107. fundur

11.03.2016 09:08

107. fundur menningarráðs Reykjanesbæjar var haldinn 10. mars 2016 að Tjarnargötu 12, kl. 14:00.

Mættir: Eva Björk Sveinsdóttir formaður, Baldur Guðmundsson aðalmaður, Sigrún Inga Ævarsdóttir aðalmaður, Dagný Steinsdóttir aðalmaður, Davíð Örn Óskarsson aðalmaður, Valgerður Guðmundsdóttir menningarfulltrúi, Guðlaug María Lewis, fundaritari. Gestir fundarins voru: Sigrún Ásta Jónsdóttir, forstöðumaður Byggðasafns Reykjanesbæjar, Stefanía Gunnarsdóttir, forstöðumaður Bókasafns Reykjanesbæjar og Tómas Viktor Young, framkvæmdastjóri Hljómahallar. 

1. Ársskýrsla Duushúsa 2015 (2016030119)

Valgerður Guðmundsdóttir menningarfulltrúi og forstöðumaður Duus safnahúsa lagði fram ársskýrslu 2015. Rekstur Duus safnahúsa var með hefðbundnu sniði á þrettánda starfsárinu. 17 nýjar sýningar voru opnaðar á árinu, móttaka innlendra og erlendra gesta jókst með lengri opnunartíma og  tónleikar, fundahöld og ýmsar menningaruppákomur voru haldnar. Sú nýbreytni kom til framkvæmda að í Bryggjuhúsinu var opnuð Upplýsingamiðstöð ferðamála í samstarfi við Markaðsstofu Reykjaness. Gestir í Duus safnahúsum voru á árinu 2015 40.397 og hafði þeim fjölgað um rúmlega 2.000. Erlendum gestum fjölgaði hlutfallslega mest en þeim fjölgaði um 100% úr 4.041 í 8.107. Ráðið þakkar greinargóða skýrslu.


2. Ársskýrsla Bókasafns Reykjanesbæjar 2015 (2016030121)

Stefanía Gunnarsdóttir forstöðumaður bókasafnsins lagði fram ársskýrslu 2015. Á árinu hefur Bókasafn Reykjanesbæjar staðið fyrir öflugri fræðslu- og viðburðadagskrá. Það virðist vera áhugi fyrir þessari nýbreytni og flestir viðburðir á vegum safnsins hafa verið vel sóttir.  Börnum í sumarlestri fjölgaði um 35% á milli ára en boðið var upp á sumarlestursbingó. Sprenging varð í heimsóknum leik- og grunnskólabarna en u.þ.b. 2500 börn heimsóttu safnið í sögustundir og ratleikinn „Hvar er Valli“. Þrátt fyrir að aðsókn gesta hafi aukist í safnið fækkaði almennum útlánum um 3% á árinu 2015. Vefur safnsins var endurnýjaður á árinu í samræmi við áherslur safnsins. Ráðið þakkar greinargóða skýrslu.


3. Ársskýrsla Byggðasafns Reykjanesbæjar 2015 (2016030122)

Sigrún Ásta Jónsdóttir safnstjóri byggðasafns lagði fram ársskýrslu 2015. Í byrjun árs lauk viðgerðum á viðbyggingu við Ramma og var þá hægt að flytja skrifstofur og starfsmannaaðstöðu þangað. Mikil og góð breyting varð á starfsaðstöðu safnsins. Eftir flutningana var hafist handa við að endurskipuleggja varðveislurýmið og hafin var vinna við gerð gæðahandbókar fyrir varðveisluhúsið.
Í bíósal voru opnaðar 3 sögusýningar, sú fyrsta sumarsýning safnsins var gerð í tilefni 100 ára kosningarréttar kvenna og var skrifum Mörtu Valgerðar Jónsdóttur gerð sérstök skil, hinar síðari voru samvinnuverkefni við annars vegar afmælisnefnd Keflavíkurkirkju og hins vegar hestamannafélagið  Mána. Safninu bárust góðar gjafir á árinu en þar er stærst báturinn Baldur KE 97 sem Ólafur Björnsson færði safninu skömmu fyrir andlát sitt. Ráðið þakkar greinargóða skýrslu.


4. Ársskýrsla Listasafns Reykjanesbæjar 2015 (2016030120)

Valgerður Guðmundsdóttir forstöðumaður listasafnsins lagði fram ársskýrslu 2015. Listasafn Reykjanesbæjar er eina listasafnið á Suðurnesjum og sinnir öllum hefðbundnum safnastörfum. Settar voru upp 13 sýningar á vegum safnsins á árinu og safneignin er nú orðin 687 verk. Safnkosturinn hefur allur verið skráður í Sarp og verkefnaráðinn starfsmaður vann við að fylla betur inn listfræðilega skráningu verkanna. Safnið er með góða vefsíðu og fésbókarsíða er í gangi og safnið stendur fyrir kynningum á íslenskri myndlist í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Útgefnar voru 7 sýningarskrár og þar af ein upp á 60 síður. Listasafnið stýrði verkefnunum Listahátíð barna, List án landamæra og Listaskólanum. Ráðið þakkar greinargóða skýrslu.


5. Ársskýrsla Hljómahallar 2015 (2016030123)

Tómas Young framkvæmdastjóri Hljómahallar lagði fram ársskýrslu Hljómahallar. Fór Tómas yfir fyrirkomulag reksturs hússins, starfsmannafjölda og helstu verkefni. Í skýrslunni kemur fram að heildarfjöldi gesta á Rokksafn Íslands var 15.594 árið 2015 og má helst rekja til vinsælda sýningarinnar um Pál Óskar (Einkasafn poppstjörnu) og að hlutfall gesta sé 90% Íslendingar og 10% erlendir gestir. Útleiga á sölum hefur aukist á milli ára og var veltan um 50% meiri af salarútleigu en árið áður. Þá seldust 3.793 miðar á viðburði í Hljómahöll sem er talsverð aukning frá árinu áður þegar 1.660 miðar seldust. Ráðið þakkar greinargóða skýrslu.


6. Styrkúthlutanir úr Uppbyggingarsjóði Suðurnesja (2016010294)

Reykjanesbær sendi inn 13 umsóknir í Uppbyggingarsjóð Suðurnesja sem auglýsti eftir styrkumsóknum í febrúar. Samkvæmt upplýsingum frá sjóðsstjórn voru umsóknir til sjóðsins 63 talsins og hljóðuðu styrkbeiðnir upp á rúmlega 127 milljónir króna. Úthlutað var kr. 45.000.000 til 35 verkefna og hlutu eftirfarandi 7 umsóknir brautargengi hjá sjóðnum:

Menningarskrifstofa: Fischers hús, 2.500.000
Menningarskrifstofa: Gamla búð, 1.500.000
Listasafn: Stofnstyrkur, 2.000.000
Bókasafn: Átthagastofa, 500.000
Bókasafn: Bókmenntaarfurinn, 750.000 (Öll sveitarfélögin undir verkefnastjórn Rnb.)
Menningarskrifstofa: Safnahelgi, 2.000.000 (Öll sveitarfélögin undir verkefnastjórn Rnb.)
Menningarskrifstofa: List án landamæra, 1.000.000 (Öll sveitarfélögin undir verkefnastjórn Rnb)


Önnur mál
7. Nýtt dagskrármál (2016010294)

a) Lína Rut hefur sent inn hugmynd að útilistaverki sem tengist bók hennar Núi og Nía. Ráðið hvetur listakonuna til að vinna áfram að þessari skemmtilegu hugmynd.
b)  Söngkonurnar Sigríður Thorlacius, Ragnheiður Gröndal, Sigga Beinteins og Guðrún Gunnars hafa lýst áhuga sínum á að vera með tónleika í Hljómahöllinni tileinkaða Ellý Vilhjálms. Ráðið felur Tómasi Young að setja sig í samband við söngkonurnar.
c) Safnahelgi á Suðurnesjum verður haldin helgina 12. – 13. mars n.k. og hvetur ráðið íbúa og gesti til að nýta sér ókeypis aðgang að alls kyns menningu í Reykjanesbæ þessa helgi.
d) Ráðið lýsir ánægju sinni með þá ákvörðun að starfsmenn Reykjanesbæjar skuli fá Menningarkortið að gjöf og hvetur þá til að nýta sér gjöfina.


Fleira ekki gert og fundi slitið.

Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 16. mars 2016.