einu pennastriki. Þvílíkt dómgreindarleysi og þessi ákvörðun er algerlega úr takti við samninga á almennum vinnumarkaði. Ég tel þessar hækkanir hafa verið brot á yfirlýsingu sem Samband íslenskra sveitarfélaga gaf út í tengslum við lífskjarasamninginn í vor en þar er meðal annars talað um verðstöðugleika, að hækka ekki gjaldskrár og að laun hækki ekki umfram 3,8%. Ekki má gleyma að víða eru samningar lausir við viðsemjendur Reykjanesbæjar. Væri ekki nær að meirihlutinn semji strax við starfsfólk sitt og hækka alla um 8,9 %? Ég bara spyr? Samningarnir hafa verið lausir í rúmlega 250 daga. Þurfti virkilega að hækka þessa embættismenn? Ég velti fyrir mér hvort að sviðsstjórarnir sem eru nýbyrjaðir að vinna hjá stjórnsýslunni hafi ekki samþykkt þau laun sem um var rætt þegar þeir voru ráðir. Eða var búið að lofa þeim hækkun strax? Tveir sviðsstjórar eru nýbyrjaðir, annar er búinn að starfa í einn og hálfan mánuð og hinn í 3 mánuði. Jú, umbunum þeim fyrir vel unnin störf og hækkum laun þeirra um 8,9%. Við stöndum frammi fyrir auknu atvinnuleysi hér á svæðinu sem hefur í för með sér minni útsvarstekjur. Gerir meirihlutinn sér ekki grein fyrir því?
Meðan við erum undir Eftirlitsnefnd um fjármálum sveitarfélaga þá er embættisbáknið aukið með tilheyrandi kostnaði þrátt fyrir að rafræna eigi stjórnsýsluna. Þetta er alveg með ólíkindum og við íbúar Reykjanesbæjar eigum að sætta okkur við álögur sem eru í hæstu hæðum og eru að sliga íbúana.
Mér hefur verið tíðrætt um systkinaafslátt af skólamat og hef komið með nokkrar tillögur varðandi útfærslur á þeirri hugmynd þar sem það þótti of dýrt að veita gjaldfrjálsar skólamáltíðir. Öllum hugmyndum mínum í þá veru hefur alfarið verið hafnað. Í fjárhagsáætluninni er gert ráð fyrir að þriðja og fjórða barn fái gjaldfrjálsar skólamáltíðir og því ber að fagna. Við eigum að gera betur. Að veita barni tvö 50% afslátt af skólamat þá yrði kostnaðurinn um 23,5 milljónir á ári og fengju 1.229 börn afslátt af 2.164 börnum. Ef veittur yrði 25% afsláttur af barni tvö þá yrði kostnaðurinn 11,7 milljónir á ársgrundvelli. Væri ekki nær að lofa barnafjölskyldum að njóta 25% afsláttar af skólamat í stað þess að eyða 10 milljónum í hækkun á launum sviðsstjóra á ársgrundvelli sem er þvert á lífskjarasamningana.
Ætlar meirihlutinn virkilega að hundsa hörð viðbrögð verkalýðshreyfingarinnar. Hefur meirihlutinn engar áhyggjur af því að samningar eru t.d. lausir hjá 260 félagsmönnum VSFK.
Ég kem því hér með þá tillögu að bæjarstjórn samþykki að dregnar verið til baka þær launahækkanir til sviðsstjóra um 8.9% eða um 122.000 krónur á mánuði.“

Margrét Þórarinsdóttir, Miðflokki.

Til máls tóku Anna Sigríður Jóhannesdóttir, Friðjón Einarsson, Baldur Þ. Guðmundsson, Margrét Þórarinsdóttir, Guðbrandur Einarsson, Gunnar Þórarinsson og Jóhann Friðrik Friðriksson.

Forseti bar upp tillögu Margrétar Þórarinsdóttur og var hún felld með 6 atkvæðum Samfylkingar, Framsóknarflokks og Beinnar leiðar gegn 5 atkvæðum Sjálfstæðisflokks, Miðflokks og Frjáls afls.

Til máls tók Friðjón Einarsson (S) og lagði fram eftirfarandi bókun:

„Vegna tillögu bæjarfulltrúa Miðflokksins sem nú hefur verið felld vill meirihluti Beinnar leiðar, Framsóknarflokks og Samfylkingar taka fram:
Þessi breyting er ekki framkomin að frumkvæði meirihlutans heldur vegna beiðni viðkomandi starfsfólks um samræmingu á launum til jafns við starfsfólk í öðrum sveitarfélögum.

1. Beiðni sviðsstjóra var tekin fyrir utan dagskrár á fundi bæjarráðs þann 24.október og formanni ráðsins falið að eiga viðræður við sviðsstjóra. Fulltrúi Miðflokksins sat þann fund. Eftirfarandi var síðan bókað á fundi bæjarráðs þann 31. október:

Bókun 31. október

4. Kjaramál (2019100102)

Bæjarráð samþykkir framlagðar tillögur varðandi kjaramál sviðsstjóra og forstöðumanna og formanni falið að ganga frá málinu.

Fulltrúi Miðflokksins lýsti engri skoðun í málinu á þeim fundi. Fundargerðin var síðan samþykkt á bæjarstjórnarfundi þann 5. nóvember síðastliðinn af öllum bæjarfulltrúum, þar með talinn bæjarfulltrúi Miðflokksins.

2. Laun sviðsstjóra voru fyrir endurskoðun kr. 1.298.560 með allri yfirvinnu og að meðtöldum orlofs- og desemberuppbótum. Á Akureyri sem er jafnstórt sveitarfélag eru 9 sviðsstjórar í samanburði við þá 6 yfirmenn sem um ræðir hjá Reykjanesbæ sem fá greitt skv. launakjörum sviðsstjóra. Laun sviðsstjóra á Akureyri eru kr. 1.424.000 og þeir fá síðan greiddar orlofs- og desemberuppbætur.

Í Hafnarfirði eru laun sviðstjóra kr. 1.521.000 og til viðbótar orlofs- og desemberuppbætur. Því er ljóst að sviðsstjórar í Reykjanesbæ eru þrátt fyrir þessa hækkun, lægri en sviðsstjórar þessara sveitarfélaga og reyndar margra annarra. Það má því halda því fram, að í raun sé hér um leiðréttingu að ræða.

3. Umræddir starfsmenn voru ekki teknir með í starfsmat það sem unnið var hjá Reykjanesbæ á síðasta ári og færði starfsfólki Reykjanesbæjar launahækkun sem nam 6% að meðaltali.

4. Umfang sviða Reykjanesbæjar hefur verið að aukast verulega þrátt fyrir að sviðum hafi ekki fjölgað og því hefur álag á umrædda starfsmenn aukist í samræmi við það, án þess að til hafi komið aukagreiðsla vegna yfirvinnu.

5. Í einhverjum tilfellum var það orðið þannig að undirmenn sviðsstjóra voru komnir upp fyrir þá í launum eftir kjarasamningsbundnar hækkanir.

Við teljum að ekki sé á neinn hallað þó að þessi ákvörðun hafi verið tekin og áfram verður markvisst unnið að því að bæta starfsumhverfi starfsfólks Reykjanesbæjar og tryggja samkeppnishæfni sveitarfélagsins.“

Guðbrandur Einarsson (Y), Friðjón Einarsson (S), Eydís Hentze Pétursdóttir (S), Styrmir G. Fjeldsted (S), Jóhann Friðrik Friðriksson (B) og Díana Hilmarsdóttir (B).

Fundargerðirnar samþykktar 10-0, bæjarfulltrúi Miðflokks sat hjá.

Fylgigögn:

Fundargerð 1245. fundar bæjarráðs
Fundargerð 1246. fundar bæjarráðs

2. Fundargerð stjórnar Reykjaneshafnar 21. nóvember 2019 (2019051155)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina.

Fundargerðin samþykkt án umræðu 11 – 0.

Fylgigögn:

Fundargerð 235. fundar stjórnar Reykjaneshafnar

3. Fundargerð barnaverndarnefndar 25. nóvember 2019 (2019050479)

Fundargerðin lögð fram.

Fylgigögn:

Fundargerð 264. fundar barnaverndarnefndar

4. Fundargerð framtíðarnefndar 27. nóvember 2019 (2019090657)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tók Styrmir G. Fjeldsted.

Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir, (M) og lagði fram eftirfarandi bókun:

Liður 2 í fundargerð framtíðarnefndar frá 27. nóvember 2019:

„Miðflokkurinn í Reykjanesbæ hefur alla tíð talað og barist fyrir íbúalýðræði. Íbúakosningar eru bundnar í X. kafla sveitastjórnarlaga sem ber heitið samráð við íbúa. Nú þegar hafa íbúar bæjarins safnað undirskriftum til að knýja fram íbúakosningu vegna kísilversins. Meirihlutinn tók ekki tillit til undirskriftanna og vísaði þeim frá á tæknilegum grunni. Það er hjákátlegt að nú skuli poppa upp minnisblað um aukið íbúalýðræði. Vilji meirihlutans til þess að virkja íbúana er bara í orði en ekki á borði. Það hefur svo sannarlega sýnt sig.“

Margrét Þórarinsdóttir, Miðflokki.

Til máls tóku Guðbrandur Einarsson, Friðjón Einarsson, Kjartan Már Kjartansson, Anna Sigríður Jóhannesdóttir og Baldur Þ. Guðmundsson.

Fundargerðin samþykkt 11 – 0.

Fylgigögn:

Fundargerð 3. fundar framtíðarnefndar

5. Endurskoðun jafnréttisáætlunar (2019050790)

Forseti gaf orðið laust um jafnréttisáætlun Reykjanesbæjar 2019-2023. Til máls tók Kjartan Már Kjartansson er fylgdi áætluninni úr hlaði.

Jafnréttisáætlunin samþykkt 11 – 0.

Fylgigögn:

Jafnréttisáætlun

6. Atvinnu- og þróunarsvæði á Miðnesheiði (2019050820)

Forseti gaf orðið laust. Til máls tóku Friðjón Einarsson, Baldur Þ. Guðmundsson og Kjartan Már Kjartansson.

Samningur um atvinnu- og þróunarsvæði á Miðnesheiði samþykktur 11 – 0.

7. Reglur um notendastýrða persónulega aðstoð - NPA (2019070239)

Forseti gaf orðið laust. Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir, (M) og lagði fram eftirfarandi bókun:

„Miðflokkurinn fagnar því að Reykjanesbær er búinn að setja reglur um NPA. Lagaleg skylda hvílir á sveitarfélögum að veita þessa mikilvægu þjónustu. Hér er um tímamótalög að ræða sem Alþingi setti en NPA verður helsta þjónustuformið við fatlað fólk. Þessi þjónusta mun gera fötluðu fólki kleift að búa heima en í því felst langþráð frelsi. Einstaklingar geta þar með ráðið sér aðstoðarmann sem fylgir viðkomandi hvert sem er.
Varðandi atvinnumál fatlaðra þá óska ég þess að meðal atvinnurekenda hér á svæðinu þegar valið stendur á milli fatlaðs og ófatlaðs fólks þegar kemur að vinnu þá þarf ekki alltaf að ganga fram hjá þeim sem eru t.,d. í hjólastól. Reykjanesbær þarf að sýna gott fordæmi og ráða í vinnu fólk sem hefur ekki fulla starfsgetu. Mikilvægt er að sveitarfélögin beiti sér fyrir því á sínum sameiginlega vettvangi að þrýsta á ríkisvaldið um að afnema krónu á móti krónu skerðingu þegar kemur að atvinnumálum. Hér er um mikið réttlætismál að ræða og ekki síst lýðheilsumál. Ferðaþjónusta fatlaðs fólk er ein af grundvallarþjónustu fyrir fatlaða en án góðrar ferðaþjónustu fá fatlaðir ekki að njóta sjálfsagðra mannréttinda á borð við atvinnu, nám og tómstundir.
Reykjanesbær er með hámarks ferðafjölda í mánuði, sem er rúmlega 60 ferðir. Sjálfsagt er að skoða hvort þurfi ekki að bæta þessa þjónustu.
Þó svo að örorkubætur séu ekki á könnu sveitarfélaganna verður ekki hjá því komist að minnast á það hér hversu brýnt er að bæta kjör öryrkja sem eru 204.000 krónur á mánuð, það sjá það allir að það er hægt að lifa mannsæmandi lífi á þessari upphæð. Við sambúð lækka þessar bætur síðan. Sveitarfélögin hafa rödd og því er mikilvægt að öryrkjabandalagið fái sveitarfélögin í lið með sér þegar kemur að því að þrýsta á ríkisvaldið um hækkun bóta.“

Margrét Þórarinsdóttir, Miðflokki.

Reglur um notendastýrða persónulega aðstoð – NPA samþykkt 11-0.

8. Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar og sameiginlega rekinna stofnana 2020 - 2023 – síðari umræða (2019070112)

Forseti gaf orðið laust. Til máls tók Kjartan Már Kjartansson.

Til máls tók Gunnar Þórarinsson (Á) og lagði fram eftirfarandi bókun bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Miðflokks og Frjáls afls:

„Minnihlutinn er ósáttur við áherslur meirihlutans með auknum álögum á íbúa bæjarins og harmar sérstaklega að mikil tekjuaukning sé ekki nýtt til að svara ákalli bæjarbúa um hóflega innheimtu fasteignaskatta. Reykjanesbær er að innheimta hæstu fasteignaskatta af öllum bæjarfélögum landsins. ORK sjóðurinn skilar bæjarsjóði rúmum fjórum milljörðum og lögbundnu skuldaviðmiði hefur verið náð.

Minnihlutinn er ósáttur við kostnaðarsamar breytingar á stjórnskipulagi bæjarins sem eru illa skilgreindar, illa útfærðar og hafa í för með sér verulega aukin útgjöld. Þá er rétt að vekja athygli á miklum launahækkunum sem meirihlutinn stendur að, til stjórnenda bæjarins langt umfram hækkanir launa sem samið var um í lífskjarasamningunum.

Hluti minnihlutans samþykkti síðustu fjárhagsáætlun en lagði þar áherslu á 4 atriði sem meirihlutinn hefur ekki tekið tillit til – sérstaklega lækkun fasteignaskatta.

Minnihlutinn leggur áherslu á aðhald í rekstri, aukna atvinnuuppbyggingu og skynsamlega uppbyggingu innviða á næstu árum sem er forsenda fyrir lækkun fasteignaskatta.

Minnihlutinn samþykkir því ekki fjárhagsáætlun fyrir árið 2020.“

Gunnar Þórarinsson (Á), Margrét Þórarinsdóttir (M), Hanna Björg Konráðsdóttir (D), Baldur Guðmundsson (D) og Anna Sigríður Jóhannesdóttir (D).

Til máls tók Guðbrandur Einarsson (Y) og lagði fram eftirfarandi bókun meirihluta bæjarstjórnar, bæjarfulltrúa Beinnar leiðar, Framsóknarflokks og Samfylkingar:

„Glöggt er gests augað

Í frétt Viðskiptablaðsins frá 21. nóvember síðastliðinn kemur meðal annars fram að sjö af tólf stærstu sveitarfélögunum stefna að lækkun álagningarprósentu fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði á næsta fjárhagsári og sex þeirra lækka prósentuna einnig á atvinnuhúsnæði. Hins vegar lækka einungis Reykjanesbær, Akranes og Vestmannaeyjar nógu mikið til þess að tekjur þeirra muni ekki hækka umfram þau 2,5% sem Samband íslenskra sveitarfélaga hefur mælst til, til að greiða fyrir kjarasamningum á almennum vinnumarkaði síðastliðið vor. 

Álagning fasteignaskatta 2019 og 2020 stærstu sveitarfélögin

 Það hefur því verið staðfest sem núverandi meirihluti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar hefur haldið fram, að sú lækkun fasteignaskatts sem birtist í fjárhagsáætlun 2020 þýðir raunlækkun á greiðslu fasteignaskatts, þar sem fasteignamat íbúða hækkar að meðaltali minna en sem nemur lækkun álagningarstofns fasteignaskatts. Þessu til viðbótar mun fráveitugjald lækka um þriðjung.

Eðlilegar skýringar á fjölgun starfsmanna Reykjanesbæjar

Því hefur verið haldið á lofti að stjórnsýslan í Reykjanesbæ sé að þenjast út sem aldrei fyrr, að báknið sé að stækka eins og það er orðað. Tölur um launagreiðslur sem hlutfall af tekjum segja hins vegar aðra sögu. Vissulega er störfum að fjölga í Reykjanesbæ og á það sínar eðlilegu skýringar.

Þróun íbúafjöldaFrá árinu 2014 hefur íbúum í Reykjanesbæ fjölgað um 4.867 eða 33,5%.

Samkvæmt Gagnatorgi Reykjanesbæjar voru íbúar 14.524 talsins árið 2014 en í október 2019 voru þeir orðnir 19.391. Á sama tímabili hefur nemendum í grunnskólum Reykjanesbæjar fjölgað um 374 eða 18%.

Nemendur í grunnskólum Reykjanesbæjar voru 2.072 árið 2014 og eru nú 2.446. Til að setja þessar tölur í samhengi má geta þess að í Myllubakkaskóla eru nú 369 nemendur og í Holtaskóla eru nemendur 396.

Það er því hægt að segja að fjölgun síðustu ára nemi nemendafjölda í heilum grunnskóla.

Þróun nemendafjölda í grunnskólumHver nemandi í grunnskólum Reykjanesbæjar kostar samkvæmt upplýsingum frá fræðsluskrifstofu 1.518 þúsund krónur og því er viðbótarkostnaður vegna þessarar miklu fjölgunar nemenda orðinn tæpar 600 milljónir. Börnum í grunnskólum sem hafa annað tungumál en íslensku sem móðurmál hefur einnig fjölgað verulega og eru nú 25,3% af heildarfjölda nemenda. Fjöldi barna sem fá sérstaka kennslu í íslensku sem öðru tungumáli hefur fjölgað verulega frá árinu 2014 eða um 55%.

Þrátt fyrir að börnum í leikskólum Reykjanesbæjar hafi ekki fjölgað mikið hefur börnum sem hafa annað tungumál en íslensku fjölgað verulega og eru nú orðin 27,2% allra leikskólabarna eða 255 talsins.

Þessar miklu samfélagsbreytingar kalla eðlilega á fjölgun starfsfólks og hefur starfsfólki í grunnskólum fjölgað úr 340 árið 2014 í 464 eða um 37%. Starfsfólki á leikskólum hefur hins vegar fjölgað um tæplega 9% þrátt að börnum hafi aðeins fjölgað lítillega. Gera má ráð fyrir að samfélagsbreytingin sé að hafa þessi áhrif.

 Fræðslusvið stöðugildi

Það vekur hins vegar athygli að á sama tíma og þessi þróun hefur átt sér stað, hafa útgjöld vegna launa sem hlutfall af tekjum lækkað úr 47% á árinu 2014 í 42% árinu 2018. Öllu tali um að báknið sé að stækka er því vísað til föðurhúsanna.

Kennsla hefst í Stapaskóla

Í fjárhagsáætlun 2020 er gert ráð fyrir að fyrsta áfanga byggingar Stapaskóla verði lokið í júní 2020 og skólastarf hefjist þar um haustið. Þetta mun hafa aukin útgjöld í för með sér til langrar framtíðar og er gert ráð fyrir í því í fjárhagsáætlun.

Samtekt Arion banka sýnir bætta stöðu

Í samantekt um ársreikninga sveitarfélaga sem greiningardeild Arion banka lagði fram í júlí síðastliðnum koma ýmsar áhugaverðar upplýsingar fram.
Þar má meðal annars lesa að veikleikamerkjum Reykjanesbæjar hefur frá árinu 2014 fækkað úr 13 í 5.

Þessi samantekt sýnir einnig að allar lykiltölur hafa verið að batna undanfarin ár og að rekstur Reykjanesbæjar hefur gengið vel undanfarin ár.

Skuldahlutfall sveitarfélagsins er enn hæst á Íslandi þó að það hafi lækkað undanfarin ár og er nú 210% en var 254% á árinu 2014.
Reglur um skuldaviðmið gera það hins vegar að verkum að hægt er að finna eitt sveitarfélag þar sem skuldaviðmiðið er hærra en í Reykjanesbæ.
Of stór hluti af tekjum Reykjanesbæjar fer í að greiða vexti og afborganir af lánum. Það á því að vera okkar meginmarkmið að lækka skuldir sveitarfélagsins.

Álögur á íbúa fara lækkandi

Þrátt fyrir að við höfum enn ekki náð öllum þeim markmiðum sem sett voru með Sókninni árið 2014 er ljóst að sveitarfélagið er á réttri leið. Rekstur bæjarsjóðs batnar með hverju árinu og álögur á íbúa fara lækkandi. Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2020 er gert ráð fyrir aukinni fjárfestingu en einnig auknum útgjöldum vegna bættrar þjónustu við íbúa.
Þá er sveitarfélagið einnig að fylgja þeim tilmælum sem gefin voru við gerð lífskjarasamnings um að gjaldskrá hækki ekki umfram 2,5%.

Bæjarfulltrúar Beinnar leiðar, Framsóknarflokks og Samfylkingar vilja þakka starfsmönnum fyrir mikið og óeigingjarnt starf sem skilað hefur miklum árangri og óska bæjarbúum öllum gleðilegrar jólahátíðar.“

Guðbrandur Einarsson (Y), Díana Hilmarsdóttir (B), Jóhann Friðrik Friðriksson (B), Styrmir G. Fjeldsted (S), Eydís Hentze Pétursdóttir (S) og Friðjón Einarsson (S).

Til máls tóku Baldur Þ. Guðmundsson, Guðbrandur Einarsson, Margrét Þórarinsdóttir, Jóhann Friðrik Friðriksson og Gunnar Þórarinsson.

Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar og sameiginlegra rekinna stofnana samþykkt með 6 atkvæðum Beinnar leiðar, Framsóknarflokks og Samfylkingar. Bæjarfulltrúar Miðflokks, Sjálfstæðisflokks og Frjáls afls greiddu atkvæði á móti.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 19:30.