11.05.2022 14:00

410. fundur velferðarráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 11. maí 2022 kl. 14:00

Viðstaddir: Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir formaður, Guðný Birna Guðmundsdóttir, Hrafn Ásgeirsson, Jasmina Vajzovic Crnac og Jónína Sigríður Birgisdóttir.

Að auki sátu fundinn Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs, Sesselja Ósk Stefánsdóttir fulltrúi ungmennaráðs, Ólafur Bergur Ólafsson umsjónarmaður ungmennaráðs og Íris Andrea Guðmundsdóttir ritari.

1. Barnvænt sveitarfélag - hagsmunamat barna (2020021548)

Hjörtur Magni Sigurðsson, verkefnastjóri barnvæns sveitarfélags, mætti á fundinn í gegnum fjarfundabúnað og fór yfir áhrif þess að innleiða tillögu um barnvænt hagsmunamat út frá réttindum og velferð barna innan velferðarsviðs.

Velferðarráð leggur til að barnvænt hagsmunamat verði prófað við stjórnsýslulega ákvarðanatöku á velferðarsviði í þeim málefnum sem snerta málefni barna og að það verði gert í 6 mánuði. Með hagsmunamatinu er tekið saman með einföldum hætti mat á áhrifum tillögu/verkefnis á hagsmuni barna með hliðsjón af stefnu Reykjanesbæjar og þannig framkvæmd sérstök greining og mat á áhrifum ákvarðana á hagsmuni og réttindi barna.

2. Reglur um félagslega þjónustu - endurskoðun á reglum um fjárhagsaðstoð (2022010182)

Bjarney Rós Guðmundsdóttir, teymisstjóri ráðgjafar- og virkniteymis, mætti á fundinn og fór, ásamt Heru Ósk Einarsdóttur sviðsstjóra velferðarsviðs, yfir lokadrög að endurskoðuðum kafla um fjárhagsaðstoð í reglum um félagslega þjónustu í Reykjanesbæ.

Reglur sveitarfélagsins um fjárhagsaðstoð, sbr. lög um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991, með síðari breytingum, hafa verið til endurskoðunar um nokkurt skeið.

Við endurskoðunina hefur áhersla verið lögð á að;

• hlúa betur að börnum umsækjenda sem eru á framfærslu
• stuðla að valdeflingu umsækjenda sem eru utan vinnumarkaðar og geta ekki séð sér og sínum farborða
• innleiða áherslur um aukið notendasamráð og gerð einstaklingsáætlana
• gera reglur um fjárhagsaðstoð skýrari og gegnsærri
• einfalda og straumlínulaga verkferla við umsókn og afgreiðslu fjárhagsaðstoðar

Áhersla er lögð á að foreldrar, sem byggja framfærslu sína tímabundið á fjárhagsaðstoð sveitarfélagsins, geti tryggt börnum sínum nauðsynlegan stuðning, s.s. skólamáltíðir, en jafnframt annan stuðning á grundvelli einstaklingsáætlana, stuðla að snemmtækum stuðningi við börn með fyrirbyggjandi aðgerðum eða sem hluti meðferðar og/eða stuðningsúrræða fyrir börn.

Einnig er lögð áhersla á að veita yngri börnum daggæslu eða leikskólavistun til að tryggja möguleika foreldris til endurhæfingar, þátttöku í virkniúrræðum og öðrum stuðningi sem styður við atvinnuþátttöku.

Foreldrum sem byggja framfærslu sína á tímabundinni fjárhagsaðstoð er einnig tryggð aðstoð til að stuðla að framhaldsmenntun barna sinna að lokinni grunnskólagöngu.

Við endurskoðunina var lögð áhersla á að innleiða áherslur Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sérstaklega 3. gr. sáttmálans og stefnuáherslur sveitarfélagsins, sérstaklega stefnuáherslurnar: börnin mikilvægust, vellíðan íbúa, kraftur fjölbreytileikans og skilvirk þjónusta, sem fram koma í stefnu sveitarfélagsins til 2030 – Í krafti fjölbreytileikans.

Velferðarráð samþykkir endurskoðun á reglum um fjárhagsaðstoð með fyrirvara um umsögn bæjarlögmanns.

3. Markaðsstefna Reykjanesbæjar - drög til umsagnar (2021110284)

Menningar- og atvinnuráð óskar eftir umsögn ráða og nefnda Reykjanesbæjar um drög að markaðsstefnu Reykjanesbæjar.

Velferðarráð lýsir yfir ánægju með markaðsstefnuna og gerir ekki athugasemd við stefnuna.

4. Ársskýrsla og ársreikningur Fjölsmiðjunnar 2021 (2022050238)

Ársskýrsla og ársreikningur Fjölsmiðjunnar fyrir árið 2021 lögð fram.

Fjölsmiðjan á Suðurnesjum hefur verið starfandi frá því haustið 2010 og er mikilvægt úrræði í þjónustu við ungt fólk á aldrinum 16-24 ára sem eru utan náms og vinnumarkaðar. Hlutverk og markmið Fjölsmiðjunnar er margþætt, en kjarninn í starfseminni er að efla nemendur Fjölsmiðjunnar til að finna áhugasvið sitt, efla sjálfstraust, byggja upp starfsreynslu og þar með auka möguleika þátttakenda í atvinnulífi eða námi til aukinna lífsgæða. Alls var 31 nemi við nám og starf í Fjölsmiðjunni á árinu 2021 og útskrifuðust 10 nemar til vinnu á almennum vinnumarkaði, 9 nemar stunduðu nám meðfram starfi í Fjölsmiðjunni og á Fjölsmiðjan gott samstarf við menntastofnanir á svæðinu. 2 nemar útskrifuðust úr Menntastoðum hjá Miðstöð símenntunar og 1 lauk Skrifstofuskóla 1, auk þess sem 2 nemar útskrifuðust með stúdentspróf frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja.

Starfsmenn Fjölsmiðjunnar halda áfram uppbyggingu og þróun Fjölsmiðjunnar á Suðurnesjum. Helstu áskoranir eru að finna verkefni við hæfi og styrkja rekstrargrunn starfseminnar.

Fjölsmiðjan er mikilvægt náms-og virkniúrræði fyrir ungt fólk utan náms og vinnumarkaðar og þakkar velferðarráð Reykjanesbæjar forstöðumanni og starfsmönnum Fjölsmiðjunnar fyrir það öfluga starf sem þar er unnið.

Fylgigögn:

Ársskýrsla Fjölsmiðjunnar á Suðurnesjum 2021
Ársreikningur Fjölsmiðjunnar á Suðurnesjum 2021

5. Mælaborð og tölulegar upplýsingar (2022010091)

Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs lagði fram tölfræði og tölulegar upplýsingar vegna fjárhagsaðstoðar og sérstaks húsnæðisstuðnings í apríl 2022.

Fjárhagsaðstoð

Í apríl 2022 fengu 193 einstaklingar greidda fjárhagsaðstoð frá Reykjanesbæ, alls voru greiddar kr. 27.993.900. Í sama mánuði 2021 fengu 158 einstaklingar greidda fjárhagsaðstoð, alls voru greiddar kr. 24.062.919.

Sérstakur húsnæðisstuðningur

Í apríl 2022 fengu alls 296 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélagsins, samtals kr. 4.364.829. Í sama mánuði 2021 fengu 275 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning, samtals kr. 3.868.690.

Áfrýjunarnefnd

Í apríl 2022 voru 26 erindi lögð fyrir áfrýjunarnefnd. 19 erindi voru samþykkt, 4 erindum var synjað og 3 frestað.

6. Fundargerðir neyðarstjórnar (2022010209)

Fundargerð lögð fram.

Með því að smella hér má skoða fundargerðir neyðarstjórnar á vef Reykjanesbæjar

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16:00. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 17. maí 2022.