21.01.2020 17:00

580. fundur bæjarstjórnar Reykjanesbæjar var haldinn í Merkinesi, Hljómahöll þann 21. janúar 2020 kl. 17:00

Viðstaddir: Anna Sigríður Jóhannesdóttir, Baldur Þ. Guðmundsson, Guðbrandur Einarsson, Gunnar Þórarinsson, Jóhann Friðrik Friðriksson, Margrét Ólöf A. Sanders, Margrét Þórarinsdóttir, Styrmir Gauti Fjeldsted, Eydís Hentze Pétursdóttir, Sigurrós Antonsdóttir, Trausti Arngrímsson, Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri og Hrefna Gunnarsdóttir ritari. Í forsæti var Jóhann Friðrik Friðriksson.

1. Fundargerðir bæjarráðs 9. og 16. janúar 2020 (2020010002)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðirnar. Til máls tók Guðbrandur Einarsson.

Til máls tók Margrét A. Sanders (D) og lagði fram eftirfarandi bókun:

Liður 4 í fundargerð bæjarráðs frá 9. janúar 2020

„Sjálfstæðisflokkurinn, Miðflokkurinn og Frjálst afl fagna því að Reykjanesbær uppfylli nú fjárhagsleg viðmið sveitarstjórnarlaga og er því laus úr viðjum eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga.
Mikil fjölgun bæjarbúa og auknar álögur á íbúa í formi hækkunar útsvars og fasteignagjalda hafa skilað tekjuaukningu sem vart á sér fordæmi. Þessi mikla tekjuaukning og aðhald í rekstri skýrir að stærstum hluta þennan árangur því skuldir bæjarsjóðs hafa hækkað frá 2014 úr um 24 milljörðum í um 29 milljarða og skuldir samstæðunnar úr 41 milljarði í um 49 milljarða.
Nú þarf sóknin að beinast að því að styrkja stoðir atvinnulífsins á Suðurnesjum og lækka álögur á almenning og fyrirtæki á svæðinu. Auknar álögur bitna á samkeppnishæfni sveitarfélagsins. Við erum enn að finna fyrir því að samdráttur í efnahag þjóðarinnar komi harðast niður á okkar atvinnusvæði. Við því þarf að bregðast.“

Margrét Sanders (D), Anna Sigríður Jóhannesdóttir (D), Baldur Guðmundsson (D), Margrét Þórarinsdóttir (M) og Gunnar Þórarinsson (Á).

Til máls tók Margrét A. Sanders (D) og lagði fram eftirfarandi bókun:

Liður 5 í fundargerð bæjarráðs frá 9. janúar 2020

„Sjálfstæðisflokkurinn, Frjálst afl og Miðflokkurinn telja að nauðsynlegt sé að eiga meira samráð við notendur strætóþjónustu vegna þeirra umfangsmiklu breytinga sem nýtt leiðarkerfi hefur í för með sér.
Þessir flokkar leggja því eftirfarandi til:
a. Settur verði á stofn samráðshópur, skipaður tveimur fulltrúum frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja (FS) og tveimur fulltrúum frá umhverfis- og skipulagssviði.
b. Settur verði á stofn samráðshópur, skipaður tveimur fulltrúum foreldra barna úr Innri – Njarðvík sem sent hafa erindi inn til bæjarins með gagnrýni á nýja leiðarkerfi strætó, og tveimur fulltrúum frá umhverfis- og skipulagssviði.
Hlutverk samráðshópanna er að kanna mögulegar lausnir vegna þeirrar gagnrýni sem komið hefur fram á nýtt leiðarkerfi strætó svo að sátt geti skapast um þessa mikilvægu þjónustu í bæjarfélaginu. Tillögur þessara tveggja hópa skulu liggja fyrir 31. janúar 2020.“

Margrét Sanders (D), Anna Sigríður Jóhannesdóttir (D), Baldur Guðmundsson (D), Margrét Þórarinsdóttir (M) og Gunnar Þórarinsson (Á).

Forseti gaf orðið laust. Til máls tók Guðbrandur Einarsson. Lagði hann til að tillögu minnihlutans verði vísað til bæjarráðs til nánari umfjöllunar.

Til máls tóku Jóhann Friðrik Friðriksson, Baldur Þ. Guðmundsson, Gunnar Þórarinsson, Margrét Þórarinsdóttir, Margrét A. Sanders og Guðbrandur Einarsson.

Forseti bar upp tillögu Guðbrands Einarssonar (Y) um að vísa tillögu minnihlutans til bæjarráðs og var tillaga Guðbrands samþykkt 9-0. Baldur Þ. Guðmundsson (D) greiddi atkvæði á móti og Gunnar Þórarinsson (Á) sat hjá.

Fundargerðirnar samþykktar 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 1251. fundar bæjarráðs
Fundargerð 1252. fundar bæjarráðs

2. Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 17. janúar 2020 (2020010012)

Forseti gaf orðið laust um eftirfarandi lið fundargerðarinnar frá 17. janúar til sérstakrar samþykktar:

Annar liður fundargerðarinnar Hafnargata 27 - Deiliskipulagstillaga (2019080249) var samþykktur með 11 atkvæðum án umræðu.

Þriðji liður fundargerðarinnar Fjölbrautaskóli Suðurnesja - Deiliskipulag (2019090479) var samþykktur með 11 atkvæðum án umræðu.

Fimmti liður fundargerðarinnar Heiðarból 27 - Fyrirspurn (2020010200) var samþykktur með 11 atkvæðum án umræðu.

Sjöundi liður fundargerðarinnar Flugvallarbraut 732, 733, 734 og 736 - Lóðabreyting (2020010201) var samþykktur með 11 atkvæðum án umræðu.

Níundi liður fundargerðarinnar Bogabraut 960 - Útlitsbreyting (2019120208) var samþykktur með 11 atkvæðum án umræðu.

Tíundi liður fundargerðarinnar Bogabraut 961A - Útlitsbreyting (2019120263) var samþykktur með 11 atkvæðum án umræðu.

Tólfti liður fundargerðarinnar Vatnsnesvegur 7 - Fyrirspurn (2019100012) var samþykktur með 11 atkvæðum án umræðu.

Fimmtándi liður fundargerðarinnar Vatnsnesvegur 27 – Niðurstaða grenndarkynningar (2019100421) var samþykktur með 11 atkvæðum án umræðu.

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina.

Fundargerðin samþykkt að öðru leyti án umræðu 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 242. fundar umhverfis- og skipulagsráðs

3. Fundargerð lýðheilsuráðs 8. janúar 2020 (2020010008)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tók Anna Sigríður Jóhannesdóttir.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 4. fundar lýðheilsuráðs

4. Fundargerð velferðarráðs 8. janúar 2020 (2020010007)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Anna Sigríður Jóhannesdóttir, Margrét A. Sanders, Guðbrandur Einarsson og Margrét Þórarinsdóttir.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 383. fundar velferðarráðs

5. Fundargerð fræðsluráðs 10. janúar 2020 (2020010006)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Anna Sigríður Jóhannesdóttir og Kjartan Már Kjartansson.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 329. fundar fræðsluráðs

6. Fundargerð framtíðarnefndar 15. janúar 2020 (2020010009)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina.

Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir (M) og lagði fram eftirfarandi bókun:

Liður 1 í fundargerð framtíðarnefndar frá 15. janúar 2020

„Sífellt er verið að leggja kostnaðarauka á útsvarsgreiðendur án þess að sparnaður komi á móti. Þó svo að rafræn stjórnsýsla hafi verið innleidd fyrir nokkuð mörgum árum hjá ríki og sveitarfélögum þá hefur flækjustig kerfisins einungis aukist. Sífellt verra er fyrir hinn almenna borgara að fá einfaldar upplýsingar frá kerfinu. Hér er lagt til að Reykjanesbær gangi til samvinnu við önnur sveitarfélög um þróunarvinnu á „appi“ sem heldur utanum þjónustu og tilkynningar við íbúa. Er þetta kerfi ekki til nú þegar á heimasíðu Reykjanesbæjar þar sem flestar tilkynningar birtast? Hvað er átt við með því að hægt verði að gera stuttar kannanir hjá íbúum þegar á sama tíma hafnar meirihlutinn að fara í íbúakosningu um kísilverið? Kannanir er auðveldlega hægt að misnota í pólitískum tilgangi með því að ná umdeildum málum fram. Verkefnið er ókostnaðarmetið en sýni meirihlutinn fram á sparnað á móti upptöku „appsins“ er vert að skoða þessa ákvörðun. Annars er þetta enn eitt kostnaðarlagið sem smurt er ofan á núverandi kerfi.“

Margrét Þórarinsdóttir (M)

Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir (M) og lagði fram eftirfarandi bókun:

Liður 2 í fundargerð framtíðarnefndar frá 15. janúar 2020

„Það er tómt mál að tala um íbúalýðræði í Framtíðarnefndinni fyrr en fulltrúar allra flokka sem náðu kjöri í s.l. bæjarstjórnarkosningum eigi sæti í nefndinni. Á meðan fulltrúalýðræðið virkar ekki í sveitarstjórn þá er ekki hægt að tala um íbúalýðræði. Enda er það er kaldhæðnislegt að nú eigi allt í einu að efla íbúalýðræði nokkrum mánuðum eftir að meirihlutinn hafnaði íbúakosningu um kísilverið í Helguvík. Allar þessar hugmyndir lykta af gervisamráði við íbúa. Hvers vegna á að ganga til samninga við sjálfseignarstofnun og framselja þar með vald kjörinna fulltrúa til ákvarðanatöku í sveitarfélaginu á milli kosninga? Hér er um enn eitt millistykkið að ræða til að fjarlægja íbúana enn frekar frá kjörnum fulltrúum og er þar að auki ókostnaðargreint. Hvað felst í þessum samningi við Íbúa SES? Hvað er áætlað að samningurinn kosti á ársgrundvelli? Ekki liggja fyrir neinar sparnaðartillögur á móti þessari tillögu.“

Margrét Þórarinsdóttir (M)

Forseti gaf orðið laust. Til máls tóku Styrmir Gauti Fjeldsted, Margrét A. Sanders, Kjartan Már Kjartansson og Guðbrandur Einarsson.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 5. fundar framtíðarnefndar

7. Fundargerð stjórnar Reykjaneshafnar 16. janúar 2020 (2020010252)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina.

Fundargerðin samþykkt 11-0 án umræðu.

Fylgigögn:

Fundargerð 237. fundar stjórnar Reykjaneshafnar

8. Staðfesting vegna breytinga á svæðisskipulagi Suðurnesja (2019070283)

Forseti gaf orðið laust.

Forseti bar breytingu á svæðisskipulagi Suðurnesja 2008-2024 upp til samþykktar. Samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Breyting á svæðisskipulagi Suðurnesja 2008 - 2024 - bréf frá Svæðisskipulagsnefnd Suðurnesja
Svæðisskipulag Suðurnesja 2008 - 2024 - breytingartillaga
Viðbrögð svæðisskipulagsnefndar við umsögnum og athugasemdum

9. Kaupsamningur um fasteignir (2020010099)

Forseti gaf orðið laust.

Til máls tók Guðbrandur Einarsson (Y) og lagði fram eftirfarandi bókun:

„Bæjarstjórn Reykjanesbæjar samþykkir í dag að leysa til sín þær eignir sem hafa verið í eigu Fasteignar hf. og sem nýttar hafa verið undir starfsemi sem ekki flokkast undir lögbundna starfsemi sveitarfélaga. Um er að ræða Hljómahöllina, Íþróttaakademíuna, 88-Húsið, Golfskálann, Dráttarbrautina í Grófinni og Þórustíg 3.
Umsamið kaupverð eru tæpir 3 milljarðar og lækkar leiguskuldbinding sveitarfélagsins sem því nemur.
Gera má ráð fyrir að skuldaviðmið Reykjanesbæjar lækki við þessi kaup um 10% hjá samstæðu og um 15% hjá sveitarsjóði.
Þá má einnig gera ráð fyrir að þessi aðgerð auki möguleika sveitarfélagsins til endurfjármögnunar á öðrum skuldum sem einnig gæti hjálpað til við að bæta rekstur sveitarfélagsins. Hér er því stórum áfanga náð sem ber að fagna.“

Guðbrandur Einarsson (Y), Jóhann Friðrik Friðriksson (B), Trausti Arngrímsson (B), Styrmir Gauti Fjeldsted (S) Eydís Hentze Pétursdóttir (S) og Sigurrós Antonsdóttir (S).

Bæjarstjórn samþykkir samninginn 11-0.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 19:00.