16.11.2022 14:00

415. fundur velferðarráðs Reykjanesbæjar var haldinn að Tjarnargötu 12 þann 16. nóvember 2022 kl. 14:00

Viðstaddir: Birna Ósk Óskarsdóttir varaformaður, Andri Fannar Freysson, Eyjólfur Gíslason, Rannveig Guðlaugsdóttir, Linda María Guðmundsdóttir.

Sigurrós Antonsdóttir boðaði forföll og sat Linda María Guðmundsdóttir fundinn í hennar stað.

Að auki sátu fundinn Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs og Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir ritari.

1. Samræmd móttaka flóttafólks (2022020555)

Ásta Kristín Guðmundsdóttir, teymisstjóri alþjóðlegrar verndar, mætti á fundinn og fór, ásamt Heru Ósk Einarsdóttur sviðsstjóra velferðarsviðs, yfir þróun mála varðandi þjónustu Reykjanesbæjar við flóttafólk. Lögð fram drög að þjónustusamningi Reykjanesbæjar, félags- og vinnumarkaðsráðuneytis og Fjölmenningarseturs um samræmda móttöku flóttafólks ásamt kröfulýsingu um þjónustu móttökusveitarfélaga við flóttafólk.

Velferðarráð leggur til að hámark á fjölda notenda þjónustu Reykjanesbæjar samkvæmt samningnum verði hækkað í 350 með tilliti til núverandi stöðu í málaflokknum. Þó skuli stefnt að fækkun notenda til framtíðar. Ráðið samþykkir samninginn að öðru leyti og vísar honum til afgreiðslu bæjarráðs.

Fulltrúi D-lista lagði fram eftirfarandi bókun:

„Samkvæmt drögum að þjónustusamningi um samræmda móttöku flóttafólks sem gerður er á milli félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins, Fjölmenningarseturs og Reykjanesbæjar kemur fram að markmið samningsins er að samræma móttöku flóttafólks þannig að ríki og sveitarfélög tryggi flóttafólki samfellda og jafna þjónustu óháð því hvaðan það kemur og tryggja flóttafólki nauðsynlega aðstoð og tækifæri til virkrar þátttöku í samfélaginu, hvort sem það er á vinnumarkaði, vegna menntunar eða á öðrum sviðum. Þá tryggir samningurinn að ríkisvaldið komi inn með fjármagn til endurgreiðslu útlagðs kostnaðar sveitarfélagsins á samningstímanum og því ber að fagna.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur ásamt öllum öðrum flokkum í bæjarstjórn Reykjanesbæjar bent á að innviðir samfélagsins eru komnir að þolmörkum. Það sé mat fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ að bregðast þurfi markvisst við því. Málaflokkurinn er viðkvæmur og hann skal nálgast af nærgætni og mannúð, en fjarlægjast síður en svo að takast á við umræðuna. Það er sannarlega svo að við viljum taka vel á móti fólki í neyð sem sækist eftir því að skapa sér gott líf í öðru landi. Að því sögðu er mikilvægt að Reykjanesbær geti veitt þeim sem og öllum öðrum íbúum sveitarfélagsins nauðsynlega og góða þjónustu. Það verður ekki horft framhjá þeirri staðreynd að Reykjanesbær tekur á móti fjölda fólks á flótta sem reynir á innviði sveitarfélagsins. Við því þarf að bregðast og ítreka á ný stöðuna hér í Reykjanesbæ.

Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ hvetur félags- og vinnumarkaðsráðherra til að beita sér enn frekar í þessum málum með því hvetja önnur sveitarfélög í landinu til að taka þátt í samræmdri móttöku flóttafólks og tryggja að þjónustusamningar verði gerðir til að létta undir þeim fáu sveitarfélögum sem nú þegar taka á móti fólki á flótta. Þá er því fagnað að í samningsdrögum komi fram að stefnt sé að því að hámarksviðmið þjónustunotenda á grundvelli samningsins lækki í 150 notendur árið 2023. Það verður þó að hafa í huga að meira þurfi að koma til svo að Reykjanesbær sjái raunverulega fækkun á notendum þjónustunnar.“

Eyjólfur Gíslason.

2. Reglur um félagsþjónustu - þjónusta við börn og foreldra (2022010182)

Vilborg Pétursdóttir, teymisstjóri barna- og fjölskylduteymis, mætti á fundinn og fór yfir drög að reglum um stuðning við börn og fjölskyldur þeirra.

3. Barnaverndarþjónusta og umdæmisráð barnaverndar (2021120037)

Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs gerði grein fyrir málinu. Ný barnaverndarlög taka gildi 1. janúar 2023. Bæjarráð samþykkti á fundi sínum 10. nóvember sl. tillögu sviðsstjóra velferðarsviðs og teymisstjóra barnaverndarþjónustu um að Reykjanesbær gangi til samninga við Suðurnesjabæ, Grindavíkurbæ og sveitarfélagið Voga um rekstur umdæmisráðs, auk þess sem sveitarfélaginu Árborg verði boðin aðild að samningnum. Lögð fram drög að samningi um rekstur umdæmisráðs barnaverndar fyrir sveitarfélögin á Suðurnesjum og Árborg ásamt fjárhagsáætlun umdæmisráðs barnaverndar fyrir árið 2023.

4. Barnvænt sveitarfélag - fræðsluefni UNICEF (2020021548)

Fræðsluefni UNICEF akademíunnar er einn af grunnþáttum innleiðingar Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Fulltrúar í velferðarráði munu horfa á fræðsluefnið á eigin tíma.

5. Fundargerð Samtakahópsins 26. október 2022 (2022010186)

Fundargerðin lögð fram.

Velferðarráð telur mjög brýnt að fyrirlestur um mikilvægi þess að koma vel fram hvort við annað og afleiðingar ofbeldis fari inn í alla grunnskóla og hvetur til þess að það verði gert. Ráðið fagnar því einnig að gera eigi forvarnarmyndband um þetta efni.

Velferðarráð lýsir ánægju með kynningu á starfi ungmennaráðs og telur margt koma þar fram sem vert er að taka til skoðunar hjá sveitarfélaginu.

Fylgigögn:

Fundargerð Samtakahópsins 26. október 2022
Áhættuhegðun - ofbeldi og afleiðingar - unglingafræðsla
Listasmiðja Reykjanesbæjar - kynning
Ungmennaráð Reykjanesbæjar - helstu áherslur og verkefni

6. Fundargerðir stjórnar öldungaráðs Suðurnesja 29. ágúst, 26. september og 17. október 2022 (2022100574)

Fundargerðirnar lagðar fram.

Fylgigögn:

Fundargerð stjórnar öldungaráðs Suðurnesja 29. ágúst 2022
Fundargerð stjórnar öldungaráðs Suðurnesja 26. september 2022
Fundargerð stjórnar öldungaráðs Suðurnesja 17. október 2022

7. Mælaborð og tölulegar upplýsingar (2022010091)

Bjarney Rós Guðmundsdóttir, teymisstjóri ráðgjafar- og virkniteymis, mætti á fundinn og kynnti, ásamt Heru Ósk Einarsdóttur sviðsstjóra velferðarsviðs, mælaborð fyrir janúar til september 2022 og lagði fram tölulegar upplýsingar vegna fjárhagsaðstoðar og sérstaks húsnæðisstuðnings í október 2022.

Fjárhagsaðstoð

Í október fengu 313 einstaklingar greidda fjárhagsaðstoð frá Reykjanesbæ, alls voru greiddar kr. 46.666.153. Í sama mánuði 2021 fengu 127 einstaklingar greidda fjárhagsaðstoð, alls voru greiddar kr. 19.356.391

Sérstakur húsnæðisstuðningur

Í október fengu alls 290 einstaklingar greiddan sérstakan húsnæðisstuðning sveitarfélagsins, samtals kr. 5.068.000. Í sama mánuði 2021 fékk 291 einstaklingur greiddan sérstakan húsnæðisstuðning, samtals kr. 4.024.903

Áfrýjunarnefnd

Í október var haldinn 1 fundur í áfrýjunarnefnd og 7 erindi lögð fyrir nefndina. 3 erindi samþykkt, 1 erindi var frestað og 3 erindum var synjað.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16:43. Fundargerðin fer til afgreiðslu bæjarstjórnar 6. desember 2022.