19.10.2022 14:00

414. fundur velferðarráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 19. október 2022 kl. 14:00

Viðstaddir: Sigurrós Antonsdóttir formaður, Andri Fannar Freysson, Birna Ósk Óskarsdóttir, Eyjólfur Gíslason, Una Guðlaugsdóttir.

Rannveig Erla Guðlaugsdóttir boðaði forföll og sat Una Guðlaugsdóttir fundinn í hennar stað.

Að auki sátu fundinn Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs, Silja Kolbrún Skúladóttir fulltrúi ungmennaráðs og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.

1. Frú Ragnheiður og staða heimilislausra í Reykjanesbæ (2022100358)

Jóhanna Björk Sigurbjörnsdóttir verkefnastjóri Frú Ragnheiðar á Suðurnesjum og Bjarney Rós Guðmundsdóttir, teymisstjóri ráðgjafar- og virkniteymis mættu á fundinn.

Frú Ragnheiður vinnur eftir hugmyndafræði skaðaminnkunar þar sem lögð er áhersla á að fyrirbyggja þann skaða og þá áhættu sem hlýst af notkun vímuefna fremur en að fyrirbyggja notkunina sjálfa. Frú Ragnheiður hefur það að markmiði að koma í veg fyrir ótímabær dauðsföll og óafturkræfan skaða sem og að auka lífsgæði og bæta heilsufar einstaklinga sem nota vímuefni í æð með því að veita lágþröskuldaþjónustu í nærumhverfi einstaklinga. Lækkun á tíðni sýkinga og útbreiðslu smitsjúkdóma á borð við HIV og lifrarbólgu C, færri dauðsföll af völdum ofskömmtunar, ábyrgari neysluhegðun og minna af notuðum sprautubúnaði í almenningsrýmum eru á meðal þess ávinnings sem hlýst af verkefninu án mikils tilkostnaðar.

Jóhanna Björk Sigurbjörnsdóttir verkefnastjóri kynnti verkefnið Frú Ragnheiður á Suðurnesjum sem hófst í júní 2020 og hefur farið ört stækkandi síðan. Á þessu ári eru um 40 notendur sem skiptast nokkuð jafnt milli kynja. Jóhanna fylgir eftir málum sem koma inn í bílinn og stendur til að hækka starfshlutfall hennar en til þess þarf meira fjármagn í verkefnið. Verkefnið eignaðist sinn eigin bíl í byrjun árs. Það sem af er árinu 2022 hafa 38 einstaklingar leitað til Frú Ragnheiðar á Suðurnesjum og heimsóknir eru samtals 374. Nú þegar hefur verið fargað 207 lítrum af notuðum sprautubúnaði.

Bjarney Rós Guðmundsdóttir, teymisstjóri ráðgjafar- og virkniteymis, fór yfir stöðuna varðandi heimilislausa einstaklinga í Reykjanesbæ.

2. Barnvænt sveitarfélag (2020021548)

a. Fræðsluefni Unicef

Frestað til næsta fundar.

b. Tilnefning í stýrihóp fyrir verkefnið barnvænt sveitarfélag

Skipa þarf í nýjan stýrihóp til að tryggja að innleiðing Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna haldi áfram. Velferðarráð tilnefnir Heru Ósk Einarsdóttur sviðsstjóra velferðarsviðs sem fulltrúa í stýrihópinn.

c. Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna – umsögn um aðgerðaáætlun

Drög að aðgerðaáætlun Reykjanesbæjar vegna innleiðingar Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna lögð fram. Óskað er eftir umsögnum um áætlunina.

Velferðarráð fagnar metnaðarfullri aðgerðaáætlun Reykjanesbæjar vegna innleiðingar Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Velferðarráð hefur áhyggjur af framkvæmd innleiðingar sökum skorts á fjármagni í málaflokkinn. Mikilvægt er að unnið verði eftir aðgerðaáætluninni og mun velferðarráð fylgja eftir þeim atriðum sem undir sviðið falla. Vísar ráðið í samantekt á helstu niðurstöðum Ungmennaþings Reykjanesbæjar frá október 2021 með áherslu á forvarnir og fræðslu.

3. Reglur um þjónustu við börn og fjölskyldur – drög að breytingum (2022010182)

Vilborg Pétursdóttir, teymisstjóri barna- og fjölskylduteymis, mætti á fundinn og lagði fram drög að breytingum á reglum um þjónustu við börn og fjölskyldur í reglum Reykjanesbæjar um félagslega þjónustu.

Velferðarráð felur teymisstjóra barna- og fjölskylduteymis að vinna málið áfram.

4. Málefni flóttafólks (2022020555)

Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs gerði grein fyrir stöðu mála varðandi samning um samræmda móttöku flóttafólks. Unnið er að samningsdrögum við ríkið og er stefnt að því að leggja þau fyrir næsta fund velferðarráðs.

5. Fundargerð Samtakahópsins 28. september 2022 (2022010186)

Fundargerðin lögð fram.

Velferðarráð hefur sérstakar áhyggjur af stöðu ofbeldismála ungmenna í þjóðfélaginu en umræðan um málefnið hefur verið áberandi í fjölmiðlum undanfarnar vikur. Þá er vert að taka undir og minna á mikilvægi þess að útivistartími barna og ungmenna sé virtur. Samvera með fjölskyldu er mikilvægt forvarnarstarf og hvetur velferðarráð til þess. Ungmennaráð hefur bent á að fjölga þurfi félagsmiðstöðvum í sveitarfélaginu þannig að ungmenni hafi staði til að hittast á í sínu nærumhverfi og tekur velferðarráð undir þau sjónarmið.

Fylgigögn:

Fundargerð Samtakahópsins 28. september 2022

6. Fundargerð öldungaráðs Reykjanesbæjar 6. október 2022 (2022021188)

Fundargerðin lögð fram.

Fylgigögn:

Fundargerð 12. fundar öldungaráðs Reykjanesbæjar 6. október 2022

7. Mælaborð og tölulegar upplýsingar (2022010091)

Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs kynnti mælaborð fyrir janúar til ágúst 2022 og lagði fram tölfræði og tölulegar upplýsingar vegna fjárhagsaðstoðar og sérstaks húsnæðisstuðnings í september 2022.

Fjárhagsaðstoð

Í ágúst 2022 fengu 256 einstaklingar greidda fjárhagsaðstoð frá Reykjanesbæ, alls voru greiddar kr. 34.644.601. Í sama mánuði 2021 fengu 129 einstaklingar greidda fjárhagsaðstoð, alls voru greiddar kr. 20.119.225.

Sérstakur húsnæðisstuðningur

Í ágúst 2022 fengu alls 309 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélagsins, samtals kr. 5.421.786. Í sama mánuði 2021 fengu 282 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning, samtals kr. 3.974.689.

Áfrýjunarnefnd

Í september voru haldnir 2 fundir í áfrýjunarnefnd og 26 erindi lögð fyrir nefndina. 20 erindi samþykkt, 2 erindum var frestað og 4 erindum var synjað.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16:20. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 1. nóvember 2022.