697. fundur bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, haldinn í Stapa, Hljómahöll, 6. maí 2025, kl. 17:00
Viðstaddir: Guðný Birna Guðmundsdóttir, Bjarni Páll Tryggvason, Díana Hilmarsdóttir, Guðbergur Reynisson, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Helga Jóhanna Oddsdóttir, Margrét A. Sanders, Margrét Þórarinsdóttir, Sigurrós Antonsdóttir, Sverrir Bergmann Magnússon og Valgerður Björk Pálsdóttir. Í forsæti var Guðný Birna Guðmundsdóttir.
Að auki sat fundinn Hrefna Gunnarsdóttir ritari.
Bæjarstjórn samþykkir 11-0 að taka á dagskrá Tímabundnar breytingar á skipan embætta í bæjarstjórn og bæjarráði (2024010091). Fjallað verður um málið undir dagskrárlið 7.
1. Fundargerðir bæjarráðs 16., 23. og 30. apríl 2025 (2025010003)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðirnar.
Til máls tók Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir. Lagði hún fram tillögu um að máli sex, Samráðsnefnd atvinnu- og hafnarráðs og umhverfis- og skipulagsráðs (2025010264) frá fundargerð atvinnu- og hafnarráðs frá 10. apríl 2025, verði vísað til umhverfis- og skipulagsráðs til frekari umræðu. Samþykkt 11-0.
Til máls tók Helga Jóhanna Oddsdóttir og lagði fram eftirfarandi bókun Sjálfstæðisflokks:
2. mál fundargerð bæjarráðs frá 30. apríl 2025 Almenningssamgöngur 2019090564
„Á fundi bæjarráðs þann 30. apríl síðastliðinn hafnaði Sjálfstæðisflokkurinn báðum tilboðum sem bárust í almenningssamgöngur í Reykjanesbæ.
Sjálfstæðisflokkurinn ítrekar þá skoðun sína að skynsamlegt hefði verið að hafna báðum tilboðum í almenningssamgöngur í Reykjanesbæ og gerir hér grein fyrir þeirri skoðun sinni.
Bæði tilboðin voru töluvert yfir kostnaðaráætlun og kemur mjög skýrt fram í útboðsgögnum að kaupanda sé heimilt að hafna öllum tilboðum sem eru yfir kostnaðaráætlun, standi málefnalegar ástæður til þess hafna, og/eða hafi almennar forsendur fyrir útboði brostið.
Verulegir annmarkar voru á útboðsgögnunum og miklar breytingar gerðar í ferlinu sem hafa talsverð áhrif á umfang þjónustunnar sem boðin var út. Í upphaflegum gögnum útboðsins og að hluta í endanlegum gögnum var tilgreindur fjöldi bíla sem þarf til akstursins rangur, fjöldi kílómetra rangur, og raunkeyrsla. Munurinn getur numið tugum milljóna króna á ári sem getur skapað skaðabótaskyldu fyrir sveitarfélagið.
Almenningssamgöngukerfið hefur verið rekið í óbreyttri mynd í um níu ár þrátt fyrir að innstigum hafi fjölgað gríðarlega og umferð innan sveitarfélagsins aukist til muna. Í ljósi þess að tilboðin voru yfir kostnaðaráætlun og framangreindra vankanta á útboðsgögnum, hefði átt að hafna báðum tilboðum, og nýta tækifærið til að endurskoða kerfið, gera það betra og skilvirkara, spara tugi milljóna króna eða fá mun meira út úr samgöngukerfinu. Þannig mætti einnig koma í veg fyrir vandræði og óþægindi sem samþykkt tilboða byggðum á ófullnægjandi gögnum, getur haft í för með sér.“
Margrét Sanders, Guðbergur Reynisdóttir og Helga Jóhanna Oddsdóttir, Sjálfstæðisflokki
Forseti gerir fundarhlé kl. 17:07
Fundur aftur settur kl. 17:19
Til máls tók Guðný Birna Guðmundsdóttir og lagði fram eftirfarandi bókun meirihluta bæjarstjórnar:
2. mál fundargerð bæjarráðs frá 30. apríl 2025 Almenningssamgöngur 2019090564
„Varðandi útboð á almenningssamgöngum áréttum við að báðir aðilar fengu aðgang að sömu forsendum og upplýsingum. Reykjanesbær vann útboðið í samráði við fyrirtækið Consensa sem er mjög reynslumikið í útboðsmálum um allt land.
Bara til að taka það skýrt fram hér að bæjarstjórn Reykjanesbæjar fer eftir lögum og reglum útboðsskilmála í svo stórum útboðum líkt og ávallt. Hlutverk bæjarstjórnar er að taka hagstæðustu samninga fyrir Reykjanesbæ og það var gert með þessum samningi.
Þetta var rökrétt ákvörðun af bæjarráði og vonandi bæjarstjórn að taka þessu lægra tilboði og vonar meirihluti bæjarstjórnar að samstarf okkar við nýjan rekstraraðila verði farsælt og gott og óskar þessu fyrirtæki velfarnaðar í okkar sveitarfélagi.“
Guðný Birna Guðmundsdóttir (S), Sverrir Bergmann Magnússon (S), Sigurrós Antonsdóttir (S), Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir (B), Bjarni Páll Tryggvason (B), Díana Hilmarsdóttir (B) og Valgerður Björk Pálsdóttir (Y).
Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir og lagði fram eftirfarandi bókun Umbótar:
"Umbót mun sitja hjá undir 2. máli fundargerðar bæjarráðs frá 30. apríl 2025, Almenningssamgöngur 2019090564."
Margrét Þórarinsdóttir (U) situr hjá í 2. máli fundargerðar bæjarráðs frá 30. apríl 2025. Fundargerðirnar samþykktar að öðru leyti 11-0.
Fylgigögn:
Fundargerð 1512. fundar bæjarráðs 16. apríl 2025
Fundargerð 1513. fundar bæjarráðs 23. apríl 2025
Fundargerð 1514. fundar bæjarráðs 30. apríl 2025
2. Fundargerð stjórnar Eignasjóðs 10. apríl 2025 (2025010010)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Margrét A. Sanders, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, Valgerður
Björk Pálsdóttir og Guðný Birna Guðmundsdóttir.
Fundargerðin samþykkt 11-0.
Fylgigögn:
Fundargerð 18. fundar stjórnar Eignasjóðs 10. apríl 2025
3. Fundargerð sjálfbærniráðs 28. apríl 2025 (2025010009)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Valgerður Björk Pálsdóttir, Guðný Birna Guðmundsdóttir og Margrét A. Sanders.
Fundargerðin samþykkt 11-0.
Fylgigögn:
Fundargerð 60. fundar sjálfbærniráðs 28. apríl 2025
4. Fundargerð menningar- og þjónusturáðs 28. apríl 2025 (2025010007)
Forseti gaf orðið laust um fundargerðina. Til máls tóku Sverrir Bergmann Magnússon og Guðný Birna Guðmundsdóttir.
Fundargerðin samþykkt 11-0.
Fylgigögn:
Fundargerð 64. fundar menningar- og þjónusturáðs 28. apríl 2025
5. Húsnæðisáætlun Reykjanesbæjar 2025 – síðari umræða (2025030033)
Guðný Birna Guðmundsdóttir fylgdi húsnæðisáætlun Reykjanesbæjar úr hlaði.
Forseti gaf orðið laust.
Til máls tók Margrét A. Sanders og lagði fram eftirfarandi bókun Sjálfstæðisflokks:
Húsnæðisáætlun Reykjanesbæjar 2025 – síðari umræða (2025030033)
„Sjálfstæðisflokkurinn er ósáttur við hina miklu áherslu á fjölbýlishúsauppbyggingu í húsnæðisáætlun Reykjanesbæjar til ársins 2033 enda sér hver einasti íbúi bæjarins að nú þegar hefur mikill fjöldi fjölbýlishúsa risið eða eru í byggingu.
Í niðurstöðu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar kemur fram að seinni hluta árs 2024 voru 397 íbúðir í byggingu í Reykjanesbæ og þar af eru 351 íbúð í fjölbýlishúsi eða 88% af heild.
Í húsnæðisáætluninni eru skipulagðar lóðir og íbúðir til ársins 2033 að mestu í fjölbýli. Árið 2025 er gert ráð fyrir örfáum einbýlishúsum, árið 2026 er eingöngu gert ráð fyrir fjölbýlishúsum, og 2027 um 100 íbúðum í parhús/raðhús/tvíbýli. Frá 2029 – 2033 er svo eingöngu stefnt að byggingu fjölbýlishúsa.
Sjálfstæðisflokkurinn telur sig ekki geta samþykkt þessa húsnæðisáætlun og undrar sig á þessari einsleitni á íbúðarformi. Við munum þó ekki greiða atkvæði á móti húsnæðisáætluninni heldur sitja hjá við atkvæðagreiðslu um hana þar sem bætt hefur við texta í áætluninni þar sem lögð er áhersla á meiri fjölbreytni í byggingarformi.
Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að brugðist verði strax við, og þessi þróun á einsleitu íbúðarformi sé stöðvuð.“
Margrét Sanders, Guðbergur Reynisson og Helga Jóhanna Oddsdóttir Sjálfstæðisflokki.
Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir (U) og lagði fram eftirfarandi bókun:
Húsnæðisáætlun Reykjanesbæjar 2025 – síðari umræða (2025030033)
"Umbót metur það að hluti þeirra athugasemda sem við lögðum fram hafi verið tekinn til skoðunar og felldur inn í húsnæðisáætlunina. Það er mikilvægt skref í rétta átt að áréttað er að horfa til fjölbreyttra íbúðagerða og að tengja uppbyggingu húsnæðis við getu sveitarfélagsins til að byggja upp nauðsynlega innviði.
Við teljum þó að ekki sé gengið nægilega langt. Í núverandi áætlun vantar skýrari og sterkari stefnu um hvernig fjölbreytt íbúðagerð verður tryggð í framkvæmd og sérstaklega í ljósi þess að nýleg svæði sem úthlutuð hefur verið eru nær eingöngu fjölbýlishús. Enn fremur vekur hraði uppbyggingar áhyggjur, þar sem innviðir ná ekki að fylgja eftir þeirri þróun.
Umbót telur að þörf sé á endurskoðun á framvindu og áherslum uppbyggingar, og viljum við sjá skýrari aðgerðir og markmið.
Af þessum ástæðum sitjum við hjá við afgreiðslu húsnæðisáætlunarinnar."
Margrét Þórarinsdóttir, Umbót.
Margrét A. Sanders (D), Helga Jóhanna Oddsdóttir (D), Guðbergur Reynisson (D) og Margrét Þórarinsdóttir (U) sitja hjá.
Guðný Birna Guðmundsdóttir (S), Sverrir Bergmann Magnússon (S), Sigurrós Antonsdóttir (S), Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir (B), Bjarni Páll Tryggvason (B), Díana Hilmarsdóttir (B) og Valgerður Björk Pálsdóttir (Y) greiða atkvæði með húsnæðisáætluninni.
Húsnæðisáætlun Reykjanesbæjar 2025 samþykkt 7-0.
6. Ársreikningur Reykjanesbæjar 2024 – síðari umræða (2025040164)
Ársreikningur Reykjanesbæjar 2024 tekinn til síðari umræðu. Forseti gaf Halldóru Fríðu Þorvaldsdóttur starfandi bæjarstjóra orðið. Fór hún yfir helstu stærðir í ársreikningnum.
Forseti gaf orðið laust.
Til máls tók Margrét A. Sanders og lagði fram eftirfarandi bókun bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks:
„Í ljósi erfiðrar stöðu fjármála í Reykjanesbæ undanfarna mánuði er ánægjulegt að niðurstaða ársreiknings ársins 2024 sýni að rekstrarafgangur nemi 1,1 milljarði og að tekjur séu tæpum 3 milljörðum hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Helstu ástæður aukinna tekna eru að útsvarsgreiðslur íbúa aukast um tæpa 2 milljarða á milli ára og þjónustutekjur sveitarfélagsins aukast um tæpan 1 milljarð. Eins og alkunna er hefur meirihlutinn þann háttinn á að vanáætla tekjur hvers árs og því má velta fyrir sér hver eðlilega áætluð tala hefði orðið.
Sjálfstæðisflokkurinn ítrekar einnig áhyggjur sínar af aukningu rekstrarkostnaðar líkt og undanfarin ár. Það er verulegt áhyggjuefni að rekstrarkostnaður sveitarfélagsins hækkar mikið á hverju ári, og nemur hækkunin samkvæmt ársreikningi nú um 3 milljörðum á milli ára og er langt yfir áætlun.
Fyrir ári síðan, við yfirferð ársreiknings sveitarfélagsins fyrir árið 2023, benti Sjálfstæðisflokkurinn á að handbært fé væri að lækka mikið og að bæjarsjóður gæti lent í vandræðum með að standa við skuldbindingar sínar.
Í ársreikningi 2024 kemur fram að handbært fé í lok árs 2024 var um 133 milljónir. Til að setja þá fjárhæð í samhengi eru rekstrargjöld um 2 milljarðar á mánuði og þar af eru laun og launatengd gjöld sveitarfélagsins rúmlega 1 milljarður á mánuði. Við vekjum athygli á því að inni í þessum tölum er ekki kostnaður vegna fjárfestinga. Það er því ljóst að Reykjanesbær er kominn í vandræði með að standa við skuldbindingar sínar eins og kom fram í bókun okkar á síðasta ári.“
Margrét Sanders, Guðbergur Reynisson og Helga Jóhanna Oddsdóttir Sjálfstæðisflokki.
Til máls tók Margrét Þórarinsdóttir og lagði fram eftirfarandi bókun bæjarfulltrúa Umbótar:
„Umbót gerir ekki athugasemdir við réttmæti ársreiknings Reykjanesbæjar og ber fullt traust til vinnu starfsmanna og löggilts endurskoðanda. Hins vegar varpar ársreikningurinn ljósi á alvarlega lausafjárstöðu sem Umbót hefur áður varað við, meðal annars vegna þess að handbært fé nam einungis 133 milljónum króna um áramót.
Umbót situr hjá við samþykkt ársreikningsins til að undirstrika nauðsyn á gagngerri endurskoðun á fjármálastjórn sveitarfélagsins, þótt engar athugasemdir séu gerðar við réttmæti hans.“
Margrét Þórarinsdóttir, Umbót
Til máls tók Guðný Birna Guðmundsdóttir og lagði fram eftirfarandi bókun meirihluta bæjarfulltrúa Framsóknar, Samfylkingar og Beinnar leiðar:
„Meirihluti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar fagnar árinu 2024 sem gekk mjög vel og heilbrigður ársreikningur staðfestir það.
Tekjur bæjarsjóðs (A-hluti) var 27,8 milljarðar en gjöld bæjarsjóðs voru 25 milljarðar kr.
Tekjur samstæðu (A og B hluti) voru 40,5 milljarðar en rekstrargjöld 32,5 milljarðar kr.
Mikilvægar tölur hér þar sem tekjur standa undir gjöldum, bæði hjá bæjarsjóði og hjá samstæðunni. Enn eitt árið gættum við þess að tekjur séu umfram gjöld og að það sé afgangur fyrir fjárfestingar.
Fjárfest var á árinu 2024 fyrir sex milljarða og ber þar helst að nefna áframhaldandi verkefni okkar við að stækka og betrumbæta Holtaskóla og Myllubakkaskóla. Auk þess opnuðum við tvo leikskóla, Asparlaut og Tjarnarlund og erum að vinna að því að klára þann þriðja, leikskólann Drekadal. Auk þess opnuðum við stórglæsilega körfuboltahöll í Innri-Njarðvík og stefnt er að opnun nýrrar sundlaugar þar nú í sumar.
Áætlun ársins með viðauka gerði upphaflega ráð fyrir 149 miljóna króna jákvæðri rekstrarniðurstöðu bæjarsjóðs sem endaði í 1.113 milljónum. Staðan er því mun betri en gert var upphaflega ráð fyrir, eða 964 milljónum betri niðurstaða. Ástæðan fyrir þessum mikla mun á tekjum liggur nær eingöngu í hækkun á útsvari, þ.e. mikill fjöldi íbúa er að flytja í okkar frábæra bæ en fjölgun íbúa undanfarin ár hefur verið að meðaltali um 1.000 nýir íbúar á ári undanfarin ár.
Rekstrarniðurstaða fyrir afskriftir, fjármagnsliði, skatta og hlutdeild minnihluta nam 8 milljörðum króna. Að teknu tilliti til þeirra liða var niðurstaðan jákvæð um 2.577 milljónir króna en áætlun ársins gerði ráð fyrir 1.220 milljóna króna jákvæðri rekstrarniðurstöðu hjá samstæðu sveitarfélagsins, eða 1.357 milljón króna betri rekstrarniðurstaða en gert var ráð fyrir.
Veltufé frá rekstri bæjarsjóðs árið 2024 var 3 milljarðar, hækkun um 700 milljónir frá árinu áður.
Veltufé frá rekstri samstæðu árið 2024 var 7,4 milljarðar króna í samstæðu, hækkun um 1,1 milljarð frá árinu áður.
Veltufé frá rekstri er ein mikilvægasta stærðin sem segir til um það fjármagn sem stendur eftir og hægt er að nýta í fjárfestingar eða niðurgreiðslu skulda. Veltufé frá rekstri lýsir heilbrigði reksturs til að standa undir fjárfestingum. Við tókum lán á árinu 2024 fyrir 2,6 milljarða króna sem er eðlilegt á uppbyggingarfasa.
Þegar horft er til skulda þá er skuldaviðmið bæjarsjóðs 97,7% og skuldaviðmið samstæðunnar 105,6%. Skuldahlutfall bæjarsjóðs er 121,98% og samstæðunnar var 136,7%.
Þessar stærðir eru mjög mikilvæg viðmið fyrir sveitarfélög. Sveitarfélög á Íslandi geta ekki lagalega skuldsett sig óendanlega og þurfa að uppfylla skuldaviðmið sem er hlutfall heildarskulda af heildartekjum sveitarfélagsins en hlutfallið á að vera undir 150%. Skuldir á hvern íbúa Reykjanesbæjar er um 1,4 milljónir króna.
Þrátt fyrir lántökur á árinu 2024 og þrátt fyrir sex milljarða framkvæmdir – þá er þetta niðurstaðan.
Heilbrigður ársreikningur hjá kröftugu sveitarfélagi í hröðum vexti. Reykjanesbær heldur áfram að vaxa og dafna og munum við styðja við okkar frábæra sveitarfélag, nú sem endranær.“
Guðný Birna Guðmundsdóttir (S), Sverrir Bergmann Magnússon (S), Sigurrós Antonsdóttir (S), Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir (B), Bjarni Páll Tryggvason (B), Díana Hilmarsdóttir (B) og Valgerður Björk Pálsdóttir (Y).
Ársreikningur 2024 samþykktur 10-0. Margrét Þórarinsdóttir (U) situr hjá.
7. Tímabundnar breytingar á skipan embætta í bæjarstjórn og bæjarráði (2024010091)
Bæjarráð samþykkti á fundi sínum 30. apríl 2025 að Guðný Birna Guðmundsdóttir verði formaður bæjarráðs og Bjarni Páll Tryggvason verði varaformaður bæjarráðs á meðan tímabundin ráðning Halldóru Fríðu Þorvaldsdóttur í stöðu bæjarstjóra er í gildi.
Sömuleiðis mun Bjarni Páll Tryggvason verða forseti bæjarstjórnar og Sverrir Bergmann Magnússon verða 1. varaforseti tímabundið meðan Guðný Birna Guðmundsdóttir gegnir tímabundið stöðu formanns bæjarráðs.
Forseti gaf orðið laust. Enginn fundarmanna tók til máls.
Tímabundnar breytingar á skipan embætta í bæjarstjórn og bæjarráði samþykktar 11-0.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18:32.