360. fundur

10.03.2023 08:15

360. fundur fræðsluráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 10. mars 2023 kl. 08:15

Viðstaddir: Guðný Birna Guðmundsdóttir formaður, Gígja Sigríður Guðjónsdóttir, Halldór Rósmundur Guðjónsson, Harpa Björg Sævarsdóttir og Sighvatur Jónsson.

Að auki sátu fundinn Skúli Sigurðsson fulltrúi grunnskólakennara, Anita Engley Guðbergsdóttir fulltrúi FFGÍR, María Petrína Berg fulltrúi leikskólastjóra, Áslaug Unadóttir fulltrúi leikskólakennara, Jón Garðar Arnarsson fulltrúi ungmennaráðs, Helgi Arnarson sviðsstjóri menntasviðs, Ingibjörg Bryndís Hilmarsdóttir leikskólafulltrúi og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.

1. Húsnæði Holtaskóla (2022120120)

G. Hans Þórðarson verkefnisstjóri frá OMR verkfræðistofu mætti á fundinn og fór, ásamt Helga Arnarsyni sviðsstjóra menntasviðs, yfir stöðu mála varðandi húsnæði og starfsemi Holtaskóla.

Tekin var ákvörðun um að loka Holtaskóla vegna loftgæða og framkvæmda og var síðasti skóladagur í húsnæði skólans 3. mars. Finna þurfti nýjar starfsstöðvar með litlum fyrirvara en það tókst og hófst kennsla að nýju 8. mars. Starfsstöðvar skólans eru á eftirfarandi stöðum: 1. og 3. bekkur eru í íþróttahúsi við Sunnubraut, 2. bekkur í færanlegum einingum við Holtaskóla, 4.-7. bekkur í Hljómahöll og 8.-10. bekkur í húsnæði Keilis á Ásbrú. Frístund er í íþróttahúsinu við Sunnubraut. Boðið er upp á skólaakstur í Hljómahöll og Keili.

Til að flutningur og undirbúningur gengi sem best voru starfsdagar 6. og 7. mars. Annar dagurinn var tilfærsla á starfsdegi frá vori en hinn var auka starfsdagur. Þar sem ekki náðist að taka þessa breytingu á skóladagatali Holtaskóla til afgreiðslu á fundi fræðsluráðs í tæka tíð var óskað eftir samþykki frá fulltrúum ráðsins með tölvupósti og var breytingin samþykkt. Breyting á skóladagatali Holtaskóla verður formlega lögð fram á næsta fundi fræðsluráðs.

Fræðsluráð þakkar fyrir góða kynningu á stöðu Holtaskóla og því starfi sem framundan er varðandi húsnæðismál skólans.

Ráðið ítrekar mikilvægi þess að vel sé fylgst með stöðu rakaskemmda í skólum bæjarins og framkvæmdum vel fylgt eftir.

Fræðsluráð þakkar skólastjórnendum og starfsfólki Holtaskóla ásamt öðru starfsfólki sem kom að verkefninu sérstaklega fyrir skjót viðbrögð. Á örfáum dögum tókst að finna lausnir til að geta haldið skólastarfi áfram í öðru húsnæði sveitarfélagsins í góðu samstarfi við stjórnendur þar. Fræðsluráð þakkar stjórnendum og starfsfólki áðurnefndra stofnana bæjarins fyrir að taka vel á móti nemendum og starfsfólki Holtaskóla.

2. Mælaborð menntasviðs - ársuppgjör 2022 (2023030185)

Helgi Arnarson sviðsstjóri menntasviðs fór yfir ársuppgjör mælaborðs menntasviðs fyrir árið 2022.

Fræðsluráð þakkar fyrir góða kynningu og tekur undir mikilvægi þess að deila upplýsingum sem þessum á vettvangi fræðsluráðs. Hér eftir verður farið yfir mælaborð menntasviðs á fundum fræðsluráðs ársfjórðungslega í stað ársuppgjörs einu sinni á ári.

3. Vetrarfrí í leikskólum (2023030186)

Ingibjörg Bryndís Hilmarsdóttir leikskólafulltrúi gerði grein fyrir ósk frá leikskólum sveitarfélagsins um að fá að taka vetrarfrí til samræmis við hin skólastigin. Vísað er til metnaðarfullrar stefnu sveitarfélagsins og áherslunnar þar á fjölskylduvænt samfélag. Með vetrarleyfi sem næði yfir öll þrjú skólastigin í bænum væri stuðlað að samveru barna og foreldra. Með aukinni samræmingu væri einnig stuðlað að jafnari starfsaðstæðum milli skólastiga.

Við kynningu og umræður komu fram hugmyndir um að heimila vetrarfrí sem styttingu vinnuvikunnar hjá leikskólakennurum í Reykjanesbæ. Engin formleg umræða hefur farið fram innan fræðsluráðs um fyrirkomulag um vetrarfrí. Auk þess hefur bæjarráð nýlega endurvakið starfsnefnd innan Reykjanesbæjar sem er nú að endurskoða fyrirkomulag á styttingu vinnuvikunnar í takt við kjarasamninga.

Fræðsluráði þykir því eðlilegt að fresta málinu til að hægt sé að taka það til nánari umræðu og einnig að senda málið til skoðunar til umræddrar nefndar sem hefur þegar hafið störf.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10:32. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 21. mars 2023.