399. fundur

09.06.2021 14:00

399. fundur velferðarráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 9. júní 2021 kl. 14:00

Viðstaddir: Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir formaður, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Hrafn Ásgeirsson, Jasmina Vajzovic Crnac, Jónína Sigríður Birgisdóttir, Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.

1. Ungt fólk 2021 (2019110250)

Hafþór B. Birgisson íþrótta- og tómstundafulltrúi mætti á fundinn og kynnti niðurstöður rannsóknarinnar Ungt fólk 2021 sem Rannsóknir og greining ehf. gerði meðal nemenda í 8., 9. og 10. bekk í grunnskólum Reykjanesbæjar í febrúar 2021. Auk þess fór hann yfir helstu verkefni í forvarnarmálum hjá sveitarfélaginu.

Fylgigögn:

Með því að smella hér má skoða niðurstöður rannsóknarinnar Ungt fólk 2021 á vef Reykjanesbæjar

2. Lýðheilsustefna Reykjanesbæjar (2019100079)

Guðrún Magnúsdóttir lýðheilsufræðingur mætti á fundinn og kynnti helstu áherslur í lýðheilsustefnu Reykjanesbæjar.

Fylgigögn:

Með því að smella hér má skoða lýðheilsustefnu Reykjanesbæjar á vef sveitarfélagsins
Með því að smella hér má skoða kynningarmyndband um lýðheilsustefnu Reykjanesbæjar

3. Samræmd móttaka flóttafólks (2020021431)

a. Hilma Hólmfríður Sigurðardóttir verkefnastjóri fjölmenningarmála, Anna Sigríður Sveinbjörnsdóttir og Lukasz Ryszard Michalski ráðgjafar á velferðarsviði mættu á fundinn og kynntu nýtt verklag um samræmda móttöku flóttafólks en velferðarsvið Reykjanesbæjar og félagsmálaráðuneytið gerðu með sér þjónustusamning um móttöku, aðstoð og þjónustu við flóttafólk sem hlotið hafa alþjóðlega vernd hér á landi. Um er að ræða reynsluverkefni til eins árs þar sem markmiðið er að afla frekari gagna sem hægt verður að nýta til ákvarðanatöku um áframhaldandi innleiðingu á verkefninu.

b. Félags- og barnamálaráðherra óskar eftir tilnefningum í samráðsnefnd um samræmda móttöku flóttafólks. Verkefni samráðsnefndarinnar er að tryggja sem best samræmi og samhæfingu vegna samræmdrar móttöku flóttafólks og er meginhlutverk nefndarinnar að

• brúa bilið milli stjórnsýslustiga og stofnana sem koma að málefnum flóttafólks
• hafa yfirsýn yfir stöðu móttökumála
• vera vettvangur til að deila reynslu og þekkingu
• fjalla um þau mál sem upp koma í samskiptum stofnana
• fjalla um þau mál sem koma upp í þjónustu við einstaklinga

Velferðarnefnd mun tilnefna fulltrúa Reykjanesbæjar í samráðsnefndina þegar endurskipulagning teyma á skrifstofu velferðarsviðs liggur fyrir.

4. Könnun á félagslegu húsnæði 2021 (2021060118)

Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs gerði grein fyrir yfirstandandi könnun hjá leigjendum í félagslegu húsnæði hjá Reykjanesbæ um hvort leigjendur uppfylli enn skilyrði fyrir búsetu í félagslega húsnæðiskerfinu. Alls var könnunin send til 154 leigjenda. Svör hafa borist frá tæplega 36% leigjenda. Skilafrestur gagna er til 20. júní 2021.

5. Menntastefna Reykjanesbæjar 2021-2030 – drög til umsagnar (2020010070)

Halldóra G. Jónsdóttir aðstoðarmaður bæjarstjóra mætti á fundinn og kynnti drög að menntastefnu Reykjanesbæjar 2021-2030. Fræðsluráð óskar eftir umsögnum frá nefndum og ráðum Reykjanesbæjar um drögin.

Velferðarráð fagnar vel unninni menntastefnu sem fellur vel að stefnu Reykjanesbæjar og þeim áherslum sem þar koma fram.

6. Viðspyrnustyrkir félagsmálaráðuneytisins vegna COVID-19 (2021010237)

Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs greindi frá styrkjum sem fengist hafa frá félagsmálaráðuneytinu til mótvægisaðgerða vegna áhrifa COVID-19 fyrir sumarið 2021.

Um er að ræða annars vegar styrk að upphæð kr. 4.952.990 til að efla virkni, vellíðan og félagsfærni barna 12-16 ára í viðkvæmri stöðu. Styrkurinn rennur til verkefnanna Skapandi smiðjur, Skapandi sumarstarf á Ásbrú og Ævintýrasmiðjur barna og ungmenna.

Hins vegar fékkst styrkur að upphæð kr. 3.000.500 til að efla félagsstarf fullorðinna á Nesvöllum með það að markmiði að rjúfa félagslega einangrun sem hefur orðið vegna COVID-19 hjá eldra fólki.

7. Sumarátak námsmanna 2021 (2021060125)

Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs gerði grein fyrir verkefnum námsmanna sem ráðnir hafa verið á velferðarsvið í sumar. Verkefnin eru mjög fjölbreytt og á mismunandi starfsstöðvum á sviðinu. Ráðið hefur verið í störf í stuðningsþjónustu, dagdvölum, Hæfingarstöðinni, Björginni, búsetukjörnum fatlaðra, barnavernd, Ævintýrasmiðjum, Skapandi sumarstarfi, alþjóðlegri vernd og fjölskylduþjónustu svo dæmi séu tekin, en einnig í sérstök verkefni eins og endurskoðun regluverks á velferðarsviði, eflingu notendasamráðs og samfélagslegrar virkni, aðgengismála og grafískrar hönnunar. Störfin eru styrkt af Vinnumálastofnun en Reykjanesbær fékk úthlutað alls 267 sumarstörfum fyrir námsmenn og tókst að ráða í allar stöðurnar í sumar.

8. Innleiðing og framkvæmd á lögum um þjónustu við fatlað fólk (2021060121)

Félagsmálaráðherra skipaði starfshóp í janúar 2021 um heildarendurskoðun laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Starfshópurinn óskaði eftir að Ríkisendurskoðun gerði úttekt á framkvæmd sveitarfélaga á umræddum lögum. Félagsmálaráðuneytið sendi spurningalista til sveitarfélaga vegna úttektarinnar og hafa svör Reykjanesbæjar verið send til ráðuneytisins.

9. Fundargerð Samtakahópsins 27. maí 2021 (2021010500)

Fundargerðin lögð fram.

Fylgigögn:

Fundargerð Samtakahópsins 27. maí 2021

10. Fundargerðir neyðarstjórnar (2021010061)

Fundargerðir lagðar fram.

Fylgigögn:

Með því að smella hér má skoða fundargerðir neyðarstjórnar á vef Reykjanesbæjar

11. Mælaborð og tölulegar upplýsingar (2021010238)

Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs lagði fram mælaborð og tölulegar upplýsingar.

Fjárhagsaðstoð

Í maí 2021 fengu 152 einstaklingar greidda fjárhagsaðstoð frá Reykjanesbæ, alls voru greiddar kr. 23.591.182. Í sama mánuði 2020 fengu 139 einstaklingar greidda fjárhagsaðstoð, alls voru greiddar kr. 18.515.515. Umsækjendum með samþykkta fjárhagsaðstoð hefur fjölgað um 9,3% frá maí 2020.

Sérstakur húsnæðisstuðningur

Í maí 2021 fengu alls 277 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélagsins, samtals kr. 3.857.543. Í sama mánuði 2020 fengu 227 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning, samtals kr. 3.118.927. Umsækjendum með samþykktan sérstakan húsnæðisstuðning fjölgar um 22% frá maí 2020.

Áfrýjunarnefnd

Í maí 2021 voru 7 mál lögð fyrir áfrýjunarnefnd. 6 erindi voru samþykkt og 1 erindi var synjað.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17:15. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 15. júní 2021.