7. fundur

16.03.2020 15:00

7. fundur í neyðarstjórn Reykjanesbæjar - fjarfundur haldinn þann 16. mars 2020 kl. 15:00

Þátttakendur: Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri, Unnar Steinn Bjarndal bæjarlögmaður, Helgi Arnarson sviðsstjóri fræðslusviðs, Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs, Guðlaugur Helgi Sigurjónsson sviðsstjóri umhverfissviðs, Regína F. Guðmundsdóttir fjármálastjóri, Halldór Karl Hermannsson hafnarstjóri, Halldóra G. Jónsdóttir aðstoðarmaður bæjarstjóra, Guðrún Magnúsdóttir lýðheilsufulltrúi, Kristinn Óskarsson mannauðsstjóri, Hilma H. Sigurðardóttir verkefnastjóri fjölmenningarmála, Theodór Kjartansson vinnuverndar- og öryggisfulltrúi, Jóna Hrefna Bergsveinsdóttir deildarstjóri þjónustu og þróun, Friðjón Einarsson formaður bæjarráðs, Jóhann Friðrik Friðriksson forseti bæjarstjórnar og Hrefna Höskuldsdóttir ritari.

Velferðarsvið

Sviðið er búið að endurskipuleggja starfsstöðvar á Tjarnargötu 12 þannig að starfsmenn deilda séu í sem minnstum samskiptum innanhúss. Nokkrir starfsmenn vinna heima á hverjum tíma.

Dagdvalir aldraða eru að endurskipuleggja sig.

Guðrún Magnúsdóttir, lýðheilsufræðingur, tekur saman ráðleggingar í sambandi við sóttkví, þ.e. ef einhver í nánasta umhverfi starfsmanns fer í sóttkví, hvaða viðbrögð þurfa að vera. Hugmynd um að Guðrún Magnúsdóttir verði með ráðgjöf við forstöðumenn/starfsmenn í síma. Einnig að benda starfsmönnum að setja spurningar inn á hópinn „Tilkynningar frá Neyðarstjórn Reykjanesbæjar“ á Workplace og Guðrún svarar þar.

Minnt á að þýða þurfi allar leiðbeiningar á ensku og pólsku, skiptir miklu máli að koma réttum upplýsingum á framfæri til sem allra flestra.

Fræðslusvið

Stjórnendur leik- og grunnskóla hafa notað helgina í að skipuleggja skólastarf. Foreldrar ættu að hafa fengið upplýsingar. Meginlínur eru svipaðar í öllum skólum. Einnig verða upplýsingar settar á heimasíður skólanna. Skólastarf verður skert. Nemendahópum er skipt upp. Frístund verður opin en skert þjónusta. List- og verkgreinar falla að mestu niður en hugsanlega útfærslur á kennslu. Öllum skólum verður skipt upp í hólf, samgangur á ekki að vera á milli hólfa.

Starfsemi leikskóla lýkur kl. 15 á daginn. Daglega þarf að sótthreinsa allt í skólunum, húsgögn, leikföng og fleira, gefa þarf tíma til þess.

Huga þarf vel að viðkvæmum hópum innan skólanna.

Upplýsingar verða á heimasíðum hvers skóla fyrir sig og einnig sendur póstur á alla foreldra.

Íþrótta- og tómstundamál – tilmæli frá ÍSÍ að æfingar falli niður til 23. mars. Er í höndum íþróttafélaganna að útfæra hvernig æfingar verði eftir það.

Tónlistarskólinn – tilmæli frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga að vera ekki með hópkennslu.

Ráðhús Tjarnargötu 12 - Stjórnsýsla

Bæði skjaladeild og mannauðsdeild hafa skipt upp starfsmannahópnum. Mikið álag er á tölvudeild. Verið að reyna fá aðstoð.

Búið að skipta upp starfsmönnum þjónustuvers þannig að þeir vinni ekki á sama svæði.

Símhringingar í dag hafa mest snúið að kostnaði við Frístund og leikskólagjöld, hvort afsláttur verði af gjöldunum. Einhver sveitarfélög hafa þegar tekið afstöðu til þessa. Reykjanesbær þarf að taka ákvörðun.

Umhverfissvið

Sviðsstjóri umhverfissviðs hefur farið yfir mögulegar aðgerðir í samráði við starfsmenn. Einn starfsmaður kominn í veikindaleyfi og í framhaldi í fæðingarorlof. Einstaklingar í starfsnámi og vinnuþjálfun hafa verið beðnir um að koma ekki að sinni. Verið að vinna í að setja upp tengingar þannig að starfsmenn geti unnið heima hjá sér.

Umhverfissvið mun ekki halda fundi í ráðhúsinu.

Heimilt er að hitta fólk t.d. til að undirrita lóðarleigusamninga og önnur skjöl ef fólk mælir sér mót.

Umhverfissvið er einnig að huga vel að göngustígum, að halda þeim hreinum til útivistar.

Umhverfissmiðstöðin er með sér skipulag, lágmarksmönnun á staðnum en starfsmenn tilbúnir í útköll með skömmum fyrirvara.

Fjármálasvið

Búið að skipta starfsmönnum upp á launadeild, þannig að starfsmenn hittist ekkert. Þeir starfsmenn sem geta vinna heima. Verið að útbúa tölvur fyrir gjaldkera ef til þess kemur að þeir þurfi að vinna heima.

Reykjaneshöfn

Einn hafnsögumaður er á vakt í einu, einn á bakvakt. Hafnarstjóri er að undirbúa starfstöð heima ef til þess kemur að þurfi. Búið að loka hafnarskrifstofunni fyrir óviðkomandi umferð, bara hægt að komast inn í anddyrið.

Starfsemi Reykjanesbæjar

Áfram verður unnið með skipulag svo að starfseminni verði háttað á sem öruggastan hátt fyrir bæði starfsmenn og íbúa.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16.10.