28. fundur

15.12.2021 10:30

28. fundur menningar- og atvinnuráðs Reykjanesbæjar, fjarfundur haldinn 15. desember 2021, kl. 10:30

Viðstaddir: Friðjón Einarsson formaður, Arnar Páll Guðmundsson, Eydís Hentze Pétursdóttir, Trausti Arngrímsson, Sigrún Inga Ævarsdóttir, Þórdís Ósk Helgadóttir forstöðumaður Súlunnar verkefnastofu og Íris Andrea Guðmundsdóttir ritari.

1. Atvinnumál (2021010176)

Sigurgestur Guðlaugsson verkefnastjóri atvinnu- og viðskiptaþróunar mætti á fundinn og fór yfir ýmis atvinnumál.

2. Atvinnuleysistölur (2021010175)

Máli frestað.

3. Listasafn Reykjanesbæjar (2021090215)

Helga Þórsdóttir safnstjóri Listasafns Reykjanesbæjar mætti á fundinn.

Skrápur/SecondSkin, er sýning sem opnaði hjá Listasafni Reykjanesbæjar, þann 20. nóvember 2021.

Að þessu sinni starfar Listasafn Reykjanesbæjar með 2 listamönnum sem báðir búa og starfa erlendis. Listamennirnir eru Igor Antić (fæddur 1962, Novi Sad, Serbíu) hann býr og starfar í París, Frakklandi, hinn listamaðurinn er Ráðhildur Ingadóttir, (fædd 1959, Reykjavík, Íslandi) hún býr og starfar í Kaupmannahöfn og á Seyðisfirði.

Hugmyndin með sýningunni er að fjalla um flótta og tilfærslur þjóða í heiminum. Báðir listamennirnir hafa gert málefni þjóðaflótta og átaka sem af því hlýst að umfjöllunarefni í fyrri sýningum. Listasafn Reykjanesbæjar er staðsett við alþjóðaflugvöll Íslands sem gerir Reykjanesbæ að fjölmennasta bæ í nánd við flugvöllinn. Íbúasamsetning bæjarins er fjölbreytt en um 25% íbúa með fasta búsetu eru erlendir, einnig tekur Reykjanesbær á móti fjölda flóttamanna.

Með umhverfi bæjarfélagsins í huga ákvað safnstjóri að setja upp sýningu sem fjallar um hugmyndina að leita skjóls. Þannig vísar nafn sýningarinnar Skrápur í skjól sem líkaminn býr til sjálfur yfir tíma fyrir utanaðkomandi áreiti. Einnig vísar orðið í skráp sem manneskjan kemur sér upp huga sínum til varnar. Sýningin stendur til og með 30. janúar 2022.

Ráðhildur Ingadóttir (1959) vinnur með ákveðna hugmyndafræði í verkum sínum sem hún útfærir í marga miðla; texta, teikningu, málun, skúlptúr og myndbönd, og er framsetning þeirra jafnan í margslungnum innsetningum.

Ráðhildur hefur haldið margar einkasýningar, sú fyrsta var í Nýlistasafninu árið 1986, og verið valin til þátttöku á samsýningar bæði hér á landi og víða um Evrópu. Verk eftir hana eru í eigu Listasafns Íslands, Listasafns Reykjavíkur og Nýlistasafnsins. Ráðhildur hefur unnið víðs vegar sem sýningarstjóri, árin 2013 og 2014 hlaut hún heiðursstöðu sem listrænn stjórnandi Skaftfells - miðstöðvar myndlistar á Austurlandi.

Ráðhildur stundaði nám í myndlist á Englandi 1981–1986, við Emerson College in Sussex og St. Albans College of Art and Design. Hún var stundakennari við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og Listaháskóla Íslands, 1992–2002, og einnig gestakennari við Konunglegu myndlistarakademíuna í Kaupmannahöfn. Ráðhildur var í stjórn Nýlistasafnsins 2000–2002. Hún hefur hlotið hin ýmsu starfslaun og styrki bæði á Íslandi og í Danmörku.

Igor Antić (1962) kannar hugtök í staðbundnum (e. site-specific) verkum, innan tiltekins samhengis sem getur verið pólitískt, efnahagslegt, menningarlegt og samfélagslegt. Verkin birtast í mismunandi miðlum, eins og ljósmyndum, myndböndum og innsetningum.

Antić hefur haldið fjölmargar einkasýningar og verið valinn til þátttöku á samsýningar víðs vegar í Evrópu, Bandaríkjunum og Asíu. Þar á meðal hefur hann áður sýnt á Íslandi í Nýlistasafninu á sýningunni Polylogue 158 árið 1999. Antić var sýningarstjóri Values: 11th Biennial of Visual Arts í Pancevo, Serbíu, árið 2004.

Antić nam myndlist á árunum 1984–1991, við Novi Sad Academy of Fine Arts, Serbíu, École Nationale Supérieure des Beaux-Arts, París, og Institut des Hautes Etudes en Arts Plastiques, París. Árið 1995 stofnaði hann Pokret Encounter Centre í Novi Sad, Serbíu, hreyfingu listamanna á stríðstímum. Antić hefur unnið til ýmissa verðlauna m.a. hlaut hann The Pollock-Krasner Foundation’s Grant í New York árið 2000.

Gjöf

Verk eftir Igor Antić, á sýningunni Skrápur er unnið í samvinnu við Miðstöð Símenntunar á Suðurnesjum.

Igor afhentir Listasafni Reykjanesbæjar að gjöf þau myndlistaverk sem eru sérstaklega unninn fyrir sýninguna Skrápur.

Safnstjóri Listasafns Reykjanesbæjar, telur það mikinn feng fyrir safnið að taka á móti verkum eftir svo vel þekktan alþjóðlegan myndlistamann. Sérlega þar sem sýningin var unnin að mestu leiti í Reykjanesbæ um ákveðna þjóðfélagshópa sem fundið hafa skjól í bæjarfélaginu. Menningar- og atvinnuráð hvetur alla til að gera sér ferð á þessa mikilvægu sýningu.

4. Útgáfa á 20 ára sýningarsögu listasafns Reykjanesbæjar (2021120251)

Listasafn Reykjanesbæjar ætlar að gefa út bók um tuttugu ára sýningarsögu safnsins á afmælisárinu 2023. Stefnt er á að gefa út veglega listaverkabók sem á að vera lýsandi fyrir það starf sem unnið hefur verið frá stofnun listasafnsins árið 2003. Sýningarstefna Listasafns Reykjanesbæjar árið 2021 snýst um samtímalist, en á þeim átján árum sem nú eru liðin frá stofnun safnsins hafa sýningar verið margbreytilegar og spannað fjölbreytt tímabil í myndlist.

5. Listráð (2021120252)

Helga Þórsdóttir safnstjóri Listasafns Reykjanesbæjar mætti á fundinn.

Listræn starfsemi Listasafns Reykjanesbæjar er mótuð af safnstjóra Listasafns Reykjanesbæjar í samstarfi við listráð. Hlutverk listráðs er að veita faglega ráðgjöf um sýningar- og söfnunarstefnu Listasafns Reykjanesbæjar.

Helga Þórsdóttir, safnstjóri Listasafns Reykjanesbæjar, tilnefnir Kristinn Má Pálmason og Andreu Maack til að sitja í listráði Listasafns Reykjanesbæjar. Menningar- og atvinnuráð tilnefnir Gunnhildi Þórðardóttur.

Menningar- og atvinnuráð fagnar stofnun listráðs.

6. Þrettándinn 2022 (2021110286)

Undirbúningur þrettándaskemmtunar er hafinn og tekur hann m.a. mið af gildandi samkomutakmörkunum og tilmælum heilbrigðisyfirvalda. Unnið er að útfærslum sem verða kynntar þegar nær dregur.

7. Rekstrarsamningur skautasvells (2021090523)

Guðlaug María Lewis menningarfulltrúi mætti á fundinn.

Undirbúningur á uppsetningu skautasvells í skrúðgarðinum í Keflavík er nú í fullum gangi og hefur svellinu verið gefið nafnið Aðventusvellið. Skrifað verður undir samning við rekstraraðila á föstudaginn 17. desember en það er Orkustöðin ehf. sem hefur tekið að sér reksturinn til 31. mars n.k.

Menningar- og atvinnuráð fagnar þessari ráðstöfun og óskar rekstraraðilum velfarnaðar.

8. Fræðsluáætlun Duus safnahúsa (2021120256)

Fræðslufulltrúi Duus Safnahúsa, sem ráðinn var tímabundið fyrir tilstilli styrkjar úr Barnamenningarsjóði, hefur nú lagt fram fræðsluáætlun sem send hefur verið til allra grunnskóla í Reykjanesbæ. Í henni felst að öllum grunnskólanemendum í Reykjanesbæ er á vorönn boðið í safnfræðslu í Duus Safnahúsum, á sýningar Byggðasafns Reykjanesbæjar, Listasafns Reykjanesbæjar og sýningu Reykjanes jarðvangs, og er markmiðið að allir nemendur komi a.m.k. einu sinni í heimsókn. Boðið er upp á fjórar fræðsluleiðir og verður boðið upp á sérstakar rútuferðir fyrir þá skóla sem ekki eru í göngufæri við safnahúsin.

Ráðið fagnar þessu framtaki og vill undirstrika mikilvægi þess að söfnin hafi yfir að ráða safnkennurum og að nemendum sé gefinn kostur á að nýta sér þann frjóa námsvettvang sem söfn eru.

9. Samstarfssamningur Bókasafns við Keili (2021120265)

Bókasafn Reykjanesbær og Keilir miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs gera með sér þjónustusamning um sérfræðiþjónustu á sviði bókasafns- og upplýsingafræða og aðgang að safnkosti og þjónustu Bókasafns Reykjanesbæjar fyrir nemendur á brautum Háskólabrúar og Menntaskólans á Ásbrú. Markmiðið með þjónustusamningnum er að auka þjónustu við nemendur á brautum Háskólabrúar og Menntaskólans á Ásbrú, efla upplýsingalæsi meðal nemenda skólanna og bjóða upp á skilvirka þjónustu með gagnvirkum hætti við nemendur skólanna. Samningurinn er til eins árs.

10. Starfsáætlanir (2021110438)

Starfsáætlanir 2022 deilda og stofnanna Súlunnar verkefnastofu lagðar fram.

11. Fjárhagsáætlun 2022 (2021060488)

Fjárhagsáætlun 2022 lögð fram. Einhverjar breytingar áttu sér stað á lyklum menningarmála. Helstu breytingar voru tilfærsla á stöðugildi af lykli 05312 yfir á 05511, færsla af launalið yfir á rekstrarlið á lyklum 05320 og 05311. Hækkun var á útgjaldaramma Súlunnar vegna markaðsmála 6.000.000,-.

12. Styrkir yfir árið (2021010167)

Lagt fram yfirlit yfir styrki sem veittir voru Súlunni á árinu 2021. Styrkir samtals voru 29.000.000,-.

13. Heimsókn til Akureyrar (2021110291)

Þórdís Ósk Helgadóttir forstöðumaður Súlunnar verkefnastofu sagði frá heimsókn Súlunnar til Akureyrar. Þann 20. október 2021 heimsóttu starfsmenn Súlunnar Akureyrarstofu, listasafn Akureyrar, Amtsbókasafn, Hof, SSNE og markaðsstofu Norðurlands. Súlan vill þakka starfsfólki Akureyrar fyrir góðar og lærdómsríkar móttökur.

Ráðið þakkar forstöðumanni Súlunnar fyrir greinargóða yfirferð á vel heppnaðri heimsókn og tekur undir að mikilvægt sé fyrir stjórnendur að útvíkka sjóndeildarhringinn og eiga í samtali við aðra kollega á landinu.

14. Fundargerðir sögunefndar Keflavíkur 10. nóvember og 9. desember 2021 (2019050831)

Fundargerðir sögunefndar Keflavíkur lagðar fram.

Fylgigögn:

Fundargerð sögunefndar 10. nóvember 2021

Fundargerð sögunefndar 9. desember 2021

15. Mælaborð Súlunnar (2021030231)

Mælaborð Súlunnar lagt fram.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 12:15. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 21. desember 2021.