386. fundur menntaráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Grænásbraut 910 þann 6. júní 2025 kl. 08:15
Viðstaddir: Sverrir Bergmann Magnússon formaður, Gígja Sigríður Guðjónsdóttir, Halldór Rósmundur Guðjónsson, Harpa Björg Sævarsdóttir og Sighvatur Jónsson.
Að auki sátu fundinn Anita Engley Guðbergsdóttir fulltrúi FFGÍR, Ólöf Magnea Sverrisdóttir fulltrúi leikskólastjóra, Jóhanna Helgadóttir fulltrúi leikskólakennara, Vilborg Pétursdóttir fulltrúi foreldra leikskólabarna, Helgi Arnarson sviðsstjóri menntasviðs, Haraldur Axel Einarsson grunnskólafulltrúi, Ingibjörg Bryndís Hilmarsdóttir leikskólafulltrúi og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.
Helga Jóhanna Oddsdóttir boðaði forföll og sat Gígja Sigríður Guðjónsdóttir fundinn í hennar stað. Gróa Axelsdóttir, fulltrúi skólastjóra grunnskóla og Ingunn Rós Valdimarsdóttir fulltrúi grunnskólakennara boðuðu forföll.
1. Mælaborð menntasviðs - fyrsti ársfjórðungur 2025 (2025060063)
Helgi Arnarson sviðsstjóri menntasviðs kynnti mælaborðs sviðsins fyrir fyrsta ársfjórðung 2025.
Menntaráð Reykjanesbæjar vill koma á framfæri einlægum hamingjuóskum til nemenda og starfsfólks skólasamfélagsins í Reykjanesbæ sem á síðustu vikum hefur unnið til verðlauna og viðurkenninga fyrir metnaðarfullt og skapandi starf. Stapaskóli hlaut nýverið Hvatningarverðlaun menntaráðs fyrir verkefnið Heillaspor, sem stuðlar að vellíðan og félagsfærni nemenda með markvissum hætti. Verkefnið hefur verið þróað og innleitt yfir tvö skólaár og hefur haft jákvæð áhrif á líðan og skólaanda. Auk þess fengu tvö önnur verkefni sérstaka viðurkenningu: Nýsköpunar- og tæknimennt við Háaleitisskóla og Félagsfærni sem hittir í mark við Heiðarskóla.
Einnig vill menntaráð óska Holtaskóla til hamingju með glæsilegan sigur í úrslitum Skólahreysti, þar sem nemendur skólans stóðu sig frábærlega og sýndu kraft, úthald og samvinnu í verki. Þá gerðu nemendur í Háaleitisskóla, Njarðvíkurskóla og Stóru-Vogaskóla garðinn frægan í Nýsköpunarkeppni grunnskólanna 2025, þar sem skapandi og tæknilega útfærðar hugmyndir vöktu verðskuldaða athygli. Meðal þeirra var forritað rafmagnsdýr sem gelti og dillaði rófu – hannað sem hjálpartæki fyrir fjölskyldur til að meta hvort þær væru tilbúnar til að eignast gæludýr.
Á sama tíma stóð Njarðvíkurskóli uppi sem sigurvegari í stuttmyndakeppni Sexunnar með myndina Hvað ef?, sem fjallar á áhrifaríkan hátt um afleiðingar neikvæðra athugasemda á samfélagsmiðlum. Þá hefur menntasvið Reykjanesbæjar einnig veitt fjölbreyttum verkefnum styrki úr Nýsköpunar- og þróunarsjóði, sem ætlað er að efla nýsköpun og innra starf í leik- og grunnskólum bæjarins.
Öll þessi dæmi endurspegla kraftmikið, framsækið og öflugt skólastarf í Reykjanesbæ þar sem hugmyndaflug, fagmennska og velferð barna og ungmenna eru í fyrirrúmi. Menntaráð fagnar þessum árangri og hvetur skólasamfélagið til að halda áfram á þessari braut.
2. Verklag vegna undirmönnunar í leikskólum (2025050381)
Ingibjörg Bryndís Hilmarsdóttir leikskólafulltrúi fór yfir upplýsingar um þjónustuskerðingu hjá leikskólum Reykjanesbæjar á tímabilinu 1. september 2024 til 1. maí 2025.
Lagt fram erindi frá fulltrúa leikskólakennara og trúnaðarmanni starfsmanna VSFK í leikskólanum Heiðarseli þar sem óskað er eftir að verklag vegna undirmönnunar í leikskólum Reykjanesbæjar verði endurskoðað.
Menntaráð telur að bregðast þurfi við þeirri stöðu sem upp hefur komið í leikskólum Reykjanesbæjar þar sem skerða hefur þurft þjónustu vegna manneklu. Samkvæmt upplýsingum leikskólafulltrúa hefur þó eingöngu þurft að skerða þjónustu ítrekað í einum leikskóla Reykjanesbæjar á árinu 2025, Stapaleikskóla. Þegar hefur verið brugðist við þeim vanda með því að ráða inn tvo nýja starfsmenn.
Við mat á umfangi og eðli vandans er mikilvægt að horfa sérstaklega til ársins 2025 þar sem breytingar á skipulagi leikskólastarfs tóku gildi 1. janúar þar sem teknir voru upp skráningardagar í vetrarfríum og í dymbilviku. Þær breytingar, sem unnar voru af starfshópi skipuðum af menntaráði, miðuðu að því að bregðast við vanda vegna mönnunar og bæta starfsaðstæður í leikskólum sveitarfélagsins.
Í ljósi þeirra áskorana sem samt sem áður hafa raungerst, telur menntaráð rétt að endurskoða verklagsreglur um viðbrögð við undirmönnun í leikskólum. Lagt er til að skipaður verði starfshópur sem fari yfir verklagið með heildstæða greiningu að leiðarljósi og leggi mat á hvort þörf sé á breytingum eða úrbótum.
Lagt er til að í hópnum verði leikskólafulltrúi, mannauðsfulltrúi, kjörnir fulltrúar í menntaráði, fulltrúi leikskólastjóra, fulltrúi leikskólakennara, fulltrúi starfsfólks leikskóla og fulltrúi foreldra leikskólabarna. Stefnt er að því að hópurinn skili af sér niðurstöðum fyrir lok september í síðasta lagi.
3. Verum örugg - niðurstöður barna- og ungmennaþings (2025020172)
Gunnhildur Gunnarsdóttir, forstöðukona Fjörheima og 88 hússins og Ólafur Bergur Ólafsson, frístundaráðgjafi og umsjónarmaður ungmennaráðs, mættu á fundinn og kynntu niðurstöður barna- og ungmennaþings Reykjanesbæjar 2025.
Menntaráð fagnar skýrslunni Verum örugg og þeim krafti sem ungmenni Reykjanesbæjar hafa sýnt í umræðum um öryggi og vellíðan í skólastarfi. Áherslur ungmenna á jákvæð samskipti, betra aðgengi að stuðningi innan skólanna, fjölbreyttari kennsluhætti og öflugt samstarf milli skóla endurspegla sterka sýn á skólaumhverfi þar sem allir fá að njóta sín. Þá er sérstaklega ánægjulegt að sjá áherslu á fræðslu, bekkjaranda og virkni nemendafélaga, sem eru lykilþættir í því að efla vellíðan og öryggistilfinningu nemenda.
Menntaráð lýsir vilja sínum til að styðja áframhaldandi samtal við ungmenni og hvetja til aðgerða sem styrkja skólasamfélagið í takti við þessar niðurstöður.
Fylgigögn:
Verum örugg - niðurstöður Barna- og ungmennaþings Reykjanesbæjar 2025
4. Tómstundastefna Reykjanesbæjar - beiðni um umsögn (2023050566)
Gunnhildur Gunnarsdóttir, forstöðukona Fjörheima og 88 hússins og Ólafur Bergur Ólafsson, frístundaráðgjafi mættu á fundinn og kynntu drög að tómstundastefnu Reykjanesbæjar. Bæjarráð óskar eftir umsögn um tómstundastefnuna.
Menntaráð fagnar framlagðri tómstundastefnu Reykjanesbæjar og lýsir yfir ánægju með það metnaðarfulla starf sem unnið hefur verið við mótun hennar. Stefnan endurspeglar skýra framtíðarsýn og styður við fjölbreytt tómstundastarf í þágu velferðar og vellíðanar allra íbúa bæjarins. Sérstaklega er ánægjulegt að sjá áherslur á jöfn tækifæri, samvinnu og faglega þróun, sem og aukna þátttöku og frumkvæði íbúa.
Menntaráð leggur áherslu á mikilvægi þess að stefnan verði innleidd með markvissum hætti og hlakkar til að fylgjast með framvindu verkefna næstu árin.
Menntaráð felur formanni ráðsins að koma á framfæri athugasemdum sem fram komu á fundinum.
5. Starfsáætlun skrifstofu menntasviðs 2025 - staða verkefna (2025010427)
Málinu frestað til næsta fundar.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10.16. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 16. júní 2025.