328. fundur

06.12.2019 08:15

328. fundur fræðsluráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Skólavegi 1 þann 6. desember 2019 kl. 08:15

Viðstaddir: Valgerður Björk Pálsdóttir formaður, Bjarni Páll Tryggvason, Jóhanna Björk Sigurbjörnsdóttir, Anna Sigríður Jóhannesdóttir, Íris Ósk Kristjánsdóttir.
Bryndís Björg Guðmundsdóttir fulltrúi skólastjóra grunnskóla, Silja Konráðsdóttir fulltrúi grunnskólakennara, Hanna Málmfríður Harðardóttir fulltrúi leikskólastjóra, Anna Lydía Helgadóttir fulltrúi leikskólakennara.
Helgi Arnarson sviðsstjóri fræðslusviðs, Haraldur Axel Einarsson grunnskólafulltrúi, Ingibjörg Bryndís Hilmarsdóttir leikskólafulltrúi og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.

1. Skýrsla starfshóps um bættar starfsaðstæður í leikskólum (2019090628)

Ingibjörg Bryndís Hilmarsdóttir, leikskólafulltrúi, kynnti skýrslu starfshóps um bættar aðstæður í leikskólum sveitarfélagsins.

Fræðsluráð þakkar starfshópnum fyrir vel unna skýrslu um bættar starfsaðstæður í leikskólum Reykjanesbæjar. Í skýrslunni koma fram margar gagnlegar tillögur sem eru til þess fallnar að styrkja hið frábæra starf sem unnið er í leikskólum Reykjanesbæjar enn frekar. Reykjanesbær, líkt og fjöldi annarra sveitarfélaga, hefur í mörg ár verið töluvert frá því að uppfylla lágmarksviðmið um mönnun leikskóla með fagmenntuðum einstaklingum. Fræðsluráð telur að til þess að leikskólar bæjarins verði áfram eftirsóknarverðir vinnustaðir fyrir þá sem þar starfa sem og eftirsóknarverðir vinnustaðir fyrir einstaklinga sem eru að leita sér að framtíðarstarfi sé fullt tilefni til að grípa til aðgerða í samræmi við tillögur skýrslunnar. Þau umbótatækifæri sem greind eru snúa að umhverfi leikskólakennara, leiðbeinenda, stjórnenda í leikskólum sem og þeirra barna sem sækja leikskóla. Fræðsluráð mun fylgja því eftir að unnið verði að umbótum í leikskólastarfi á grunni skýrslunnar, ráðið leggur einnig áherslu á að skýrslan sem slík er ekki endapunktur í því verkefni að betrumbæta starfsaðstæður nemenda og starfsfólks í leikskólum heldur upphafspunktur.

Starfsumhverfi leikskólabarna verði sambærilegt starfsumhverfi annarra nemenda í skólum Reykjanesbæjar

Fræðsluráð felur sviðsstjóra fræðslusviðs að útfæra tillögu 1 varðandi starfstíma leikskóla þ.e. að stefnt sé að því að vinnufyrirkomulag í leikskólum verði sambærilegra öðrum skólastigum, þá sérstaklega í grunnskólum. Fyrsta skrefið í því er að leikskólar bæjarins verða lokaðir á milli jóla og nýárs frá og með árinu 2020.

Lokunin skal ekki hafa áhrif á launakjör starfsfólks leikskólanna. Ekki skal innheimta leikskólagjöld þá daga sem leikskólar eru lokaðir.

Fræðslusviði/sviðsstjóra fræðslusviðs er falið að greina kosti og galla þess að loka leikskólum í dymbilviku líkt og gert er á öðrum skólastigum. Greiningin skal meðal annars ná utan um nýtingu á leikskólaplássum þessa daga, viðhorfi foreldra til þess að leikskólastarf sé skert að hluta eða öllu leyti í dymbilviku, viðhorf starfsfólks til lokunar að hluta eða öllu leyti í dymbilviku sem og kostnaðargreining.

Undirbúningstímar starfsfólks leikskóla

Fræðsluráð felur sviðsstjóra fræðslusviðs að vinna að því í samráði við stjórnendur leikskóla Reykjanesbæjar að útfæra tillögur 3 og 4. Frá upphafi starfsárs 2020 skal undirbúningstími leikskólakennara og deildarstjóra vera aukinn frá því sem hann er í dag. Þessu til viðbótar skal vera búið að rýmka heimildir leikskólastjóra vegna yfirvinnugreiðslna fyrir undirbúning frá upphafi starfsárs 2020.

Barnagildisviðmið

Fræðsluráð felur sviðsstjóra fræðslusviðs að kostnaðarmeta þær breytingar sem lagðar eru til í barnagildisviðmiðum í samræmi við tillögu 6.

Að auki skal framkvæma úttekt á hljóðvist hvers leikskóla, gefi úttekt tilefni til framkvæmda skulu þær kostnaðarmetnar og lögð fram umbótaáætlun.

Stuðningur við starfsfólk í leikskólakennaranámi

Fræðsluráð leggur til að Reykjanesbær endurgreiði starfsfólki sínu sem stundar nám samhliða vinnu í leikskólakennarafræðum aðstöðu- og próftökugjald hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum.

Fræðsluráð felur sviðsstjóra fræðslusviðs að leita samstarfs við fræðslustofnanir í Reykjanesbæ (Keilir og/eða MSS) með það að markmiði að bjóða upp á leikskólakennaranám í menntastofnunum bæjarins, eða aðstöðu til hópfjarnáms. Fræðsluráð skal upplýst um framgang í maí 2020.

Fræðsluráð felur leikskólafulltrúa að framkvæma viðhorfskönnun hjá ófaglærðu starfsfólki leikskóla, til þess að komast að því hvaða atriði yrðu hvatning fyrir því að hefja nám í leikskólakennarafræðum.

Fylgigögn:

Skýrsla starfshóps um bættar starfsaðstæður í leikskólum Reykjanesbæjar
Skýrsla starfshóps - fylgiskjal
Erindisbréf starfshóps um starfsaðstæður í leikskólum Reykjanesbæjar

2. Leikskólavist fyrir börn yngri en 24 mánaða (2019120045)

Fræðsluráð vill að fjármagn (fyrir húsnæði og rekstur) verði tryggt til stækkunar Hjallatúns auk eins leikskóla í Keflavíkurhverfinu, sem fræðslusvið gerir tillögu um, fyrir fjárhagsáætlunargerð ársins 2021. Einnig er lagt til að leikskólinn Völlur á Ásbrú nýti allt sitt húsnæði og að fjármagn verði tryggt í endurbætur á húsnæðinu ef þörf er á.

Í tengslum við minnisblað hagdeildar Reykjanesbæjar um ungbarnaleikskóla í Reykjanesbæ felur fræðsluráð leikskólafulltrúa að undirbúa erindisbréf fyrir faghóp sem hefur það að markmiði að greina ítarlega kosti og galla annars vegar ungbarnaleikskóla og hins vegar að setja á stofn ungbarnadeildir í núverandi leikskólum. Erindisbréfið skal lagt fyrir næsta fund fræðsluráðs.

3. Skólanámskrár grunnskóla Reykjanesbæjar 2019 - 2020 (2019110218)

Fyrir fundinum liggja skólanámskrár grunnskólanna 2019 – 2020, almennur hluti.

Fræðsluráð staðfestir skólanámskrár grunnskóla Reykjanesbæjar fyrir skólaárið 2019 – 2020, almennan hluta.

Fylgigögn:

Skólanámskrá Akurskóla - Almennur hluti 2019 - 2022
Skólanámskrá Háaleitisskóla - Almennur hluti 2019 - 2022
Skólanámskrá Holtaskóla - Almennur hluti 2019 - 2022
Skólanámskrá Myllubakkaskóla - Almennur hluti 2019 - 2022
Skólanámskrá Njarðvíkurskóli - Almennur hluti 2019 - 2022

4. Leiðbeinandi reglur um samskipti skóla og trúfélaga (2019050699)

Haraldur Axel Einarsson, grunnskólafulltrúi, kynnti drög að viðmiðunarreglum um samskipti leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila Reykjanesbæjar við trúar- og lífsskoðunarfélög.

Fræðsluráð samþykkir viðmiðunarreglurnar.

5. Heilsueflandi grunnskólar (2019050505)

Anna Sigríður Jóhannesdóttir, fulltrúi D-lista, lagði fram tillögu um að allir grunnskólar Reykjanesbæjar verði heilsueflandi grunnskólar til að efla geðheilsu og hreyfingu nemenda.

Fræðsluráð felur sviðsstjóra fræðslusviðs að skoða í samstarfi við lýðheilsufulltrúa Reykjanesbæjar og stjórnendur grunnskóla Reykjanesbæjar fýsileika þess að hver og einn grunnskóli bæjarins verði skilgreindur sem heilsueflandi grunnskóli. Fræðsluráð skal upplýst um niðurstöður skoðunarinnar þegar hún liggur fyrir.

Fylgigögn:

Tillaga um heilsueflandi grunnskóla

6. Niðurstöður úr samræmdum könnunarprófum (2019120047)

Helgi Arnarson, sviðsstjóri fræðslusviðs, fór yfir niðurstöður úr samræmdum könnunarprófum í grunnskólum sveitarfélagsins haustið 2019.


Fræðsluráð óskar Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og starfsfólki hans til hamingju með hátíðarsýninguna Fiðlarinn á þakinu. Kraftmikið og fórnfúst starf allra sem að komu ber vott um þá fagmennsku og þann metnað sem lagður er í tónlistarkennsluna í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10:40. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 17. desember 2019.