395. fundur

10.02.2021 14:00

395. fundur velferðarráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 10. febrúar 2021 kl. 14:00

Viðstaddir: Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir formaður, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Hrafn Ásgeirsson, Jasmina Vajzovic Crnac, Jónína Sigríður Birgisdóttir, Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.

1. Mótvægisaðgerðir vegna COVID-19 - tillögur Velferðarvaktarinnar (2020120303)

Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs fór yfir þær aðgerðir sem þegar hefur verið gripið til á sviðinu vegna COVID-19.

Bæjarráð óskar eftir umsögn frá velferðarráði um tillögur Velferðarvaktarinnar um mótvægisaðgerðir vegna Covid-19. Tillaga Velferðarvaktarinnar er eftirfarandi:

Þann 1. desember sl. samþykkti Velferðarvaktin að beina því til stjórnvalda, bæði ríkis og sveitarfélaga, að hafa eftirfarandi áherslur að leiðarljósi í þeim mótvægisaðgerðum sem framundan eru vegna Covid-19.

1. Stjórnvöld, bæði ríki og sveitarfélög, vinni stefnumótun og aðgerðaáætlun gegn fátækt efnalítilla barnafjölskyldna, þ.a. afleiðingar faraldursins verði sem minnstar á börn og ungmenni. Hafa má norsku stefnuna gegn barnafátækt, Like muligheter i oppveksten – Regjeringens samarbeidsstrategi for barn og ungdom i lavinntektsfamilier 2020-2023, til hliðsjónar. Reykjavíkurborg hefur nú þegar hafið slíka vinnu undir fyrirsögninni Aðgerðaáætlun stýrihóps velferðarsviðs um aðgerðir gegn sárafátækt barna og fjölskyldna þeirra – október 2020.

2. Hafin verði endurskoðun á lögum nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga þar sem skýrslan Framkvæmd fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga – virkni og valdefling frá 2019 verði höfð til hliðsjónar. Þar er m.a. lagt til að skilgreind verði grunnfjárhæð til framfærslu og að heimildargreiðslur verði samræmdar milli sveitarfélaga.

3. Biðtími eftir afgreiðslu atvinnuleysisbóta, endurhæfingarlífeyris og örorkulífeyris er of langur og hefur lengst m.a. vegna aukins álags hjá þeim stofnunum sem að máli koma, innlendum sem erlendum. Kannaðir verði möguleikar á að veita lán frá stofnun þar sem biðtími er, þ.a. fólk verði ekki tekjulaust á biðtíma. Láni verði breytti í styrk ef réttur til bóta er fyrir hendi að biðtíma loknum.

4. Unnið verði að því að sporna gegn félagslegri einangrun og einmanaleika aldraðra sem orðið hefur vegna Covid-19. Eldri borgarar hafa víða þurft að þola skerta samveru og félagslega einangrun m.a. vegna sóttkvíar og innilokunar. Því er mikilvægt að leggja aukna áherslu á frístundaiðkun, geðrækt, hreyfingu og forvarnir sem auka lífsgæði þeirra og draga úr einmanaleika.

5. Aðgengi fólks að upplýsingagjöf um réttindi þeirra í velferðarþjónustu verði bætt.

6. Hámarksgreiðslur barnabóta, sem nýtast einstæðum foreldrum og tekjulægsta hópnum, verði hækkaðar.

7. Hagur öryrkja og barna þeirra verði bættur.

8. Niðurgreiðslur vegna íþrótta- og tómstundastarfs barna sem búa við fjárhagsþrengingar verði auknar.

9. Börnum sem búa við fjárhagsþrengingar verði tryggðar ókeypis skólamáltíðir.

10. Skólastjórnendur sjái til þess að aðgengi að viðeigandi tölvubúnaði hamli ekki námi barna.

11. Unnið verði markvisst að því að draga úr brotthvarfi úr námi m.a. með auknu aðgengi að skólaheilsugæslu, geðheilbrigðisþjónustu og félagsráðgjöf.

12. Biðlistum eftir þjónustu fyrir börn s.s. hjá BUGL, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, Þroska- og hegðunarstöð, talmeinafræðingum og bið eftir geðrænni þjónustu hjá heilsugæslu verði útrýmt.

13. Börn sem eiga foreldra með geðrænan vanda, fíknivanda og eða langvinna líkamlega sjúkdóma fái aukinn stuðning við hæfi frá nærsamfélaginu með samvinnu skóla, heilsugæslu, þjónustumiðstöðva og barnaverndar. Stuðningur komi meira heim.

14. Sérstök áhersla verði lögð á þau landssvæði sem verða mest fyrir barðinu á faraldrinum þegar mótvægisaðgerðir eru útfærðar.

Umsögn velferðarráðs Reykjanesbæjar:

Velferðarráð tekur undir tillögur Velferðarvaktarinnar og telur mikilvægt að hafa ofangreindar áherslur að leiðarljósi í starfsemi ríkis og sveitarfélaga. Reykjanesbær hefur þegar gripið til ýmissa aðgerða til að spyrna gegn áhrifum heimsfaraldursins Covid-19 á íbúa sveitarfélagsins.

Þegar er til staðar ýmis þjónusta sem er samhljóma tillögum sem falla undir lið 3, 4, 8, 9,10, 11 og 14, en auk þess eru aðrar aðgerðir í undirbúningi og vinnslu.

Má þar nefna eftirfarandi tillögur:

1. Stjórnvöld, bæði ríki og sveitarfélög, vinni stefnumótun og aðgerðaáætlun gegn fátækt efnalítilla barnafjölskyldna, þ.a. afleiðingar faraldursins verði sem minnstar á börn og ungmenni. Hafa má norsku stefnuna gegn barnafátækt, Like muligheter i oppveksten – Regjeringens samarbeidsstrategi for barn og ungdom i lavinntektsfamilier 2020-2023, til hliðsjónar. Reykjavíkurborg hefur nú þegar hafið slíka vinnu undir fyrirsögninni Aðgerðaáætlun stýrihóps velferðarsviðs um aðgerðir gegn sárafátækt barna og fjölskyldna þeirra – október 2020.

Í ljósi stefnu Reykjanesbæjar, þeirrar vinnu sem er framundan á velferðarsviði Reykjanesbæjar við greiningu og stigskiptingu þjónustu til farsældar fyrir börn, leggur velferðarráð til að farið verið í vinnu um aðgerðir gegn sárafátækt barna og fjölskyldna þeirra í kjölfarið og unnin aðgerðaáætlun gegn sárafátækt barna og fjölskyldna þeirra

2. Hafin verið endurskoðun á lögum nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga þar sem skýrslan Framkvæmd fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga – virkni og valdefling frá 2019 verði höfð til hliðsjónar. Þar er m.a. lagt til að skilgreind verði grunnfjárhæð til framfærslu og að heimildargreiðslur verði samræmdar milli sveitarfélaga.

Skýrslan „Framkvæmd fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga – virkni og valdefling“ var unnin af starfshópi sem var falið það verkefni að kanna leiðir við framkvæmd fjárhagsaðstoðar til framfærslu sem styðji við virkni og þátttöku sem flestra með valdeflingu og notendasamráð að leiðarljósi. Horft var sérstaklega á samspil og samstarf félagsþjónustu, starfsendurhæfingar, Vinnumálastofnunar og heilbrigðis- og menntakerfis þar sem ákveðinn hópur einstaklinga sem fær fjárhagsaðstoð til framfærslu sé í áhættu varðandi langtímaþátttökuleysi í samfélaginu.

Skýrsluna er hægt að nálgast á https://www.stjornarradid.is/library/04-Raduneytin/Felagsmalaraduneytid/Framkv%C3%A6md%20fj%C3%A1rhagsa%C3%B0sto%C3%B0ar%20sveitarf%C3%A9laga.pdf

Velferðarráð tekur undir að mikilvægt er að hefja endurskoðun á lögum nr. 40/1991 hvað varðar fjárhagsaðstoð sveitarfélaga. Endurskoðun laganna m.t.t. skilgreiningar á grunnfjárhæðum til framfærslu myndi einnig styðja við samvinnu um stafræna þróun sveitarfélaganna sem vinna nú að því að koma fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna í stafrænt form undir verkefnastjórn Fjólu Maríu Ágústsdóttur breytingarstjóra stafrænnar þróunar hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og með stafrænu ráði sveitarfélaganna þar sem sæti eiga fulltrúar landshlutasamtaka sveitarfélaga og Reykjavíkurborgar.

5. Aðgengi fólks að upplýsingagjöf um réttindi þeirra í velferðarþjónustu verði bætt.

Unnið er að verkefninu Sterk framlína í krafti fjölbreytileikans sem er önnur aðgerð aðgerðaáætlunar um eflingu þjónustu ríkisins á Suðurnesjum. Verkefninu er ætlað að bæta og efla þjónustu við íbúa Reykjanesbæjar, með sérstakri áherslu á íbúa af erlendum uppruna. Framtíðarsýn verkefnisins snýr að því að veittar verði góðar og skilvirkar upplýsingar um alla opinbera þjónustu á einum stað, nærsamfélagið og öll helstu réttindamál. Umgjörð þjónustu við íbúa svæðisins verði einfölduð og gerð skilvirkari, sérfræðiþjónusta færð í framlínuna og stafrænar lausnir styrktar.

12. Biðlistum eftir þjónustu fyrir börn s.s. hjá BUGL, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, Þroska- og hegðunarstöð, talmeinafræðingum og bið eftir geðrænni þjónustu hjá heilsugæslu verði útrýmt.

Velferðarráð tekur undir þessa tillögu. Mjög mikilvægur þáttur í snemmtækum stuðningi við börn og barnafjölskyldur er að þjónusta sé tiltæk þegar hennar er þörf. Nú er HLH ráðgjöf að safna saman upplýsingum um flöskuhálsa/biðlista í þjónustukerfi ríkis og sveitarfélaga fyrir heilbrigðis-, félags- og barnamálaráðuneytin sem ætti að draga fram stöðu þessara mála. Mikilvægt er að næstu skref séu tekin þegar nánari upplýsingar liggja fyrir og hægt verður að meta hvar flöskuhálsarnir eru stærstir og þörfin mest.

13. Börn sem eiga foreldra með geðrænan vanda, fíknivanda og eða langvinna líkamlega sjúkdóma fái aukinn stuðning við hæfi frá nærsamfélaginu með samvinnu skóla, heilsugæslu, þjónustumiðstöðva og barnaverndar. Stuðningur komi meira heim.

Mikilvægt að vinna að þverfaglegum stuðningsúrræðum fyrir þennan hóp barna. Rannsóknir hafa sýnt að alvarlegar geðraskanir foreldra/forráðamanna, þunglyndi eða geðrofssjúkdómar geti haft neikvæð áhrif á þróun sjálfsmyndar og geðheilsu barnsins og skapað vanda hjá barni sem skilur ekki hegðun og viðmót foreldra sinna í veikindum og upplifir því höfnun og niðurlægingu þótt það sé ekki ætlun foreldris/forráðamanns. Við þannig uppeldisaðstæður er mikilvægt að bjóða stuðning fagfólks til að styrkja foreldra í uppeldishlutverkinu þrátt fyrir veikindi.

2. Stjórnsýsluúttekt á velferðarsviði (2020021011)

Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs kynnti tillögur Expectus að úrbótum á sviðinu og drög að verkefnasamningi við RR ráðgjöf sem bæjarráð hefur samþykkt.

Markmið verkefnisins er að draga fram alla þjónustuþætti sem varða farsæld barna hjá velferðarsviði Reykjanesbæjar, flokka þá og skilgreina hvaða þjónustuþættir falla undir hvert þjónustustig líkt og þau eru skilgreind í frumvarpi til laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.

3. Umhverfis- og loftslagsstefna Reykjanesbæjar - umsögn (2020021391)

Drög að umhverfis- og loftslagsstefnu Reykjanesbæjar lögð fram. Umhverfis- og skipulagsráð og framtíðarnefnd óska eftir umsögn um stefnuna.

Stefnan er vel framsett og metnaðarfull. Velferðarráð vill þó koma eftirfarandi á framfæri:

• Hringrásarhagkerfið - úrgangur

Mikilvægt er að fræðsla fari fram í sveitarfélaginu um flokkun sorps og á sama tíma að sveitarfélagið taki þá ákvörðun að stíga stærri skref í flokkun sorps í samvinnu við Kölku og Terra. Reykjanesbær á að taka frumkvæði í því að Kalka taki upp svipað kerfi og þekkist t.d. á Akureyri og hefji á þessu ári aðlögun að flokkun og að full flokkun heimilis- og fyrirtækjasorps verði innleidd sem allra fyrst. Akureyrarbær hefur verið í fararbroddi á Íslandi þegar kemur að því að flokka úrgang frá heimilum og fyrirtækjum og heldur úti upplýsingavef sem kallast Græna Akureyri þar sem íbúar og rekstraraðilar geta aflað sér nauðsynlegra upplýsinga. Á Akureyri eru einnig 11 grenndarstöðvar. Terra sér um sorphirðu í Reykjanesbæ og Terra Norðurland á Akureyri og því ætti að vera þekking innan fyrirtækisins sem hægt er að yfirfæra og miðla til Reykjanesbæjar til að ná betri árangri í úrgangsmálum.

Óskað er eftir að eftirfarandi athugasemdir verði teknar til skoðunar við gerð aðgerðaáætlunar:

• Loftslagsmál – mótvægi

Að leitað verði leiða til að kolefnisjafna starfsemi Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar til dæmis með því að kanna möguleika á styrkjum til umhverfisráðuneytisins og/eða til innlendra eða alþjóðlegra sjóða sem styðja við aðgerðir sem leiða af sér kolefnishlutleysi. Reykjanesbær getur tekið frumkvæði í slíku verkefni í samvinnu við Suðurnesjabæ.

• Mengun, hljóðvist og loftgæði

Að sveitarfélagið beiti sér fyrir því að flugumferð verði beint framhjá íbúabyggð bæði í flugtaki og aðflugi. Flugbrautir bjóða upp á að slíkt eigi að vera möguleiki frekar en að vélar fljúgi lágt yfir íbúabyggð með tilheyrandi hávaðamengun.

4. Menningarstefna Reykjanesbæjar 2020-2025 – umsögn (2019051729)

Drög að menningarstefnu Reykjanesbæjar 2020-2025 lögð fram. Menningar- og atvinnuráð óskar eftir umsögn um menningarstefnu Reykjanesbæjar 2020-2025.

Drög menningarstefnunnar eru vel unnin og metnaðarfull þar sem hugað er að jöfnu aðgengi fyrir alla íbúa. Velferðarráð leggur þó til að síðasta setningin í kaflanum “Að móta sérstöðu“ verði þannig: „Sérstaklega verði gætt að því að efla og styrkja viðburði og starfsemi sem tengjast fjölmenningu og byggja brýr á milli ólíkra menningarheima.“

5. Fundargerð samtakahópsins 21. janúar 2021 (2021010500)

Fundargerðin lögð fram.

Fylgigögn:

Fundargerð Samtakahópsins 21. janúar 2021

6. Mælaborð og tölulegar upplýsingar (2020021149)

Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs, lagði fram mælaborð fyrir árið 2020.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16:40. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 16. febrúar 2021.