606. fundur

02.03.2021 17:00

606. fundur bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, haldinn í Merkinesi, Hljómahöll 2. mars 2021, kl. 17:00

Viðstaddir: Anna Sigríður Jóhannesdóttir, Baldur Þ. Guðmundsson, Díana Hilmarsdóttir, Friðjón Einarsson, Guðbrandur Einarsson, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Gunnar Þórarinsson, Jóhann Friðrik Friðriksson, Margrét A. Sanders, Margrét Þórarinsdóttir, Styrmir Gauti Fjeldsted, Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri og Hrefna Gunnarsdóttir ritari. Í forsæti var Guðbrandur Einarsson.

Áður en fyrsta mál var tekið fyrir lagði forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar fram sameiginlega bókun tíu bæjarfulltrúa Reykjanesbæjar:

„Bæjarstjórn Reykjanesbæjar tekur undir framkomnar óskir flugþjónustufyrirtækja um að flýta bólusetningu flugliða og annars starfsfólks flugfélaga sem á í samskiptum við flugfarþega og skorar á stjórnvöld að breyta forgangsröðun bólusetningar til þess að svo megi verða.
Yfir 40% af efnahagsumsvifum á svæðinu má beint eða óbeint rekja til alþjóðaflugvallarins í Keflavík. Til að auka líkur á skjótari viðsnúningi ferðaþjónustunnar og starfseminnar á Keflavíkurflugvelli er mikilvægt að gera allt sem hægt er til að draga úr neikvæðum áhrifum Covid19.
Stór liður í því er að flýta bólusetningu framlínufólks í flugi og flugþjónustu svo það sé betur búið undir að taka á móti og þjónusta fólk sem vill ferðast til Íslands í vor og sumar.
Atvinnuleysi á Suðurnesjum er það langmesta á Íslandi og mikilvægt að koma hjólum atvinnulífsins í gang að nýju.
Skv. nýjum könnunum kemur fram að val á áfangastað mun fyrst og fremst ákvarðast af því hvernig landið tekur á Covid og bólusetningu gagnvart ferðamönnum. Þá leið eru m.a. Írar að fara til þess að geta markaðssett sinn flugvöll sem veirufrían flugvöll. Því skiptir bólusetning framlínufólks í ferðaþjónustu miklu máli en ekki síður til þess að koma í veg fyrir að smit berist til landsins.“

Anna Sigríður Jóhannesdóttir (D), Baldur Þ. Guðmundsson (D), Díana Hilmarsdóttir (B), Friðjón Einarsson (S), Guðbrandur Einarsson (Y), Guðný Birna Guðmundsdóttir (S), Jóhann Friðrik Friðriksson (B), Margrét A. Sanders (D), Margrét Þórarinsdóttir (M) og Styrmir Gauti Fjeldsted (S).

1. Fundargerðir bæjarráðs 18. og 25. febrúar 2021 (2021010002)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðirnar. Til máls tóku Díana Hilmarsdóttir, Margrét A. Sanders, Guðbrandur Einarsson, Kjartan Már Kjartansson, Friðjón Einarsson, Jóhann Friðrik Friðriksson, Baldur Þ. Guðmundsson og Gunnar Þórarinsson.

Fundargerðirnar samþykktar 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 1307. fundur bæjarráðs 18. febrúar 2021
Fundargerð 1308. fundar bæjarráðs 25. febrúar 2021

2. Fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs 19. febrúar 2021 (2021010010)

Forseti gaf orðið laust um eftirfarandi liði fundargerðarinnar frá 19. febrúar til sérstakrar samþykktar:

Áttundi liður fundargerðarinnar Selás 20 - niðurstaða grenndarkynningar (2019090080). Til máls tóku Margrét A. Sanders og Margrét Þórarinsdóttir.
Beiðni barst um fundarhlé og varð forseti við því.
Að loknu fundarhléi gaf forseti orðið laust aftur um áttunda lið fundargerðarinnar. Til máls tóku Gunnar Þórarinsson, Jóhann Friðrik Friðriksson, Baldur Þ. Guðmundsson og Guðbrandur Einarsson.
Áttundi liður samþykktur með 6 atkvæðum bæjarfulltrúa Samfylkingar, Beinnar leiðar og Framsóknarflokks. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks, Miðflokks og Frjáls afls sitja hjá.

Níundi liður fundargerðarinnar Iðavellir 12b - viðbygging (2021020389) samþykktur 11-0 án umræðu.
Tíundi liður fundargerðarinnar Bogabraut 960 - fjölgun íbúða (2021010577) samþykktur 11-0 án umræðu.
Tólfti liður fundargerðarinnar Freyjuvellir 28 - viðbygging (2021020391) samþykktur 11-0 án umræðu.
Þrettándi liður fundargerðarinnar Leirdalur 22-28 - skipulagsbreyting (2019090061) samþykktur 11-0 án umræðu.
Fjórtándi liður fundargerðarinnar Aðalgata 17 - bygging á lóð (2021020392) samþykktur 11-0 án umræðu.

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Margrét A. Sanders, Anna Sigríður Jóhannesdóttir, Kjartan Már Kjartansson, Friðjón Einarsson, Baldur Þ. Guðmundsson, Guðbrandur Einarsson og Jóhann Friðrik Friðriksson.

Fundargerðin samþykkt að öðru leyti 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 265. fundar umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar 19. febrúar 2021

3. Fundargerð framtíðarnefndar 17. febrúar 2021 (2021010004)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tók Styrmir Gauti Fjeldsted.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 17. fundar framtíðarnefndar 17. febrúar 2021

4. Fundargerð stjórnar Reykjaneshafnar 18. febrúar 2021 (2021010009)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina.

Fundargerðin samþykkt 11-0 án umræðu.

Fylgigögn:

Fundargerð 249. fundar Stjórnar Reykjaneshafnar 18.02.2021

5. Fundargerð menningar- og atvinnuráðs 19. febrúar 2021 (2021010008)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Anna Sigríður Jóhannesdóttir, Friðjón Einarsson, Díana Hilmarsdóttir, Jóhann Friðrik Friðriksson og Guðbrandur Einarsson.

Fundargerðin samþykkt 11-0.

Fylgigögn:

Fundargerð 18. fundar menningar- og atvinnuráðs Reykjanesbæjar 19. febrúar 2021

6. Fundargerð barnaverndarnefndar 22. febrúar 2021 (2021010570)

Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Enginn fundarmanna óskaði eftir að taka til máls.

Fylgigögn:

Fundargerð 278. fundar barnaverndarnefndar 22. febrúar 2021

7. Sala Útlendings ehf. (Víkingaheima) (2020080084)

Forseti gaf orðið laust. Til máls tók Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri. Fór hann yfir spurningar frá bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokks sem lagðar voru fram á 605. bæjarstjórnarfundi þann 16. febrúar 2021 og svör við þeim.

Spurningar bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks:

Sjálfstæðisflokkurinn lagði fram tvær spurningar er varða sölu á Víkingaheimum á síðasta bæjarstjórnarfundi.
Fyrri spurningin sneri að því hvort mat hefði verið gert á hagsmunum þess fyrirtækis eða lögaðila af því að upplýsingum um kaupverð á Víkingaheimum sé haldið leyndum andspænis þeim hagsmunum að upplýsingarnar séu aðgengilegar almenningi og þar með gerðar opinberar. Reykjanesbær ber fyrir sig í þessu sambandi 9. gr. upplýsingalaga um heimild á takmörkun á upplýsingarétti til almennings.
Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjanesbæ ítrekar að ákvæðið 9. gr. upplýsingalaga undanþiggur ekki almennt aðgang almennings að upplýsingum um einkamálefni fyrirtækja þar sem reglan er afmörkuð við mikilvæga fjárhags eða viðskiptahagsmuni þessara aðila. Það er skýrt af greinargerð með frumvarpi því er varð að upplýsingalögum nr. 140/2012 og fjölda úrskurða úrskurðarnefndar upplýsingamála að þetta mat þarf að fara fram og við það mat þarf að skoða hvort umræddar upplýsingar sem óskað er aðgangs að varði svo mikilvæga hagsmuni að ætla megi að þær séu til þess fallnar að valda fyrirtækjum eða lögaðilum sem þær varða tjóni ef þær yrðu gerðar opinberar. Þessari fyrirspurn er ekki svarað og því spyrjum við aftur, fór fram mat á því hvort svo mikla fjárhags- og viðskiptahagsmuni sé að ræða að það réttlæti leynd á kaupverði?

Seinni spurningin sneri að því hvort Víkingaheimar voru auglýstir til sölu árið 2015. Svo virðist ekki vera samkvæmt svari heldur var einungis auglýst eftir rekstraraðilum. Við í Sjálfstæðisflokki bendum á að það er grundvallarregla í íslenskri stjórnsýslu að gæta jafnræðis milli borgaranna og almennt við úthlutun opinberra gæða er gerð sú krafa að stjórnvöld auglýsi eignir og jarðir opinberlega þannig að þeir sem áhuga hafa fái sama tækifæri til að gera kauptilboð í fasteignir eða jarðir. Við spyrjum því hvort Reykjanesbær telji sig hafa heimild til þess að selja Víkingaheima og án auglýsinga án þess að virða jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga ?

Svör við spurningum bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

i.

Eins og fram kom í samantekt starfsmanna sveitarfélagsins við spurningu bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokk á 604. fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, sem lesin var upp á 605. fundi bæjarstjórnar þann 16. febrúar sl., óskaði kaupandi félagsins eftir því við stjórn félagsins að innihalda samninganna yrði ekki gert opinbert. Stjórn félagsins ákvað að verða við þeirri beiðni.
Eins og getið var um í fyrra svari hefur stjórn borist beiðni um afhendingu kaupsamningsins og hefur hún hafnað þeirri beiðni með vísan til þess að hér eru á ferðinni fjárhags- og viðskiptaupplýsingar lögaðila, sbr. 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Áður en erindinu var svarað fór fram mat af þeim toga sem vísað er til í fyrirspurn bæjarfulltrúa. Stjórn taldi að á ferðinni væru viðkvæmir fjárhags- og viðskiptahagsmunir kaupandans, enda liggur það í hlutarins eðli að framundan eru viðræður eigandans við lánveitendur og kröfuhafa vegna erfiðrar skuldastöðu félagsins. Þá skal það áréttað að fyrir lá afdráttarlaus afstaða kaupanda, um að innihald samninganna yrði ekki gert opinbert. Með vísan til þessa taldi stjórn að hún gæti ekki einhliða aflétt trúnaði.

ii.

Í spurningunni er réttilega vísað til þeirrar grundvallarreglu í íslenskri stjórnsýslu að gætt sé jafnræðis milli borgaranna við úthlutun opinberra gæða og gerð sú krafa að stjórnvöld auglýsi eignir og jarðir opinberlega. Þess hefur verið vandlega gætt á undanförnum misserum að fasteignir sveitarfélagsins séu auglýstar með áberandi hætti þannig að áhugasömum kaupendum sé gefinn kostur á að gera tilboð.
Hér er hins vegar á ferðinni sala á hlutabréfum í einkahlutafélagi sem er dótturfélag einkahlutafélags sem sveitarfélagið er eigandi að. Ákvarðanir stjórnar félagsins sem hélt á seldu hlutafé um sölu ber að skoða með hliðsjón af erfiðri fjárhagsstöðu félagsins og alvarlegs skuldavanda. Eins og áður hefur komið fram var það einn af valkostum stjórnar að krefjast gjaldþrotaskipta, enda félagið ógjaldfært án frekari lánveitinga af hálfu sveitarfélagsins.
Þrátt fyrir framangreindar forsendur, sem taka ber með í reikninginn, þá telur stjórn að hún hafi uppfyllt skyldur sveitarfélagsins með því að birta áberandi auglýsingu í Víkurfréttum og Fréttablaðinu þar sem óskað var eftir áhugasömum samstarfsaðilum. Sú aðferð og orðalag, að auglýsa eftir samstarfsaðilum þar sem hvort tveggja kom til greina að leigja eða selja eignina, var ákveðin í samvinnu við þáverandi bæjarlögmann.

Forseti gaf orðið laust. Til máls tók Margrét A. Sanders.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 19:30