47. fundur

04.10.2020 17:00

Fundargerð 47. fundur í neyðarstjórn Reykjanesbæjar – fjarfundur 4. október 2020 kl. 17:00

Viðstaddir:  Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri, Friðjón Einarsson formaður bæjarráðs, Jóhann Friðrik Friðriksson bæjarfulltrúi, Halldóra G. Jónsdóttir aðstoðarmaður bæjarstjóra, Regína Fanný Guðmundsdóttir fjármálastjóri, Helgi Arnarson sviðsstjóri fræðslusviðs, Unnar Steinn Bjarndal bæjarlögmaður, Guðrún Magnúsdóttir lýðheilsufulltrúi, Halldór Karl Hermannsson hafnarstjóri, Þórdís Ósk Helgadóttir framkvæmdastjóri Súlunnar, Guðlaugur H. Sigurjónsson sviðsstjóri umhverfissviðs, Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs, Jóna Hrefna Bergsteinsdóttir deildarstjóri þjónustu og þróunar, María Gunnarsdóttir forstöðumaður barnaverndar, Hilma H. Sigurðardóttir verkefnastjóri fjölmenningarmála, Kristinn Óskarsson mannauðsstjóri, Theodór Kjartansson vinnuverndar- og öryggisfulltrúi og Hrefna Höskuldsdóttir ritari. 

1. Aðgerðir sviða vegna hertra aðgerða 5. október. 

Velferðarsvið, allar deildir

Í ljósi þess að Ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir neyðarstigi almannavarna í samráði við sóttvarnalækni með hertum samkomutakmörkunum er verið að uppfæra þjónustu velferðarsviðs í samræmi við nýjar leiðbeiningar.

Skrifstofur velferðarsviðs
Lögð er áhersla á að halda uppi órofa þjónustu á velferðarsviði. Þar sem því verður við komið er áhersla lögð á að íbúar nýti sér rafræn samskipti í gegnum þjónustugátt sveitarfélagsins og starfsmenn veiti íbúum þjónustu eins mikið og hægt er í gegnum síma og fjarfundabúnað. Ráðhúsið verður áfram opið en takmarkaður fjöldi getur sótt þjónustu samtímis m.t.t. þess að fjöldatakmörk miðast nú við 20 manns.

Björgin geðræktarmiðstöð Suðurnesja.
Starfsemi endurhæfingar í Björginni færist yfir í Hvamm, Suðurgötu 15-17. 
Starfsemi athvarfsins verður áfram í aðalhúsinu Suðurgötu 14-16.
Opnunartími er breyttur og verður frá 5. október 2020 kl. 10.00 - 14.00.
Starfsfólk verður í báðum húsum og hægt er að ná í það símleiðis frá kl. 8.00-16.00.
Það er áfram grímuskylda þar sem ekki er hægt að tryggja 1 metra fjarlægð á milli einstaklinga.

Nesvellir þjónustumiðstöð.
Matsalur á Nesvöllum verður opinn með fjöldatakmörkunum og nauðsynlegt að skrá sig í mat í síma 420 3400. Hádegismatur fyrir utanaðkomandi gesti hefst áfram kl. 12.00. Hámarksfjöldi í sal á hverjum tíma eru 20 manns.
Heimsending matar heldur áfram óbreytt.
Leikfimi á Nesvöllum fellur niður meðan samkomutakmörkun miðast við 20 manns. Listasmiðjurnar verða áfram opnar en annað félagsstarf í sal fellur niður.
Stuðningsþjónusta inn á heimili notenda verður veitt með óbreyttu sniði. Þjónustumat verður framkvæmt þegar nýjar umsóknir berast og þjónustu forgangsraðað í samræmi við niðurstöður þjónustumats.

Búsetuúrræði.
Í búsetuúrræðum fatlaðra eru gerðar breytingar á vaktafyrirkomulagi til að takmarka samskipti starfsmanna milli vakta. Áhersla lögð á að takmarka heimsóknir utanaðkomandi aðila í sama tilgangi.

Bakvakt barnaverndar og félagsþjónustu helst óbreytt.

Janusarverkefnið

Hefur óskað eftir að nota Reykjaneshöllina fyrir æfingar, öllum sóttvarnarreglum og fjöldatakmörkum væri fylgt. Tekin ákvörðun á mánudag um fyrirkomulag.

Fræðslusvið, allar deildir - Skólar, íþrótta- og tómstundastarf

Samkvæmt tillögum sóttvarnalæknis gilda engar hömlur í leik- og grunnskólum hjá börnum sem fædd eru 2005 og síðar heldur einungis hjá eldri einstaklingum. Um þá einstaklinga gildir 20 manna hámarksreglan og eins metra nándartakmörkun. Lögð verði áhersla á einstaklingsbundnar smitvarnir eins og kostur er. Sama gildir um tónlistarskóla og íþróttir og tómstundir leik- og grunnskólabarna.

Leikskólar
• Ákveðið að skerpa á almennum sóttvarnarráðstöfunum sem snúa m.a. að hreinlæti, sótthreinsun handa við innganga og tíðum almennum handþvotti.
• Fjölda- og nálægðartakmarkanir gilda áfram um fullorðna og því er mjög mikilvægt að starfsmenn og foreldrar haldi þeim. 
• Inngöngum skipt upp eftir deildum til að létta á umferð foreldra í fataklefum.
• Mælst til þess að aðeins eitt foreldri/aðstandandi komi með barnið í leikskólann/sæki það en það þarf ekki að vera sá sami að morgni og þegar barnið er sótt.  Mikilvægt er að foreldrar staldri stutt við hverju sinni í fataklefa og komi ekki  inn á deildina.
• Lögð er áhersla á að skila börnum á útileikvelli í lok dags eins og kostur er til að létta á fataklefum og auðvelda starfsfólki að sótthreinsa kennslubúnað/snertifleti í lok dags.
• Leikskólabörn, foreldrar og starfsfólk leikskóla eiga alls ekki að mæta í leikskólann ef þau eru með flensueinkenni eða einkenni sem svipar til einkenna COVID-19, s.s. hita, hósta, kvef, bein- og vöðvaverki eða þreytu. Miðað er við að leikskólabörn og starfsfólk skuli vera hitalaus a.m.k. einn sólarhring og tilbúin að taka þátt í leikskólastarfinu bæði úti og inni áður en þau snúa aftur í skólann (gott er að skoða gátlista um heilsufar barna í leikskóla sem gefinn hefur verið út).
• Ef margir koma samtímis í fataklefa eru foreldrar vinsamlega beðnir um að meta hvort þeir þurfi að hinkra aðeins fyrir utan á meðan aðrir foreldrar eru þar með sín börn. Með þessu gerum við okkar besta í að framfylgja fjarlægðarmörkum.
• Foreldrar eru beðnir um að tæma hólf barnsins og skógrindur á föstudögum og ekki er leyfilegt að koma með leikföng að heiman.

Grunnskólar
• Ákveðið að skerpa á almennum sóttvarnarráðstöfunum sem snúa m.a. að hreinlæti, sótthreinsun handa við innganga og tíðum almennum handþvotti.
• Fjölda- og nálægðartakmarkanir gilda áfram um fullorðna og því er mjög mikilvægt að starfsmenn og foreldrar haldi þeim. 
• 30 manna fjöldatakmörkun. Hámarksfjöldi er 20 inn á kaffistofu. Ef kaffistofur eru fullar skal nota önnur rými í skólanum.
• 1 metra reglan er áfram í gildi. Starfmenn passi upp á það og noti grímu ef ekki er hægt að viðhafa 1m nálægðarmörk. Ekki fleiri en fjórir við hvert borð á kaffistofu.
• Allir fundir þar sem fjöldi er 20 og yfir verða haldnir í fjarfundi.
• Tilmæli til foreldra að koma ekki inn í skólann nema eiga áríðandi erindi eða séu að koma á boðaðan fund. Viðhalda 1m reglu og grímuskyldu á fundum.
• Kennarar verði undirbúnir að fara í fjarkennslu með stuttum fyrirvara. Taki með sér tölvur heim á kvöldin og nemendur séu með í töskunni efni sem hægt er að vinna heima.
• Að kennslu lokinni sinna starfsmenn samstarfi og teymisvinnu í gegnum fjarfundarbúnað og mæta á fundi sem boðaðir eru eftir atvikum á Teams eða í eigin persónu.

Fræðsluskrifstofa
• Áhersla lögð á fjarvinnu næstu tvær vikurnar. Starfsliðinu skipt upp í tvo hópa sem verða í fjarvinnu sitthvora vikuna.
• Fundir og heimsóknir í skóla verða takmarkaðar, alfarið fjarfundir næstu tvær vikurnar gagnvart grunnskólunum en samráð haft um fyrirkomulag gagnvart leikskólunum (starfsmaður fari ekki í fleiri en einn skóla á sama degi).
• Endurmenntunarnámskeið og fræðsluerindi munu fara fram í gegnum Teams eða aðrar fjarfundalausnir.

Tónlistarskóli
• Forráðamenn nemenda komi ekki inn í skólann nema þeir eigi brýnt erindi.
• Á báðum hæðum er rúmt um nemendur sem bíða eftir að kennslustundir hefjist og auðvelt um vik að virða þau fjarlægðarmörk sem gilda fyrir nemendur sem eru 16 ára og eldri.
• Mælst er til þess að grímur séu notaðar af nemendum 16 ára og eldri og kennurum þeirra. Í vissum námsgreinum gengur það ekki að nemendur séu með grímur, t.a.m.  blásara- og söngnemendur, en kennarar séu þá með grímur eins mikið og gerlegt er.
• Rík áhersla er lögð á handþvott og að nemendur og kennarar sótthreinsi hendur.
• Sótthreinsilögur er í hverri kennslustofu sem kennarar nota til að strjúka yfir píanóhljómborð, nótnastatíf og aðra snertifleti eftir hverja kennslustund.

Íþróttastarf
• Líkamsræktarstöðin Massi í íþróttahúsi Njarðvíkur verður lokuð í samræmi við lokun líkamsræktarstöðva almennt.
• Sundstaðir verða opnir en tryggt að gestafjöldi sé aldrei meiri en 50% af leyfilegum hámarksfjölda gesta samkvæmt starfsleyfi eða þess fjölda sem gert er ráð fyrir í fataskiptarými. Börn fædd árið 2005 og síðar eru ekki talin með í gestafjölda.
• Sameiginlegir snertifletir verða sótthreinsaðir reglulega yfir daginn.
• Keppnisíþróttir með snertingu verða leyfðar með hámarksfjölda 50 einstaklinga að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:

o Sérsambönd ÍSÍ geri reglur um framkvæmd æfinga og keppni í sínum greinum 
o Reglurnar verði unnar í samvinnu við ÍSÍ sem leitar sérfræðiráðgjafar hjá sóttvarnalækni. 
o Eins metra nándartakmörkun verði virt í búningsklefum og öðrum svæðum utan keppni og æfinga skv. reglum hvers sérsambands ÍSÍ. 
o Áhorfendur verði ekki leyfðir. 
o Keppnisáhöld verði sótthreinsuð milli notenda eins og kostur er. 

• Aðrir skipulagðir hópar sem notið hafa aðstöðu í íþróttahúsum og sundlaugum bæjarins þurfa að hlíta sömu reglum um hertar takmarkanir og fram koma í tillögum sóttvarnalæknis og mun forstöðumaður hafa samband við þá varðandi þá starfsemi.

Umhverfissvið, skrifstofa og Umhverfissmiðstöð

10 starfsmenn á skrifstofu. Aðrir í fjarvinnu.
Umhverfismiðstöð, viðhalda ströngum sóttvörnum, fjöldi starfsmanna er undir fjöldatakmörkum.

Fjármálaskrifstofa, allar deildir

Flestir fara í fjarvinnu. 4 starfsmenn verða á skrifstofu.

Skrifstofa stjórnsýslu, allar deildir

Stefnt að því að þjónustuver verði opið fyrir gestakomu. Á eftir að útfæra. Minnt á að þjónusta í gegnum síma er opin eins og áður.

Ráðhúsið verður lokað mánudaginn 5. október á meðan verið er að útfæra starfsemina.

Súlan, allar deildir

Bókasafnið - Opið verður á bókasafninu, talið verður inn á svæðið og lágmarksfjöldi starfsmanna verður á staðnum. Spritt, hanskar og grímur eru við inngang. Allir snertifletir verða hreinsaðir 3x á dag. Sprittbrúsar og sprittklútar víða um safnið m.a. í lesrými. Stólum verður fækkað þannig að hægt sé að uppfylla 1 metra reglu. Sett verður aukaborð fyrir framan afgreiðsluborðið. Merkingar um tvo metrana eru sjáanlegar.
Duus - Einn inngangur notaður, aðalinngangur, talið verður inn. Merkingar og afgreiðsluborð stúkað af. Snertifletir verða sprittaðir 2x á dag. Hanskar, grímur og spritt við inngang. Starfsfólk er hvatt til að tryggja eigið öryggi.
Hljómahöll - einn inngangur á safnið, talið verður inn. Spritt og hanskar við inngang. Borðar notaðir til að viðhalda fjarlægð gesta og móttökustarfsfólks. Merkingar til að minna á fjarlægðartakmörk. Spritt hjá öllum hljóðfærum, plötuspilurum og öðrum snertiflötum. Snertifletir sprittaðir reglulega yfir daginn af ræstingastarfsfólki.
Viðburðir í sölum að hámarki 20 manns og talið inn.
Starfsmenn í afgreiðslu, tæknimenn og ræstitæknir mæta til vinnu. Framkvæmdastjóri og tæknistjóri reyna að mæta ekki sömu daga, af fremsta megni og ef verkefnavinna leyfir. Skrifstofupláss er rúmt og auðvelt að hafa langt á milli starfsstöðva. 
Byggðasafn og Listasafn Reykjanesbæjar - Er með starfsemi í Ramma og Duus safnamiðstöð. Báðir staðir bjóða spritt, grímur og hanska. Vinnustaðurinn Rammi hefur ekki verið hólfaður niður enn sem komið er. Starfsmenn halda fjarlægð, spritta reglulega sínar starfsstöðvar. Skoðað er að halda utanaðkomandi heimsóknum í lágmarki. 
Gamla búð - Boðið er upp á spritt, grímur og hanska. Snertifletir eru þrifnir reglulega. Utanaðkomandi heimsóknir verða í lágmarki. Er í skoðun að skipta upp starfsfólki. Hvatt er til fjarfunda.

Reykjaneshöfn

Starfsmenn sem geta fara í fjarvinnu.
Samneyti minnkað eins og hægt er.

Mötuneyti og kaffihús

Kaffihúsið lokar.
Útfæra þarf hvernig starfsmenn nálgast mat. Hugsanlega bakkafyrirkomulag eins og var í vor.

2. Kynning til starfsmanna á breytingum á starfsemi

Kjartan Már setur inn á Workplace orðsendingu til starfsmanna Reykjanesbæjar.  

3. Kynning til íbúa vegna breytinga á starfsemi

Auglýsing sett á heimasíðu um breytingar á starfsemi á starfsstöðvum og stofunum Reykjanesbæjar. Tilkynning sett í alla innganga Ráðhússins um að lokað verði mánudaginn 5. október.

4. Önnur mál

Fréttir um Covid og nýjar reglur verða uppfærðar á heimasíðu Reykjanesbæjar í dag og á morgun, mánudag.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18.05.