365. fundur

15.09.2023 08:15

365. fundur menntaráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 15. september 2023 kl. 08:15

Viðstaddir: Guðný Birna Guðmundsdóttir formaður, Gígja Sigríður Guðjónsdóttir, Halldór Rósmundur Guðjónsson, Harpa Björg Sævarsdóttir og Sighvatur Jónsson.

Að auki sátu fundinn Ásgerður Þorgeirsdóttir fulltrúi skólastjóra grunnskóla, Skúli Sigurðsson fulltrúi grunnskólakennara, Anita Engley Guðbergsdóttir fulltrúi FFGÍR, Brynja Aðalbergsdóttir fulltrúi leikskólastjóra, Helgi Arnarson sviðsstjóri menntasviðs, Bryndís Björg Guðmundsdóttir grunnskólafulltrúi, Ingibjörg Bryndís Hilmarsdóttir leikskólafulltrúi og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.

1. Húsnæðismál skóla (2022100267)

Friðjón Einarsson formaður bæjarráðs mætti á fundinn og fór yfir upplýsingar varðandi fjárhag sveitarfélagsins.

Helgi Arnarson sviðsstjóri menntasviðs lagði fram svör við bókunum fulltrúa grunnskólakennara og fulltrúa FFGÍR á fundi menntaráðs 25. ágúst 2023.

Bókun Skúla Sigurðssonar fulltrúa grunnskólakennara:

„Ætlar Reykjanesbær að greiða starfsfólki við þá skóla sem hafa lokað húsnæði álagsgreiðslur? Hefur komið erindi frá skólastjórnendum eða kennurum um slíkt á borð fræðslustjóra eða menntaráðs?“

Svar sviðsstjóra menntasviðs:

Það hefur ekki verið tekin ákvörðun um að greiða starfsfólki við þá skóla sem hafa lokað húsnæði álagsgreiðslur. Slíkt erindi var borið upp við sviðsstjóra menntasviðs sl. vor, þ.e. að starfsfólk í Myllubakkaskóla fengi eingreiðslu að upphæð 70.000 kr., og var þá vísað til þess að slíkt hefði verið gert í öðru sveitarfélagi. Því miður er álag víða í stofnunum Reykjanesbæjar vegna rakaskemmda og myglu og væri erfitt að draga línuna þar sem hún er dregin í bókun fulltrúa grunnskólakennara. Þá eru ýmsar aðrar leiðir líklega betur til þess fallnar að mæta álagi en sú sem nefnd er.

Bókun Anitu Engleyjar Guðbergsdóttur fulltrúa FFGÍR:

„Með hvaða hætti verður börnunum bættur upp sá tími sem vantar upp á kennslu? Verður það með lengri skóladegi eða auknu álagi á heimanám?“

Svar sviðsstjóra menntasviðs:

Ýmsar leiðir hafa verið ræddar í því efni að bæta nemendum í Myllubakkaskóla upp skertan námstíma í upphafi þessa skólaárs. Þegar skólastarf kemst í eðlilegt horf, þ.e. stundatafla nemenda verður óskert, munu leiðir verða kynntar og ræddar í skólaráði skólans þar sem sæti eiga fulltrúar allra hagsmunaaðila skólasamfélags Myllubakkaskóla.

2. Upphaf skólastarfs skólaárið 2023-2024 (2023090405)

Arnþór Elíasson rekstrarfulltrúi í hagdeild mætti á fundinn og kynnti nýtt mælaborð þar sem fram koma tölulegar upplýsingar varðandi leikskóla í Reykjanesbæ.

Fylgigögn:

Mælaborð leikskóla september 2023

3. Leyfi fyrir daggæslu barna í heimahúsi (2023090025)

Lögð fram umsókn um starfsleyfi fyrir dagforeldri frá Guðrúnu Hrefnu Guðmundsdóttur.

Starfsleyfið er veitt.

4. Björkin í Njarðvíkurskóla - húsnæðismál (2023090407)

Helgi Arnarson sviðsstjóri menntasviðs gerði grein fyrir málinu. Lagt fram erindi frá skólastjóra Njarðvíkurskóla ásamt þarfagreiningu frá sviðsstjóra varðandi húsnæði Bjarkarinnar. Skólastjóri Njarðvíkurskóla hefur lagt ríka áherslu á að komið verði fyrir nýju húsnæði við Njarðvíkurskóla í stað Bjarkarinnar enda sé fyrrgreind starfsemi nú leyst með tímabundinni lausn.

Menntaráð leggur til að erindinu verði vísað til bæjarráðs.

5. Nýr grunnskóli á Ásbrú - stofnun undirbúningshóps (2023090406)

Helgi Arnarson sviðsstjóri menntasviðs lagði til að skipaður verði undirbúningshópur vegna nýs grunnskóla á Ásbrú. Hópurinn samanstandi af breiðum hópi fólks frá hinum ýmsu hagsmunaaðilum í þeim tilgangi að fá fram sem flestar og fjölbreyttastar hugmyndir um skóla og skólastarf og tengsl skólans við nánasta umhverfi sitt. Gert er ráð fyrir að undirbúningshópurinn taki til starfa í byrjun október 2023 og skili skýrslu í mars 2024.

Menntaráð samþykkir að skipaður verði undirbúningshópur í samræmi við tillögu sviðsstjóra.

Fylgigögn:

Undirbúningur nýs grunnskóla á Ásbrú - tillaga


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 09:36. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 19. september 2023.