210. fundur

08.05.2018 00:00

210. fundur umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 8. maí 2018 kl. 17:00

Viðstaddir: Eysteinn Eyjólfsson, Jóhann Snorri Sigurbergsson, Margrét Sanders, Arnar Ingi Tryggvason og Þórður Karlsson.

Starfsmenn: Guðlaugur H. Sigurjónsson sviðsstjóri, Gunnar Kr. Ottósson skipulagsfulltrúi, Sveinn Björnsson byggingarfulltrúi og Dóra Steinunn Jóhannsdóttir ritari.

1. Kynning á drögum að deiliskipulagi Ásbrú (2018050081)
Jón Stefán Einarsson frá JeES arkitektum kom og lagði fram til kynningar.

Heimild er veitt til að vinna tillögu að deiliskipulagi í samráði við skipulagsfulltrúa.

2. Samráðs og afgreiðslufundur byggingarfulltrúa nr. 245 og 246 (2018020089)
Lagt fram.

3. Vogshóll 10 - lóðarumsókn (2018050035)
Borealis Data Center ehf. sækir um lóðina Vogshóll 10.

Úthlutun samþykkt.

4. Urðarás 14 - lóðarumsókn (2018050036)
Jóhannes Reynisson sækir um lóðina Urðarás 14.

Úthlutun samþykkt. Sækja þarf sérstaklega um leyfi til skipulagsbreytingar.

5. Tjarnabraut 26 og 28 - lóðarumsókn (2018050037)
SRX ehf. sækir um lóðirnar Tjarnabraut 26 og 28.

Erindi hafnað. Sótt er um fjölbýlishúsalóðir en þetta eru einbýlishúsalóðir.

6. Reynidalur 3-13 - fyrirspurn (2017030187)
Reynidalur 3-13 ehf. óskar eftir breytingu á deiliskipulagi. Skipulagsbreytingin felst í því að íbúðum er fjölgað úr 6 í 12. Ásamt því að byggingarlína er færð á lóðinni þannig að bundin lína verði ekki afmarkandi og færð að suðurhlið lóðar. Við þessa breytingu verður hægt að uppfylla kröfu um fjölda bílastæða sem verður 2,5 stk. á íbúð sem er vel í lagt. Miðað er við sama byggingarmagn.

Tillögu að breytingu á bundinni byggingalínu er hafnað. Minnt er á að samkvæmt almennum deiliskipulagsskilmálum er leyfilegt að bílastæða krafa fari niður í 1,8 við fjölbýlishús og fordæmi eru fyrir því að þegar hærra hlutfall af minni íbúðum eru í fjölbýlishúsi þá hefur verið slakað á bílastæðakröfu niður í 1,6 stæði á íbúð. Ekki er tekin afstaða gagnvart fjölgun íbúða.

7. Klettatröð 11a - uppskipting lóða (2018050039)
Airport City ehf. óskar eftir uppskiptingu á lóðinni Klettatröð 11a.

Umhverfis- og skipulagsráð telur að breytingin varði ekki hagsmuni annarra en sveitarfélagsins og umsækjanda og samþykkir því breytinguna skv. 44. grein skipulagslaga málsgrein 3.

8. Umsókn um lóð (2018050040)
Atlantsolía ehf. sækir um lóð undir bensínstöð við Reykjanesbraut. Nánar tiltekið er lóðin á svæði við hringtorg sem markast af Reykjanesbraut og Þjóðbraut. Stendur áhugi félagsins til þess að hefja framkvæmdir eins fljótt og kostur er.

Engin skipulögð lóð er á þessu svæði. Erindi hafnað.

9. Skógarbraut 1104 - fyrirspurn um bílastæði (2018050041)
Heimavellir óska eftir heimild til þess að fjölga bílastæðum á lóð sinni Skógarbraut 1104.

Umhverfis- og skipulagsráð telur að breytingin varði ekki hagsmuni annarra en sveitarfélagsins og umsækjanda og samþykkir því breytinguna skv. 44. grein skipulagslaga málsgrein 3.

10. Brekadalur 67 - stækkun á byggingarreit (2018050041)
KRark fyrir hönd lóðarhafa óska heimildar til þess að fara með bílskýli u.þ.b. 4,7m út fyrir byggingarreit. Húsbyggingin sjálf fylgir bindandi byggingarlínu samkvæmt skilmálateikningum samþykkts deiliskipulags. Þar segir að byggingarlína skuli vera bindandi frá s-a horni, 4 metra til vesturs og 15 metra til norðurs. Þar sem hér er um efstu bygginguna að ræða og skýlið austan megin hennar, þ.e. ofan við hana, truflar hún á engan hátt útsýni eða nálægð við nærliggjandi hús. Þá er skýlið í beinni línu við suðurlínu byggingarreits og truflar því heldur ekki götulínu niður eftir Brekadal.

Fordæmi neðar í götunni eru fyrir heimild til að fara 2m út fyrir byggingareit. Erindi hafnað.

11. Hringbraut 108 - skipulagsbreyting (2018050043)
Aðalstjórn Keflavíkur, íþrótta- og ungmennafélags óskar eftir að útbúin sé lóð um félagsheimili sitt við Hringbraut.

Umhverfis- og skipulagsráð telur að breytingin varði ekki hagsmuni annarra en sveitarfélagsins og umsækjanda og samþykkir því breytinguna skv. 44. grein skipulagslaga málsgrein 3.

Jóhann Snorri Sigurbergsson situr hjá við afgreiðslu þessa máls.

12. Leirdalur - breyting á deiliskipulagi (2016060374)
Bjarkardalur ehf. óskar heimildar til breytingar á deiliskipulagi. Að bílskúrar sem áður voru felldir út við breytingu komi inn aftur og byggingamagn aukist sem því nemur.

Samþykkt með fyrirvara um grenndarkynningu án athugasemda.

13. Hamradalur 7 - fyrirspurn (2018050078)
Húnbogi Þ. Árnason óskar heimildar til að byggja við hús sitt við Hamradal 7.

Samþykkt með fyrirvara um grenndarkynningu án athugasemda.

14. Grænalaut 12-18 - stækkun á byggingareit (2018050082)
Byggingarfélag Gylfa og Gunnars hf. óskar heimildar til stækkunar á byggingareit.

Umhverfis- og skipulagsráð telur að breytingin varði ekki hagsmuni annarra en sveitarfélagsins og umsækjanda og samþykkir því breytinguna skv. 44. grein skipulagslaga málsgrein 3.

15. Grænalaut 20-24 - stækkun á byggingareit (2018050083)
Byggingarfélag Gylfa og Gunnars hf. óskar heimildar til stækkunar á byggingareit.

Umhverfis- og skipulagsráð telur að breytingin varði ekki hagsmuni annarra en sveitarfélagsins og umsækjanda og samþykkir því breytinguna skv. 44. grein skipulagslaga málsgrein 3.

16. Niðurrif á togaranum Orlik í Helguvík (2018040136)
Skipulagsstofnun sendi beiðni um umsögn um niðurrif togarans Orlik í Helguvíkurhöfn.

Umsögn skipulagsfulltrúa dags 12. apríl er samþykkt.

17. Rauðimelur - tillaga að matsáætlun (2018040264)
Skipulagsstofnun óskar umsagnar um tillögu að matsáætlun vegna efnistöku í Rauðamel á Reykjanesi dags 06.04.2018. Unnið af Eflu fyrir Íslenska aðalverktaka.

Umsögn skipulagsfulltrúa er samþykkt. Þórður Karlsson situr hjá undir þessum lið.

18. Framkvæmdaleyfi við Reykjanesvita (2018050084)
Reykjanes jarðvangur sækir um framkvæmdaleyfi til þess að bæta aðstöðu fyrir gesti í nágrenni Reykjanesvita með ökufærum stíg upp Bæjarfell að vitanum.

Umsókn og fylgigögn eru fullnægjandi. Framkvæmdin er í samræmi við deiliskipulag. Erindi samþykkt.

19. Erindi Reykjaneshafnar til umhverfis- og skipulagsráðs (2018050080)
Reykjaneshöfn leggur fram erindi til umhverfis- og skipulagsráðs um höfnun lóðarumsókna annarsvegar um Hvalvík 14 og hinsvegar um Selvík 23 með bréfi dags 25. apríl 2018. Óskað er skriflegrar röksemdafærslu fyrir því að lóðarumsóknum var hafnað.

Sótt var um lóðirnar Selvík 23 og Hvalvík 14 til þess að reka þar gagnaver. Eins og kemur fram í aðalskipulagi, þá er stefna Reykjanesbæjar sú að gagnaverum sé komið fyrir við Sjónarhól eða Vogshól. Það svæði var sérstaklega útbúið fyrir slíka starfsemi. Reynslan hefur sýnt að full ástæða er til að hvika ekki frá þeirri stefnu vegna þess að töluverður hávaði eða hvinur berst frá þessari starfsemi. Hvinurinn er undir viðmiðunarmörkum heilbrigðisreglugerðar og skilmálum skipulags en virkar truflandi fyrir íbúa í Tjarnahverfi en unnið er að úrbótum. Þar sem lóðirnar við Hvalvík og Selvík eru í sambærilegri fjarlægð frá íbúðabyggð og lóðirnar við Sjónarhól, utan að umferðarhávaði frá Reykjanesbraut skermar ekki hvininn, leggst umhverfis- og skipulagsráð gegn því að sambærilegri starfsemi sé komið fyrir víðar í bæjarfélaginu en nú er, nema önnur og hljóðlátari kælitækni komi til.

20. Viðbrögð Landsnets við athugasemdum vegna Suðurnesjalínu 2 (2018020147)
Skipulagsstofnun sendi beiðni um umsögn um tillögu að matsáætlun

Umsögn skipulagsfulltrúa er samþykkt.

21. Valhallarbraut 868 - deiliskipulagsuppdráttur (2018050085)
Kadeco óskar eftir breytingu á deiliskipulagi Vallarbrautar 868. Byggingar á reit D1 og D2 verði ekki víkjandi á skipulagi.

Frestað. Sviðstjóra falið að vinna málið áfram.

22. Víkurbraut 21-23 - minniháttar breyting á aðalskipulagi (2017090121)
Bryggjubyggð ehf. óskar eftir minniháttar breytingu á aðalskipulagi. Erindi frestað á fundi 9. janúar nr. 205.

Erindi frestað. Grundvallarforsenda afgreiðslu málsins er að klára landeigandamál svæðisins.

23. Víkurbraut 21-23 - breyting á deiliskipulagi (2017090121)
Bryggjubyggð ehf. óskar eftir breytingu á deiliskipulagi. Erindi frestað á fundi 9. janúar nr. 205.

Erindi frestað þar til umfjöllun um aðalskipulagsbreytingu er lokið.

24. Framnesvegur 11 - deiliskipulag (2016010192)
Vatnsnessteinn ehf. óskar eftir breytingu á deiliskipulagi. Skipulagstillagan var samþykkt þann 13. mars í umhverfis og skipulagsráði og í bæjarstjórn þann 20. mars en Skipulagsstofnun með bréfi dagsettu 20. apríl, gerði athugasemdir í þremur liðum við afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs um samþykkt deiliskipulags: Skipulagsstofnun taldi svör við athugasemdum ófullnægjandi, að vafi léki á um hæfi nefndarmanns og gerði athugasemdir við framsetningu á skipulagsuppdrætti.

Deiliskipulag var auglýst 28. nóvember 2017 og fresti til athugasemda lauk 8. janúar 2018. Íbúafundur var haldinn 3. janúar 2018 þar sem tillagan var kynnt. Athugasemdir bárust, sem allar mótmæltu því að Sundhöll Keflavíkur, sem er í einkaeigu og stendur innan skipulagsreits væri rifin. Svarið við því er að við vinnslu deiliskipulagstillögunnar var óskað álits Minjastofnunar á niðurrifi byggingarinnar sem í bréfi 25. október 2017 fer ekki fram á friðun byggingarinnar og að sveitarfélagið hafði áður t.d. við gerð aðalskipulags ákveðið að byggingin væri víkjandi. Þess vegna var ákveðið að friða ekki húsið og samþykkja deiliskipulag sem gerði ráð fyrir að byggingin viki. Eftir að athugasemdafresti lauk voru hollvinasamtök stofnuð um húsið. Í framhaldi fór Minjastofnun þess á leit með bréfi 12. apríl 2018 að samtökunum væri gefið svigrúm til að finna húsinu hlutverk og koma með áætlun um rekstur þess. Engar áætlanir hafa borist á þeim 4 mánuðum sem samtökin hafa starfað. Um hæfi nefndarmanns er fjallað í minnisblaði lögmanns dagsettu 27. apríl. Framsetning uppdrátta hefur verið lagfærð. Samþykkt er að senda tillögu að deiliskipulagi Skipulagsstofnun til afgreiðslu.

25. Ásbrú - rammaskipulag (2018050088)
Lagt fram.

26. Útilistaverkið Súlan við Duus Safnahús (2018050089)
Stjórnsýslusvið Reykjanesbæjar leggur fram erindi um staðsetningu Súlunnar við suðurgafl Duus Safnahúsa.

Tekið er vel í erindið.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 19:45. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 15. maí 2018.