12.10.2018 00:00

217. fundur Umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 12.10.2018 kl. 08:15.

Viðstaddir: Eysteinn Eyjólfsson, Gunnar Felix Rúnarsson, Hannes Friðriksson, Ríkharður Ibsen, Róbert Jóhann Guðmundsson

Starfsmenn: Gunnar K. Ottósson skipulagsfulltrúi, Sveinn Björnsson byggingarfulltrúi, Dóra Steinunn Jóhannsdóttir ritari

1. Hafnargata 57 - Breyting á deiliskipulagi ( 2017090107)
Kristján Bjarnason frá Arkitektastofu Suðurnesja kynnir breytingar útfærslu á efstu hæð þannig að hún sé ekki inndregin á Hafnargötu 57 og óskar eftir breytingu á erindi sem samþykkt var með grenndarkynningu og afgreitt í bæjarstjórn 16. janúar 2018.

Tekið er vel í erindið. Gæta skal samfellu í línu ásýndar.
Samþykkt að senda í grenndarkynningu.

2. Helguvík - Breyting á deiliskipulagi (2018100079)
Verkís ehf. óskar fyrir hönd Stakksbergs ehf. að skipulags- og matslýsing verði tekin til meðferðar samkvæmt 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Jafnframt er óskað eftir heimild til að vinna deiliskipulagsbreytingu í samræmi við ofangreinda skipulags og matslýsingu samkvæmt 2mgr. 38. gr. laganna.

Hafnað.

3. Hafnargata 12 - Tillaga að deiliskipulagi (2016010194)
JeES arkitektar ehf. fyrir hönd Hólsfjall ehf. leggja fram tillögu að breyttu deiliskipulagi fyrir Hafnargötu 12.

Ráðið veitir heimild til að auglýsa deiliskipulagstillöguna. Umhverfis- og skipulagsráð leggur til að gert verður ráð fyrir tengingu bílastæðakjallara við Norðfjörðsgötu. Efnt verður til íbúafundar.

4. Víkurröst - Erindi um gámahús (2018080093)
Víkurröst ehf. leggur fram erindi með ósk um heimild til að setja niður íbúðaeiningar úr háþekjugámum á lóð félagsins við Víkurbraut 6. Velferðarsvið Reykjanesbæjar hefur skilað inn umsögn.

Samþykki er veitt fyrir allt að 4 íbúðaeiningum og þjónustueiningu í samræmi við þörf skjólstæðinga velferðarsviðs Reykjanesbæjar til þriggja ára til reynslu. Mikilvægt er að vinna að stefnumótun á þessum málaflokki og tengja hana við endurskoðun aðalskipulags Reykjanesbæjar.

5. Hótel Berg - Skilti (2018090155)
Gistiver ehf. sækir um leyfi til að setja upp upplýsingaskilti við innkeyrslu og norðan við aðalinnganginn. Skilti er með dökkgráa álklæðningu. Hæð og breidd 2x2m við aðkomu, en 1,5mx2m við inngang. Erindi var frestað á síðasta fundi og óskað var eftir nánari gögnum, sem hafa nú borist.

Erindi samþykkt.

6. Hafdalur 6-14 - Ósk um skipulagsbreytingu (2018100080)
Mótasmíði ehf. leggur fram ósk um breytingum á skilmálum deiliskipulags. Tveggja hæða raðhús með 5 íbúðum allt að 220m2 og tvö stæði á íbúð, verði fjölbýli á tveimur hæðum með 10 íbúðum á stærðarbilinu 90-100m2 og 1,8 stæðum á íbúð.

Erindi er hafnað.

7. Vallargata 24 - Loftnet, niðurstaða grenndarkynningar (2018080097)
Erindið var grenndarkynnt með athugasemdafresti frá 28. ágúst til 28. september. Fern mótmæli bárust, sem öll lýsa neikvæðum áhrifum á ásýnd götunnar og hverfisins með svo stóru loftneti á lóð.

Umhverfis og skipulagsráð tekur undir að 5-7m hátt stagað loftnet sé hverfinu ekki til prýði og varði áberandi í götunni. Erindinu er hafnað.

8. Pósthússtræti 5,7 og 9 - Niðurstaða grenndarkynningar (2018070042)
Mannvit ehf. lagði fram erindi um skipulagsbreytingu sem kemur fram á uppdrætti dagsettum 2. júlí 2018 sem tekið var fyrir á fundi umhverfis og skipulagsráðs á fundi nr. 212 þann 12. júlí 2018. Erindi var sent í grenndarkynningu sem lauk þann 12. september 2018. Fjórar athugasemdir bárust þar af ein með 43 undirskriftum íbúa Pósthússtræti 3 sem vísar til einróma samþykktar stjórnar húsfélagsins á bréfi frá JA lögmönnum dagsett 29.08.2018. Megin inntak flestra mótmæla er nálægð húsa, fjöldi íbúða og fjöldi bílastæða.

Unnin var könnun á vindafari þar sem þeirri niðurstöðu er lýst í minnisblaði Verkfræðistofunnar Eflu dags 08.10.2018, að breytingin er að líkindum til batnaðar varðandi sviptivinda við húsið. Formanni umhverfis- og skipulagsráðs er falið að funda með íbúum vegna málsins. Erindi frestað.

9. Stapabraut 1 - Óveruleg breyting á aðalskipulagi (2018020144)
Óveruleg breyting á aðalskipulagi. Svæði AT3 er stækkað um 4200m2 og leyfilegt byggingamagn aukið fyrir svæðið úr 15.000m2 í 17.000m2 í samræmi við stækkun svæðisins en óbreytt nýtingarhlutfall. Stefna aðalskipulags er óbreytt fyrir svæðið í heild. Stækkun athafnasvæðis er óveruleg og ekki líkleg til að hafa mikil áhrif á einstaka aðila eða hafa áhrif á stór svæði.

Vísað áfram til endurskoðun aðalskipulags.

10. Stapabraut 1 Breyting á deiliskipulagi (2018020144)
Óskað er heimildar til auglýsingar á tillögu á deiliskipulagi. Lóð er stækkuð til suðurs þar sem gert verður ráð fyrir byggingareit fyrir nýtt iðnaðar- eða þjónustuhús. Óskað er heimildar til að auglýsa tillögu að deiliskipulagi samhliða breytingu á aðalskipulagi.

Frestað.

11. Hafnargata 42 - Uppskipting á lóð (2018090340)
Jón Gunnar Jónsson sækir um að skipta upp lóð Hafnargötu 42.

Umhverfis- og skipulagsráð telur að breytingin varði ekki hagsmuni annarra en sveitafélagsins og umsækjanda og samþykkir því breytinguna skv. 44. grein skipulagslaga málsgrein 3.

12. Brekadalur 57 - Ósk um nýtingu á kjallara (2018100081)
Lóðarhafi óskar eftir að nýta hluta óuppfyllts rýmis undir húsi sem kalda geymslu, undir garðverkfæri o.fl. Til að þetta sé hægt þarf að gera hurð og lítinn glugga á sökkulvegg hússins og myndi arkitekt hússins uppfæra teikningar til að sýna það.

Umhverfis- og skipulagsráð telur að breytingin á deiliskipulagi varði ekki hagsmuni annarra en sveitafélagsins og umsækjanda og samþykkir því breytinguna skv. 44. grein skipulagslaga málsgrein 3.

13. Mardalur 16-24 og 26-32 - Niðurstaða grenndarkynningar (2018070200)
AD verktakar ehf. óskar eftir breytingu á deiliskipulagi lóðanna Mardalur 16-24 og 26-32. Skipulag tilgreinir tveggja hæða raðhús á hvorri lóð. Óskað er breytingu á skilmálum lóðanna að í stað 5 tveggja hæða raðhúsa á hvorri lóð komi tveggja hæða fjölbýlishús með 10 íbúðum á hvorri lóð, byggingamagn og byggingarreitur óbreyttur.
Niðurstaða grenndarkynningar mótmæli bárust. Undirskriftalisti með 33 nöfnum fylgir mótmælum gegn breytingunni. Mótmælin eru í sjö liðum sem efnislega fjalla um neikvæð áhrif á ásýnd og brag hverfisins, bílastæðamál, aukna umferð og að breytingin verði fordæmisgefandi.

Umhverfis og skipulagsráð tekur tillit til mótmæla og fellst á þau mótrök að við götuna hefur myndast góður heildarsvipur í samræmi við skilmála deiliskipulags og breytingin geti verið fordæmisgefandi fyrir breytingar í næsta nágrenni. Sambærilegri breytingu á Mardal 2 og 4, sem er í næsta nágrenni hafði verið hafnað á 204. fundi umhverfis- og skipulagsráðs. Skilningur er á afstöðu lóðarhafa og ekki er útilokað að skilmálum lóðanna verði breytt komi fram tillaga um aðra útfærslu. Erindi hafnað.

14. Verndarsvæði í byggð (2016090211)
Samkvæmt lögum um verndarsvæði í byggð 2015 nr. 87, 4. gr. skal sveitarstjórn að loknum kosningum meta hvort innan staðarmarka sveitarfélagsins sé byggð sem hafi slíkt gildi hvað varðveislu svipmóts og menningarsögu varðar, ásamt listrænu gildi, að ástæða sé til að útbúa tillögu til ráðherra um að hún verði gerð að verndarsvæði í byggð.

Frestað.

15. Seljudalur 25 - Lóðarumsókn (2018100082)
Ásta Mjöll Þorsteinsdóttir sækir um lóðina Seljudalur 25.

Þar sem fleiri aðilar sóttu um lóðina, mun hlutkesti fara fram milli umsóknaraðila. Sviðsstjóra falið að sjá um hlutkestið og bjóða umsóknaraðilum að vera viðstaddir. Greint frá niðurstöðum á næsta fundi.

16. Seljudalur 25 - Lóðarumsókn (2018100084)
Reginald K. Dupree sækir um lóðina Seljudalur 25.

Þar sem fleiri aðilar sóttu um lóðina, mun hlutkesti fara fram milli umsóknaraðila. Sviðsstjóra falið að sjá um hlutkestið og bjóða umsóknaraðilum að vera viðstaddir. Greint frá niðurstöðum á næsta fundi.

17. Brekadalur 6 - Lóðarumsókn (2017040102)
Ágúst V.Guðmundsson sækir um lóðina Brekadalur 6.

Úthlutun samþykkt.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10:10. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 16. október 2018.