08.09.2021 14:00

401. fundur velferðarráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 8. september 2021 kl. 14:00

Viðstaddir: Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir formaður, Eydís Hentze Pétursdóttir, Hrafn Ásgeirsson, Jasmina Vajzovic Crnac, Jónína Sigríður Birgisdóttir, Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.

1. Fjárhagsáætlun velferðarsviðs 2022-2025 (2021060488)

Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs kynnti helstu áherslur í vinnu við gerð fjárhagsáætlunar.

Á fundi bæjarráðs 2. september sl. var eftirfarandi bókað varðandi vinnu við gerð fjárhagsáætlunar og var afgreiðsla bæjarráðs staðfest á fundi bæjarstjórnar 7. september:

„Bæjarráð samþykkir að fela bæjarstjóra og framkvæmdastjórn að fara, í samráði við stjórnendur og starfsmenn allra stofnana og deilda, ítarlega í gegnum alla starfsemi Reykjanesbæjar með það að markmiði að leita tækifæra til sparnaðar og hagræðingar í rekstri sveitarfélagsins. Stjórnendur fari yfir tilgang, markmið og samfélagslegan ávinning af starfsemi allra eininga, hvernig sá ávinningur birtist, hvernig hann er metinn og hvort og þá til hvaða hagræðingaraðgerða megi grípa án alvarlegra afleiðinga fyrir íbúa. Einnig að tilgreina á grundvelli hvaða lagaákvæða viðkomandi starfsemi byggir.

Þar sem um er að ræða starfsemi sem ekki er lögboðin er stjórnendum falið að meta og rökstyðja hvort og þá hvers vegna nauðsynlegt sé að halda starfseminni áfram óbreyttri, hvort hægt sé að draga saman eða hætta henni alveg og hvaða afleiðingar það gæti haft fyrir íbúa Reykjanesbæjar. Einnig er stjórnendum falið að leita leiða til að auka skilvirkni með það að markmiði að bæta þjónustu, stytta ferla og lækka kostnað.

Að lokum er bæjarstjóra falið að leiða vinnu við að fara yfir allt húsnæði í eigu Reykjanesbæjar með það að markmiði að nýta það betur og selja eða leigja það húsnæði sem sveitarfélagið hefur ekki not fyrir.“

Eðli málsins samkvæmt munu stjórnendur og starfsmenn á velferðarsviði því haga vinnu sinni við gerð fjárhagsáætlunar í samræmi við ofangreinda bókun og fara ítarlega í gegnum alla starfsemi á velferðarsviði með það að markmiði að leita tækifæra til sparnaðar og hagræðingar í rekstri sveitarfélagsins.

Við fjárhagsáætlunarvinnunna er stjórnendum falið að;

a) tilgreina á hvaða lagagrundvelli starfsemi viðkomandi deildar/stofnunar/einingar byggir
b) fara yfir tilgang, markmið og samfélagslegan ávinning af starfsemi sinnar einingar
c) meta hvort og þá til hvaða hagræðingaraðgerða megi grípa án alvarlegra afleiðinga fyrir íbúa
d) leita leiða til að auka skilvirkni með það að markmiði að bæta þjónustu, stytta ferla og lækka kostnað
e) skrá hvernig sá ávinningur birtist og hvernig hann er metinn.

Áherslur velferðarsviðs taka mið af framtíðarsýn, stefnu og áherslum sveitarfélagsins til 2030 og áskorunum á velferðarsviði sem fylgja;

• breyttu lagaumhverfi í velferðarþjónustu (2018-2022), þar helst

  • fyrirhuguðum kerfisbreytingum í þjónustu við börn og fjölskyldur (lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna)
  • breyttum áherslum í þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir (samningur Sameinuðu þjóðanna)
  • breytingum á barnaverndarlögum

• stafrænni þróun
• biðlistum eftir stuðningsþjónustu við börn og foreldra
• stuðningi við tekjulága einstaklinga og fjölskyldur
• brýnum vanda og úrræðaskorti í málefnum íbúa með fjölþættan vanda, geð- og fíknivanda
• fyrirhugaðri heildarendurskoðun í málefnum aldraðra.

2. Hvatagreiðslur fyrir eldri borgara (2021080270)

Lögð fram bókun frá fundi öldungaráðs Reykjanesbæjar 1. september 2021 þar sem lagt er til að skoðaðar verði hvatagreiðslur fyrir eldri borgara.

Velferðarráð vísar málinu til fjárhagsáætlunarvinnu vegna ársins 2022.

3. Innleiðing laga um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna (2020120051)

Lögð fram bókun stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga dags. 26. ágúst 2021 þar sem sveitarfélög eru hvött til að hefja undirbúning innleiðingar laga um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna.

Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs kynnti helstu áherslur í vinnu við innleiðingu laganna.

Stjórnendur og starfsmenn á velferðarsviði hafa fylgst vel með undirbúningi frumvarps og lagasetningar um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna, bæði með aðkomu að þeirri undirbúningsvinnu sem félagsmálaráðuneytið fór fyrir og við ýmsa upplýsingagjöf, meðal annars vegna greiningar á biðlistum og flöskuhálsum í þjónustu og kostnaðargreiningu sem HLH ráðgjöf hefur unnið fyrir félagsmálaráðuneytið.

Til að undirbúa innleiðingu laga um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna hjá sveitarfélaginu, hefur verið farið í endurskipulagningu á velferðarsviði sem felur í sér nýtt innra skipulag á skrifstofu velferðarsviðs. Samhliða þessum breytingum samþykktu bæjaryfirvöld, vegna mikils og langvarandi álags á starfsfólk sem m.a. hefur komið fram í álagsmælingum í barnavernd, fjölgun stöðugilda í barnavernd og barna- og fjölskylduþjónustu sem kemur til framkvæmda núna á haustmánuðum.

Sérfræðingar á fræðslusviði og velferðarsviði hafa einnig, í sameiningu, komið að undirbúningi á innleiðingu ofangreindra laga með því að vinna að greiningu allra þjónustuþátta sem varða farsæld barna á báðum sviðum, flokkun og skilgreiningu þeirra með hliðsjón af þjónustustigi og var sú vinna leidd af RR ráðgjöf ehf. Einnig hefur verið unnið að, undir leiðsögn forstöðumanns Súlunnar, gerð handbókar um grunnhugmyndir verkefnastjórnunar sem verður nýtt í innleiðingu nýs verklags hjá sveitarfélaginu.

Framundan er innleiðing breytinga og verklags á velferðarsviði á grundvelli farsældarlaganna sem unnar verða að hluta til með fræðslusviði Reykjanesbæjar. Þessar breytingar fela m.a. í sér að innleiða viðhorf lausnamiðaðrar sameiginlegrar ábyrgðar, endurskoðun verkferla með aukna áherslu á samhæfingu verklags þvert á svið, þjálfun tengiliða og málastjóra og að byggja upp faglega teymisvinnu, halda áfram innleiðingu Barnvæns sveitarfélags og innleiða mælaborð velferðar barna svo dæmi séu tekin.

Fylgigögn:

Innleiðing laga um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna - bókun stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga

4. Fundargerð öldungaráðs Reykjanesbæjar 1. september 2021 (2021020791)

Fundargerðin lögð fram.

Fylgigögn:

Fundargerð 10. fundar öldungaráðs Reykjanesbæjar

5. Fundargerð Samtakahópsins 2. september 2021 (2021010500)

Fundargerðin lögð fram.

Fylgigögn:

Fundargerð Samtakahópsins 2. september 2021

6. Fundargerðir neyðarstjórnar (2021010061)

Fundargerðir lagðar fram.

Fylgigögn:

Með því að smella hér má skoða fundargerðir neyðarstjórnar á vef Reykjanesbæjar 

7. Mælaborð og tölulegar upplýsingar (2021010238)

Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs lagði fram mælaborð og tölulegar upplýsingar.

Fjárhagsaðstoð

Í júlí 2021 fengu 140 einstaklingar greidda fjárhagsaðstoð frá Reykjanesbæ, alls voru greiddar kr. 20.688.260. Í sama mánuði 2020 fengu 142 einstaklingar greidda fjárhagsaðstoð, alls voru greiddar kr. 21.116.230. Umsækjendum með samþykkta fjárhagsaðstoð hefur fækkað um 1,4% milli júlímánaðar 2020 og 2021.

Í ágúst 2021 fengu 124 einstaklingar greidda fjárhagsaðstoð frá Reykjanesbæ, alls voru greiddar kr. 19.023.752. Í sama mánuði 2020 fengu 146 einstaklingar greidda fjárhagsaðstoð, alls voru greiddar kr. 20.578.236. Umsækjendum með samþykkta fjárhagsaðstoð hefur fækkað um 15% milli ágústmánaðar 2020 og 2021.

Sérstakur húsnæðisstuðningur

Í júlí 2021 fengu alls 278 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélagsins, samtals að upphæð kr. 3.846.395. Í sama mánuði 2020 fengu 223 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning, samtals kr. 3.045.110.

Í ágúst 2021 fengu alls 274 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélagsins, samtals að upphæð kr. 3.731.489. Í sama mánuði 2020 fengu 223 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning, samtals kr. 3.047.093.

Áfrýjunarnefnd

Í júlí 2021 voru 15 mál lögð fyrir áfrýjunarnefnd. 10 mál voru samþykkt, 1 máli synjað og 4 málum frestað.

Í ágúst 2021 var 21 mál lagt fyrir áfrýjunarnefnd. 18 mál voru samþykkt og 3 málum synjað.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16:35. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 21. september 2021.