40. fundur

27.01.2023 08:30

40. fundur menningar- og atvinnuráðs Reykjanesbæjar, haldinn í Duus safnahúsum 27. janúar 2023, kl. 08:30

Viðstaddir: Trausti Arngrímsson formaður, Birgitta Rún Birgisdóttir, Eva Stefánsdóttir, Eydís Hentze Pétursdóttir og Sverrir Bergmann Magnússon.

Að auki sátu fundinn Guðlaug María Lewis menningarfulltrúi, Betsý Ásta Stefánsdóttir fulltrúi ungmennaráðs og Íris Andrea Guðmundsdóttir ritari.

1. Þjónusta og þróun (2023010511)

Áslaug Þ. Guðjónsdóttir Luther deildarstjóri þjónustu og þróunar mætti á fundinn og kynnti starfsemi deildarinnar.

Ráðið þakkar Áslaugu fyrir greinargóða kynningu.

2. Niðurstöður úr þjónustukönnun bókasafnsins (2023010512)

Stefanía Gunnarsdóttir forstöðumaður bókasafnsins mætti á fundinn og fór yfir niðurstöðu þjónustukönnun bókasafnsins.

Ráðið þakkar Stefaníu fyrir greinargóða kynningu.

3. Ljósmyndsafn Byggðasafns Reykjanesbæjar (2023010549)

Eva Kristín Dal, forstöðumaður Byggðasafns Reykjanesbæjar, mætti á fundinn og lagði fram áform safnsins um varðveislu ljósmynda. Óskað er eftir umsögn ráðsins varðandi breytta tilhögun á skráningu og miðlun ljósmyndasafns Byggðasafns Reykjanesbæjar.

Ráðið tekur undir hugmyndir forstöðumanns byggðasafns um varðveislu ljósmynda og felur menningarfulltrúa að vinna málið áfram.

4. Bpart – samfélagsverkefni (2023010513)

Reykjanesbær, ásamt Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði, tekur nú þátt í verkefninu Bpart sem er alþjóðlegt listtengt samfélagsverkefni sem er öllum opið á Íslandi og beinir augum að fólki á flótta og umsækjendum um alþjóðlega vernd. Markmið verkefnisins er að nýta dans og leik sem verkfæri til framþróunar samfélagsins, stuðla að inngildingu og auka á sýnileika jaðarhópa. Auglýst hefur verið eftir áhugasömum íbúum til að taka þátt í vinnustofum leidda af hópi listafólks og hefjast þær mánudaginn 30. janúar. Lokasýning verkefnisins fer fram í Reykjanesbæ laugardaginn 11. febrúar í SBK húsinu í Gróf og eru allir velkomnir þangað.

Menningar- og atvinnuráð hvetur íbúa til að missa ekki af þessari einstöku sýningu.

5. Þrettándinn (2022090416)

Skýrsla lögð fram.

Menningar- og atvinnuráð færir þakkir til allra þeirra sem lögðu hönd á plóg við undirbúning og framkvæmd þrettándaskemmtunar og þakkar fyrir greinargóða skýrslu.

6. Gjaldskrá 2023 (2022090424)

Rekstraraðilar Duus safnahúsa og Rokksafns Íslands leggja til breytingar á samþykktri gjaldskrá fyrir árið 2023 sem fela í sér að öryrkjar fái ókeypis aðgang á sýningar í Duus safnahúsum og Rokksafni Íslands.

Menningar- og atvinnuráð styður tillöguna og vísar henni í bæjarráð.

7. Goðasýning (2023010577)

Menningar- og atvinnuráð samþykkir að gerð verði leiðrétting á skráningu í safneign Listasafns Reykjanesbæjar og að goðasýningin Örlög guðanna verði afskráð úr safneigninni. Jafnframt felur ráðið safnstjóra Listasafnsins að sjá til þess að sýningin eða hlutar hennar verði boðin öðrum til afnota.

8. Greiningarvinna á menningarhúsum (2022110463)

Bæjarráð Reykjanesbæjar hefur samþykkt að ráða Guðrúnu Lilju Gunnlaugsdóttur, hönnuð og deildarstjóra nýsköpunar hjá Borgarbókasafninu, sem ráðgjafa við greiningarvinnu sem miðar að því að kanna hvort raunhæft sé að flytja bókasafnið í Hljómahöll.

Menningar- og atvinnuráð leggur áherslu á að vera upplýst um framgang málsins.

9. Menningarsjóður 2023 (2023010516)

Menningar- og atvinnuráð vekur athygli á að nú hefur verið opnað fyrir umsóknir í menningarsjóð Reykjanesbæjar þar sem hægt er að sækja um styrki í fjölbreytt verkefni sem efla menningarlíf í Reykjanesbæ. Ráðið hvetur alla sem luma á skemmtilegum hugmyndum að verkefnum til að sækja um í sjóðinn. Opið er fyrir umsóknir til 19. febrúar og sótt er um í gegnum Mitt Reykjanes.

10. Hljómahöll (2022050383)

Hljómahöll hlaut verðlaunin og viðurkenninguna Gluggann á Degi íslenskrar tónlistar sem haldinn var hátíðlegur í Hörpu þann 1. desember 2022 en þar voru veitt verðlaun fyrir einstaklinga og hópa sem þykja hafa lagt lóð á vogarskálar í að efla íslenskt tónlistarlíf undanfarin misseri. Verðlaunin hlaut Hljómahöll fyrir að halda úti heimili íslenskrar tónlistar í Reykjanesbæ með hugmyndaríku safni og fjölbreyttri tónlistardagskrá undanfarin ár. Tómas Young, framkvæmdastjóri Hljómahallar, tók við verðlaununum og tileinkaði þau starfsfólki Hljómahallar.

Menningar- og atvinnuráð óskar starfsfólki Hljómahallar til hamingju með viðurkenninguna. Ráðið leggur áherslu á að áfram verið lögð rækt við tónlistararf Reykjanesbæjar í takt við menningarstefnu Reykjanesbæjar sem hefur að leiðarljósi að menningin fái tækifæri til að vaxa og blómstra sem lifandi afl í samfélaginu með fjölbreyttum og framsæknum menningarstofnunum. Sem efla bæjarbrag, auka víðsýni, auðga mannlíf og efnahagslega framþróun Reykjanesbæjar.

11. Mælaborð Súlunnar (2022030348)

Mælaborð lagt fram.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10:25. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 7. febrúar 2023.