08.03.2023 08:15

39. fundur framtíðarnefndar Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 8. mars 2023 kl. 08:15

Viðstaddir: Þóranna Kristín Jónsdóttir varaformaður, Aneta Grabowska, Guðni Ívar Guðmundsson, Hjörtur Magnús Guðbjartsson, Jóhanna Björk Sigurbjörnsdóttir.

Íris Ósk Ólafsdóttir boðaði forföll og sat Hjörtur Magnús Guðbjartsson fundinn í hennar stað. Jón Helgason boðaði forföll og sat Jóhanna Björk Sigurbjörnsdóttir fundinn í hans stað.

Að auki sátu fundinn Halldóra Guðrún Jónsdóttir aðstoðarmaður bæjarstjóra, Silja Kolbrún Skúladóttir fulltrúi ungmennaráðs og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.

1. Atvinnumál og atvinnuþróunarstefna (2023020501)

Halldór Karl Hermannsson sviðsstjóri atvinnu- og hafnasviðs mætti á fundinn og gerði grein fyrir stöðu mála varðandi atvinnu- og hafnamál og vinnu við atvinnuþróunarstefnu Reykjanesbæjar.

Framtíðarnefnd þakkar fyrir ítarlega og góða kynningu á hafnar- og atvinnumálum Reykjanesbæjar.

Í umræðum um málaflokkinn kom fram að nefndin er sammála um mikilvægi þess að sviðið leggi jafna áherslu á alla þætti atvinnustarfsemi. Slíkt er gert í starfsemi sviðsins dagsdaglega en til að tryggja megi að svo sé, burtséð frá starfsmönnum sviðsins hverju sinni, sé slíkt skýrt tekið fram í erindisbréfi þess. Til þess að gefa skýr skilaboð um það bæði inn og út á við sé jafnframt mikilvægt að nafn sviðsins og yfirmanns þess endurspegli það og heiti einfaldlega atvinnusvið og sviðsstjóri atvinnumálasviðs.

Framtíðarnefnd kallar eftir sérstakri kynningu á vinnu við atvinnumálastefnu, bæði stöðu vinnunnar í dag og fyrirhugaðrar vinnu. Nefndin leggur líka áherslu á þátttöku nefndarinnar í þeirri vinnu, enda er hún kjarnamálaflokkur í framtíð Reykjanesbæjar.

Framtíðarnefnd leggur áherslu á að mikilvægt sé að vandað sé til verka áður en teknar eru stórar ákvarðanir í málaflokknum. Sem dæmi má taka aðgerðir til að laða minni skemmtiferðaskip til bæjarfélagsins. Meðal nauðsynlegra greininga fyrir þær aðgerðir eru m.a. eftirfarandi:

• Greining á áhrifum á umhverfis- og sjálfbærnimál bæði í samræmi við áherslur innan Reykjanesbæjar almennt og ekki síst í ljósi heimsmarkmiðs um vistvænt samfélag sem sviðið leggur til grundvallar vinnu sinni.
• Greining á áhrifum á vinnumarkað og störf á svæðinu, ekki síst í samhengi við áhrif fjórðu iðnbyltingarinnar á þróun starfa á svæðinu og samsetningu samfélagsins í Reykjanesbæ. Þetta er jafnframt í samræmi við heimsmarkmið um fjölbreytt störf sem sviðið leggur til grundvallar vinnu sinni.
• Kostnaðar og ávinningsgreining (e. cost/benefit analysis).
• Greining á samkeppnisforskoti bæjarins og svæðisins gagnvart öðrum bæjum og landsvæðum og þau áhrif sem slík greining skal að hafa á atvinnumála- og þróunarstefnu Reykjanesbæjar.

Fundargögn:

Reykjaneshöfn og atvinnumál - kynning

2. Stafræn þjónusta (2019110248)

Áslaug Þ. Guðjónsdóttir Luther, deildarstjóri þjónustu og þróunar, mætti á fundinn og fór yfir hvað hefur áunnist í stafrænni stjórnsýslu í vetur.

Framtíðarnefnd þakkar fyrir greinargóðar upplýsingar um stöðu verkefnisins og fagnar góðri vinnu að því. Í ljósi umfangs verkefnisins hvetur nefndin til þess að ráðinn verði sérstakur starfsmaður til að leiða stafræna þróun innan Reykjanesbæjar eða aðrar ráðstafanir gerðar til þess að tryggja að vinna að stafrænni umbreytingu sé sem skilvirkust og endurspegli mikilvægi verkefnisins.

Fundargögn:

Stafræn umbreyting - kynning

3. Lýðræðisstefna Reykjanesbæjar (2023030124)

Framtíðarnefnd vinnur að gerð lýðræðisstefnu Reykjanesbæjar. Nefndarfulltrúar kynni sér verkefnaskjal sem sett hefur verið upp fyrir vinnuna og setji inn sína punkta og gögn til undirbúnings verkefnavinnu. Nefndin mun halda vinnufundi fyrir stefnumótunarvinnuna.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10:10. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 21. mars 2023.